Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Síða 22
26
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
jörðu. Þarmeð hvíldi öll byggingin á undirstokkum lögðum á grjót-
hleðslu. Að sjálfsögðu var þetta gert til að verja viðinn fúa. 1 sama
mund stækkuðu kirkjurnar, urðu fullkomnari smíð. Þiljuborðin, sam-
setning þeirra og gerð tóku hliðstæðum breytingum. Til er enn hluti
trúboðskirkju í Greenstead í Essex á Englandi. Að vísu liggur
suðurveggur kirkjunnar þar ekki í jörðu. Fyrir löngu hefur verið
settur sökkull undir hann. Engu að síður eru stólparnir á sínum
stað, með sínu upprunalega lagi. Veggjarleifar þessar eru taldar
frá 11. öld. Ennfremur hafa fundist slíkar leifar vegg-gerða í jörðu, í
kirkjugrunnum á Norðurlöndum. Frægastar eru e. t. v. bútarnir frá
Maria Minor í Lundi, frá því um árið 1000 (teikning XI, 1 og 2).
Þegar aurstokkarnir komu til hafa stólpar af þessari gerð reynst
of þungir og krafan um léttari smíð fylgt í kjölfarið. Vandann hafa
menn sjálfsagt leyst með því að þynna grópstólpann en láta fjöðrina
vaxa að sama skapi. Engin goðgá er að ætla að þiljurnar frá Vánga,
Stóru-Ökrum og Grænlandi eigi ættir að rekja til þessa þróunar-
stigs. Hinsvegar er stólpinn okkar frá austurgafli bæjardyranna
sömu gerðar og Greenstead-stólparnir (teikning XI, 1 og 3). Ég er
ekki þar með að segja að hann sé frá 11. öld. Stílgerð og árgerð er
ekki alveg það sama. Stíll getur lifað margar árgerðir ef því er að
skipta. Það sem mestu varðar hér, er að grópstólpinn okkar frá
Ökrum ber glöggt vitni þess að hér á landi hefur lifað forn smíða-
tækni lengur en víðast hvar annars staðar á hinu norræna menn-
ingarsvæði.
Nú skulum við snúa inn í göngin á Stóru-ökrum. Fyrst er að
víkja að staf þeim sem merktur er C á grunnteikningu (6. mynd).
Stafurinn hefur upphaflega verið sívalur en nú er hann skaddaður
á þeirri hlið sem að torfveggnum snýr. Á hinum hliðum hans eru
margskonar smíðaummerki. Það er greinilegt að sporin neðstu á
vestur- og norðurhlið hans eru eftir aurstokk og þverstokk. E. t. v.
liefur stafurinn hvílt á þeim og ekki snert jörð. Hvar hefur undir-
stokkurinn legið og hvar þverstokkurinn ? Með aurstokk á ég við tré
sem liggur langs eftir torfhúsi neðst og ber stafi, með þverstokk
á ég við slá sem gengur um þvert í torfhúsi og getur hvorttveggja
verið við torfstafn eða staðið undir skilrúmsþili. Það er nokkurn
veginn víst að stafur þessi er ekki úr „fínu“ húsi, þessvegna er ekki
að vænta þess að það hafi verið þiljað. Það gat hinsvegar haft
einhverskonar skilrúmsþil, jafnvel útiþil. Af þeim ástæðum tel ég
líklegt að aurstokkurinn hafi gengið í vestara gróp en þverstokkur
í það nyrðra og á honum hafi þil hvílt. Hvernig kemur nú þessi