Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 28
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. OKTÓBER 2022
ÞÚ FÆRÐ BOSCH
BÍLAVARAHLUTI HJÁ KEMI
Kemi | Tunguhálsi 10 | Sími 415 4000 | www.kemi.is
T
il að klekkja á nemendum í stafsetningartímum nýtti ég mér
orðtakið „að vera e-m Þrándur í Götu“. En nú er það því mið-
ur ekki mögulegt lengur því að „valfrjálst er hvort ritaður er
stór stafur í upprunalegum sérnöfnum í orðtökum og máls-
háttum“.
Þrándur í Götu var einn af „Götuskeggjum“ og kann að hafa verið
afkomandi Auðar djúpúðgu því að hún gifti í Færeyjum sonardóttur
sína sem varð ættmóðir Götuskeggja að sögn Landnámu.
Dr. Ólafur Halldórsson rannsakaði Færeyinga sögu svo árum skipti,
sbr. t.d. afar vandaða útgáfu hans árið 2006. Hann taldi söguna skrif-
aða snemma á 13. öld og að Snorri Sturluson hefði þekkt frumgerð
hennar og nýtt sér
nokkra kafla hennar
þegar hann skráði Ólafs
sögu Haraldssonar um
1230; en þar (þ.e. í Ólafs
sögu) er greint frá andófi
Þrándar í Götu gegn til-
raunum konungs til að
gera Færeyjar að skattlandi Noregs. Ólafur Halldórsson taldi Snorra
hafa lagað texta Færeyinga sögu nokkuð í hendi sér; en þegar svo
Færeyinga sögu var troðið í bútum inn í Flateyjarbók seint á 14. öld
(þar sem sagan er nú varðveitt innan um konungasögur) hefði skrá-
setjarinn tekið texta Snorra um viðskipti Þrándar og Ólafs konungs
helga óbreyttan upp og þannig hefði texti Færeyinga sögu á þeim stað
glatast að eilífu.
En nú er komið babb í bátinn. Árin 2002 og 2012 birti dr. Helgi Guð-
mundsson greinar um Færeyinga sögu í bókum sínum Land úr landi
og Handan hafsins. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Færeyinga
saga hefði ekki verið skrifuð fyrr en veturinn 1277-1278 þegar Sturla
Þórðarson (d. 1284) neyddist til að hafa vetursetu í Færeyjum á leið
sinni til Noregs ásamt hópi landa sinna.
En hvernig í ósköpunum var hægt að láta þessa kenningu Helga
Guðmundssonar ganga upp þar sem Snorri (d. 1241) hafði skrifað um
Þránd í Götu og Ólaf konung um 1230? Svar Helga er einfalt: Snorri
hafði engar fyrirmyndir, engar „stórar sagnir“, þegar hann skrifaði
„þátt“ sinn um Þránd í Götu og Ólaf konung! Snorri skáldaði þennan
þátt frá rótum af því að það þjónaði tilgangi hans. Hann vildi nefnilega
sýna undir rós að úr því að Færeyingar hefðu getað hindrað Nor-
egskonung í fyrirætlunum hans að skattleggja Færeyinga (á 11. öld),
þá hlytu Íslendingar að geta það líka – meira en tvö hundruð árum síð-
ar! Snorri var okkar Þrándur í Götu með andófi sínu gegn valdhöfum
Noregs.
Helgi Guðmundsson leiðir að því rök að Sturla Þórðarson hafi haft
Ólafs sögu Snorra frænda síns með sér í Færeyjum, og í leiðindum sín-
um þar hafi hann skáldað Færeyinga sögu með því að prjóna bæði
framan og aftan við „þátt“ Snorra um Þránd í Götu. Þetta hafi hann
gert til að skemmta íslensku skipbrotsmönnunum og ekki síður Fær-
eyingum, gestgjöfum þeirra.
Gaman er að rýna í hin frumlegu og snjöllu rök Helga Guðmunds-
sonar fyrir ungum aldri Færeyinga sögu og þeirri skoðun að Þrándur í
Götu sé hugsmíð Snorra Sturlusonar.
Þrándur í Götu
Tungutak
Baldur Hafstað
hafstad.baldur@gmail.com
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þrándur í Götu:
hugsmíð Snorra
Sturlusonar.“
L
íklega gerum við okkur fæst grein fyrir því nú í
miðju stríðsfárviðrinu í Evrópu hver verði
áhrifin þegar því slotar. Að því hlýtur að koma
en þó ekki á varanlegan hátt á meðan Vladimír
Pútín er við völd í Rússlandi. Honum treystir enginn
lengur. Hann verður aldrei nein kjölfesta friðar í Evr-
ópu.
Rússar eru ekki gjaldgengir í Evrópuráðinu lengur.
Um það voru skiptar skoðanir fyrir um 30 árum hvort
ætti að hleypa þeim inn í ráðið. Rökin fyrir aðild voru að
þátttaka í þingstörfum ráðsins þjálfaði rússneska þing-
menn í lýðræðislegum vinnubrögðum og áhersla á virð-
ingu fyrir mannréttindum gæti ekki skaðað rússneskan
almenning.
Eftir þrjá áratugi eru bæði lýðræði og mannréttindi
fótumtroðin í nafni Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi.
Rússar eru þó enn í Öryggis- og samvinnustofnun Evr-
ópu (ÖSE). Stofnunina má rekja til Helsinki-sáttmálans
frá 1975 sem stuðlaði að slökun spennu þess tíma á milli
vestursins og Sovétríkjanna. Sovétstjórninni hefði aldrei
komið til hugar að sýna ákvæðum sáttmálans eða öðru
sem stendur að baki ÖSE þá fyr-
irlitningu sem Pútín-stjórnin ger-
ir.
Aðild að ÖSE er ekki bundin
við Evrópuríki því að Bandaríkin
og Kanada eru þar innan borðs.
Fyrir viku var á hinn bóginn efnt
til fundar í Prag að frumkvæði
Emmanuels Macrons Frakk-
landsforseta með þátttöku leið-
toga 44 Evrópuríkja, þar á meðal
Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í tilkynningu
um fundinn frá ráðuneyti hennar sagði að þetta væri
nýtt „pólitískt bandalag Evrópuríkja (e. European
Political Community, EPC)“. Um væri að ræða nýjan
samstarfsvettvang til að leiða saman ríki Evrópu óháð
aðild þeirra að samstarfsstofnunum innan álfunnar. Ætl-
unin væri að hittast að nýju að ári og þá í ríki utan Evr-
ópusambandsins.
Á fundinum sammæltust leiðtogarnir í fordæmingu á
framgöngu Rússa í Úkraínu. Voru þeir harðorðir þótt
enn hefðu ekki verið framdir stríðsglæpirnir sem ein-
kenna þessa viku með flugskeytaárásum Rússa á al-
menna borgara, leikskóla og grunnvirki samfélagsins,
rafstöðvar og hitaveitur.
Að baki samstarfinu er auk þess sú framtíðarspá að
Bandaríkjamenn láti sig Evrópu minna skipta en nú og
beini kröftum sínum þess í stað meira að því að halda aft-
ur af Kínverjum í Asíu og á Kyrrahafi.
Þessi sýn setur svip á greiningarskýrslu sem danskir
sérfræðingar birtu í byrjun mánaðarins þar sem lögð eru
á ráðin um hvað Danir þurfi að gera til að tryggja öryggi
sitt og varnir til ársins 2035.
Þetta skjal er gagnlegt fyrir þá sem leggja mat á þjóð-
aröryggi Íslendinga og ráðstafanir til að tryggja það.
Sjónarhóll okkar er að vísu annar en Dana þegar litið er
til Eystrasalts í austri eða suðurhluta Evrópu. Á hinn
bóginn er ábyrgð Dana einnig á Norður-Atlantshafi og
norðurslóðum vegna konungdæmisins alls sem nær til
Færeyja og Grænlands.
Í skýrslunni er bent á að ákafara stórveldakapphlaup
á komandi árum hafi vaxandi áhrif á norðurslóðum (d.
Arktis) og Norður-Atlantshafi. Þar blasi við nýtt umrót í
öryggismálum og samhliða því meiri hernaðarleg umsvif,
einkum af hálfu Rússa. Eftir innrásina í Úkraínu sé ekki
unnt að líta á þróun samstarfs annars vegar og spennu-
vaka hins vegar sömu augum og áður á norðurslóðum.
Rússum hafi til dæmis verið ýtt til hliðar í Norðurskauts-
ráðinu þótt þeir gegni þar formennsku til 2023.
Skýrsluhöfundar telja óhjákvæmilegt að NATO auki
kynni sín af norðurslóðum og Norður-Atlantshafi, þar á
meðal Grænlandi og Færeyjum samhliða því sem stjórn-
völd eylandanna tveggja kynnist störfum NATO betur.
Þetta kunni að leiða til breytinga á afstöðu til fyrirkomu-
lags öryggismála í tengslum við
löndin tvö sitt hvorum megin við
Ísland sem skapi Danmörku
skyldur á hafinu og norðlægum
slóðum í þágu NATO. Þeim verði
erfitt að svara, ekki síst vegna
veðurfars og mikilla vegalengda á
þessum slóðum.
Spáð er að einhvern tíma fyrir
2035 skapist að nýju jafnvægi í
stórveldakeppninni þótt staðan
versni hugsanlega enn frekar á næstu árum milli vest-
ursins og Rússa. Líkur séu á að meiri spenna búi að baki
nýjum stöðugleika í norðri en nú er. Það verði til að veru-
leg hernaðarleg athygli beinist að svæðinu. Öll röskun á
jafnvægi þar, til dæmis vegna misskilnings, geti því haft
alvarlegar afleiðingar. Líkur á slíkum vandræðum
minnki þó vegna þess að allir gæti varúðar til að útiloka
að nokkuð misskiljist.
Telja skýrsluhöfundar ekki óhugsandi að fyrstu skref
til að jafna ágreining við Rússa verði stigin á norður-
slóðum. Sameiginlegir hagsmunir norðurslóðaríkjanna
séu miklir og ekki sé fjallað um öryggismál í Norður-
skautsráðinu. Það kunni þó að flækja svæðisbundið sam-
starf innan ráðsins að við aðild Finna og Svía að NATO
verði Rússar eina þjóð ráðsins utan bandalagsins. Þeir
telji sig þar með einangraða og afskipta við undirbúning
mála, áhugi þeirra á samstarfinu minnki.
Allt er þetta umhugsunarvert. Því miður skortir hér á
landi fræðilegan rannsóknar- og umræðuvettvang til að
gaumgæfa hver áhrif stórbreytinganna í varnar- og ör-
yggismálum eru á íslenska hagsmuni.
Úr því má bæta. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks-
ins flytja nú til dæmis tillögu um að utanríkisráðherra
hafi forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun
Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um ör-
yggis- og varnarmál (RÖV). Í upphafi greinargerðar til-
lögunnar er hvatt til að íslenska þjóðin styrki öryggi sitt
á grundvelli þekkingar sem reist sé á fræðilegum grunni
og fenginni reynslu. Önnur vopn hafi hún ekki.
Spáð í nýja heimsmynd
Að baki samstarfinu er auk
þess sú framtíðarspá að
Bandaríkjamenn láti sig Evr-
ópu minna skipta en nú til að
halda aftur af Kínverjum.
Bjorn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Á aðalfundi Mont Pelerin-
samtakanna í Osló í október
2022 var hlé gert á fundum síðdegis
7. október og siglt frá borginni suð-
ur til hins sögufræga Óskarsvirkis,
sem stendur á hólma í Oslóarfirði,
þar sem hann er einna þrengstur.
Virkið var fullgert árið 1853 og hét
eftir konungi Svíþjóðar og Noregs á
þeirri tíð. Það var búið öflugum fall-
byssum, en fáir vissu, að frá því
mátti einnig skjóta tundurskeytum
neðanjarðar. Í apríl 1940 var það
undir stjórn Birgers Eriksens, Birg-
is Eiríkssonar, ofursta. Um ell-
efuleytið að kvöldi 8. apríl fékk hann
að vita, að ókunn herskip, að lík-
indum þýsk, nálguðust Osló.
Þegar skipin voru í sjónmáli
klukkan fjögur um nóttina, fylgdist
Birgir með frá efsta útsýnispalli
virkisins. Hann ákvað upp á sitt ein-
dæmi að skjóta á skipin úr fall-
byssum ofanjarðar, en einnig að
senda tundurskeyti að þeim neð-
anjarðar. Þurfti hann að miða skot-
mörkin út eftir minni. Fall-
byssuskotin og tundurskeytin
hæfðu hið stóra þýska beitiskip
Blücher, en um borð var fjölmennt
herlið, sem átti að hernema höf-
uðborg Noregs, ásamt lúðrasveit,
sem leika skyldi í fullum skrúða við
konungshöllina þá um daginn. Um
allt skipið kviknuðu eldar, og sökk
það þremur tímum síðar. Í morg-
unsárið hófu þýskar orrustuflug-
vélar ákafar loftárásir á Óskars-
virki. Birgir skipaði liði sínu að
gefast upp 10. apríl, en þá höfðu
þýskar flugsveitir tekið Osló.
Vörnin við Óskarsvirki seinkaði
töku Oslóar um sólarhring, svo að
konungur og ríkisstjórn komust
undan og tóku með sér gullforða
Noregs. Einnig gafst þá ráðrúm til
að skipa kaupskipaflota Noregs að
halda til hafna Bandamanna, og
hlýddu langflestir skipstjórar kall-
inu. Þjóðverjum tókst því ekki með
leiftursókn að leggja undir sig Nor-
eg, eins og gerst hafði í Danmörku.
Flakið af Blücher liggur enn á hafs-
botni í Oslóarfirði.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Óskarsvirki