Morgunblaðið - 07.06.1983, Blaðsíða 35

Morgunblaðið - 07.06.1983, Blaðsíða 35
MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 7. JÚNÍ 1983 35 síðar varð og samkvæmt þeim tíð- aranda varð skólaganga Kristins ekki löng. Þrátt fyrir það tel ég að ekki séu margir í dag, sem eru jafn upplýstir, fróðir og víðlesnir og Kristinn var, því á hverri stundu lífs síns var hann að auka fróðleik sinn, og því til sönnunar eru hinar mörgu ágætu bækur er hann átti og lét ekki ólesnar. Þegar ég var unglingur fylgdist ég dálítið með bridgespila- mennsku, og má segja að á því tímabili hafi sú íþrótt staðið með miklum blóma hér á landi, og fylgdist ég þá með hverjir voru bestu spilarar hér. Frá þeim tíma eru mér minnisstæðar bridge- sveitir er báru nöfn þeirra Lárus- ar Karlssonar og Gunngeirs Péturssonar, og held ég að bridge-spilamennska hafi aldrei risið hærra hér á landi en þá. Kristinn var þá einn af bestu bridge-spilurum landsins, er báru hróður hinna erfiðu andlegu íþróttar hátt hér á landi og er- lendis. Um þessar mundir rak Kristinn leigubifreiðastöð hér í borg, og var hann þá oftast kennd- ur við hana og kallaður „Bói á Litla-bíl“. Skömmu síðar haslaði Kristinn sér völl á við- skiptasviðinu. Að sjálfsögðu gekk það vel, öllum þeim er hafa frjáls- ar hendur til athafna og búa yfir hæfileikum Kristins vegnar vel. Það var sama hvað Kristinn tók sér fyrir hendur, alls staðar stóð hann meðal þeirra fremstu. Má nefna að hann stundaði fram und- ir það síðasta golfíþróttina, er hann náði mjög góðum árangri í. Eitt af því er Kristni var gefið í vöggugjöf var góð söngrödd, er hann fór með af fegurð og hlýhug, þannig að enginn komst hjá að ljá henni eyra. Sem betur fer er hún varðveitt á hljómplötu. Eins og ég hef rakið hér að framan var alveg sama hvað Kristinn tók sér fyrir hendur, hvort það var í íþróttum, menn- ingarlífi eða athafnalífi, ávallt var hann meðal hinna fremstu. Vegna hinnar miklu athafna- semi sinnar átti hann kost á að reisa fallegt heimili að Bjarma- landi 1 í Reykjavík. Það er eitt hið fallegasta heimili hér á landi er ég hef komið í, skreytt fögrum list- munum, ásamt hinum bestu bók- um er hafa verið gefnar út á þess- ari öld, og e.t.v. mætti leita lengra aftur. Við Kristinn heitinn áttum óteljandi stefnumót: á vinnustöð- um, á kaffihúsum, heimahúsum og allsstaðar þar sem mannleg sam- skipti ber saman. Við ræddum þá allt milli himins og jarðar, pólitík, menningu, íþróttir, veðrið og er alveg ómögulegt að telja allt er á milli okkar fór. Ekki vorum við alltaf sammála, og var stundum talað hátt og leit þá æði oft út fyrir að þau ósköp gætu endað með vinslitum en þegar ágreining- urinn var kominn á þetta stig, þá varð hann til að treysta vináttu- böndin enn meir. Á útmánuðum 1982 sagði Krist- inn heitinn mér, að hann væri ekki frískur. Hann sagði ennfremur að hann hefði ávallt notið góðrar heilsu, en líklegast væri um um- gangspest að ræða. Ég var felmtri sleginn er hann hringdi til mín frá Borgarspítalanum á hörpu 1982, og sagði mér að umgangspestin væri alvarlegur 'sjúkdómur, en hann var lagður inn á vetrardag- inn síðasta 1982. En hinn mikli vilji og kraftur Kristins reif hann upp, þannig að hann virtist heill heilsu er vinir hans og aðrir sam- fögnuðu honum sextugum 6. júlí sl. Síðar átti Kristinn eftir að stafesta mér þetta er við á Þor- láksmessudag síðastliðinn sátum í skötuveislu, en það höfum við gjört undanfarin ár. Þá var mín trú sú, að Kristinn hefði yfirbugað sín veikindi. Kristinn heitinn stóð allt af sér, gafst aldrei upp. Föstudaginn 27. maí 1983 spurði ég eftir Kristni og var svarað að hann væri mikið veikur. Er mér var sögð andlátsfregn Kristins skömmu síðar, þá skapaðist tóma- rúm hjá mér — því aldrei fyrr hafði ég haft meiri þörf fyrir að leita til Kristins en þá. Að lokum vottum við hjónin konu Kristins heitins, börnum og systkinum hans samúð okkar. Megi góður Guð vera sálu hans líknsamlegur, og með þeirri ósk kveð ég góðan vin. Hvíl í Guðsfriði. Hrólfur Halldórsson Með döprum huga og söknuði skrifa ég nokkrar línur um góðan dreng og vin minn, sem aðstoðaði mig oft í erfiðleikum mínum. Sjálfur barðist hann hetjubaráttu á ógleymanlegan hátt í langan tíma, þar til yfir lauk. Æðri mátt- arvöld stjórna og ráða að lokum. Kristinn Bergþórsson fæddist á Ölvaldsstöðum í Borgarfirði, son- ur hjónanna Ásgerðar Þorvarð- ardóttur Skjaldberg og Bergþórs H. Bergþórssonar bónda þar. ólst hann þar upp ásamt systkinum sínum, en þau voru alls sjö, fjórir piltar og þrjár stúlkur, en einn bróðirinn dó ungur að árum. Kristinn minntist oft á sveit sína og uppeldi, ætíð með hlýhug. Fjölskyldan fluttist til Reykjavík- ur eftir 1940. Til að byrja með vann Kristinn ýmis störf í borg- inni, þar á meðal við bifreiðaakst- ur og afgreiðslustörf í því sam- bandi. í stríðslok sneri hann sér að verzlunarviðskiptum og var i því starfi til æviloka. Farnaðist honum vel, því hann var bæði hag- sýnn og duglegur. Hann var að mestu leyti sjálfmenntaður, en mjög vel lesinn, má þar nefna Is- iendingasögurnar og flesta kunn- ustu skáldsagna- og ljóðahöfunda okkar. Ef hann var spurður um eitthvað úr þessum verkum, hafði hann oftast svar á reiðum hönd- um. Listelskur var hann, sá flestar leik- og málverkasýningar, átti sjálfur gott safn málverka, að ég nefni ekki tónleika, því hljómelsk- ur var hann. Sjálfur hafði hann góða söngrödd, söng meðal annars inn á plötu. Ég veit að margir listamenn eiga honum gott að gjalda. Bridgespilari var hann góður, var íslandsmeistari nokkr- um sinnum og spilakði með lands- liðinu erlendis. Um miðjan aldur byrjaði hann á golfíþróttinni og þótti mjög svo liðtækur í henni. Mikil og góð hreyfing fyrir kyrrsetumann. Ennfremur stund- aði hann laxveiði á hverju sumri. í fjölskyldulífinu voru skin og skúr- ir eins og gengur. Föður sinn missti hann fyrir allmörgum ár- um, ennfremur bróður sinn Nóa, en þeir voru mjög samrýndir. Með eiginkonu sinni, Aðalbjörgu Ás- geirsdóttur, sem hann dáði og gaf honum gott heimili, átti hann tvö elskuleg börn, sem bæði eru upp- komin og standa sig með prýði. Ég þakka forsjóninni fyrir að hafa kynnzt Kristni. Það er ósk mín og von að Almættið styrki aldraða móður, elskulega eigin- konu og gefi börnum hans gleði- lega og bjarta framtíð. Blessuð sé minning Kristins Bergþórssonar. Ólafur Markússon. Vinur minn, Kristinn Berg- þórsson er látinn, aðeins sextugur að aldri. Þegar komið er á þennan aldur hverfa vinir og samferða- menn örar úr hópnum en áður. Við brottför vinar sækja minningarn- ar á, og fram fer nokkurskonar kveðjuathöfn, þögul í innri vitund hvers og eins, er saknar vinar í stað. Við fráfall Kristins er mér þörf að tjá mig og set því nokkur kveðjuorð á blað. Ég ætla þó ekki að rekja uppruna eða æviferil Kristins, aðeins minnast manns- ins sjálfs. Áhugasvið Kristins voru mörg og margþætt, bæði í starfi og í leik. Það var á einu slíku sameiginlegu áhugasviði okkar. Kristins í leik, sem kynni okkar hófust, fyrir um það bil 13 árum, en það var á golfvellinum. Þannig vildi til, að í tilteknu golfmóti þurftum við að heyja 18 holu einvígi. Við Kristinn höfðum hvorki spilað golf saman áður né talað saman, og þekktumst því ekkert fyrir, en ástæðan til þess að ég get þessa atviks er sú, að með þessari fjögurra stunda sam- veru hófst með okkur góður kunn- ingsskapur, sem mjög fljótlega varð að einlægri vináttu. Enn- fremur urðu mér ljósir, þegar á þessum fyrstu samverustundum okkar, ýmsir eðlisþættir Kristins, sem ég hef ætíð metið mikils hjá hverjum manni. Þegar ég hugsa til þessara fyrstu kynna, kemur mér fyrst í hug baráttugleði Kristins. Hann var baráttumaður í þess orðs bestu merkingu. Hann átti sér ýmis markmið og hann stefndi ávallt vígreifur að settu marki, en kunni þó hóf á hlutunum. Allar leikreglur skyldu í heiðri hafðar. Baráttugleði hans í leik var slík að þótt hann að sjálfsögðu stefndi að sigri í þeim íþróttamótum sem hann tók þátt í, þá var það í sjálfu sér aukaatriði hjá honum, hvort hann sigraði eða ekki, aðalánægj- an lá í baráttunni sjálfri. Á yngri árum Kristins kom þessi baráttu- gleði vel fram í bridge-spili hans, en einbeitni hans og kjarkur gerðu hann að einum af bestu bridge- spilurum íslendinga um árabil, enda var hann í mörg ár í landsliði íslendinga í bridge. Kristinn var kominn á miðjan aldur, þegar hann tók að stunda golfíþróttina. Þar gilti það sama, þessir eigin- leikar einbeitingar og áræðis komu honum í fremstu röð golf- leikara, þótt mýkt unglingsáranna væri horfin. Kristinn minnti mig oft á ímynd fornra riddara, sem elduðu grátt silfur á daginn í anda réttra leikregla, það sem Englend- ingar kalla „fair play“, en sátu saman í vinafagnaði er kvöldaði. Ég hef talað dálítið um baráttu- gleði Kristins og er það ekki að ástæðulausu, því hún entist hon- um til síðasta dags og jók honum þrek í lokabaráttu hans, barátt- unni við dauðann, sem stóð á ann- að ár. Mér eru minnisstæð orð sem Kristinn sagði við mig fyrir um það bil einu ári, að lokinni fyrstu orrustu hans i lokabaráttunni, sem hann vissi þegar, að hann myndi tapa. Hann sagði: „Ég hef legið lágt tvo síðustu mánuði, Sveinn minn, en þú veist að ég er baráttumaður, og þó ég falli á annað knéð annað veifið, þá skal ég alltaf standa í báða fætur á meðan ég get.“ Hann stóð við það og þótt hann félli á annað kné í þeim orrustum sem hann háði síð- asta árið, mætti hann alltaf aftur glaður og æðrulaus til starfa og leiks, standandi í báða fætur. Jafnvel fáeinum dögum fyrir and- látið sagði hann þegar ég heim- sótti hann á sjúkrahúsið: „Heyrðu vinur, bæði læknirinn og ég héld- um að ég væri að fara í fyrra- kvöld." Slíks kjarkmennis með slíkt æðruleysi er gott að minnast. Kristinn sagði sjálfur fyrir ári síðan, að hann hefði verið hraust- ur alla ævi og lifað góðu lífi, og hefði því enga ástæðu til þess að æðrast, þótt eitthvað bjátaði á. Kristinn var haldinn óþrjótandi starfsorku og starfsgleði. Þessir eiginleikar hafa áreiðanlega átt stóran þátt í þeirri velgengni, sem hann naut í atvinnurekstri sínum. Starfsgleðin skapar orku og hún virtist óþrjótandi í Kristni, því auk þeirrar orku, sem hann hlaut að eyða í atvinnu sína til þess að ná þeim árangri, sem hann náði þar, virtist hann eiga nóg eftir til félagsstarfa á fjölmörgum sviðum. Ég ætla aðeins að minnast á einn þátt í félagsstörfum hans. Fyrir tíu árum gerðist Kristinn frímúr- ari. Starfið þar átti síðan allan huga hans eins og öll þau félags- störf, sem hann tók þátt í. Hann var boðinn og búinn til starfa hvenær sem til hans var kallað. Sumum, sem ekki þekktu Kristinn vel, hefur ef til vill þótt hann stundum hrjúfur í viðmóti, en við vinir hans vissum að sú skel var þunn og að undir bærðist við- kvæmt hjarta. Síst af öllu vildi hann særa nokkurn mann, enda veit ég að mörgum þótti gott að leita til hans, er erfiðleikar steðj- uðu að og ætíð var hann reiðubú- inn til þess að liðsinna þeim sem liðsinnis þurftu. Kristinn var listrænn og listelskur maður. Af listagyðjunum dýrkaði hann gyðju söngsins mest. Sönggleði hans var mikil og það í þrennum skilningi. Hann naut þess að hlusta á góðan söng. Hann naut þess að syngja sjálfur, enda góður söngmaður og síðast en ekki síst naut hann þess að gleðja aðra með söng sínum, hvort heldur einsöng eða samsöng með vinum sínum og félögum, sem margir voru í hópi bestu einsöngv- ara landsins. Nú er söngröddin þögnuð, en minningin lifir og meira en það, því svo er nokkrum vinum hans fyrir að þakka, að fyrir nokkrum mánuðum kom út hljómplata, þar sem Kristinn söng nokkur af þeim lögum sem honum þótti vænst um. Söngrödd Kristins getur því enn hljómað fyrir okkur. Kristinn bar mikla umhyggju fyrir fjölskyldu sinni og skóp henni fagurt heimili. Ég vil á þess- ari kveðjustund þakka þér, Lalla mín, fyrir þær ánægjustundir, sem við hjónin höfum átt með ykkur Kristni á liðnum árum. Ég bið þann sem heiminn skóp, að styrkja þig og ástvini þína alla á þeim erfiðu stundum, sem nú ganga yfir ykkur. Kristinn hvarf úr þessum heimi í dögun, á stundu upprennandi sól- ar í austri og á tíma hækkandi sólar á landi voru. Mér finnst það tákn um, að í dögun þann 29. maí hafi andi hans leitað nýs lífs í birtu austursins. Sveinn Finnsson. Þegar myrkur vetrarins var í óða önn að víkja fyrir hækkandi sól sumarsins, og ylur vorsins var að vinna bug á frera vetrarins, þá færðist skyndilega sorgarskuggi á himin okkar, og það var eins og vorylurinn vermdi ekki lengur þann andblæ sem um okkur lék. Að morgni sunnudagsins 29. maí sl. barst okkur sorgarfregnin. Kristinn Bergþósson, bróðir okkar og mágur, var látinn. Auðvitað vissum við að hann háði rétt eina harða baráttu fyrir SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.