Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Síða 90
94
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Viðarmörkunum gömlu hef ég til mestra muna safnað á svæðinu
frá Djúpavogi vestur til Þjórsár, en þó stendur sú skráning til bóta,
m. a. með stoð í varðveittum viðarmörkum á gömlum húsaviðum.
Frá eldri tíma er ýmsan fróðleik að finna um þetta efni, m. a. í Al-
þingisbókum 17. og 18. aldar. Engin aðgengileg rannsókn er fyi’ir
hendi um rekafjörur og rekaeignir, en hún hlýtur að verða tengd
rannsókn á íslenskum almenningum og afréttum. Ætla má að þau
mál hafi verið til meðferðar í samþykktum og lögum mjög snemma
í íslenskri sögu og þá að einhverju leyti tengd hinum fornu landnám-
um og réttindum þeirra. Trúartákn heiðins og kristins siðar eru
nokkuð áberandi í viðarmörkum. Nefni ég þar til fuglskló, fuglsfit,
kross, lykil og alþekkta skammstöfun IHS. Rúnastafir hafa verið
notaðir sem viðarmörk, einir sér eða í bandrúnum.
Skal þá horfið að því sem vera átti inntak þáttarins, búmörkum
öðrum en fjármörkum. Búmark á sér langa og merka sögu hjá
norrænum þjóðum. Það er til orðið af samfélagslegri nauðsyn sem
helgun eignar. Hlutir bóndans gátu borist með mörgu móti út af
heimili, í samskiptum heimila, í verkum, ferðum og flutningum og
síðast en ekki síst í lánum, „Það er best að hver hafi sitt og þá hefur
fjandinn ekkert,“ sagði gamla fólkið. Það lætur að líkum að bændur
innan sama hrepps máttu ekki fremur eiga sammerkt í búmörkum
en eyrnamörkum búfjár. Ný búmörk hefur því þurft að kynna og
vottfesta til staðfestingar á gildi þeirra. Ekkert þarf að mæla gegn
því að bændur byggðarlags eða kirkjusóknar hafi rist búmörk sín
þar sem þau gátu verið fyrir allra augum og þá væntanlega eftir
vissri reglu. Til iþess dugði laus eða föst fjöl í einhverju ákveðnu
húsi. Ekki er fráleitt að gera því skóna að til hafi verið búmarkaskrár
letraðar á skinn.
Gera verður ákveðinn greinarmun á búmarki og eignarmarki —
og þó er búmark eignarmark. Vinnukona, sem átti sér þráðarlegg,
lét e. t. v. skora á hann upphafsstaf sinn, sem þá var eignarmark
hennar. Sama máli gat gegnt um upphafsstaf á kinn vasahnífs í fór-
um vinnupilts. Smiðir merktu sér áhöld sín með fangamarki sínu eða
öðru eignarmarki. Eru um það fjölmörg dæmi, jafnvel frá nútíma.
Líklegt er að hvert býli fyrri alda hafi átt sér búmark og siðurinn
er vafalaust kominn austan um haf. Búmarkatíska íslenskra bænda
á miðöldum er af sama toga og búmörk bænda á Norðurlöndum og
bænda í miðaldabyggðum Grænlands, en þar hafa búmörk komið í
leitirnar við fornleifarannsóknir.
Til er stórt safn íslenskra búmarka frá fyrri öldum, svo sem fram