Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Blaðsíða 47
VÖKUSTAUR
51
þeim tíma. í mansöng þriðju rímu er skáldið nánast að biðla til
meyja þeirra, sem ausa af skáldamiðinum, víni Valföðurs, og segir
svo í 13. erindi:
Komi ég mínum kaupahlut sem kjósa vildi
Valföðurs af víni talda
vökustaurinn skal ég gjalda.
Elztu handritum rímnanna ber ekki saman um, hvort í öðru vísu-
orði skuli standa talda eða kalda. Þannig er ritað talda í Lbs. 775
4to og 1579 4to einsog í prentuðu útgáfunni, en kalda í Lbs. 2386
8vo, 3869 4to og JS 344 4to. En það skiptir ekki máli í þessu sam-
bandi, hvort átt er við hið kalda vín Valföðurs eða þann skerf, sem
skáldinu er ætlaður af því. Merkingin virðist vera þessi: Komi ég
mínum hluta skáldskaparins til skila einsog ég vildi kjósa, skal ég
gjalda vökustaurinn. Er þá svo að sjá sem vökustaur sé eitthvað, sem
reiða skuli af hendi.
Að sjálfsögðu er ógjörningur að sannreyna nema lítið eitt af
þeim upplýsingum, sem hafðar eru eftir löngu látnu fólki, og gildir
þetta auðvitað einnig um þjóðsögur. En með þessum fyrirvara ættu
þó elztu heimildir um vökustaurinn að vera áðumefndar Rímur af
Blómsturvallaköppum og frásögnin af búferlaflutningi sr. Guðmund-
ar Bergssonar, svo og frásögnin í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar,
VIII 128, af vísu Húseyjar-Gvendar um Kollgrím, sem raunar verður
nokkuð skelmskur útúrsnúningur, en hljóðar svo:
I fyrstu viku jólaföstu hittir Kollgrímur ástmey sína og færir
henni eitthvað matarkyns til vökustaursins, og hafði leynt innan
yfirhafnarfata. Það frétti Gvendur og kvað:
Kollgrímur um kletta og aur
kafaði veginn téðan.
Úr víðri brók lét vökustaur
vaða í Gróu neðan.
Húseyjar-Gvendur þessi hét Guðmundur Filippusson, var fæddur
um 1743 og lifði mest á Austurlandi. Sagan er skráð 1906.
I vesturheimska blaðinu Lögbergi, 18. janúar 1912, er frásögn eftir
Áma Sigurðsson frá Fagradal í Breiðdal, sem nefnist „I Breiðdal
fyrir 60 árum“. Þar segir svo m. a.: