Læknablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 23
L ÆKNABL AÐIÐ 2021/107 587
R A N N S Ó K N
Í rannsókn okkar var hlutfall þeirra sem töldu sig haldna kvíða
og þunglyndi (29%) svipað og kom fram í niðurstöðum banda-
rískrar rannsóknar þar sem 20-30% þátttakenda höfðu klínísk
einkenni þunglyndis.16 Svarhlutfall í þeirri rannsókn var 23% og
meðaltími frá slysi 20 ár. Við gátum ekki sýnt fram á tengsl aldurs
við bruna og við kvíða og þunglyndi. Ennfremur var ekki mögu-
legt að skoða tengsl virkni, svo sem atvinnuþátttöku, við einkenni.
Það hefði verið áhugavert, þar sem 17% þátttakenda voru öryrkjar
og 16% voru ófærir um eða áttu í erfiðleikum með að sinna venju-
bundnum störfum og athöfnum. Borið saman við úttekt Öryrkja-
bandalags Íslands á hlutfalli örorkuþega á vinnualdri á Íslandi
(7,8%) er hlutfall örorkuþega meðal brunasjúklinga í þessari rann-
sókn meira en helmingi hærra.38
Þátttakendur voru spurðir hvað hefði reynst þeim erfiðast að
glíma við eftir útskrift af sjúkrahúsi og hvað hefði mátt fara betur.
Af þeim sem svöruðu töldu 67% að þeir hefðu ekki fengið nægar
upplýsingar, eftirlit og stuðning eftir að sjúkrahúsdvöl lauk, svo
sem um andlega og líkamlega líðan. Sem dæmi nefndu svarendur
að áhrif slyssins á tilfinningar hefðu komið á óvart, sem og ýmis
líkamleg einkenni, svo sem verkir, kláði og sviti. Einnig kom fram
að fræðslu og stuðning hefði skort í tengslum við breytta sjálfs-
mynd, martraðir og endurupplifun slyssins. Þessi svör benda meðal
annars til þess að einkenni áfallastreituröskunar hafi verið til stað-
ar hjá hluta hópsins án þess að viðeigandi meðferð hafi verið boðin.
Niðurstöður okkar sýna að meirihluti þátttakenda í þessari
rannsókn taldi lífsgæði sín ásættanleg. Hins vegar kom fram hóp-
ur sem hafði langvinn og íþyngjandi líkamleg einkenni og sálfé-
lagsleg vandamál sem tengjast breytingum á útliti og voru þeir
sem þurftu húðágræðslu eða misstu líkamshluta verst settir.
Leggja þarf áherslu á vandaðan undirbúning fyrir útskrift af
sjúkrahúsi, óháð alvarleika og útbreiðslu brunans. Skipuleggja
þarf einstaklingshæft eftirlit og sérhæfðan stuðning til lengri
tíma, einkum fyrr þá sem þurfa húðflutning, missa líkamshluta
eða brennast á barnsaldri. Meta þarf einkenni og líðan á kerfis-
bundinn hátt með viðurkenndum mælitækjum, svo sem BSHS-B.
Þannig er mögulega hægt að finna og meðhöndla fyrr einstaklinga
með íþyngjandi líkamleg og sálfélagsleg einkenni og minnka til
dæmis líkur á að langvinnir verkir, kláði, félagsfælni eða kvíði
hafi áhrif á nám og starf.
Ennfremur er mikilvægt að læknar og hjúkrunarfræðingar hafi
í huga sértæk og langvinn áhrif brunaslyss á líkamlega og sálfé-
lagslega heilsu þegar fyrrverandi brunasjúklingar leita aðstoðar
vegna annars heilsufarsvanda.
Því miður var ekki hægt að gera staðfestandi þáttagreiningu
á BSHS-B-listanum en fylgni milli stiga á og EQ-5D-5-listanum
styður hins vegar við réttmæti íslenskrar útgáfu hans. Þá reyndist
áreiðanleiki, mældur með Cronbachs ś alfa, viðunandi, bæði fyrir
listann í heild sem og einstaka kvarða, líkt og í erlendum rann-
sóknum.26,27
Helsti styrkleiki þessarar rannsóknar er að allir brunasjúk-
lingar á Íslandi á 15 ára tímabili voru þýði rannsóknarinnar. Enn-
fremur hefur heilsa og líðan brunasjúklinga á Íslandi og viðhorf
þeirra til heilbrigðisþjónustunnar ekki verið rannsökuð fyrr. Sér-
tækt matstæki fyrir brunasjúklinga, BSHS-B, var prófað og tóku
brunasjúklingar þátt í að semja viðbótarspurningar. Eftir frekari
staðfestingu á réttmæti má nýta matstækið til langtímamats og
eftirlits með brunasjúklingum.
Takmarkanir rannsóknarinnar eru lágt svarhlutfall sem tak-
markaði tölfræðilega úrvinnslu, bæði varðandi samanburð milli
hópa og við þáttagreiningu á BSHS-B-listanum. Reynt var að ýta
undir aukna svörun með því að hringja í þátttakendur en engu að
síður er hætt við að þeim sem líður verst hafi ekki svarað. Meðala-
ldur og kynjahlutfall þeirra sem ekki svöruðu spurningalistanum
var þó sambærilegt við þátttakendur. Ennfremur var kyn og með-
alaldur íslensku þátttakendanna sambærilegur við erlendar rann-
sóknir þar sem karlar eru í meirihluta og meðalaldur kringum 40
ár.6,10,11,26,29-32 Lágt svarhlutfall í rannsóknum á áhrifum bruna er vel
þekkt og erlendar rannsóknir á brunasjúklingum með svipaðri að-
ferðafræði og hér var beitt hafa verið með svarhlutfall í kringum
23-44%.11,16,29,34
Ályktun
Meirihluti þátttakenda taldi sig hafa náð góðri heilsu eftir bruna-
slysið og áleit lífsgæði sín ásættanleg. Þó glímir hluti hópsins við
langvinnar líkamlegar og sálfélagslegar afleiðingar brunans. Þeir
sem þurfa húðágræðslu eða hafa misst líkamshluta eru einkum
í áhættu fyrir neikvæðum áhrifum á heilsu og líðan. Huga þarf
að vönduðum undirbúningi fyrir útskrift af sjúkrahúsi og byggja
þarf upp heildræna og þverfaglega þjónustu sem felur í sér lang-
tímaeftirlit, ráðgjöf og stuðning.
Þau einkenni sem brýnast er að sinna tengjast líkamsímynd,
félagslegri færni, kvíða og þunglyndi og meðferð kláða og verkja.
Íslensk þýðing BSHS-B-spurningalistans reyndist áreiðanleg en
gera þarf frekari rannsóknir á réttmæti listans.
Þörf er á frekari rannsóknum á líkamlegri- og sálfélagslegri líð-
an þeirra sem verða fyrir brunaslysum.
Þakkir
Rannsakendur vilja þakka brunasjúklingum fyrir þátttöku þeirra
í undirbúningi rannsóknarinnar og þakka fyrir styrk frá rann-
sóknarsjóði Háskóla Íslands. Enn fremur fær Lilja Þorsteinsdóttir
þakkir fyrir aðstoð við gagnasöfnun.
Greinin barst til blaðsins 12. febrúar 2021,
samþykkt til birtingar 4. október 2021