Morgunblaðið - 30.01.2008, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 30.01.2008, Blaðsíða 20
heilsa 20 MIÐVIKUDAGUR 30. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ F ullorðið fólk með athyglisbrest og ofvirkni á oft erfitt með einbeit- ingu og skipulagningu, það missir athyglina hvað eftir annað t.d. við að lesa, truflast auðveldlega ef mikil læti er í kringum það og á erfitt með að halda þræði í því sem það er að gera. Það fer kannski úr einu í annað, ætlar að sækja eitthvað inn í eldhús en gleymir svo hvað það var og sækir eitthvað allt annað. Það er gjarnt á að byrja á ýmsum verkefnum en á erfiðara með að ljúka þeim, hefur lakt tímaskyn og litla biðlund. Það er ört, drífandi og eirðarlaust, uppstökkt, gleymið og lendir gjarnan í ýmsum skakkaföll- um,“ segir Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræð- ingur á Kvíðameðferðarstöðinni, en hún fjallaði meðal annarra um athyglisbrest með ofvirkni (AMO eða ADHD á ensku) hjá fullorðnum á ný- afstöðnum læknadögum 2008. AMO er ein algengasta hegðunarröskun barna og unglinga en 3-5% þeirra eru með rösk- unina. Færri vita að 1-4% fullorðinna eru haldin þessari röskun og er hún algengari meðal full- orðinna karla en kvenna. Munurinn er þó ekki eins mikill og hjá börnum, þar sem hlutfallið er 1,8 strákar á móti einni stúlku. AMO birtist á þrenna vegu, einstaklingar geta verið með at- hyglisbrest, aðrir bara með ofvirkni eða hvatvísi og í þriðja lagi eru sumir með athyglisbrest og ofvirkni. Endast stutt í starfi og sambandi Til að fólk greinist með AMO þarf það að sögn Sóleyjar að hafa sex af níu einkennum athyglisbrests og sex af níu einkennum ofvirkni/ hvatvísi eða hvort tveggja, og þarf vandinn að há því verulega í daglegu lífi. „Sennilega erum við öll með einhver þessara einkenna, bara mis- mikið, en einhvers staðar verður maður að draga mörkin. Þetta er alveg eins og með þung- lyndi, við erum stundum döpur en það þarf að hafa verið til staðar lengi til að það teljist þung- lyndi. Einstaklingar með AMO standa sig oft mun verr en ella miðað við greind. Oft endast þeir stutt í starfi, eiga erfitt með að halda utan um fjárhag og eiga í erfiðleikum með sambönd enda fara þeir í fleiri sambönd en aðrir að með- altali. Ekki er óalgengt að fólk í þessum hópi leiðist út í misnotkun vímuefna eða komist í kast við lögin.“ Hún segir AMO vissulega vangreint hjá full- orðnum. Áður var talið að það myndi eldast af börnum en nú er vitað að í 30-70% tilvika halda einkennin áfram er barnæsku sleppir, sér- staklega athyglisbresturinn og ofvirknin lýsir sér öðruvísi. „Fullt af fólki er ofvirkt eða með athyglisbrest og hefur ekki hugmynd um það! Fullorðið fólk er kannski ekki klifrandi upp um alla veggi,“ segir hún kankvís, „en það er meira eirðarleysi, ofvirkni í hugsun og skipulagserfið- leikar, það tekur út fyrir að bíða í biðröð í banka, eins getur það verið mjög erfitt að sitja í athöfn í kirkju eða langa fundi. Mikill tími í að leita að hlutum Fullorðnir með AMO missa athygli í umferð- inni, gleyma að koma við í búð á leiðinni heim og þeir eru gjarnir á að týna og gleyma hlutum eins og farsíma og lyklum. Það fer mikill tími í að leita að hlutum,“ heldur Sóley áfram. „Fólkið á í erfiðleikum með að hafa skipulag á hlutum, t.d. að taka til þannig að það er allt í óreiðu í kringum það, því finnst erfitt að átta sig á hvernig það á að byrja á verkefnum, t.d. við að skipuleggja ritgerð, og frestar því oft hlutum og þá sérstaklega verkefnum sem krefjast mikils af því,“ segir Sóley. Hún kveður fólk með hvat- vís einkenni oft missa óvart hluti út úr sér, það geri eitthvað í fljótræði sem það sjái svo eftir, t.d. sé mjög algengt að þetta fólk aki of hratt. „Það er fljótt upp og lendir jafnvel í átökum t.d. á vinnustað því það á erfitt með að sitja á sér. Góðir eiginleikar sem fylgja þessu eru að fólk með athyglisbrest með ofvirkni er oft skemmti- legt, það er sjaldan lognmolla í kringum það og það getur verið skapandi og líflegt. Ef fólk nær að beisla aðeins einkennin getur það komið miklu í verk og þetta fólk er alltaf að og í mörgu.“ Ekki vandamál með greind Margir kannast líklega við eitthvert einkenna AMO í eigin fari og að sögn H. Magnúsar Har- aldssonar, sérfræðings á geðsviði Landspítala, liggur einmitt vandinn við greiningu í því hve einkennin eru almenn og hvernig þau geta líkst einkennum margra annarra geðraskana. „Greiningin er því oft á tíðum flókin og tíma- frek. Þetta er röskun sem kemur fram á barns- aldri og samkvæmt þeim greiningarskilmerkj- um sem við vinnum eftir í dag þurfa einkennin að hafa komið fram fyrir 7 ára aldur. Orsakir at- hyglisbrests með ofvirkni eru taldar vera trufl- un á starfsemi heilans sem veldur því að fólk á erfitt með að einbeita sér,“ segir Magnús. Sóley segir fólk með umrædda röskun starf- hæft þrátt fyrir einkennin. „Margir læra líka að fást við einkennin, eins og að binda lyklana við sig og láta farsímann minna sig á o.s.frv.“ T.a.m. sé hægt að kenna fólki að skipuleggja sig, að hugsa áður en það framkvæmir og minnistækni geti reynst gagnleg. „Það er líka unnið með sjálfstraust því oft skilur fólk ekki af hverju það er að klúðra fáránlegustu hlutum og rakkar sig svo niður þar sem það telur sig bara vera svona vitlaust. En þetta er ekki vandamál með greind. Þannig að bara það að vita að maður sé með at- hyglisbrest með ofvirkni hjálpar því maður fær skýringu á því af hverju hlutirnir ganga svona brösuglega. Greining er mjög mikilvæg.“ Sóley ráðleggur fólki að leita sér aðstoðar hjá fag- manni sem hefur sérhæft sig í greiningu á of- virkni og athyglisbresti en sjálf starfar hún ekki við það heldur við meðhöndlun á kvíða- röskunum. Spennufíklar og brandarakarlar Forvitnilegt er að velta því fyrir sér hvers konar starfsvettvang fólk með athyglisbrest og ofvirkni eigi til að velja sér. Sóley segir að ein- kennin megi stundum sjá hjá fólki sem sé alltaf á ferð og flugi, áberandi í fjölmiðlum og tali mik- ið og hratt, reyti jafnvel af sér brandara. „Það velur sér oft starfsvettvang sem hentar því mjög vel. Margir með athyglisbrest með of- virkni taka út fyrir að vinna kyrrsetu- eða skrif- stofustarf, þeim hentar mjög vel að vinna t.d. sem þjónn eða á fjölmiðli eða annars staðar þar sem er mikill atgangur. Þetta eru hálfgerðir spennufíklar.“ Fólk verði svo að meta fyrir sig sjálft hvort röskunin eyðileggi fyrir því í lífinu, t.d. starfsferil, námsferil eða hafi slæm áhrif á tengsl við aðra. „Þá er um að gera að skoða möguleika á greiningu og hugsanlega einhvers konar meðhöndlun í framhaldinu, hvort sem það er lyfjameðferð eða ráðgjöf,“ segir Sóley. Að sögn Magnúsar svara fullorðnir ekki eins vel og börn lyfjum við AMO, eins og ritalín, því þeir hafi tekið út þroska og eigi erfiðara með að tileinka sér hluti sem þeir hafi aldrei náð tökum á. Hins vegar sé farið að beita ýmiss konar atferlismeðferðum hjá fullorðnum, m.a. með- ferð þróaðri í London, sem hérlendir hafa verið í samvinnu um. Slík meðferð hjá geðheilbrigðis- starfsfólki mun fara fram í hópum og hefjast fljótlega að einhverju marki á Landspítala. Magnús segir mikla eftirspurn eftir greiningu og meðferð á röskuninni hjá fólki sem telji sig hafa farið á mis við greiningu sem barn. Vissu- lega sé til stór hópur af slíku fólki. ADHD-samtökin sérhæfa sig í greiningu á AMO og þar er að finna stuðningshópa o.fl. en landlæknisembættið hefur nýlega gefið út verk- lagsreglur við greiningu og meðferð. thuridur@mbl.is Ofvirkir í fjölmiðla- og þjónastörfum Tekur þú, fullorðin mann- eskja, út fyrir það að bíða í röðinni í bankanum? Ef svo er ertu mögulega með athyglisbrest með ofvirkni. Þuríður Magnúsína Björns- dóttir fræddist um AMO- röskun hjá fullorðnum hjá Sóleyju Dröfn Davíðsdóttur sálfræðingi og H. Magnúsi Haraldssyni geðlækni. Oft endast [einstaklingar með AMO] stutt í starfi, eiga erfitt með að halda ut- an um fjárhag og eiga í erfiðleikum með sambönd. Árvakur/Frikki Biðin löng Fullorðnir einstaklingar með AMO geta átt erfitt með að bíða í biðröð, sem og að sitja langa fundi. Sóley Dröfn Davíðsdóttir H. Magnús Haraldsson STUNDI menn hreyfingu og neyti áfengis í hófis þá lengir það lífið meira en hreyfingin gerir ein og sér. Þetta eru niðurstöður yfir- gripsmikillar danskrar rannsóknar sem greint var frá í Berlingske Ti- dende á dögunum. „Við vitum frá fyrri rannsóknum að hófleg neysla áfengis dregur úr líkum á hjartasjúkdómum. Við vit- um líka að hreyfing hefur sömu áhrif. Það sem er nýtt í þessari rannsókn er að þar er sýnt fram á að með því að tvinna þessa tvo þætti saman dregur enn frekar úr líkum á hjartasjúkdómum,“ hefur blaðið eftir Morten Grønbæk frá Syd- dansk Universitet, sem var í hópn- um sem stóð að rannsókninni. Áfengi og hreyfing draga úr kól- esterólmagni í líkamanum – svo framarlega sem maður heldur sig innan marka manneldisnefndar, en þau mörk gera ráð fyrir að konur geti drukkið eitt vínglas á dag en karlar tvö. „Sé áfengis hins vegar neytt í meira mæli eða vikukvótinn drukkinn allur í einu eykst hættan á fjöldanum öllum af sjúkdómum,“ segir Grønbæk. Rannsóknin var byggð á upplýs- ingum sem safnað var frá 11.914 einstaklingum yfir tuttugu ára tímabil. Þátttakendur voru tvítugir og eldri er rannsóknin hófst á ára- bilinu 1981-83, en á rannsóknar- tímabilinu létust 1.200 þátttakenda úr hjartasjúkdómum en 5.900 létust af öðrum ástæðum. Sýndi rannsóknin að 30-31% meiri líkur voru á að þeir sem ekki neyttu áfengis fengju hjartasjúk- dóma væru þeir bornir saman við þá sem neyttu áfengis innan áður- greindra marka. Með því hins veg- ar að hreyfa sig reglulega og neyta hollrar fæðu gátu þeir dregið úr áhættunni. Grønbæk telur þó dönsku mann- eldisnefndina ekki þurfa að breyta auglýsingaherferð sinni. „Það væri peningaeyðsla að fara að segja Dönum frá kostum áfengis þegar sá hluti þeirra sem ekki neytir þess er hverfandi lítill.“ Vínglas og hreyfing stuðla að lengra lífi Reuters Heilsa Eitt vínglas á dag og hreyfing dregur úr líkum á hjartasjúkdómum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.