Morgunblaðið - 02.02.1985, Blaðsíða 28
28
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 2. FEBRÚAR 1985
Pltrguji Útgefandi tiblíibib hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson.
Aóstoóarritstjóri Björn Bjarnason.
Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson, Árni Jörgensen.
Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Agúst Ingi Jónsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö-
alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Kringlan 1, sími 83033. Áskrift-
argjald 330 kr. á mánuöi innanlands. i lausasölu 25 kr. eintakiö.
Bandalag
jafnaðarmanna
Vinstri viðhorf hér á landi
eru sundurbrotnari eða
margbreytilegri en heildarfylgi
þeirra gefur tilefni til. Alþýðu-
flokkur og Alþýðubandalag hafa
ekki fullnægt sérpólitískum
viðhorfum eða flokkslegri þörf
tiltekinna hópa á vinstri væng
stjórnmálanna. Minna má á
flokka eins og Þjóðvarnarflokk,
sem hér bauð fram til þings
1953, 1956 og 1959, og fékk tvo
þingmenn kjörna í fyrsta fram-
boði sínu, en síðan ekki söguna
meir. Samtök frjálslyndra og
vinstri manna buðu síðan fram
1971,1974 og 1978; komust lengst
í 9% kjörfylgi og fimm manna
þingflokk, en lognuðust síðan út
af.
í síðustu þingkosningum, 1983,
komu enn fram tveir slíkir
flokkar, Bandalag jafnaðar-
manna og Samtök um kvenna-
lista. Báðir hafa þeir þó ný sér-
kenni, sem greina þá frá eldri
hliðstæðum.
Bandalag jafnaðarmanna
haslar sér völl hægra megin við
smáflokka sem áður getur; til-
einkar sér frjálshyggjusjónar-
mið í ríkara mæli og á frekar
samleið með borgaralegum
flokkum í utanríkis- og örygg-
ismálum. Það höfðaði þó einkum
til svipaðs kosningafylgis og Al-
þýðuflokkurinn, enda að hluta til
þaðan runnið. Bandalagið var í
síðustu kosningum knúið áfram
af krafti Vilmundar heitins
Gylfasonar, stofnanda flokksins.
Samtök um kvennalista tóku
einkum fylgi frá Alþýðubanda-
laginu, þrátt fyrir þverpólitískt
yfirvarp í upphafi. Reynslan,
sem ólýgnust er, sýnir og, að
Samtökin eiga oftar en ekki mál-
efnalega og þinglega samleið
með Alþýðubandalaginu. Þarna
er afstöðubilið svo mjótt að
vandséð er, hvernig konur sem
aðhyllast hægri þjóðfélagsvið-
horf inn á við en vestrænt
varnarsamstarf út á við, geti
stutt samtök af þessu tagi.
Bandalag jafnaðarmanna
heldur opinn landsfund þessa
dagana, sem vert er að veita at-
hygli, ekki sízt vegna uppsveiflu
Alþýðuflokksins í skoðanakönn-
unum, sem óhjákvæmilega bitn-
ar að hluta til á Bandalaginu.
Eftirtekt áhugafólks um stjórn-
mál beinist máske ekki sízt að
afstöðu fundarins til samstarfs-
tilmæla, sem Bandalaginu hafa
nýlega borizt úr tveimur gjör-
ólíkum áttum.
í fyrsta lagi hefur Alþýðu-
bandalagið sent stjórnarand-
stöðuflokkum formleg tilmæli
um viðræður, sem stefna eiga á
„nýtt landsstjórnarafr, undir
forystu Alþýðubandalagsins.
Bandalag jafnaðarmanna, sem
leggur áherzlu á upplýsinga-
skyldu stjórnvalda og stjórn-
málaflokka gagnvart almenn-
ingi, kemst ekki hjá því að
greina ótvírætt frá því, svo ekki
fari milli mála, hvort það stefnir
í slíkt „landsstjórnarafl" með
Alþýðubandalaginu.
I annan stað leggur nýkjörinn
formaður Alþýðuflokks áherzlu
á samruna eða náið samstarf Al-
þýðuflokks og Bandalags jafnað-
armanna, sem hann telur eiga
flest sameiginlegt. Ekki er óeðli-
legt að fundurinn taki formlega
afstöðu til þessara tveggja sam-
starfstilboða, svo enginn fari í
grafgötur um, hvert leið hans
liggur.
Stöku stjórnmálaskýrandi,
sem fjallað hefur um Bandalag
jafnaðarmanna, hefur gert því
skóna, að tvenns konar sjónar-
miða gæti þar til ýmissa grund-
vallarmála. Annarsvegar frjáls-
hyggjusjónarmiða, sem Stefán
BÍenediktsson sé talsmaður fyrir,
og nálgist um sumt viðhorf í
Sjálfstæðisflokki. Hinsvegar
vinstri viðhorf, sem vísi á stund-
um til Alþýðubandalags, sem
Guðmundur Einarsson túlki.
Bandalagið má að ósekju draga
skýrari stefnulínur bæði í inn-
anríkismálum og í afstöðu til ör-
yggis- og utanríkismála.
Smáflokkar koma og hverfa í
íslenzkum stjórnmálum, svo sem
dæmin sanna, án þess að hafa
afgerandi áhrif á framvindu
þjóðmála. Þeir hafa ekki orðið til
þess að skapa meiri festu í
stjórnmálum okkar. Þvert á
móti. Höfuðgalli íslenzkra
stjórnmála á líðandi stund er sá,
að ýmissa dómi, að hinn almenni
kjósandi hefur ekki næga trygg-
ingu fyrir því, hverskonar
stefnumálum og pólitískri fram-
vindu hann leggur lið með at-
kvæði sínu. Þetta stafar fyrst og
fremst af því að enginn flokkur
hefur haft nægilegt fylgi til að
standa einn að ríkisstjórn,
stefnumörkun hennar og fram-
kvæmd stefnumála. Samsteypu-
stjórnir hafa verið eini kostur-
inn þar sem byggt er á eilífum
málamiðlunum og útvötnun
stefnumiða.
Það er kominn tími til að veita
einum flokki meirihluta og tæki-
færi til að bera ábyrgð á lands-
stjórn heilt kjörtímabil. Þannig
fengjust skýrari línur fyrir kjós-
endur og meiri festa í lands-
stjórnina. Það verður hinsvegar
ekki gert með því að fjölga smá-
flokkum, jafnvel þó þeir kunni
að hafa sitthvað til síns máls á
afmörkuðum málasviðum.
Umsjónarmaður Gísli Jónsson 273. þáttur
Nú skal haldið áfram að
gera skil þeim bréfum sem
borist hafa. Þau eru þáttarins
líf og yndi. Án þeirra væri
hann illa kominn. Bréfritara
verð ég að biðja velvirðingar á
því, hve oft dregst lengi að
svara þeim. En sem sagt, nú
skal tekið til við það og þá í
þeirri röð sem bréfin hafa bor-
ist.
★
Sunnlendingur skrifar svo:
„Heill og sæll Gísli.
Eg þakka þér fyrir ágæta
þætti í Morgunblaðinu. Það er
bæði gagnlegt og ánægjulegt
að fylgjast með slíkum þátt-
um, hvort sem þeir eru í blöð-
um eða útvarpi, og ég held að
fleiri fylgist með þeim en ykk-
ur grunar.
Tilefni þessara skrifa minna
er smá blaðagrein, sem ég
rakst á í sumar, en í henni
fannst mér heldur of langt
gengið í auglýsingaskruminu.
Trúlega hefðu þeir t.d. Pálmi
heitinn Hannesson, Jón Ey-
þórsson eða þeirra líkar haft
annað orðalag á lýsingu sinni
„þar sem mjög fallega náttúru
er að finna“ og „fjölmargir
valkostir eru í boði“ og „hægt
að velja um marga valkosti um
hverja helgi“.
Þá rakst ég á auglýsingu frá
sveitarfélagi hér á suð-vest-
urhorninu, og er hún ekki ein-
mitt gott dæmi um hið marg-
umtalaða stofnanamál? Hvað
hefðu kennarar í Bessastaða-
skóla sagt um slík skrif?
Hvað finnst þér um dagsetn-
inguna 09.01.1985 í stað 9.1.
1985, og beygingu staðarheita
á eftir póstnúmeri?
Nú er mál að linni. Vertu
ætíð blessaður."
★
Ég þakka Sunnlendingi bréf
og sendingu, og skal nú reyna
að gera henni dálítil skil.
Bréfritari hefur merkt við
nokkra staði í blaðagrein
þeirri sem hann nefnir, þar á
meðal þá sem hann setur í
gæsarlappir í bréfinu. Svo oft
hef ég rætt um valkostinn, að
ég ætla ekki að lengja það mál
núna, enda held ég að mönnum
sé að skiljast að kostur dugir.
Mönnum eru settir úrslitakost-
ir, en ekki úrslitavalkostir, og
kona er góður kvenkostur, en
ekki kvenvalkostur o.s.frv. Ég
er einnig sammála bréfritara í
því efni, að mér þykir ekki
smekklegt tal, þegar sagt er að
í Landmannalaugum sé mjög
fallega náttúru að finna. Mér
skilst að mikil náttúrufegurð
sé í Landmannalaugum eða við
þær.
Um hið leiðinlega orð fjöl-
skyldumeðlimur er fyrir
skemmstu rætt í þáttum þess-
um, og skal það ekki endurtek-
ið nú. Hins vegar skal tæki-
færið notað til þess að segja
frá þeirri merkingarbreytingu
sem orðið fjölskylda hefur tek-
ið.
í fallegum bæklingi frá
Orðabók Háskólans kemur
skýrt fram, að fjölskylda
merkti á öldum áður „marg-
vísleg skylda, annir“, síðan
„annir heima fyrir, skyldur við
heimilisfólk" og loks það sem
við nú erum vönust. Skelfing
finnst mér alltaf leiðinlegt
hvernig fór fyrir orðinu hyski.
Bréfritari merkti við dæmi
um ofnotkun sagnarinnar að
mæta. Þetta vil ég taka sterk-
lega undir. Við skulum sækja
skóla, fundi, kirkju o.s.frv. og
láta athöfn okkar heita skóla-
sókn, fundarsókn, kirkjusókn og
þannig áfram, en spara sem
mest sögnina að mæta í þess-
ari merkingu og nafnorðið
mæting(ar).
Mér þykir sem bréfritara
betra mál að segja um helgi en
yfir helgi, og ekki þykir mér
rismikið mál að segja: „Dæmi
um ferð er að farið er í Land-
mannalaugar ..." Strax
skárra væri að segja: Til dæm-
is er farið í Landmannalaugar.
★
Þá er það auglýsingin. Meg-
inefni hennar er svo:
„Hreppsnefnd Bessastaða-
hrepps óskar eftir tilboðum í
uppsteypu og fullnaðar ytri
frágangi, stækkunaráfanga við
grunnskóla Álftaness. Út-
boðsgögn verða afhent gegn
kr. 2.000,- skilatryggingu á
skrifstofu Bessastaðahrepps,
frá og með þriðjudeginum 8.
janúar 1985.“
Ég svara spurningu bréfrit-
ara á þann veg, að kennendur
hins gamla Bessastaðaskóla,
a.m.k. Sveinbjörn og Hall-
grímur, hefðu áreiðanlega ekki
látið sér vel líka málfarið.
Um dagsetningar og staða-
nöfn utan á bréfum segi ég
þetta: Ég er algjörlega andvíg-
ur gerðinni 09.01.1985 í stað
9.1.1985, og staðanöfn á bréf-
um finnst mér rétt að hafa í
staðarþágufalli, hvort sem
póstnúmer er skráð eða ekki.
★
Jón Jónsson í Garðabæ
skrifar (einkum vegna fyrir-
spurna minna um orðið bisk-
upseista):
„Ég er Skaftfellingur í húð
og hár og kannast vel við þetta
orð og varð mjög undrandi
þegar ég varð þess var að fé-
lagar mínir í Rotaryklúbbi hér
syðra þekktu það ekki. Jafn
skrítið finnst mér að orðabók
Menningarsjóðs skuli telja það
vöðva í bóglegg. Það er alrangt,
en skýring Blöndalsorðabókar
rétt, og get ég ekki í bráð gefið
aðra betri. Um uppruna þessa
nafns hef ég enga hugmynd.
Oft hef ég fundið til þess
hvað yngra fólk virðist hafa
takmarkaðan orðaforða og
jafnvel ekki skilja orð, sem eru
lifandi í mínu máli. Hvað veld-
ur?
Það er ekki laust við að það
„fari í taugarnar á mér“ (þetta
orðatiltæki þekkti ég ekki í
æsku) að þú notar ósmár í
þætti þínum. Mér finnst það
eiga rétt á sér aðeins þar sem
þess er þörf til þess að ná fram
ákveðnum blæbrigðum í mál-
inu, forðast endurtekningar á
sama orði, annars ekki.
Hafðu svo heila þökk fyrir
þætti þína.“
Ég þakka Jóni Jónssyni
kærlega fyrir upplýsingar
hans og athugasemdir. Aðrar
upplýsingar um biskupseistað
bíða næsta þáttar.
„Yngra fólk“ hefur lifað
skemmri ævi en við og á margt
orðið ólært. Ekki þekkti bréf-
ritari „að fara í taugarnar á“ í
æsku sinni.
Vænt þykir mér um, þegar
stíll minn er gagnrýndur með
rökum. Ég er raunar alveg
sammála Jóni Jónssyni um
notkun orða eins og ósmár.
Þetta flokkast víst undir það
stílbragð sem kallað hefur ver-
ið úrdráttur (vanhvörf, gr. lito-
tes) og það á. eins og bréfritari
segir, einkum rétt á sér til þess
að ná fram ákveðnum blæ-
brigðum eða forðast endur-
tekningar. Halldór Laxness
notar þetta oft í síðari bókum
sínum, og mér þykir líklegt að
hjá mér gæti hrifningaráhrifa
frá honum.
★
Mér var fyrir skemmstu
fengið í hendur Ijósrit úr lög-
um um Lífeyrissjóð opinberra
starfsmanna. Þar segir svo í
18. grein (leturbreyting er um-
sjónarmanns):
„Þeir, sem keypt hafa sér og
ekkjum sínum lífeyri sam-
kvæmt lögum nr. 51 27. júní
1921, öðlast réttindi eftir lög-
um þessum ..." o.s.frv.
Er ekkert athugavert við
þetta? Hvar eru menn staddir,
þegar þau kaup eru gerð sem í
upphafi greinarinnar eru
nefnd?
Salan á Ingólfi Amarsyni:
Afgreiðslu frestað í borgarráði
BORGARRÁÐ ákvað á fundi sínum í gærmorgun að fresta afgreiðslu á tillögu
útgerðarráðs BÚR um sölu á togaranum Ingólfi Arnarsyni. Utgerðarráð sam-
þykkti á fundi sínum á fimmtudag sl. að ganga að kauptilboði Ögurvíkur hf.
sem hljóðar upp á 77 milljónir króna miðað við verðlag í nóvember 1984.
Á fundi útgerðarráðs var tillagan
samþykkt með þremur atkvæðum
sjálfstæðismanna gegn atkvæðum
fulltrúa Alþýðubandalags og Fram-
sóknarflokks. í bókun fulltrúa
Sjálfstæðisflokksins kemur m.a.
fram að með ýmsum endurbótum á
rekstri fyrirtækisins og marghátt-
uðum sparnaðarráðstöfunum hefði
tekist að draga mjög úr því tapi í
rekstri BÚR, sem orðið hefði að
óbreyttu. Dregið hefði verið úr út-
haldi óhagkvæmustu togara fyrir-
tækisins og hefðu tveir þeirra,
Bjarni Benediktsson og Snorri
Sturluson, verið leigðir til rækju-
veiða, en þeim síðan lagt, uns
Bjarni Benediktsson var seldur í
nóvember sl. Hefði sú ráðstöfun
bætt fjárhagsstöðu BÚR um 22,6
milljónir króna. 1 bókun sjálfstæð-
ismanna kemur ennfremur fram,
Ingólfi Arnarsyni var lagt í des-
ember sl. og myndi fyrirhuguð sala
á honum bæta fjárhagsstöðu BÚR
um 20,2 milljónir króna að gefnum
forsendum fjárhagsáætlunar fyrir-
tækisins.
Fulltrúi Framsóknarflokks í út-
gerðarráði lét bóka að hann gæti
ekki fallist á tillöguna um sölu á
togaranum m.a. vegna þess að hann
hefði ekki verið settur á söluskrá
eða auglýstur heldur hafi verið
teknir upp samningar við einn aðila
og fallist á kauptilboð hans óbreytt.
Þá væri heildarverð skipsins sam-
kvæmt tilboðinu of lágt. Fulltrúi
Alþýðubandalags lét bóka svipuð
atriði og m.a., að söluverð væri 4,2
milljónum lægra en tryggingarverð
skipsins. Stærsta atriðið væri þó, að
„með þessari sölu og sölu á með-
fylgjandi veiðikvóta er dregið veru-
lega úr möguleikum BÚR til at-
vinnusköpunar í landi“.