Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 42
42 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. OKTÓBER 2022 AF BÓKMENNTUM Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Alls eru þrettán bækur á átta nor- rænum tungumálum tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverð- launa Norðurlandaráðs í ár, en verð- launin verða afhent í 10. sinn við hátíðlega athöfn í Helsinki þriðju- daginn 1. nóvember í tengslum við 74. þing Norðurlandaráðs. Við sama tækifæri verða einnig veitt verðlaun Norðurlandaráðs fyrir tónlist (en þau verðlaun voru fyrst veitt 1965 og árlega frá 1991); starf að umhverfis- málum (veitt árlega frá 1995); kvik- myndir (fyrst afhent í tilraunaskyni 2002 í tengslum við 50 ára afmælis- hátíð Norðurlandaráðs og árlega frá 2005) og bókmenntir (veitt árlega frá 1962). Í blaðinu á fimmtudag var sjónum beint að framlagi Finna, Færeyinga, Grænlendinga og Norð- manna. Í dag er komið að framlagi Dana, Íslendinga, Sama og Svía. Rýnir las bækurnar á frummálinu nema annað sé tekið fram. Áhrif siðmenningar Danir tilnefna tvær mjög ólíkar myndabækur í ár. Þetta eru annars vegar Den om Rufus (Þessi um Rufus) eftir Thorbjørn Petersen, Herman Ditte og Mårdøn Smet og hins vegar O PO POI eftir Jan Oks- bøl. Báðar bækurnar eiga það sam- eiginlegt að dýr eru í aðalhlutverki. Den om Rufus er fyndin og hjartahlý saga þar sem samspil nátt- úru og menningar er til skoðunar í heillandi myndheimi sem er undir sterkum áhrifum frá teiknimynda- sögunni. Í forgrunni er refurinn Rufus sem býr í borginni og finnst notalegt að horfa á sjónvarpsþátt um náttúruna úr hægindastólnum sínum meðan hann drekkur sykrað te. Í upphafi bókar gengur fyrsta haustlægðin yfir og umbyltir ekki aðeins öllu utandyra heldur kemur róti á líðan Rufusar sem í næstu búðarferð deilir óvænt þeim upp- lýsingum með hænunni Hanne, sem rekur kjör- búð hverfisins, að hann hafi dreymt að hann flygi eins og fugl. Stuttu síðar fer Rufus í göngutúr sem leiðir hann inn í almenningsgarð og þaðan út í villta náttúruna þar sem hann kemst smám saman í tengsl við uppruna sinn og gleymir allri sið- menningu. Villtur leikurinn tekur yfir þar til garnirnar fara að gaula og hann hyggst grípa sér hænu í matinn, sem reynist þá vera Hanne. Den om Rufus er falleg og heill- andi saga sögð með fáum orðum og frábærum myndum. Útpæld lita- notkun styrkir lestrarupplifunina, þar sem rauður feldur Rufusar stingur í stúf við grátt borgarlands- lagið meðan hann rennur saman við haustliti skógarins. Í bókarlok víkur blái litur himinsins fyrir bleikri birtu sólarupprásar sem kallast sterklega á við nýkviknaðar kenndir vinapars- ins sem saman snýr heim í borgina. Köttur úti í mýri … O PO POI er heimspekileg myndabók um sögu í nokkrum lög- um. Í ysta laginu eru önd, kanína og api um borð í gúmmíbát. Öndin fer að segja sögu af tveimur köttum þar sem annar kötturinn fer að segja hinum kettinum sögu af frænda sín- um sem varð vitni að því þegar mán- inn féll til jarðar með tilheyrandi óðagoti og ráðaleysi viðstaddra. Meðan kettirnir ræðast við verða þeir óvænt fyrir lest sem bindur snöggan enda á samtal þeirra, en í beinu framhaldi fljóta höfuðföt þeirra fram hjá gúmmíbátnum. Bók- in birtir lesendum þrjár súrrealískar sögur í einni þar sem mikið er rætt um hvað aðrir ættu að gera meðan lítið verður úr verki hjá þeim sem sífellt tala. Hæglega er hægt að lesa bókina sem túlkun á við- bragðsleysi heimsins við loftslagsvánni. Oksbøl notar kröftuga liti í myndum sínum og nálgast myndefnið með abstrakt hætti. Áferðin á litaflötum minnir á tússpennastrik, sem skapar sterka tengingu við unga lesendur. Ljúfsár saga um vináttu Framlag Íslendinga þetta árið eru skáldsögurnar Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason sem Rán Flygenring myndlýsir og Bál tímans – Örlagasaga Möðru- vallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndísi Þórarinsdóttur sem Sig- mundur B. Þorgeirsson myndlýsir. Bannað að eyðileggja er ljúfsár saga um vináttu, fjölmenningu, ást- arskot, missi og kosti og galla þess að vera með athyglisbrest og ofvirkni eða ADHD. Í for- grunni eru bekkj- arsystkinin Alex- ander og Sóley ásamt litríkum fjölskyldum þeirra sem óvænt tengjast sterkum böndum. Framvindan er mjög hröð, en höfundur nær vel að fanga þanka- gang Alexanders þar sem hugur hans flakkar sífellt úr einu í annað. Tússteikningar Ránar gæða söguna góðu lífi og endurspegla bæði angist og gleði persóna. Grípandi frásögn handrits Bál tímans – Örlagasaga Möðru- vallabókar í sjö hundruð ár býður upp á frumlega og skemmtilega nálgun á menningararfinn. Möðru- vallabók er þekktasta handrit Ís- lendingasagna og tilheyrir hand- ritasafni Árna Magnússonar sem er á varðveislulista UNESCO um Minni heimsins. Með því að skrifa bókina frá sjónarhorni 700 ára gam- als skinnhandrits nær Arndís að miðla sögunni á hrífandi og per- sónulegan hátt. Lesendur finna til með handrit- inu þegar síður úr því verða eldi að bráð, deilir áhyggjum þess af því að farast til sjós og fylgjast áhugasamir með vafstri mannfólksins sem sýslar um handritið á ólíkum tímum. Frásögn- in er ávallt lifandi og grípandi og Arndís fær sérstakt hrós fyrir að skálda skemmtilega í eyðurnar, en í eftirmála gerir hún vel grein fyrir því hvar hún hafi helst þurft að giska sökum skorts á heimildum. Myndir Sigmundar bæta miklu við lestrar- upplifunina og vísa með góðum hætti til myndlýsinga skinnhandritanna. Svo sárt að vera svöng Framlag Sama í ár er ljóðabókin Gárži (Knappt) eftir Söru Vuolab sem rýnir las í norskri þýðingu sem Harald Gaski vann í samstarfi við höfundinn. Bókin, sem skrifuð er sem fyrstu persónu frásögn ungrar stúlku, hverfist um átröskun. Höf- undur fangar af djúpu innsæi órökréttu hugs- anirnar í glímunni við sjúkdóminn sem yfirtekur allt. Textinn er fullur af sársauka í bland við hár- beitta íróníu og orðaleiki eins og sjá má í textabrotinu: „Fundið mér kærasta? / Ég er ekki enn á lausu / Ég og átröskunin mín“. Annað gott dæmi er: „Svo sárt að vera svöng / svo sárt að ég / vil heldur vera svöng“ þar sem lesandinn fer eðli- lega að velta fyrir sér hvaða sársauki veldur því að ljóðmælandi þurfi að svelta sig. Stúlkan berst gegn því að fullorðnast og sveltir sig í von um að halda í barnakroppinn. Á sama tíma veltir hún fyrir sér hver sé tilgang- urinn og verður þögul þegar hún átt- ar sig á því að hún getur ekki verið mett og mjó á sama tíma heldur neyðist stöðugt til að velja á milli. Ég er eins og ég er Svíar tilnefna annars vegar ung- lingaskáldsöguna Himlabrand (Himnabruni) eftir Mou Backe Åstot og hins vegar myndabókina Naturen (Náttúran) eftir Emmu Adbåge. Í raun má segja að Samar eigi tvo fulltrúa í ár, því Åstot er Sami og á hreindýr, en samfélag sam- ískra hreindýra- hirða er til um- fjöllunar í þessari frumraun henn- ar. Bókin hverfist um unglingspilt- inn Ánte sem verður ástfanginn af Erik, besta vini sínum, í samfélagi þar sem samkyn- hneigð er litin hornauga með þeim afleiðingum að samkynhneigð ung- menni yfirgefa heimahagana og leita skjóls í fjölmennari borgum. Ánte vill hins vegar ekki þurfa að gefa líf- ið sem hreindýrahirðir upp á bátinn til að mega vera eins og hann er. Höfundur skapar sannfærandi mynd af tilvistarkreppu Ánte, vonir, væntingar og þrár þar sem auðvelt er að hafa samúð með söguhetjunni. Dregnar eru upp áhugaverðar hlið- stæður milli þeirrar kúgunar sem Samar hafa orðið fyrir í gegnum aldirnar og þeirrar undirokunar sem samkynhneigðir verða fyrir í dag. Á sama tíma er þetta afar sterk ástar- saga sem hreyfir við lesendum. Náttúran sigrar að lokum Í myndabókinni Naturen skoðar Emma Adbåge samspil manns og náttúru með því að segja sögu smá- bæjar. Í upphafi bókar erum við kynnt fyrir bæjar- búum sem „elska“ náttúruna með sínum ólíku árstíð- um. Í fáum orðum og litríkum, tján- ingarríkum mynd- um sjáum við fyrst sveitasæluna áður en við verðum vitni að gremju íbúanna yfir því að geta ekki stjórn- að náttúrunni algjörlega eftir sínu höfði. Lesendur geta ekki annað en hlegið að bjargarleysi íbúanna sem virðast aðeins geta fundið lausnir sem gera illt verra. Ofsarigning og flóð annars vegar og hins vegar elds- voði í kjölfar sumarþurrka minna okkur á vána sem við stöndum frammi fyrir í samtímanum. Mynd- ræn framsetningin undirstrikar sterklega að í átökum manns og náttúru er það náttúran sem sigrar á endanum. Hún er í forgrunni á hverri opnu þar sem sterkir litir ráða ríkjum, meðan manneskjurnar birtast sem litlitlar fígúrur teikn- aðar með mjóum strikum. Aðeins fjórar bækur komið út Rétt er að geta þess hér í lok seinni greinarinnar um tilnefndar barna- og unglingabækur ársins að þær eru allar, ásamt öllum vinnings- bókunum frá upphafi, aðgengilegar almenningi á frummálunum á bóka- safninu í Norræna húsinu. Vonandi mun einhver hluti þeirra rata til les- enda hérlendis í íslenskri þýðingu, en frá því að Barna- og unglinga- bókmenntaverðlaun Norðurlanda- ráðs voru fyrst veitt árið 2013 hafa aðeins fjórar þeirra 109 bóka sem tilnefndar hafa verið á öðrum tungu- málum en íslensku komið út í ís- lenskri þýðingu. Þetta eru Öll með tölu eftir Kristin Roskifte frá Noregi (sem vann 2019 og kom út hjá Vöku- Helgafelli 2020), Tréð eftir Bárð Oskarsson frá Færeyjum (vann 2018 og kom út hjá Dimmu 2019), Brúnar eftir Håkon Øvreås sem Øyvind Torseter myndlýsti, en báðir eru frá Noregi, (en bókin vann 2014 og kom út hjá Máli og menningu 2015) og Flata kanínan eftir Bárð Oskarsson (sem var tilnefnd 2014 og kom út hjá Bókaorminum 2015). Yfirlýst markmið verðlauna Norðurlandaráðs er að auka áhuga fólks á norrænu menningarsam- félagi og efla vitund um náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum. Þetta er gert með því að vekja at- hygli á listaverkum sem skarað hafa fram úr og verðlauna sértæk verk- efni eða aðgerðir sem eru umhverf- inu til góðs. Hvorum tveggja bókmenntaverð- laununum er ætlað að vekja áhuga á bókmenntun og tungumálum grann- þjóðanna sem og menningarlegri samkennd þeirra. Bækur rata hins vegar sjaldnast til lesenda utan síns málsvæðis nema fyrir tilstilli vand- aðra þýðinga og góðra útgáfu- styrkja. Enn og aftur skorar undir- rituð á ráðamenn jafnt sem út- gefendur að huga betur að þessum málum, enda hafa á síðustu árum verið tilnefndar fjölmargar afburða- bækur sem eiga fullt erindi við íslenska lesendur. Seinni kynningin á tilnefndum bókum til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 Þegar náttúran tekur völdin Sveitasæla Samspil manns og náttúru er til skoðunar í Naturen. Ást Refurinn Rufus heillast af hænunni Hanne sem rekur matvörubúð. Tússlitir Höfuðföt kattanna fljóta framhjá gúmmíbátnum í O PO POI. ADHD Teikningar Ránar Flygenring endurspegla vel umfjöllunarefnið. Legó hjálpar aðalpersónu bókarinnar að einbeita sér í stærðfræðinni. Menningararfur Eldur ógnar ómet- anlegum handritum í Báli tímans.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.