Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1971, Blaðsíða 9

Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1971, Blaðsíða 9
7 Vinnustúlkur, sem jafnan voru tvær, sváfu í herbergi undir súð eða kamersi í suðurenda rishæðar, en í norðurendanum var geymsla og þurrkloft þar á milli. Kolum var kynnt í eldavél og ofnum, nema svefnherbergi foreldra minna. Þar var enginn ofn. Stein- olía var til ljósa. Oft var glatt á hjalla á kvöldum við ullarvinnuna í borðstof- unni, spunnið á rokka og kembt, og oft sungið, en móðir mín, sem var létt í lund og grunnt á kætinni á stundum, hafði laglega söng- rödd. Hún leit á stúlkur sínar sem jafningja og hafði gott lag á þeim, og það var þá „Stóð ég úti í tunglsljósi“, „Ein yngismeyjan gekk úti’ í skógi“ og fleira slíkt, sem sungið var tíðast. En minnis- stætt er mér, að eitt kvöld var brugðið út af þeirri venju, að syngja gömlu, vinsælu lögin, sem mörg ylja þjóðinni enn í dag. Það var kát og söngvin vinnustúlka, sem kom þessu af stað, og var nú sungið við mikla kæti til tilbreytingar „Den gang jeg drog af sted“ og „Det var en lördag aften . . .“ — Reykjavík var þá enn með Dannebrogshattinn, eins og Þorsteinn orðaði það í kvæð- inu um Jörund og danskan mörgum býsna töm. En svo kom það fyrir, að faðir minn, sem oft var við lestur eða skriftir uppi fram eftir kvöldi — og stundum langt fram á kvöld — kom niður, áður en rokkarnir voru hljóðnaðir, og kom þá stundum með eitthvað til lesturs. Er mér minnisstæð ein kvöldstund, er vinnustúlka á heimilinu áræddi að ympra á því, að hann læsi eitthvað, og orð- aði það svo, hvort „rektor vildi nú ekki lesa eitthvað skemmtilegt fyrir okkur“. Fór þá faðir minn upp og kom aftur allbroshýr með handrit sitt að ævintýrinu Glensbróðir og sankti Pétur, og hafði áreiðanlega eins mikla ánægju af lestrinum og þeir, sem á hlýddu. Einhver ljómi er enn yfir þessu og mér finnst, að ég hafi aldrei heyrt gamansamt ævintýri betur lesið. Við þessa stofu eru margar mínar bernskuminningar tengdar eigi síður en sveitabarni þeirra tíma minningar úr baðstofu. Og aðrar minningar þaðan eru líka tengdar söng og músík, sem hafði á sér klassiskari blæ en sá söngur, sem ég áður vék að. 1 húsi foreldra minna var leigjandi um ára bil frú Ásta Hallgríms- son, læknisekkja, músíkölsk höfðings- og fríðleikskona, sem hafði fagra söngrödd og lék með afburðum vel á gítar, og lék þá stund- um fyrir okkur börnin.*) Dóttir hennar, Kristrún, var píanóleik- ari, sem mikið orð fór af, og stundaði hún kennslu í píanóleik. *) Við Tómas (síðar leikari) vorum leikbræður. Hann var yngri sonur frú Ástu, og vorum við jafnaldrar.

x

Rökkur : nýr flokkur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Rökkur : nýr flokkur
https://timarit.is/publication/1772

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.