Bændablaðið - 08.09.2022, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. september 2022
Hagleiksmaðurinn Ebenezer
Bárðarson er sannur snillingur er
kemur að handverki og vílar ekki
fyrir sér að sauma sér þjóðbúning
ef þannig stendur á.
Ebenezer er jafnfær við
saumaskap og smíðar enda virkur
í Félagi trérennismiða á Íslandi þó
stærsta hluta ævinnar hafi hann
starfað sem stýrimaður, brunað um
á mótorhjóli með flaksandi hár og
skegg og notið lífsins. Enn nýtur hann
lífsins og er mikill talsmaður þess
að koma vel fram við sjálfan sig og
aðra, bæði í orði og gjörðum. Gaman
er að spjalla við þennan lífsglaða
mann sem ætlar að fræða okkur
um skref sín frá saumanámskeiði
Heimilisiðnaðarfélagsins að full-
gerðum þjóðbúningi.
Félagar saman á saumanámskeið
„Það var þannig, fyrir um tíu árum, að
við félagi minn, Bjarni Kristinsson,
altmuligmaður er kemur að hand-
verki, fórum saman á námskeið hjá
Heimilisiðnaðarfélaginu,“ hefur
Ebenezer spjallið. „Áhugi minn á
gerð þjóðbúnings eða einhverju í þá
áttina var eitthvað sem ég var búinn
að ganga með í maganum lengi.
Sé svo auglýsingu þess efnis og
hugsa – ég slæ til! Hringi í Bjarna
og spyr hvort hann sé ekki til í að
kíkja með mér á námskeið – læra
að sauma þjóðbúning? Hann heldur
það nú, þannig við drifum okkur á
þetta. Þrettán vikur urðu þetta alls,
við vorum þrír karlarnir þannig það
var nú heldur betur athyglin sem við
fengum.“
Nennti ekki að læra að prjóna
Búninginn allan handsaumaði
Ebenezer, fyrir utan beinu saumana
á flíkunum.
„Hnappagötin eru um 55 talsins,
það var nú heljar vinnsla við það – ég
var klukkustund með það fyrsta, en
undir lokin tók það mig ekki nema
um hálftíma að gera hvert og eitt.
Svo var saumuð skyrta. Kennarinn
tilkynnti að „nú skyldi einn þráður
vera tekinn undir í efninu“. Maður
var eitt spurningarmerki en ég
lærði margt. Saumaði skyrtuna,
hnébuxur, vesti og jakka. Ég nennti
reyndar ekki að læra að prjóna og
því prjónaði norsk kona sem býr á
Hrafnistu fyrir mig húfu og sokka.
Hins vegar tók ég mig til og lærði
að gera sauðskinnsskó, það er nú
aldeilis fínt þegar maður tiplar um
á þeim í allri múnderingunni,“ segir
hann brosandi.
Tölur renndar úr reyni
„Sauðskinnsskóna lærði ég sem
sé að gera á Hrafnistu. Dagbjört,
kona mín, meistari í höndunum,
mikil handavinnukona og sér um
handavinnuna þar á bæ, kom mér
í samband við gamla konu norðan
af Ströndum sem tók að sér að
sýna okkur Bjarna verklagið á
gerð sauðskinnsskóa. Mikið var af
áhugasömu fólki þarna sem var þó
ekki allt sammála um hvernig best
færi á að vinna skóna. Þá rann upp
fyrir mér að auðvitað væri ekki ein
leið til að gera þessa hluti, hver
landshluti eða jafnvel bær hefur
sinn háttinn á. Eru skórnir svartir
með hvítri bryddingu en skinnið í þá
kemur af dýri sem gekk um hagana
í Berufirði. Þökk sé kunningjafólki
Dagbjartar. Skóna ber ég hiklaust
þegar ég klæðist búningnum, hef þá
gjarnan í vasanum en bregð mér í þá
eftir hentugleik,“ segir Ebenezer.
Hann fór sínar eigin leiðir þegar
kom að tölunum á þjóðbúninginn
og ákvað að renna þær sjálfur þó sú
hugmynd félli ekki alveg í kramið hjá
leiðbeinendunum.
„Tölurnar eru því úr íslenskum
reyni, renndar í bílskúrnum hjá Bjarna
en þarna hófst áhugi minn á slíku. Í dag
er ég einmitt í Félagi trérennismiða á
Íslandi,“ segir Ebeneser brosandi, en
hann er, stuttu eftir viðtalið, ásamt
formanni félagsins, Erni Ragnarssyni,
á leiðinni austur að kynna félagið og
dásemdir rennismíðinnar á Héraði og
í Fjarðabyggð.
Fyrirmyndin Dagbjört
„Bjarni á ógrynni af tækjum og
tólum, og eru tölurnar það fyrsta
sem ég reyndi mig við og renndi.
Svo héldum við félagar heim
til mín, þurftum að halda áfram
við saumana á þjóðbúningnum
og vissum af Dagbjörtu heima.
Hugsuðum okkur auðvitað gott til
glóðarinnar og sáum fyrir okkur að
þar gætum við fengið aðstoð.
„Ekki að ræða það,“ heyrðist þá í
Dagbjörtu, „þið getið bara séð um
þetta sjálfir.“ Hún gat auðvitað bent
okkur á hvernig best væri að haga
hinu eða þessu en lét okkur algerlega
um þetta,“ segir Ebenezer og glottir.
Auðheyrt er að Ebenezer á þarna
góða konu sem heldur honum á
tánum við hannyrðirnar og mættu
fleiri víst leika það eftir.
„ Svo kláruðum við félagar þetta
að lokum og ég hef notað búninginn
mikið. Þetta er viðhafnarklæðnaður
sem gaman er að skarta á 17. júní,
á þorrablótum, afmælum og við
alls konar tilefni. Í raun þætti mér
gaman að nota hann meira,“ segir
Ebeneser sposkur, „en það er kannski
ekki alveg við hæfi. Þetta er svo
skemmtilegur klæðnaður, 17.-18.
aldar tíska held ég, tvíhneppt, bæði
jakki og vesti og tölum skreyttur
bæði á jakka og buxum.
Dagbjört kenndi mér svo að kríla
band sem ég notaði til að draga
saman buxnastrenginn, en aftan á
honum er klauf og er bandið notað
til að þrengja eða víkka strenginn
eftir ummáli notandans! Við val á
efni í búninginn sá ég svo úrvalið
án þess að líta á verðið og ákvað að
velja brúnt í jakkann, svart í buxur
og mosagrænt í vestið. „Þetta var
auðvitað dýrasta efnið þegar upp var
staðið,“ segir Ebenezer hlæjandi.
„Ég sé þó ekkert eftir því enda er
þjóðbúningurinn lífstíðareign.“
Dagbjört hefur einnig saumað sér
búning, 18. aldar peysuföt, óf meðal
annars efnið í svuntuna og prjónaði
sína húfu.
Snyrtimennskan í fyrirrúmi
Eins og áður sagði eru bæði jakki og
vesti tvíhneppt en Ebenezer hefur
ákveðna hugmynd um af hverju svo
er. „Ég sé fyrir mér að menn hafi
farið í kaupstað, skvett aðeins í sig
og mögulega á sig og því hentugt
að geta svissað hneppingunum á
vestinu. Hneppt yfir blettina og
komið hreinir og fínir aftur heim.
Kári Týr Blöndal er ungur maður,
fæddur og uppalinn í Reykjavík.
Kári hefur mikinn áhuga á
þjóðlegum menningararfi og að
hans sögn hefur áhuginn í raun
fylgt honum frá blautu barnsbeini.
„Ég hef, yfir tíðina, verið
forvitinn um og haft hug á íslenskum
þjóðháttum – sem hefur aukist núna
upp á síðkastið er ég kynntist fólki
með sama áhugasvið,“ segir Kári. „Að
auki hef ég lengi haft mikinn áhuga á
gömlum hlutum og handverki, alveg
síðan ég var krakki.“
Best að byrja á bífunum
Áhugi Kára hefur aukist undanfarið.
„Mér finnst til dæmis skemmtilegt
að læra að menn hefðu tekið ágætan
þátt í saumaskap og prjóni fyrr á
tímum, þegar setið var í baðstofunni
á kvöldin. Ef til vill ekki í jafn miklu
magni og konurnar gerðu, en þegar
vantaði skó eða fatnað á fólkið þá áttu
allir þátt í þeirri vinnslu.“
Kári hefur mikinn áhuga á
þjóðbúningnum, bæði samsetningu
og saumaskap, en komst að því að
námskeið, þar sem slíkt væri hægt
að nema, myndi kosta heldur mikið.
Draumur hans er þrátt fyrir það að
læra að sauma þjóðbúninga á bæði
karla og konur.
„Þetta er auðvitað mikil vand-
virknisvinna og margt að læra en mig
langar bara til að kunna þetta. Eins
og staðan var hjá mér fyrir nokkru
var ég í vaktavinnu og sá ekki alveg
fram á að komast á nein námskeið
í þessum geira. En allt í einu kom á
daginn að þarna hentaði mér að fara
á námskeið í gerð sauðskinnsskóa
hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Ég
velti þessu fyrir mér og hugsaði
að einhvers staðar þyrfti maður að
byrja. Hvers vegna ekki að byrja
á bífunum og vinna sig svo upp
líkamann seinna?“
Að því námskeiði loknu tók við
annað, í pottaleppaprjóni, þar sem
hann lærði að prjóna íleppa.
„Maður þarf að geta gefið
almennilega undir fótinn ef maður
ætlar að sauma par fyrir einhvern
sérstakan. Ég hafði ekki prjónað neitt
síðan ég var í grunnskóla og þurfti
að rifja upp handtökin, er reyndar að
leita að einhverjum sem getur kennt
mér að slyngja íleppana almennilega
svo þeir séu sem flottastir.“
Skrefin tekin til framtíðar, með
sauðskinnsskóna undir hendinni
Skórnir hans Kára eru úr sauðskinni
og bryddingin úr fínna leðri, sem er
oft kallað hanskaleður. „Annars er
hægt að gera þá úr kálfskinni líka
og alls konar. Það kom mér á óvart
hversu auðvelt var að sauma þá,
eiginlega það eina sem ég á stundum
í vanda með er að varpa þá eins – svo
þeir passi.“
Kári lýsir verkferlinu þannig
að þegar búið er að sníða skóna
og sauma saman á tá og hæl, þá er
varpað með sterkum þræði (þveng)
í opið, bæði til að styrkja skinnið
og draga opið eilítið saman. Best er
að hafa módelið nálægt til að geta
mátað gripinn reglulega.
„Ég held ég gangi nú ekki svo
langt að selja þá skó sem ég geri.
Eins og staðan er núna er þetta meira
eitthvað sem ég gef mínum nánustu
vinum og fjölskyldu þótt þau hafi nú
ekki alveg sama áhugann á þessu,“
segir hann og glottir.
Kári nemur húsasmíði og
hyggst hann einbeita sér að öllu
því er viðkemur gömlum húsum,
viðgerðum á þeim svo og endurgerð.
„Að auki eru torfhús mér ótrúlega
kær en ég hef farið á hleðslunámskeið
hjá Hannesi Lárussyni í Austur-
Meðalholti í Flóanum. Það var mjög
fræðandi og skemmtilegt. Svo má
kannski geta þess að ég var að vinna
á Bustarfelli í sumar. Mér finnst ég
vera svolítið kominn heim þegar ég
er í kringum torfhús.“
Framtíðin er björt hjá þessum
unga manni og gaman að ástríðu hans
og á huga á að viðhalda íslenskum
þjóðararfi. /SP
(ps. Þeir sem kunna að slyngja
íleppa og hafa áhuga á að kenna
Kára handtökin mega hafa samband;
sigrunpeturs@bondi.is - s.6624 124)
Snoturlega unnir sauðskinnskór,
handverk Kára. Myndir / Aðsendar
Sigrún Pétursdóttir
sigrunpeturs@bondi.is
ÍSLAND ER LAND ÞITT
Kári starfaði á Bustarfelli síðastliðið sumar, fornu höfuðbóli og einni stærstu
jörð Vopnafjarðar. Á Bustarfelli stendur stór og glæsilegur torfbær sem
hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá 1943 og er minjasafn þar til húsa.
Fortíðin í fyrirrúmi
Gerð íslenska þjóðbúningsins:
Með lífsgleðina að vopni
– Ebenezer Bárðarson tekinn tali
Ebenezer við bryddingu.
Hjónin Dagbjört Guðmundsdóttir og Ebenezer Bárðarson íklædd
þjóðbúningunum, einn sólbjartan dag.