Morgunblaðið - 15.10.2022, Blaðsíða 16
16 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. OKTÓBER 2022
„Rússarnir skilja alls staðar eftir
sig sviðna jörð,“ segir Óskar Hall-
grímsson, ljósmyndari sem búsett-
ur er í Kænugarði, en hann hefur
síðustu daga verið á ferðalagi um
þau svæði í Donbas-héruðunum,
sem Úkraínumenn hafa frelsað ný-
lega.
Óskar segir að hann hafi meðal
annars á ferðum sínum rekist á
munkaklaustur, þar sem Rússar
höfðu komið sér upp bækistöð, og
var klaustrið nú rústir einar. Sömu
sögu var að segja af einu þorpi,
Kamjanka í Karkív-héraði, en þar
stóð ekki eitt einasta hús uppi.
„Það er einhvern veginn þannig,
að það skiptir engu máli hvert ég
kem, þar sem Rússar hafa verið,
þá er allt í rúst,“ segir Óskar og
bætir við að þeir séu nánast eins
og hvirfilbylur.
Óskar segir að hann hafi reynt
ásamt blaðamanni að komast til
Líman, sem Úkraínumenn frelsuðu
nýverið. Ferðalagið hafi verið mjög
erfitt þar sem búið var að sprengja
allar brýr og leggja jarðsprengjur
á flesta aðalvegi, og þegar komið
var að borginni hafi herinn ekki
viljað hleypa þeim inn, þar sem
enn voru jarðsprengjur á götunum
og ekki hægt að tryggja öryggi
þeirra.
Hann bætir við að það sé ljóst
að gríðarlega mikið hreinsunar- og
uppbyggingarstarf bíði Úkra-
ínumanna.„Ég hef heyrt þúsund
sögur af fólki sem hefur misst hús-
ið sitt, aleiguna eða nána ætt-
ingja,“ segir Óskar en bætir við að
þrátt fyrir það séu allir Úkraínu-
menn tilbúnir að leggja hönd á
plóg, jafnvel þótt það geti kostað
þá lífið. „Maður fær aftur trú á
mannkynið við að sjá þetta, eftir
að hafa nánast misst hana vegna
stríðsins.“ sgs@mbl.is
Skilja eftir sig slóð
eyðileggingar
Við klaustrið Mörg dýr eru nú á vergangi, þar sem eigendur þeirra hafa neyðst til að flýja.
Vinur eða óvinur? Úkraínumenn hafa verið iðnir við að handsama rúss-
neska skriðdreka og beita þeim nú óspart gegn fyrri eigendum sínum.
Klaustrið Rússar höfðu komið sér rækilega fyrir í klaustrinu og skildu það eftir í rústum.
Ljósmyndir/Óskar Hallgrímsson
Sjúkrahús Rússar breyttu þessari kirkju í Karkív-héraði í hersjúkrahús og notuðu meðal annars kertastjaka til
þess að halda uppi vökvapokum fyrir sjúklingana. Var allt á rúi og stúi inni í kirkjunni þegar þeir yfirgáfu hana.
Súpueldhús Balaklíja í Karkív-héraði var ein fyrsta borgin til að falla í
hendur Rússa. Sjálfboðaliðar bjóða nú íbúum borgarinnar súpu og brauð.
- Enginn bilbugur á Úkraínumönnum