Andvari - 01.01.2016, Síða 143
ANDVARI
HIN EILÍFA SAMÞÆTTA LÍFSHEILD
141
að heimurinn væri hræðilegur en afneitaði þeirri aðferð forverans að hörfa
undan og segja allt til einskis. Gagnsleysi athafna mannsins var í sjálfu sér
staðreynd, enginn hærri tilgangur var fólginn í gjörðum hans, en aumast af
öllu var að aðhafast ekkert og festa þannig í sessi hina ríkjandi stöðnun og
hnignun. Vildi Nietzsche binda enda á kyrrstöðuna, hefja mannkynið upp
yfir allt vol og víl og skapa því nýjan efnislegan heim.8
í bók sinni um lífhyggju í dönskum aldamótabókmenntum horfir Dam
nánast fram hjá Bergson, þrátt fyrir að viðurkenna mikilsvert framlag hans,
á þeim forsendum að Schopenhauer og Nietzsche hafi verið mikilvægari
í dönsku samhengi.9 Það má til sanns vegar færa en heimspeki Bergsons,
sem bar vissan keim af hugmyndum Nietzsches, er þó miðlæg í lífhyggju
20. aldar. Bergson var á sínum tíma mikið lesinn, þar með talið á Islandi,
og áhrifamikill jafnt innan vísinda sem í samfélagsumræðu. Hlaut hann
Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir árið 1927 (tók við þeim ári síðar) sem
mörgum þótti kostulegt, ekki síst vegna fullyrðinga Nóbelsnefndarinnar um
fagurfræðilegt gildi verka hans sem lengst af höfðu verið álitin af vísindaleg-
um toga. Sú staðreynd að almenningur lét sig rit þeirra tveggja, Nietzsches
og Bergsons, varða á ef til vill stóran þátt í því hve útbreidd lífhyggjan varð.
Also sprach Zarathustra (Svo mælti Zaraþústra) varð hægt og bítandi að
umtalaðri metsölubók en hana ritaði Nietzsche í skáldsöguformi og höfðaði
þannig til breiðs lesendahóps. Meginboðskapur hans var þar fólginn í ákafri
einstaklingshyggju og hugsun um eilífa endurkomu þess sama, að öll ver-
öldin snerist fram og aftur líkt og hjól. Ef til vill má greina áhrif síðarnefndu
hugmyndarinnar á kenningu Bergsons um tímaflæði en þó er þungamiðja
heimspeki þeirra afar ólík. Þar sem Nietzsche gerði ráð fyrir að enginn til-
gangur væri í athöfnum mannsins og að ekkert væri nýtt undir sólinni leit
Bergson svo á að allar framfarir ættu rætur sínar í fortíðinni og væru ein-
stakar og óafturkræfar. Þær væru bein afleiðing af athöfnum einstaklinga
sem þokuðu þeirri heild sem þeir tilheyrðu smátt og smátt áleiðis að bættum
heimi og þar af leiðandi væri fullyrðingin um hina eilífu endurkomu röng.
Tímafljót Bergsons rann í eina átt en dýpkaði og breiddi úr sér eftir því sem
lífinu fleytti fram. Þannig veitti það mannkyninu von um ákveðið tilvistar-
legt takmark þar sem gjörðir þess og barátta öðlaðist tilgang í óljósu heildar-
markmiði.10
I höfuðriti sínu L’évolution créatrice (Skapandi þróun) frá 1907, sem
Nóbelsnefndin leyfði sér síðar að kalla ljóð, setti Bergson fram sjálfstæða
kenningu um lífskraft sem hann kallaði „élan vital“. Sannfæring hans var sú
að eitthvað hlyti að knýja sköpunarverkið áfram, einhver máttur sem leiddi
af sér óregluleg og nýstárleg afbrigði sem hefðu í för með sér vöxt og við-
gang lífsins. Þótti honum mikilvægt að hugað væri að hinu stærra samhengi
og var á því að nýsköpun frá grunni væri ómöguleg þar sem heildarsam-