Árbók íþróttamanna - 01.12.1947, Blaðsíða 178
Guðmundur A. Stefánsson
Glímukappi Islands 1909
ÞaS er álit allra þeirra manna, sem ég hef heyrt tala um Guðmund Stef-
ánsson sem glímumann, að hann hafi verið sérstaklega drengilegur og
glæsilegur glímumaður. Framkoma hans öll og drengskapur hefur sett hann
á bekk með okkar allra vinsælustu glímumönnum, og það svo mjög, að enn
í dag hlýnar hans gömlu glímufélögum um hjarta, ef á hann er minnst,
sökum drengskapar hans og karlmennsku.
Eg vil nú gefa einum af hans gömlu glímufélögum, Guðmundi S. Hofdal,
orðið, er liann lýsir Islandsglímunni á Akureyri 1909 á þessa leið, eftir viðeig-
andi inngang: „Glímumönnunum er fagnað með fjörlegu lófataki. Þegar
það hljóðnar, fer þessi spurning mann frá manni um allan salinn og mynd-
ar hvíslandi klið: „Hver er þessi hái?“ Það er Guðmundur Stefánsson, sem
vekur þessa eftirtekt. Hann er nær því höfði hærri en hinir. Vöxtur hans er
í réttu hlutfalli við hæðina. Teinréttur stendur hann í hvíldarstöðunni, án
þess að votti fyrir uppgerðar vöðvastælingu. Svipurinn, sem er djarfmann-
legur og hreinn spáir drengskap í keppninni, sem nú er að hefjast. Þess
fleiri glímur, sem hann glímir, þeim mun meiri athygli og aðdáun vekur
hann. Lipurð hans og léttleiki í glímunni er undraverður, ekki sízt sé tillit
tekið til stærðar hans og líkamsþunga. Hreyfingar og stígandi glímunnar
er vart af jafn miklu fjöri sem annarra, en varfærni hinsvegar mun meiri.
Hann einbeitir huganum jafnt til varnar og sóknar af svo mikilli ná-
kvæmni, að honum fatast hvorugt glímuna til enda.“
Guðmundur var bragðmargur og fimur, en helztu brögð hans voru: Klof-
bragð og hælkrókur hægri á vinstri.
Guðmundur A. Stefánsson er fæddur í Reykjavík 7. júlí 1885. Hann er
sonur Stefáns Egilssonar múrara og Sesselju Sigvaldadóttur ljósmóður.
Synir þeirra, auk Guðmundar, eru Sigvaldi Kaldalóns, Snæbjörn og Eggert,
sem allir eru þjóðkunnir menn. Guðmundur fór til Ameríku 1911 og hefur
dvalið þar síðan.