Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Page 49
VOKUSTAUR
53
Á bls. 224 segir hann svo um Steinu þessa:
Steinvör gamla Björnsdóttir, samangengin og sjóndöpur, en góð-
lynd og gamansöm.
Lýsingin er annars frá bænum Botni í Þorgeirsfirði (í Fjörðum)
árið 1899, þegar liðinn er aldarþriðjungur frá útkomu þjóðsagna
Jóns Árnasonar.
Loks notar Jón Trausti, f. 1873 og uppalinn í Norður-Þingeyjar-
sýslu, orðið í þessari merkingu í ljóðaleiknum Teiti, sem út kom
í Rvík 1904:
Hvað ertu nú sofnaður? Auli, gaur!
Það ætti að setja á þig vökustaur!
Vaknaðu!
Yngri prentaðar heimildir en Þjóðsögur Jóns Árnasonar, sem telja
vökustaur vera matarglaðning, eru þessar helztar:
Sagnaþættir Guðmundar Jónssonar frá Húsey, 1862—1950, sem
birtust í safnritinu Að vestan IV, Akureyri 1955, bls. 143, og miðast
þessi frásögn við Úthérað á tímanum milli 1870—80:
Þá man ég ekki eftir fleiri tyllidögum, sem gamlar venjur voru
við bundnar, nema „vökustaurnum“. Hann var haldinn á fyrsta
sunnudag í jólaföstu, og átti víst að vera nokkurs konar hvöt til
vinnufólksins að halda sig vel að verki við tóvinnuna á föstunni.
Þá voru dagar stuttir, en langar vökur, og tóvinnan sótt af miklu
kappi. Þann dag var enginn miðdagsmatur gefinn, en tvöfaldur
skammtur eða meira um kvöldið, og þá var ekki unnið að mun.
.... Þeir (gömlu mennirnir) sögðu mér, að í ungdæmi sínu hefðu
sumir bændur notað augnateprur á unglinga, sem hætti til að sofna
við verkið .... Mér var kennt að búa þetta áhald til, og reyndi ég
oft að koma því á vinnukonurnar, en þær létu illa við því, og engan
vissi ég nota það nema til gamans.
Þá er að nefna uppteiknan Þorvalds Thoroddsen hafða eftir Páli
Vigfússyni á Hallormsstað árið 1882, sem birtist í Fjórum ritgjörðum,
Khöfn 1924, bls. 113:
Hjer er haldið upp á sprengikvöld, bóndadag, hinn fyrsta í þorra,
og vökustaur, sem er sama og kvöldskattur svokallaður í Eyjafirði,
það eru alt hangikjötstyllidagar.