Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 12
12 DAGLEGT LÍF MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. OKTÓBER 2022 Rakagefandi fótamaskar næra og mýkja fæturnar MJÚKIR FALLEGIR FÆTUR Fæst í apótekum, Krónunni, Hagkaup og á heimkaup.is Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is L jóðið er eins og íslenskur draugur sem hægt er að vekja upp og láta hlýða sér. Þessi saga af urtu og ættmóður minni var tilvalin í ljóða- bálk en mér finnst bálkurinn skemmtilegt form sem getur rúmað allt,“ segir Gerður Kristný skáld, en hún sendi frá sér nýja bók í vikunni sem heitir Urta. Bókin sú geymir ljóðabálk þar sem sögð er saga af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar, af konu og urtu. Gerður segir bálkinn eiga rætur í fyrrnefndri ættmóður. „Langalangamma mín, Sigríður Jónsdóttir, var fædd 1845 og var bóndakona á Stóra-Fjarðarhorni við Kollafjörð í Strandasýslu. Hún var ljósmóðir og nítján barna móðir en missti manninn sinn þegar hún var um fertugt. Hún missti líka annan fótinn og fer mörgum sögum af því hvernig það gerðist. Ein ástæðan var sögð sú að kýr hefði traðkað á rist- inni á henni svo þurfti að aflima hana. Ég ákvað að velja þá sögu í ljóðabálkinn minn um einfætta konu með engan mann við ysta haf með fullt hús barna og söknuð í hjarta,“ segir Gerður sem fullyrðir að atburð- urinn, sem segir frá í ljóðabálki hennar, þegar kona hjálpar urtu við að koma kópi í heiminn, hafi átt sér stað í veruleikanum. „Sigríður kom einn daginn inn í bæ og sagði: „Nú get ég ekki lengur starfað sem ljósmóðir því ég hjálpaði urtu við að kæpa,“ segir Gerður og bætir við að hún hafi aldrei alveg skilið þessa sögu af langalangömmu sinni. „Ég heillast alltaf af því sem ég skil ekki. Ég spurðist fyrir hjá sagn- fræðingi, af hverju í ósköpunum kona fædd 1845 gat ekki haldið áfram að aðstoða konur við að fæða börn, eftir að hafa komið svona ná- lægt urtu. Svarið var að á þeim tíma hafi selir þótt afar óhreinir. Sigríði fannst hún fyrir vikið ekki lengur hæf til ljósmóðurstarfa eftir snert- ingu við svo óhreina skepnu. Allt á jú að vera hreint og fagurt í kringum fæðandi mæður. Tengdadóttur henn- ar tókst sem betur fer að sannfæra hana um að hún yrði að halda áfram ljósmóðurstörfum á þessu afskekkta svæði.“ Varð sér úti um innblástur Gerður segir að í heimsfaraldri hafi henni gefist tími því þá hún hafi ekki getað farið til útlanda að lesa upp úr bókum sínum á hátíðum eins og hún er vön. „Eitt af því sem mig hafði alltaf langað að gera var að fara á Strandir og dvelja þar. Þaðan kemur móður- fjölskyldan mín, afkomendur Sigríð- ar. Ég var svo lánsöm að fá að búa í íbúð fyrir listafólk á Hólmavík og var þar í 10 daga, skrifaði og horfði út um gluggann út á haf og beið eftir að sjá sel. Ingibjörg Sigurðardóttir, frænka mín, bauð mér síðan í bíltúr og reyndum við að leita uppi seli. Þeim finnst ósköp gott að vera á skerjunum við Kirkjuból,“ segir Gerður sem las sér til um seli á Hólmavík í bókunum um íslenska sjávarhætti. „Þarna varð ég mér úti um inn- blástur og stöku orð sem ég eigna mér og koma fyrir í ljóðabálkinum, til dæmis að dauður selur sé dýrð í búi. Mér fannst gaman að liggja yfir Íslenskum sjávarháttum og fræðast um hvernig selurinn var drepinn, hvernig gert var að hon- um og í hvað hann var nýttur. Ég las líka bók- ina Strandir 1918 – Ferðalag til fortíðar, en þar eru dagbókarbrot frá frostavetrinum mikla og sagt frá aðstæðum Strandamanna í þeim harðindum, hvernig þeir komust af og hvernig sjó- inn lagði svo hægt var að ganga yfir firðina á ís,“ segir Gerður og bætir við að henni hafi lengi fund- ist selir heillandi. „Þeir eru fagrir og forvitnir en varir um sig. Margar þjóðsögur eru til í kringum þá, til dæmis um ham- skipti kvenna sem voru urtur en gengu á land og eignuðust menn og áttu sjö börn í sjó og sjö á landi. Fólk trúði því hér áður fyrr að barnshaf- andi konur mættu ekki borða sels- hreifa, því þá fæddist barnið með vanskapaðar hendur.“ Gerður segist hafa komist að því þegar hún las um Sigríði formóður sína, 19 barna móð- urina, að hún hafði misst nokkur börn. „Sum barna hennar dóu ung, skömmu eftir fæðingu. Á þessum tíma var þetta í raun sama lífsbar- átta hjá íslenskri mannlegri móður og urtu, þær áttu alltaf á hættu að missa ung afkvæmi. Mannfólkið á þessum tíma veiddi jú kópana til að lifa af, enda kjötið betra en í full- orðnu selunum. En á sama tíma að- stoðaði ljósmóðirin Sigríður urtu við að kæpa. Þegar ég var að velta þess- ari sögu fyrir mér fór hugmynda- flugið af stað og til varð ljóðabálk- urinn minn um urtuna og hana ömmu mína. Frænka mín, Svandís Svavarsdóttir, sagði mér fyrst af Sig- ríði, formóður okkar, í partíi fyrir tuttugu árum og ég hef velt henni fyrir mér allar götur síðan. Stundum þarf ég langan tíma til að melta hlut- ina.“ Velur orðin eftir hljómi Þeir sem þekkja fyrri ljóðabálka Gerðar, Blóðhófni, Drápu og Sálu- messu, vita vel hversu mikilli færni hún býr yfir þegar kemur að því að meitla ljóð, að segja margt í örfáum orðum, vísa í leiðinni í ýmsar áttir og vekja samtímis hinar ólíkustu tilfinn- ingar. Þegar hún er spurð að því hvort hún hafi meðvitað lagt af stað með hið ofurknappa ljóðform við upphaf sköpunar Urtu, segir hún að bálkurinn hafi orðið til hjá henni í fáum orðum. „Þetta er stíllinn sem ég hef tamið mér. Hann á að vera knappur og meitlaður. Mér finnst ágætt að skrifa með blýanti þegar ég hef vinn- una því þá finn ég líkamlega hverju má sleppa. Ég vel orðin eftir hljómi þeirra og gríp til innríms og stuðla eftir því sem þurfa þykir,“ segir Gerður og vitnar í hendingu úr bók- inni: Hel vindur sér um hélaðar dyr, dvelur lengi, velur stelpu, gerir frost- mark á fölt enni, felur mér gröfina, gapandi kok. „Á undanförnum árum hef ég ferðast víða og flutt ljóðin mín fyrir fólk út um allan heim. Ég hef orðið meðvitaðri um að ljóðin séu til flutn- ings en ekki aðeins til að lesa í ein- rúmi af bók. Ég les því ljóðin marg- oft upphátt fyrir sjálfa mig á meðan ég sem þau. Þótt ég heyri ljóð flutt á tungumálum sem ég skil engan veg- inn nýt ég samt þess að heyra hrynj- andina og sjá hvernig skáldin stíga oft ölduna í takt við hana. Mér finnst unaðslegt að finna hvað ljóðformið sjálft er göldrótt.“ Sigríður hjálpaði urtu að kæpa „Sigríður kom einn daginn inn í bæ og sagði: „Nú get ég ekki lengur starfað sem ljósmóðir, því ég hjálpaði urtu við að kæpa,“ segir Gerður Kristný um langalangömmu sína en sagan sú varð henni innblástur að ljóðabálki sem nýja bókin hennar, Urta, geymir. Þar segir af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar. „Á þessum tíma var þetta í raun sama lífsbarátta hjá íslenskri mannlegri móður og urtu.“ Morgunblaðið/Eggert Í flæðarmálinu Gerður Kristný segir að sér finnist selir heillandi, þeir séu fagrir og forvitnir, en líka varir um sig. Börn brjóta skurn af skafli LJÓÐ ÚR URTU Börn brjóta skurn af skafli klekjast úr vetri ungar úr fjörugrjóti Urta birtist á skeri Enn mætast augu okkar þau sömu og sátu í kópnum sem varð mér kjöt ljós beisli brók Augun lauguð bæn um hjálp Hefði gefið hvað sem er til að halda fætinum lognhæga daga og dýrindis þurrk fyrir hríðarfelli og hreggviðri Léti samt aldrei kúna Dreymi mig fjósið Gott væri að hverfa inn í kýrvömb yfir háveturinn dóla sér í dimmunni fram á vor Kastast út með kálfi Veröld mína varðir þú garði sneiðst mér úr henni spildu hvar gleðin klukkaði krakka kýr ráku í mig granir lömb hnýfla

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.