Morgunblaðið - 30.10.1979, Qupperneq 30

Morgunblaðið - 30.10.1979, Qupperneq 30
38 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 30. OKTÓBER 1979 lill" \\Wr' 11111"' 11111'"' lllll",,r IIIIIH1"" IIIHI"" llll' ...Illltí ..lllilíll .„lllllll .dlÆnlllll .i itlllljl .iHllllll „.miill! Ingibjörg Björnsdóttir deildarstjóri: Alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur Drykkjusýki eða alkóhólismi er sjúkdómur, sem stigversnar og leiðir til dauða, sé þróun hans ekki stöðvuð. Komist sjúkdóm- urinn á skrið, hefst sorgarleikur með þátttöku allrar fjölskyldu þess, sem drekkur. Alkóhólismi hefur því verið nefndur fjöl- skyldusjúkdómur og það með nokkrum rétti, eins og síðar verður sýnt fram á. Komi áfeng- isvandamál fram innan fjöl- skyldu, bregzt hún öll við á þann hátt, sem hverjum og einum er eðlilegastur í ljósi reynslu sinn- ar og þroska, að ógleymdri þeirri þekkingu, sem fyrir hendi er á sjúkdómnum. Öll þau viðbrögð, sem hér verða dregin fram, eru eðlileg, mannleg viðbrögð við aðstæðum, sem fólki eru ofviða. Þá er og ástæða til að taka fram, að alkóhólismi er lúmskur sjúk- dómur, sem þróast hægt í byrj- un. Það má segja að hann læðist aftan að fjölskyldunni, og þegar hann er kominn á gólf, villir hann iðulega á sér heimildir lengi framan af. Fjölskyldan veit sjaldnast að hún er að takast á við sjúkdóm, þótt það geti hvarflað að henni á stundum. Það er þó augljóst að verið er að bregðast við drykkju, sem komin er úr hófi. Beinast liggur við að álykta — og það gerir fjölskyld- an — að vandinn, sem verið er að glíma við, sé að koma drykkj- unni í hóf, og út á það gengur glíman — að stjórna drykkjunni. Viðbrögðin beinast síðan að þessu verkefni samfara því að laga sig að þeim aðstæðum, sem þessi árangurslausa barátta kallar fram. Hér verður gerð tilraun til þess að lýsa þeim vanda, sem vímuáþjáð fjölskylda horfist í augu við. Vímugjafinn er áfengið og þrátt fyrir það að orka fjölskyldunnar fari í það að koma stjórn á áfengið, hefur áfengið tekið við stjórninni á heimilinu. Við skulum hugsa okkur að faðirinn sé alkóhólistinn í fjöl- skyldunni, því það að taka kven- alkóhólistann með verður of langt mál. Hvernig er að vera barn í þessari fjölskyldu? Hér verður gerð tilraun til þess að lýsa því, en jafnframt viður- kennt, að lýsingin verður frá sjónarhorni áhorfanda en ekki barnsins sjálfs. Lítum fyrst á föðurinn. Hversu vel getur virk- ur alkóhólisti gegnt föðurhlut- verki sínu? Á fyrri stigum sjúk- dómsins, meðan neyzlunni er stjórnað að einhverju marki, getur hann haldið sér frá áfengi meðan hann sinnir vinnu sinni og eins ef mikið er í húfi. Þannig felur hann sjúkdóminn fyrir öllum og kemur inn þeirri hug- mynd hjá heimilisfólkinu, að hann geti stjórnað áfenginu, þegar hann vill. Þessi blekking á síðar eftir að verða fjölskyldunni örlagarík og loka augum hennar fyrir því, að þróast hefur aukið þol fyrir vímugjafanum samfara fíkn, sem bæði er sálræn og líkamleg. Fíknin eykst í kjölfar hvers drykkjutímabils, sem kemur fram í síaukinni þörf fyrir meira magn til að kalla fram þá líðan, sem sótzt er eftir. Þegar þessi þróun er einu sinni komin í gang, mun hann drekka án tillits til afleiðinganna fyrir fjölskylduna, heilsuna og starfið. Hann er sljór fyrir því að drykkjan aftrar honum frá því að ná þeim markmiðum sem hann setti sér í lífinu. Þrátt fyrir að afleiðingarnar leiði til þess að hann þverbrjóti flest það, sem hann veit bezt og réttast, þar sem hann getur ekki horfzt í augu við lífið án áfengis, kémur hann sér upp kerfisbundnum vörnum, sem birtast í afsökun- um og réttlætingu, því að skella skuldinni á aðra og skjóta sér undan því að viðurkenna fíkn sína. Áhrif alkóhólisma á barnið í fjölskyldunni koma að hluta til beint frá alkóhólistanum, en einnig frá móðurinni og siðan frá andrúmsloftinu á heimilinu. Samfara þróun sjúkdómsins fækkar þeim tilvikun, sem fjöl- skyldan gerir eitthvað í samein- ingu. Fordómar valda þessari fjölskyldu ríkulegri skammar- tilfinningu, hún dregur sig smám saman inn í einangrun heimilisveggjanna og þar dregst hver og einn hægt inn í eigin skel. Viðbúið er að foreldrum gangi illa að sameinast um uppeldi barnanna. Barnið þarfnast beggja foreldranna til að læra hinar óskráðu reglur samfélags- ins. En þar sem alkóhólistinn á það til að virða ekki þessar reglur, getur hann ekki verið góður kennari né fordæmi. Ör- yggisleysi hans, eigingirni, óþolinmæði og óáreiðanleiki ger- ir hann ófæran um að halda uppi samkvæmni í aga. Um uppeldið geta staðið stöðugar deilur og átök, þannig að barnið veit harla lítið hvers er vænzt a því. Barnið kann að saka sjálft sig um þessar deilur foreldranna auk drykkjutúranna, sem fylgja þeim. Barnið dregur síðan þá ályktun, að eitthvað af göllum i fari þess sjálfs setji drykkjuna af stað og valdi ógæfunni á heimilinu. Þannig getur barnið orðið blórabelgur og refsað sjálfu sér á miskunnarlausan hátt. Þá getur það og gerzt, að barnið neyðist til að taka af- stöðu með öðru foreldranna gegn hinu, sem endar með algjöru virðingarleysi gagnvart báðum. Reiðin er tilfinning, sem gerir sig smátt og smátt heimakomna á heimilinu. Reiði foreldranna hvors til annars bitnar oft stjórnlaust á saklausu barninu, sem kann ekki að verjast henni né heldur kann það að fá eðlilega útrás fyrir þá reiði, sem vaknar með því sjálfu. Reiði foreldranna hvors til annars getur orðið til þess að öðru þeirra fer að verða óeðlilega annt um barnið. Það þarf ekki að vera til marks um svo mikla væntumþykju, heldur gert í þeim tilgangi að vinna barnið á sitt band og særa hitt foreldrið. Þegar faðirinn finnur fyrir minnkaðri karlmennsku, birtist ráðaleysi hans oft í ruddaskap, sem snýst gegn einum eða fleir- um í fjölskyldunni. Hjálparvana barnið elur með sér reiði til föðurins, jafnvel hatur og hefnd- arhugmyndir, sem síðar vekja sektarkennd og ótta við að veita þessum tilfinningum útrás. Þetta tilfinningaástand getur orðið varanlegt með barninu og valdið lífstíðarvandamáli í sam- skiptum þess við annað fólk. Barnið, sem móðirin fær á band með sér, getur orðið óeðlilega háð henni og um leið orðið skotspónn fyrir sjúklega af- brýðisemi alkóhólistans og reiði, þar eð konan sýnir barninu meiri ástúð og sinnir því meira en honum. Þá getur svo farið, að barnið gefist upp fyrir þessari látlausu togstreitu og snúist gegn báðum foreldrunum. Því kann jafnvel að finnast, að móðurinni sé um að kenna drykkja föðurins og það hafnar þeim báðum og myndast við að sýna yfirborðslegt sjálfstæði. I áfengisvímunni gefur alkó- hólistinn börnum sínum oft rausnarleg loforð, sem hann er ófær um að standa við en slíkt leiðir af sér tíð vonbrigði. Þessi reynsla getur orðið að djúpstæðu vantrausti í sálarlífi barnsins og haft skaðleg áhrif á náin sam- skipti þess við annað fólk um langa framtíð. Þegar börnin verða vör við fordóma samfélagsins gagnvart alkóhólisma, getur þeim fundist að þau séu frábrugðin öðrum börnum, þau draga sig þá útúr hópnum, einangrast og skamm- ast sín. Þessi einangrun styrkir enn frekar ranga sjálfsímynd þeirra og staðfestir hugmyndir þeirra um það, að þau séu án allra verðleika. Viðbrögð þeirra geta eins orðið þau að leiðast inn í félagsskap „klíkunnar", sem á um sárt að binda eins og þau, og berast þannig í auðnuleysi sínu út á vafasamar brautir. Tjáskipti í þessari fjölskyldu verða nokkuð með sínu lagi. Tilfinningarnar, sem knýja á um útrás, eru reiði, sárindi, gremja, kvíði, ótti, áhyggjur og sektar- kennd. Þessar tilfinningar vill fjölskyldan þó sízt tjá sig um eða viðurkenna að séu til staðar. Þær eru þó það sterkar, að þær komast út eftir krókaleiðum ef ekki beint í orðum. Þær koma fram í orðunum, sem ekki eru sögð, tóninum, þegar verið er að ræða hversdagslega hluti, augnaráðinu, fasinu, orðavalinu. Þessi fjölskylda tjáir tilfinn- ingar sínar þó það sé gert á óbeinan hátt og boðin komast til skila með ótrúlega mikilli ná- kvæmni. Karlsímyndin, sem drengur- inn í fjölskyldunni hefur að fyrirmynd, er yfirleitt mjög af- skræmd. Sumir alkóhólistar hvetja til andfélagslegrar breytni hjá börnum sínum með- an þeir drekka og refsa þeim síðan fyrir það, þegar af þeim rennur. Slíkt gerir barninu erfitt fyrir að koma sér upp samræmd- um viðmiðunum til að breyta samkvæmt. Kröfur alkóhólist- ans geta verið óútreiknanlegar og mótsagnarkenndar og gera fjölskylduna ráðvillta. Á stund- um er börnunum gert að axla ábyrgð umfram aldur og þroska og í annan tima reyna þau vantraust og ofverndun. Alkóhólistinn þarf að fá sjúk- legum þörfum sínum fullnægt og hann fær fjölskylduna til að sinna því með hljóðri hótun um að sé óskum hans ekki sinnt, muni hann detta í þaö ella. Viðbrögð fjölskyldunnar eru undirgefni, sem virðist vera henni eðlileg, en undirniðri ólgar reiðin. Hefndarhugmyndir og sjálfsvorkunn togast á í hugan- um. Oréttlæti alvarlegrar refs- ingar, sem barnið verður stund- um að sæta fyrir minniháttar misgjörðir, er í ósamræmi við öfgafullt tal og ógeðfellda hegð- un og ábyrgðarleysi föðurins, þegar hann er drukkinn, og hann kemst upp með það óhegnt. Reynslan af því að maður er ekki ábyrgur gerða sinna undir áhrif- um áfengis, getur greypzt í barnið með þeim afleiðingum að það síðar á ævinni freistist til að hagnýta sér þessi brögð. Dóttirin í fjölskyldunni getur átt sín sérstæðu vandamál. Það eru síður líkur á því að hún verði skotspónn fyrir fjandsamlegar tilfinningar föðurins. Líklegra er, að hún verði sú, sem hann laðast að, að það sé hún, sem standi með honum á móti móð- urinni. Hún er engu að síður háð móður sinni og því getur sekt hennar gagnvart' móðurinni valdið henni erfiðleikum. Sé hún stuðningsmaður föðurins er við- búið að hún sé sú eina, sem getur haft áhrif á hann. Það er því vísast að hún axli þyngsta ábyrgð á föðurnum í hvert sinn, sem hann drekkur. Hverju drykkjutímabili fylgir tilfinning um að hann hafni henni. „Ef honum þætti vænt um mig,“ hugsar hún „þá myndi hann ekki drekka." Hún á á hættu að rugla saman ölvun og karlmannlegu sjálfstæði, þar eð hann skýrir drykkju sína sem uppreisn gegn móðurinni. Hugmyndir sem þessar geta haft áhrif á makaval hennar og það, hvernig hún á eftir að fara sjálf með vín. Ekki er hægt að skiljast svo við þessa fjölskyldu, að ekki sé minnst eitthvað á móðurina og eiginkonuna. Hinar vonlausu til- raunir fjölskyldunnar til að stjórna drykkjunni birtast í því að fela og ljúga til um hversu drykkjan er alvarleg. Þetta fell- ur oftast mest í hlut eiginkon- unnar. Hún felur fyrir honum peninga heimilisins, neitar hon- um um kynlíf, vandar um við hann, hótar, fjarlægir áfengis- birðir og hellir þeim niður, kallar á lögregluna, leggur hann inn á sjúkrahús, fer frá honum, skilur við hann. Því óvirkari þátttakandi sem eiginmaðurinn verður í fjölskyldulífinu, þeim mun meir tekur hann að sér hlutverk uppreisnar- og óknytta- barns. Þegar það gerist, tekur eiginkonan að sér hlutverk beggja foreldranna og verður í senn móðir og faðir barnanna, sem um leið fjölgar um eitt. Hún er í senn áhyggjufull, kvíðin, sár og reið og finnur auk þess til sektarkenndar og einmanaleika. Hún grípur þá jafnvel til þess ráðs að ráðast að þeim, sem við drykkjuvandann stríða, eða að börnunum og reynir að réttlæta hegðun sína um leið og hún finnur til sketarkenndar vegna þess, sem hún gerði. Hún reynir eitt af því sársaukafyllsta og um leið tilgangslausasta af öllu, að ásaka hinn aðilann, en finnast um leið hún vera sek um drykkju hans. Það er mikið álag á þessari konu og þar sem hún er viðkvæm fyrir líkamlega, koma fram sjúkleg einkenni. Þá kemur að því að hún spyr sjálfa sig: „Er ég að missa vitið?" Líti hún framan í mann sinn, er hún lifandi hryggðarmynd þess vandamáls sem sjúkdómur hans hefur skap- að henni. Örvæntingarfull, ráð- villt og hjálparvana bregst hún við vandanum á þann hátt að stuðla að eigin niðurlotum. Margar gefast upp og yfirgefa alkóhólistann. Aðrar verða áfram við hlið hans og taka á sig áföll á áföll ofan, þar eð þær líta á hann sem sjúkan mann, sem þær geta ekki yfirgefið. Enn aðrar sætta sig við hjónaband með þessum einkennum, enda þótt það sé of erfitt á stundum. Þær njóta verðleika sinna í sambúð, þar sem þær finna, að þeirra er þörf og njóta þess jafnvel að hafa einhvern háðan sér. Framlag eiginkonu til vandamáls fjölskyldunnar getur orðið meira en alkóhólistans enda þótt vandræðin, sem hann skapar séu mun augljósari. Ómeðvitað getur hún viðhaldið óbreyttu ástandi þrátt fyrir all- ar tilraunir, sem hún leynt og ljóst gerir, til lausnar vandan- um. Vímuáþjáð fjölskylda er fjötr- uð af öflum, sem hún eyðir mestallri orku sinni til að styrkja, þvert ofan í öll áform um að leysa áfengisvandamál föðurins — eiginmannsins —, en vandamálið ágerist þó stöðugt. Hún er hjálparþurfi og hjálp er að fá. Hver sem er í fjölskyld- unni getur stigið fyrsta skrefið í átt til bata, en allir bíða eftir því að alkóhólistinn geri það og biðin getur orðið býsna löng. Ef aðeins móðirin og börnin vissu, að þau geta leitað sér hjálpar og hafið raunhæfar aðgerðir til lausnar vandanum, þá gæti sorg- arleikur þessi heyrt fortíðinni til í nánustu framtíð. Ingibjörg Björnsdóttir deildarstjóri áfengis- varnadeiídar Heilsu- verndarstöðvar Reykjavíkur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.