Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Blaðsíða 76
80
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
þeim, sem hér um ræðir, kirkjunöfnunum, þá eru fjölmörg örnefni
vitanlega dregin af kirkjum, sem verið hafa á staðnum, en þess
eru einnig dæmi um allt land, að steinar, klettar eða fjöll, sem minna
á kirkjur að lögun, heiti kirkjunafni, sbr. örnefni eins og Steinkirkja,
Álfakirkja, Tröllakirkja o. s. frv. Hið tignarlega Kirkjufell við
Grundarfjörð er að líkindum í þessum flokki og hefur þá sennilega
heitið Kirkja fyrrum, enda hét Grundarfjörður eða annar hvor
vaðallinn í honum Kirkjufjörður að fornu (Landnáma; Kálund II,
367, 390). Bærinn Kirkjufell stendur undir fellinu, og er ekki
kunnugt um, að þar hafi verið kirkj ustaður. Fleiri dæmi hafa verið
tilgreind um, að bæjarnafn með Kirkju- í fyrra lið sé ekki dregið
af guðshúsi, heldur kletti, sem minnir á kirkju, og það þótt bænhús
hafi verið á staðnum á fyrri tíð. Um bæinn Kirkjuskarð á Laxárdal í
Austur-Húnavatnssýslu segir Jón Eyþórsson: „Bærinn er kenndur
við skarð, sem gengur norðaustur í fjöllin og gapir við honum.
Á sunnanverðu skarðinu er klettastrýta, sem nefnist Kirkja. Þar
af nafnið, en bænhús var á Kirkjuskarði í kaþólskum sið.“ (Árbók
Ferðafélagsins 1964, 40).
Dæmi má taka af öðrum nafnaflokki, kastalanöfnunum: Af
Sturlungu má sjá, að títt hefur verið hér á landi á þeirri ófriðaröld,
að menn reistu kastala, sem svo voru nefndir, þ. e. virki eða vígi, við
bæi sína, en orðið kastali er tökuorð úr latínu eins og klaustur, lat.
castellum, dregið af castrum ’víggirtur staður’ með smækkunar-
endingu, í fleirtölu castra ’herbúðir’, samstofna casa ’hús’. Vart er
að efa, að sumir slíkir kastalar við íslenzka bæi hafi borið Kastala-
nafn, þó að þess sé ekki getið í fornum heimildum. Allmörg dæmi
eru um, að hólar í túnum á íslenzkum bæjum heiti Kastali, t. d. á
Ökrum á Mýrum, Svínhóli í Miðdölum, Hvoli í Saurbæ og í Purkey
á Breiðafirði, og kunna þau nöfn í sumum tilvikum að vera minjar
um hina fornu bæjarkastala. Hinu má þó ekki gleyma, að algengt er
víðs vegar um land, að náttúrlegir klettar, sem minna á kastala og
oft eru fjarri bæjum, heiti Kastala-nafni, t. d. Kastalar á Þingvöllum
og á Kársnesi í Kópavogi, Kastáli á Skarðsströnd og í Núpsdal í Mið-
firði. Stundum kunna þó slíkir náttúrlegir klettar í næsta nágrenni
bæja að hafa verið notaðir sem kastalar. Hjá Svignaskarði í Borg-
arhreppi eru hamrar vel fallnir til varnar (þar sem hringsjáin
er nú), og er þess getið í Sturlungu, að Sturla Þórðarson „færði
bæinn upp á hamrana” árið 1256, er hann átti í deilum við Hrafn
Oddsson. Þessir hamrar heita nú Kastali.