Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Page 89
SUMARDAGURINN FYRSTÍ ð3
sem það hefur heyrt getið um, þótt þeir hafi í sjálfu sér ekki við-
gengizt á þeirra bernskuheimili.
1 þriðja lagi er ekki útilokað, að venjur, sem samkvæmt þessari
könnun virðast einkum bundnar við tiltekin svæði um og eftir alda-
mót, hafi áður tíðkazt í nærliggjandi landshlutum. Sum svæði hafa
jafnan verið öðrum afskekktari, svo sem Vestfjarðakjálkinn og
Skaftafellssýslur, og hefði því margt getað haldizt lengur þar, þótt
ný tízka væri tekin að ryðja sér til rúms annars staðar. Ég tel þó
hæpið að gera mikið úr þessu atriði, þar sem minni munur hefur
verið á samgönguerfiðleikum um aldamótin en síðar varð, þ. e. eftir
að við það varð miðað, hvort bílfært væri eður ei. Ekki má heldur
láta sér sjást yfir það, hversu mikill samgangur var milli héraða
og búferlaflutningar algengir milli sveita og landshluta. Islendingar
voru ekki nándar nærri eins átthagabundnir og bændur á Norðurlönd-
um og annars staðar í Evrópu víðast hvar. Atvinnuhættir stuðluðu
einnig mikið að aukinni kynningu og blöndun. Bændur og vinnu-
menn af Norðurlandi sóttu vertíð á Snæfellsnesi, við Faxaflóa og á
Suðurnesjum. Á hinn bóginn gerðust ungir Sunnlendingar einatt
kaupamenn nyrðra o. s. frv. Þá má minna á presta, sem fluttust milli
héraða og vanizt höfðu öðrum siðum. Presturinn var því vinsælli og
áhrifameiri sem hann hafði meira samband við alþýðu manna, og
gat þá allt eins svo farið, að nýr siður kæmi með nýjum herra sem
að hann tæki upp venjur sóknarbarna sinna.
1 fjórða lagi hefur eins og ævinlega verið talsverður munur á
venjum manna eftir efnahag. Betur stæð heimili gátu leyft sér meiri
útafbreytni, bæði í mat og drykk, leyfi frá störfum, glaðningi og
ýmiss konar „óþarfa“. 1 annan stað er munur á fastheldni manna
við gamla siði eða yfirleitt sálrænni þörf til að gera sér og öðrum
nokkurn þann dagamun, sem ekki er unnt að reilma á einhvern
beinan hátt til tekna. Þá ræður afstaða livers einstaklings til lífsins
einnig nokkru um: hvort menn eru bjartsýnismenn eða bölsýnir.
Kemur hér enn að því, að ekki er auðgjört að vita til fullnustu, hvað
var almenn hefð og hvað var sérvizka tiltölulega fámenns hóps. Þar
sem fjöldi dæma bendir í eina átt, er þó naumast annars kostur en
hafa það nokkurn veginn fyrir satt, en raunar getur liver dæmt fyrir
sig eftir þeim líkum, sem hér verða fram settar.