Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 46

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 46
46 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021 INNGANGUR Þetta nemaverkefni fjallar um dagbók þar sem klínískt tilfelli um upphaf brjóstagjafar var skráð eftir starfsnám á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans. Fjallað er um það í samhengi við fræðilega þekkingu um mjólkurmyndun og þörf fyrir ábót á brjóstagjöfina. Aðstæðum er lýst, grein- ingum og ákvörðunum. Íhugað er hvaða lærdóm megi draga fyrir hina verðandi ljósmóður með tilliti til réttar konunnar á upplýstu vali og samráði sem stuðlar að farsælli brjóstagjöf. Ekki síst hjá konum sem eru að takast á við ýmis heilsufarsvandamál á meðgöngunni, í fæðingunni og sængurlegunni eins og sagt er frá hér á eftir. LÝSING Á AÐSTÆÐUM Ég tek á móti mæðginum sem koma á sængur- kvennadeild og fæ ég upplýsingar frá ljósmóðurinni sem hafði sinnt þeim á fæðingarvakt eftir bráða- keisaraskurð. Um fyrsta barn er að ræða og drengurinn nokkuð stór, rúm 5 kíló. Þar kom fram að drengurinn hafði ekki tekið brjóst og ekki hafi komið neinn broddur úr brjóstum móðurinnar við handmjólkun. Blóðsykur barnsins hafði verið innan marka frá fæðingu og drengurinn áhugasamur um að fara á brjóst. Ljósmóðirin benti mér á það að gefa ætti drengnum fljótlega ábót af þurrmjólk þar sem hann hafði ekkert fengið frá fæðingu. Ég segi móðurinni að ég ætli að fara fram og sækja handa drengnum ábót. Á leiðinni lýsi ég aðstæðum fyrir ljósmóður sem var vaktstjóri og spyr í framhaldinu hversu mikið af þurrmjólk drengurinn eigi að fá. Hún spyr mig hvers vegna ég ætli að gefa drengnum ábót og hvort að það væri eindregin ósk móðurinnar. Ég svara því að svo sé ekki og spyr ljósmóðurina hvort að það væri nokkuð möguleiki fyrir þessa móður að vera með barn sitt á brjósti byggt á hennar sögu og þeirri staðreynd að enginn broddur kæmi úr brjóstum hennar. Ég fékk þau svör að það væri ekki ákvörðun sem við gætum tekið fyrir þessa móður og þrátt fyrir getgátur væri brjóstagjöf ekki fullreynd og ekki tímabært að gefa barninu þurrmjólkurábót. TILFINNINGAR/HUGSANIR Á þessum tímapunkti hafði ég ekki mikla reynslu af brjóstagjöf og því að sinna konum í sængurlegu. Ég gaf mér það að vegna sögu konunnar, þar sem hún var orðin fertug, var í mikilli ofþyngd og hafði getið barnið með gjafaeggi, að hún væri ein af þessum konum sem mjólkuðu ekki einn einasta dropa og gátu þar af leiðandi ekki verið með börn sín á brjósti. Var þetta mikið vanmat hjá mér á getu konunnar og í raun og veru fordómar. Mér fannst rétt- ast að bjóða barninu ábót þrátt fyrir að engin ástæða væri fyrir því að gera það strax þar sem bæði móður og barni leið vel á þessari stundu. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því að barnið yrði svangt eða færi í blóðsykursfall, sérstaklega þar sem móðirin hafði verið með meðgöngusykursýki og barnið var þungburi. Þar að auki hafði ljósmóðirin sem sinnti þessum mæðginum á undan mér, haft orð á því að barnið ætti fljótlega að fá ábót. Ég tók því mjög bókstaflega þar sem ég var ekki með jafn mikla reynslu og hún, verandi 1. árs ljósmóðurnemi. Þegar mér var sagt mjög skýrt að ég ætti ekki að taka þá ákvörðun fyrir konuna að gefa barninu ábót skammaðist ég mín. Ég áttaði mig á því að ég hefði átt að standa betur vörð um val konunnar, sem var að reyna brjóstagjöf og að það væri hin ljósmóðurfræðilega meðferð sem ég hefði fyrst og fremst átt að vera að veita henni. Það sem eftir var vaktar lagði ég mikinn metnað og tíma í að aðstoða þetta barn á brjóst. Við lok hennar höfðu móðir og barn náð betri tökum á brjóstagjöfinni og barnið saug vel og lengi. Blóð- sykur barnsins var innan eðlilegra marka á meðan það var í minni umsjá. Enn í dag veit ég ekki hvort að nokkur broddur eða mjólk hafi komið úr brjóstum móðurinnar á einhverjum tímapunkti. ÍHUGUN Í FRÆÐILEGU SAMHENGI Mjólkurmyndun brjósta skiptist í tvö stig. Annars vegar Lactogenesis I en það er þegar þekjufrumur í brjóstum breytast í seytingarfrumur, eða mjólkur- frumur á meðgöngu. Þá hefur brjóstkirtillinn fram- leiðslu á broddinum sem er fullur af mótefnum og er tileinkaður barninu fyrst eftir fæðingu. Seinna mjólk- urmyndunarstigið hefst þegar hormónabreytingar verða við fæðingu fylgjunnar. Seinkuð mjólkurmyndun er þegar engin mjólk hefur myndast hjá móður eftir 72 klukkustundir. Áhættuþættir seinkaðrar mjólkurmyndunar hjá móður eru: frumbyrja, aldur yfir 30 ár, offita, barn fæðist yfir 3600g, keisaraskurður, löng fæðing og hækkað kortisól í blóði hjá móður eða barni (Nommsen-Rivers, Chantry, Peerson, Cohen og Dewey, 2010). Nánast öll þessi ofantalin atriði eiga við í þessu tilfelli. Því er mikil hætta á seinkaðri mjólkurmyndun og enn mikilvægara að veita konu og barni góðan stuðning við brjóstagjöfina og huga að því að konan fái nægilega örvun til mjólkurmyndunar. Samkvæmt verklagsreglum á Landspítala eru helstu ábendingar fyrir ábótargjöf nýbura: blóðsykursfall, klínískt mat á ofþornun hjá nýbura, lítil næringarinntekt barns þrátt fyrir næga mjólk móður, þyngdartap er yfir 8-10% af fæðingarþyngd, barn hefur litlar hægðir, er léttburi eða með gulu (Ingibjörg Eiríksdóttir, 2016). Engin ofangreindra ábendinga átti við í þessu tilfelli. Skýrt kemur fram í sömu verklagsreglum að heilbrigður nýburi þarfn- ast ekki ábótargjafar vegna lítillar næringarinntektar á fyrstu tveimur sólar- hringum eftir fæðingu. Samkvæmt verklagsreglunni þarfnast ábótargjöf einnig upplýsts samþykkis móður (Ingibjörg Eiríksdóttir, 2016). Hefði ég gefið barninu ábót eins og til stóð, hefði móðirin ekki fengið tækifæri til að gefa fullkomlega upplýst samþykki þar sem ég hafði að öllum líkindum ekki haft næga þekkingu og vitund til að veita henni viðeigandi fræðslu um ábótargjöfina. Það að fá þurrmjólk með pela hefur þann ókost að slíkt getur minnkað getu barnsins til að sjúga brjóst og þar af leiðandi komið niður á mjólkurframleiðslu móðurinnar (Zanardo o.fl., 2013). Því er mikil- vægt að reyna að finna aðrar leiðir til að gefa barni ábót sé þess þörf. Hægt er að gefa barni ábót meðal annars með fingurgjöf eða hjálparbrjósti en í þeim tilvikum þarf barnið að sjúga og með hjálparbrjósti örvar barnið jafnframt mjólkurmyndun móðurinnar (Ljósmóðir.is, 2019). AFSTAÐA NEMANDA Þetta tilfelli fannst mér vera mjög góður lærdómur. Það kenndi mér að taka umræðum annarra ekki bókstaflega og að vera ekki með fyrir fram ákveðnar hugmyndir um eitthvað sem er ekki endilega sannleikur. Ég hafði verið búin að ákveða fyrir fram að þessi kona myndi aldrei framleiða mjólk m.a. vegna umræðu sem hafði verið á kaffistofunni en í raun hafði ég engar sannanir fyrir Lilja Kristín Guðjónsdóttir, ljósmóðir á Landspítala N E M AV E R K E F N I AÐ STANDA VÖRÐ UM VAL KONUNNAR VIÐ UPPHAF BRJÓSTAGJAFAR Dagbókarverkefni 1. árs ljósmóðurnema

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.