Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Blaðsíða 127
SKÝRINGAR YFIR ÖRNEFNI
131
29. kapítuli.
58. Óþokkadæl: Þar sem Ljótólfur fannst myrtur. Það er kölluð
af flestum lautin rétt fyrir ofan túnið á Hofi, stutt fyrir sunnan
og ofan bæinn, og liggur upp á milli tveggja hóla. Nokkrir kalla
Óþokkadæl sunnan og neðan GerSahólma, út og upp frá Hofsbæ, út
og upp frá hofinu, og er það ótrúlegra, en hvor lautin sem það er,
ber það vel saman við söguna (sjá 13. örnefni).
30. kapítuli.
59. Klaufasteinn, eður steinn sá sem Karl ómáli eður ungi brenndi
Klaufa á.44 Eftir sögunni á hann að vera fyrir ofan garð á Klaufa-
brekku. Þar eru að sönnu margir steinar stórir og nokkrir brostnir
sundur, en enginn með þeim kennimerkjum, sem í sögunni segir:
,,með hol í“,45 en vel geta þeir verið orðnir sokknir í jörð eður signir
til í svo langan aldur. En gamlir menn hafa sýnt Klaufastein á
holti því fyrir sunnan tún á Klaufabrekku, skammt frá Klaufapolli.
Var hann með laut í og allur sprunginn og mikill hluti hans í jörð.
En fyrir 4 árum síðan, 1861, vai' sá steinn brotinn sundur til fjár-
húsabyggingar og er hann nú að öllu ómerkilegur og sléttur við
jörð.
60. Hver þann sem er fyrir sunnan garð á Klaufabrekku, þar sem
Karl lét blýstokkinn í með ösku Klaufa. Þessi hver er og hefur verið
kallaður Kluufapollur eður Klaufapyttur. Hann er suður og ofan
frá bænum Klaufabrekku í lægð fyrir ofan götuna, sem liggur sunnan
og neðan að bænum, og ber það vel saman við söguna.
61. Karlsstaðir: Bústaður Karls ómála eftir það hann flutti frá
Upsum á efri árum. Þessi bær ber sama nafn enn og er í Ólafsfirði að
austanverðu, í Þóroddsstaðahrepp.
44 Um Klaufastein og Klaufapoll segir svo í örnefnaskrá Klaufabrekkna eftir
Margeir Jónsson skráðri 1936 eftir fyrirsögn Sigtryggs Jónssonar, sem mjög
lengi bjó á Klaufabrekkum: „Klaufasteinn heitir flatur steinn ofan við
vallargarðinn og fylgir honum sú sögn að þar hafi skrokkurinn af Klaufa
verið brenndur. Steinninn er klofinn í tvennt og á hann að hafa sprungið
þegar brennslan fór fram“. — „Fyrir ofan Lambá er Klaufapollur; hann
er skálmyndaður og hyldjúpt vatnsauga í miðjunni. Gegnum pollinn rennur
Klaufalækur. Það eru algeng munnmæli enn, að öskunni af Klaufa hafi
verið sökkt í Klaufapoll".
45 Þetta er vitleysa sem stafar frá mislestri í íslendinga sögum 1830; þar stendur
hol í staðinn fyrir bál.