Morgunblaðið - 09.01.1982, Qupperneq 9
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 9. JANÚAR 1982
Bókmenntir
Guömundur Heiöar
Frímannsson
Eitt er það áhyggjuefni, sem
flestir, ef ekki allir stjórnmála-
menn hafa. Það eru eftirmælin,
sem þeir hljóta, þegar þeir hafa
lokið starfsdegi sínum. Þetta er að
vísu ekki hlutur, sem þeir flíka eða
fleipra um, en það er nánast
óbrigðult, hefur mér virzt, að sú
mælistika, sem þeir taka mest
mark á, þegar öllu er á botninn
hvolft, er, hvernig verkin og
ákvarðanirnar muni líta út í aug-
um þeirra, sem á eftir koma. Þetta
er sérkennilegt, vegna þess að
eðlilegasta viðmiðunin virðist
vera, hver sé skynsamlegasti kost-
urinn í hverju máli. Síðan má
deila um það, hvað átt sé við með
orðinu „skynsamlegur". Er sá
kostur skynsamlegastur, sem leið-
ir til sem mestra hagsbóta fyrir
sem flesta? Sá, sem er réttlátast-
ur? Eða einhver enn annar. Hér
verður ekki gerð tilraun til að
rökstyðja einhvern tiltekinn skiln-
ing á „skynsamlegur", en einungis
þess getið, að það ætti að vera
skynsamlegasti kosturinn í hverju
máli, sem ætti að virðast beztur í
augum framtíðarinnar. En af ein-
hverjum ástæðum eru stjórnmála-
menn ekki vissir um það og hugsa
fremur um eftirmæíin en æski-
legustu leiðina hverju sinni. Að
sjálfsögðu er þetta ekki orðað með
þessum hætti opinberlega og auð-
vitað hljóta að liggja blendnar
hvatir til flestra verka. Kostirnir
eru oftast ekki góður og slæmur,
heldur eitthvað þar í milli. Svo
virðist, sem Ólafur Thors hafi lítið
þjáðst af ótta við eftirmæli sín og
leitazt við að finna og framkvæma
skynsamlegasta kostinn í hverjum
aðstæðum, og látið slag standa
með álit eftirkomendanna, enda
hefur hann nú hlotið verðug eftir-
mæli í ritverki Matthíasar Jo-
hannessen: Ólafur Thors: Ævi og
störf, sem út kom hjá Almenna
bókafélaginu nú á haustdögum.
Þetta ritverk er í tveimur bind-
um og losar níu hundruð síður í'
stóru broti. Þar er saman dregið
gífurlegt magn upplýsinga og tek-
ur mikinn tíma að komast yfir
þessar tvær bækur og enn meiri að
meta gildi upplýsinganna og þær
niðurstöður, sem höfundur kemst
að. Ég ætla mér ekki þá dul að
vera fær um það á þessari stundu,
en vil einungis rekja fáeinar hug-
renningar við fyrsta lestur þessa
ritverks. Það ber því ekki að skilja
þessi orð sem endanlegt mat mitt
á bókinni, því að ég vona, að þetta
verði ekki í síðasta skipti, sem ég
les hana.
Það er rétt að geta eins um
þessa bók strax. Hún er vel samin.
Það er hverjum manni áreynslu-
laust að lesa hana, og hún er svo
haganlega saman sett, að hún
verður á köflum spennandi. Ég
hefði ekki trúað því að óreyndu, að
þetta myndi henda mig við lestur
á ævisögu stjórnmálamanns, þar
sem langmest er fjallað um störf
hans á opinberum vettvangi og
ekki reynt að skyggnast inn í
einkalíf hans. Kannski er það
Ólafs Thors
vegna þess, að allt, sem menn gera
vel, glæðist lífi og verður forvitni-
legt.
Ólafur Thors fæddist árið 1892
og lézt á gamlársdag 1964. Sá tími,
sem hann lifði, telst vera helzta
breytinga- og framfaraskeið í
sögu þjóðarinnar. Þjóðin hverfur
endanlega frá þeim búskaparhátt-
um, sem hér höfðu tíðkazt um ald-
ir, hér myndast bæir, útgerð eflist
og komið er á fót iðnaði. Hér verð-
ur til á ótrúlega skömmum tíma
flókið, iðnvætt samfélag. ísland
verður sjálfstætt riki og síðan lýð-
veldi. Sú flokkaskipan, sem nú rík-
ir í landinu, kemst á um það leyti,
sem Ólafur hefur afskipti sín af
stjórnmálum. Á þessum tíma
ganga þær tvær plágur yfir heim-
inn, sem hvað verst hafa leikið
hann: heimsstyrjaldirnar tvær. Og
á milli þeirra lék kreppan lands-
menn grátt, rétt eins og aðra íbúa
Vesturlanda. Hún hafði mikil
áhrif á stjórnmálamenn, sem og
aðra, og er ein meginástæða þess,
að eftir seinni heimsstyrjöldina og
fram á þennan dag hefur verið al-
mennt samkomulag um megin-
markmið í efnahagsmálum þjóð-
arinnar, hvort sem kreppan telst
vera gild röksemd fyrir þessu
samkomulagi eða ekki. Staðreynd-
in er sú, að hún hafði þessi áhrif,
með réttu eða röngu. Breytingarn-
ar, sem verða á íslenzku þjóðfélagi
á þessum tíma, eru ekki einungis
yfirborðsbreytingar, heldur rista
þær mjög djúpt.
Ólafur Thors er einn þeirra
manna á Islandi, sem á þátt í þess-
um breytingum, stuðlar að því, að
atvinnulífið taki stakkaskiptum,
ný atvinnutækifæri skapist. Thor
Jensen, faðir Ólafs, stofnar fyrir-
tækið Kveldúlf, sem verður
stærsta fyrirtæki í landinu í út-
gerð á fyrri hluta þessarar aldar
og veitti mönnum vinnu hundruð-
um og þúsundum saman víðs veg-
ar um landið. Ólafur og bræður
hans keyptu hlut föður síns í
Kveldúlfi, en hann sneri sér að
landbúnaði með góðum árangri.
Nokkru síðar tekur erfiðleika að
gæta í rekstri Kveldúlfs, og and-
stæðingar Ólafs í stjórnmálum
hefja mikla sókn gegn fyrirtækinu
og honum og ætla sér bersýnilega
að knésétja hann, en tekst ekki.
Að stjórnmálum frátöldum, var
Kveldúlfur helzta áhyggjuefni
Ólafs alla tíð. í stjórnmálum hafði
hann helzt áhuga á uppbyggingu
atvinnulífsins og fylgdi heils hug-
ar þeirri stefnu flokks síns að
skapa þau skilyrði í samfélaginu,
að einstaklingar gætu ávaxtað fé
sitt og rekið fyrirtæki sín stór-
vandræðalaust af hálfu ríkisvalds-
ins. Hann varð hins vegar oft á
sínum ferli að láta af kröfum sín-
um um frelsi einstaklinga til at-
vinnurekstrar og um niðurfellingu
hafta af ýmsu tagi til að ná fram
þeim markmiðum, sem hann taldi
æskileg í uppbyggingu atvinnu-
lífsins. Þetta er raunar eitt ein-
kenni Nýsköpunarstjórnarinnar.
Þótt Ólafur hafi fyrst og fremst
haft áhuga á atvinnulífinu, þá
voru það fleiri hlutir, sem hann
fékkst við í stjórnmálum. Hann
vann að utanríkismálum og var
einn aðalmaðurinn í að skipu-
leggja útfærslu landhelginnar.
Olafur Thors
Auk þess hefur hann verið meist-
ari í stjórnarmyndunarviðræðum.
Það blasir við af öllu því, sem eftir
honum er haft í þessu verki um
það efni. Þar kom honum kannski
í beztar þarfir það persónuein-
kenni hans að vera hreinskiptinn,
segja fremur það, sem honum bjó í
brjósti en beita undirhyggju. En
ef marka má þessa bók, þá er það
ein meginástæða þess, að sumum
foringjum Framsóknarflokksins
lánaðist illa að rækja hlutverk sitt
og misstu þar með tökin á flokki
sínum. Hann hefur líka haft mjög
glöggan skilning á andstæðingum
sínum, hvað fyrir þeim vakti og
hvað mátti bjóða þeim. Hann hef-
ur einnig áttað sig vel á, hvað
hægt var að sannfæra þjóð sína
um og eigin flokk og hvað ekki.
Eitt persónueinkenni Ólafs er
ónefnt, en hefur eflaust valdið
miklu um vinsældir hans sem leið-
toga Sjálfstæðisflokksins og leið-
toga þjóðarinnar. Það er gaman-
semin, þessi „glitrandi glettni",
eins og Matthías orðar það. Eitt
sinn þegar Ólafur er að gera grein
fyrir stjórnarmyndunarviðræðum
1950, hefur hann orð á hugmynd,
sem sameinar í senn gamansemi
hans og hugvitssemi í slíkum við-
ræðum. Það kann að vera að sum-
um finnist hugmyndin fáránleg í
fyrstunni, en það er mun meira vit
í henni, en virðist á yfirborðinu.
„Ólafur getur þess, að sjálfstæð-
ismenn hafi gripið til þess ráðs að
spyrja framsóknarmenn, hvort
þeir ættu ekki ... að reyna að
mynda samstjórn þessara tveggja
flokka án málefnasamnings. „Eg
er nú eiginlega ekki eins fjarri því
og sumir aðrir, að þannig eigi
stjórnarmyndanir að vera (þ.e. án
málefnasamninga). Þessir eilífu
málefnasamningar, þar sem hver
flokksbjálfi og heimspekingur í
flokknum hleður upp metralöng-
um tillögum til þess að gera landið
stjórnlaust sem allra lengst og
þjóðinni sem mesta bölvun ... eru
ekki eftirsóknarverðir. Ég er eig-
inlega með því að kveða þessa
karla í kútinn og mynda stjórnir
án langra málefnasamninga."" (II
bls. 140)
Þessi hugmynd, svo snjöll og
sniðug sem hún er, sýnir líka þá
hlið Ólafs, þar sem hann var ekki
eins sterkur og annars staðar,
þegar til lengri tíma er litið. Ólaf-
ur var stjórnmálamaður af þeirri
tegund, sem á erlendum tungum
nefnist „pragmatist". Hann lét
vandamálin á hverjum tíma og
þau hyggindi, sem í hag koma,
ráða ákvörðunum sínum, fremur
en ófrávíkjanlegar reglur, sem
byggjast á flokkssamþykktum eða
hugsjónum. Nú er þetta í rauninni
ekki löstur á Ólafi fremur en öðr-
um stjórnmálamönnum, því að
flest af því, sem þeir verða að
gera, byggist á því, að þeir séu
úrræðagóðir í hverju máli, en
hugleiði ekki ævinlega, hvort þeir
fari að vilja flokksins. En ef úr-
ræðasnilli er það eina, sem stjórn-
málamaður hefur til að bera, þá
kann svo að fara, að hann standi
sjálfan sig að því einn góðan veð-
urdag að framkvæma hluti, sem
hann getur með engu móti talið
réttlætanlega, og þá er ekki nóg að
hafa einungis við óglöggan skiln-
ing á siðgæðisvitundinni að styðj-
ast. Þá verður að hafa vandaðar
stefnuskrár, skipulega könnun á
því, hvaða úrræði koma bezt heim
og saman við þær almennu hug-
sjónir, sem stofnun eins og stjórn-
málaflokkur byggir starf sitt á. Þá
geta mannvitsbrekkurnar, sem
fyrirfinnast í stjórnmálum, komið
í góðar þarfir. Það ber þó ævinlega
að hafa hugfast, að stjórnmál eru
list hins mögulega. Ef menn
kunna hana, eins og Ólafur Thors
bersýnilega gerði, og gleyma ekki
hugsjónum sínum, eins og Ólafur
gerði ekki, þá geta þeir orðið
stjórnvitringar. Þá trúir maður
því, að þeir hafi komið því til leið-
ar, sem mögulegt var. Meira getur
ekki nokkur maður krafizt.
Það hefur stundum hvarflað að
mér við þennan lestur, að Matthí-
as hefði oft mátt vera aðgangs-
harðari við Ólaf, leitast, meir en
hann gerir, við að meta hvort and-
stæðingar Ólafs höfðu meira til
síns máls en hann vildi vera láta.
Með orðum orðum: Matthías hefði
átt að taka minna mark á orðum
Ólafs sjálfs en hann gerir. En þá
hefði bókin líka orðið öðruvísi,
annars konar bók, ekki ævisaga.
Og það er ósanngirni við höfund
að krefjast þess, að hann hefði átt
að skrifa aðra bók en hann gerði,
sérstaklega þegar sú bók, sem
hann hefur skrifað, er jafn góð og
raun ber vitni. Hafi það farið á
milli mála, að Ólafur Thors var
einhver mikilhæfasti stjórnmála-
foringi aldarinnar, þá þarf enginn
að efast um það lengur.
Háteigssókn:
Samkoma fyrir aldraða
Á MORGUN, sunnudag 10. janúar
kl. 3 e.h., heldur Kvenfélag Há-
teigssóknar skemmtun fyrir aldraða
í Háteigssókn í veitingasal Domus
Medica við Egilsgötu.
Samkoma fyrir aldraða er orðin
viðtekin venja í starfsemi Kvenfé-
lags Háteigssóknar í upphafi árs
og hafa margir notið þessara
skemmtana i ríkum mæli. Eins og
jafnan áður hafa kvenfélagskon-
urnar vandað mjög til við undir-
búning og verður nú margt til
dægrastyttingar og ánægju. Her-
dís Egilsdóttir les upp, Stefán
Ágúst Kristjánsson flytur frá-
sögn, Hólmfríður Sigurðardóttir
leikur á píanó og Rannveig Sig-
urðardóttir syngur við undirleik
Hólmfríðar. Að vanda verður svo
boðið upp á kaffi og ríkulegt með-
læti.
Ég vil hvetja allt eldra fólk í
sókninni til þess að koma og eiga
stund saman og njóta þess, sem
fram verður borið. Kvenfélag Há-
teigssóknar tekur fagnandi á móti
ykkur. Verið velkomin og Guði fal-
in.
Tómas Sveinsson,
sóknarprestur.
„Ég lagði minn vinning nú bara
inn á vaxtaaukareikning
/ / -V • / v / ■ ■ -V- ■ /
Nú á ég góðan varasjóð ef eitthvað kemur upp á ”
Vinningshafi íHHÍ
I
HAPPDRÆTTI
HÁSKÓLA ÍSLANDS
hefur vinninginn