Tímarit lögfræðinga - 01.12.2013, Side 62
408
samkvæmt orðanna hljóðan falli ekki saman við rammann; hann sé
fræðilega víðtækari og kunni jafnframt að ná yfir hæpnari eða fjar-
stæðari skilning á orðalagi sem er þó ekki utan „mögulegs“ skiln-
ings á því, t.d. skilnings sem víkur frá almennri málvenju. Gera má
greinarmun frá fræðilegu sjónarhorni á afmörkun hins merkingar-
fræðilega ramma – þ.e. mögulegrar merkingu textans – og þess
hluta textaskýringar sem miðar að því að afmarka nærtækasta og
rökréttasta skilninginn á orðalaginu. Ef þessi nálgun er lögð til
grundvallar er ekki sjálfgefið að túlka beri áðurnefnd viðhorf Ár-
manns með þeim hætti að þegar hann vísar til þess að farið sé „út
fyrir vébönd sem orð ákvæðis marka“ eigi hann við að farið sé út
fyrir hinn merkingarfræðilega ramma. Hafa verður enda í huga að
hann styðst hvorki við það né sambærilegt hugtak í umfjöllun sinni.
Þvert á móti rekur hann að rýmkandi lögskýring varðar ákvörðun á
efni lagaákvæðis og sé lögskýringarkostur sem nærlægt sé að laga-
ákvæði taki til. Hægt er að skilja hann á þann veg, a.m.k. með einni
túlkun á skrifum hans, að rýmkandi lögskýring feli það í sér að
lagaákvæði sé túlkað með rýmri hætti en eðlilegur eða nærtækur
skilningur – skilningur samkvæmt orðanna hljóðan – gefur (merk-
ingarfræðilega) til kynna. Með öðrum orðum er valinn sá túlkunar-
kostur sem er rýmri en textaskýring bendir til en þó ekki fyrir utan
hinn merkingarfræðilega ramma. Þegar valið sé á milli tveggja kosta
við greiningu orða eða hugtaka sem báðir eru í samræmi við texta-
skýringu er aftur á móti um að ræða ákvarðandi skýringu; túlkun
sem er enn í samræmi við eðlilegan eða nærlægan skilning á orð-
unum þótt vikið sé e.t.v. frá almennri málvenju. Um sé að ræða hluta
af textaskýringu sem lögskýringaraðferð/-sjónarmið en ekki lög-
skýringarleið. Þessi munur á rúmri ákvarðandi skýringu og rýmk-
andi lögskýringu verður þó aldrei skýr miðað við þessar forsendur.
Því verður ekki haldið fram að þetta sé nærtækasti túlkunarkost-
urinn á skrifum Ármanns. Aftur á móti er hann til þess fallinn að
samþætta viðhorf hans og Róberts, sem birtast í grundvallarritum
þeirra, Almenn lögfræði og Túlkun lagaákvæða.
2.2 Nánar um inntak lögskýringarleiðanna
Þá má varpa þeirri spurningu fram, sem fyrr er nefnd, hvort ólíkar
skilgreiningar þeirra séu, þegar nánar er að gáð, samrýmanlegar
varðandi aðra efnisþætti. Almennt hefur í fræðunum verið greint á
milli túlkunar annars vegar og heimfærslu hins vegar. Hið fyrra felur
í sér afmörkun á merkingu lagaákvæðis en hið síðara þá aðgerð að
leggja mat á hvort tiltekið tilvik falli innan þeirrar efnisreglu sem
túlkunin hefur leitt af sér.22 Reifar Róbert þá skoðun sína að erfitt sé
22 Róbert R. Spanó: Túlkun lagaákvæða, bls. 36.