Goðasteinn - 01.09.2001, Síða 373
Goðasteinn 2001
Látnir 2000
húsfreyja frá Haukabergi á Barðaströnd
og Bergur Sigurðsson mjólkurbílstjóri
frá Kolsstöðum í Hvítársíðu, sem bæði
eru látin. Sigurður var næstelstur fjög-
urra barna þeirra. Elst er hálfsystir hans
sammæðra, Helga Hansdóttir, sem bú-
sett er á Hvolsvelli, og yngri Þuríður,
búsett í Borgarnesi, og Eggert sem lést
af slysförum 1990.
Sigurður fór að vinna fyrir sér strax
að loknu skyldunámi. Um tíma sinnti
hann bústörfum á Helgavatni í Þverár-
hlíð og Bjarnastöðum í Hvítársíðu, og
fór þaðan í fjárleitir með Hvítsíðingum
yfir 30 haust, síðast 1999. Hann vann
við brúarsmíði hjá Vegagerðinni nokk-
ur ár og tók meirapróf bifreiðastjóra
svo fljótt sem verða mátti aldurs vegna.
Upp frá því starfaði hann við akstur
fólks- og vörubíla. Hann ók áætlunar-
bílum Austurleiðar hátt í tvo áratugi,
var um tíma bílstjóri hjá Jóni og
Tryggva á Hvolsvelli, einnig strætis-
vagnstjóri skamma hríð hjá Almenn-
ingsvögnum í Hafnarfirði og síðustu
árin ók hann vörubflum hjá Suðurverki.
Sigurður var gætinn og heppinn bíl-
stjóri og dugmikill verkmaður, áræðinn
og útsjónarsamur, og leysti störf sín vel
af hendi.
Leið Sigurðar lá á Suðurland fyrir
rúmum aldarfjórðungi er hann vann við
brúarsmíði á Skeiðarársandi, og lagði
þar gjörva hönd á plóg við þann merka
og mikilvæga áfanga í samgöngusögu
Islendinga að ljúka hringveginum um
landið. Þar kynntist hann eftirlifandi
eiginkonu sinni, sem þá var ráðskona í
brúarvinnuflokknum, Guðríði Árna-
dóttur frá Skál á Síðu, dóttur hjónanna
Árna Kristins Árnasonar bónda þar,
sem nú er látinn, og Jóhönnu Pálsdóttur
húsfreyju. Þau Sigurður og Guðríður
gengu í hjónaband í Prestbakkakirkju á
Síðu á gamlársdag 1976. Heimili sitt
settu þau saman á Hvolsvelli, fyrst á
Vallarbraut 14 en fluttust 1983 að
Króktúni 17. Dætur þeirra, uppkomnar,
eru Jónína og Árný Jóna. Yngri börn
Sigurðar við Guðrúnu Finnsdóttur eru
Rakel Osk og Edilon Númi, og alast
þau upp hjá móður sinni.
Sigurður var að eðlisfari góðviljaður
maður, hlýr í viðmóti og glaðlyndur.
Hann vildi hvers manns vanda leysa,
og ávann sér eftir því vinsældir og
traust samferðamanna sinna. Hann var
vinfastur og frændrækinn, og því meir
sem árin liðu las hann ættfræðibækur
og þjóðlegan fróðleik af ýmsu tagi, en
áhugi hans á því var ekki síst vakinn á
ferðum hans víða um land, þar sem
náttúran og sagan renna saman í eina
heild. Sigurður hafði yndi af ferða-
lögum, var mikill selskapsmaður og
félagsvera, tók gjarnan í spil með vin-
um sínum, og var lengi virkur í Bridge-
félagi Rangæinga.
Sigurður lést eftir ströng veikindi af
völdum krabbameins á Sjúkrahúsi
Suðurlands á Selfossi hinn 17. desem-
ber 2000, 48 ára að aldri. Útför hans
fór fram frá Stórólfshvolskirkju 29.
desember 2000.
Sigurður Jónsson, Odcla
-371