Læknablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 17
L ÆKNABL AÐIÐ 2021/107 581
Inngangur
Brunaslys eru alþjóðlegt vandamál með fjölþættar orsakir og eru
stærstu áhrifaþættir samfélagsgerð og efnahagur.1 Talið er að rekja
megi 180.000 andlát á heimsvísu árlega til brunaáverka af ein-
hverju tagi.1 Á undanförnum áratugum hefur dánartíðni af völd-
um brunaáverka lækkað vegna fyrirbyggjandi aðgerða og framfara
í meðferð og jafnframt hefur dvalartími á sjúkrahúsi styst.2 Þannig
fjölgar þeim sem lifa með langtímaafleiðingum brunaslysa. Til að
skoða árangur meðferðar og skipuleggja þjón ustu er því mikil-
vægt að meta langtímaheilsutengd lífsgæði brunasjúklinga (burn
survivor), svo sem líkamlega og andlega heilsu, sálfélagslega líðan
og atvinnuþátttöku.3
Meðferð brunaáverka er sérhæfð og samkvæmt tilmælum frá
evrópsku og bandarísku brunasamtökunum, sem að mestu er
fylgt hérlendis, skal brunasjúklingur fluttur á brunadeild uppfylli
hann ákveðin viðmið sem taka meðal annars tillit til aldurs, stað-
setningar, útbreiðslu og dýptar sára, og innöndunarskaða.4,5 Síð-
ustu 5 ár hafa alls 73 einstaklingar dvalið sólarhring eða lengur á
Landspítala vegna brunaáverka, þar af 20 börn.*
Alvarlegur brunaáverki (>15-20% af líkamsyfirborði) hefur víð-
tæk áhrif á alla líkamsstarfsemi til skemmri og lengri tíma, með-
al annars vegna seytingar streituhormóna og losunar fjölmargra
Á G R I P
TILGANGUR
Tilgangur rannsóknarinnar var að meta langtímaáhrif brunaáverka
á heilsu og heilsutengd lífsgæði fullorðinna og meta próffræðilega
eiginleika íslenskrar útgáfu matstækisins Burn Specific Health Scale-Brief
(BSHS-B).
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Í þessari lýsandi þversniðsrannsókn var öllum 18 ára og eldri sem
brenndust á húð á barns- eða fullorðinsaldri, og dvöldu á Landspítala
í sólarhring eða lengur, á 15 ára tímabili, boðin þátttaka (N=196).
Þátttakendur svöruðu spurningalista um heilsu (BSHS-B), um heilsutengd
lífsgæði (EQ-5D-5), spurningum um brunatengd einkenni og um reynslu
sína af sjúkrahúsdvölinni.
NIÐURSTÖÐUR
Þátttakendur voru 66 (svarhlutfall 34%), karlar voru 77%, meðalaldur
var 45,7 ár (sf=18,3, spönn 18-82 ár) og meðalaldur við bruna 34,0
(sf=20,1, spönn 1-75) ár. Miðgildi tíma frá bruna var 11,5 ár (spönn 1-44)
og voru 32% þátttakenda yngri en 18 ára þegar þeir brenndust. Áhrif
bruna á heilsu samkvæmt kvörðum BSHS-B listans mældist á bilinu 4,4-
5,0 (miðgildi) og mældist heilsa (EQ-5Dvas) þeirra 80 (miðgildi, spönn
10-100). Þeir sem höfðu misst líkamshluta eða fengið húðágræðslu höfðu
neikvæðari líkamsímynd og þurftu að sinna meiri sjálfsumönnun en hinir
(p<0,05). Hópur brunasjúklinga glímir við íþyngjandi áhrif brunaslyssins,
svo sem kláða (48%), verki (37%), kvíða/þunglyndi (29%) og neikvæða
líkamsímynd (37%). Af þeim sem svöruðu spurningunni um hvað var
erfiðast að glíma við eftir útskrift, nefndu 67% þeirra skort á upplýsingum,
eftirliti og stuðningi. Íslensk þýðing BSHS-B spurningalistans reyndist
áreiðanleg en gera þarf frekari rannsóknir á réttmæti hans.
ÁLYKTUN
Meirihluti þátttakenda taldi sig hafa náð góðri heilsu eftir brunaslysið
og áleit lífsgæði sín ásættanleg. Þó glímir hluti hópsins við langvinnar
líkamlegar og sálfélagslegar afleiðingar brunans. Huga þarf að vönduðum
undirbúningi fyrir útskrift af sjúkrahúsi og byggja þarf upp heildræna og
þverfaglega heilbrigðisþjónustu sem felur í sér langtímaeftirlit, ráðgjöf og
stuðning.
Langtímaáhrif brunaáverka á heilsu
fullorðinna: lýsandi þversniðskönnun
og forprófun spurningalista
Lovísa Baldursdóttir1,2 hjúkrunarfræðingur
Sigríður Zoëga1,2
hjúkrunarfræðingur
Gunnar Auðólfsson3
læknir
Vigdís Friðriksdóttir1
hjúkrunarfræðingur
Sigurður Ýmir Sigurjónsson4
hjúkrunarfræðingur
Brynja Ingadóttir1,2
hjúkrunarfræðingur
1Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3lýtalækningadeild Landspítala.
4Hrafnistu.
Fyrirspurnum svarar Lovísa Baldursdóttir, lovisaba@landspitali.is
*Samkvæmt upplýsingum frá hagdeild Landspítala.