Tímarit lögfræðinga - 01.12.2013, Qupperneq 66
412
arkostum. Önnur ástæða gæti verið sú að lögskýringarreglurnar
(lagarökin) eru annars konar viðmið en lögskýringarsjónarmið. Þær
eru viðmið um hvernig ber að velja lögskýringarkost á meðan lög-
skýringarsjónarmiðin og –aðferðirnar lúta að því hvaða upplýsing-
ar, gögn, sjónarmið og aðferðir er heimilt að styðjast við og þá
hvernig.30 Rétt er að ítreka að hvað sem þessu líður er áfram hægt að
nota hugtökin á báða vegu, þ.e. til að lýsa þeim túlkunarkosti sem
er valinn, þegar allt hefur verið tekið til greina, eða tala um þau í
því samhengi að fari beri tiltekna leið, t.d. í samræmi við ákveðna
lögskýringarreglu.
3. TENGSL LÖGSKýRINGARLEIÐAR VIÐ LAGAREGLUNA
Margur lesandinn kann að hafa heltst úr lestinni þegar hér er komið
við sögu. Fyrir þá verður endurtekið að hér hefur verið farið yfir
kosti og galla ólíkra skýrgreininga á lögskýringarleiðunum og bent
á að þótt hinn merkingarfræðilegi rammi lagaákvæðis dragi fram
mikilvægan punkt, sem hafa ber í huga við túlkun – að textinn sé
upphaf, útgangspunktur og stundum lok túlkunar lagaákvæðis –
kunna ytri mörk hans að vera óljós í framkvæmd. Þá hefur verið
dregið fram í dagsljósið að ólíkar lýsingar á lögskýringarleiðunum,
sem annars vegar vali á samhengi lagareglunnar við orðalag laga-
ákvæðis og hins vegar hvort vafi sé fyrir hendi um hvort tiltekið
tilvik falli undir lagareglu, kunni að vera samþættanlegar eða a.m.k.
sé hægt að skilja sem ólíkar nálganir. Þá var rýnt í hvort lögskýringar-
leiðirnar væru aðeins lýsing á niðurstöðu túlkunar lagaákvæðis eða
aðferðir við val á túlkunarkosti.
Hinn hugaði og þrjóski lesandi, sem hefur þrælað sér í gegnum
hugrenningarnar, kann að lokum að spyrja hver séu tengsl lögskýr-
ingarleiða og réttarheimildarinnar setts réttar, sem er andlag túlk-
unarinnar. Því er til að svara að niðurstaða túlkunar lagaákvæðis er
lagaregla.31 Eins undarlega og það kann að hljóma eru allar laga-
reglur óskráðar (a.mk. í fræðilegum skilningi). Aðeins réttarheim-
ildirnar eru skráðar eða óskráðar. Lagaákvæði fellur í hóp með þeim
fyrri. Frá þessu sjónarhorni eru lögskýringarleiðir, miðað við nálg-
un Ármanns, lýsing á því að lagareglan sé í samræmi við orðalag
lagaákvæðisins, réttarheimildarinnar, eða rýmri eða þrengri en það.
Séu túlkunargleraugu Róberts sett upp fela þær í sér, sem fyrr grein-
ir, svar við spurningunni hvort tiltekið tilvik falli innan eða utan
þeirrar lagareglu sem lagaákvæði hefur að geyma í ljósi þess hvort
vafi sé til staðar að loknu mati á heildarsamhengi lagaákvæðis. Falli
30 Erik Boe: Grunnleggende juridisk metode. En introduksjon til rett og rettstenkning. Osló
2005, bls. 84-87.
31 Sjá til hliðsjónar Torstein Eckhoff: Rettskildelære. Osló 1987, bls. 24.