Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Side 102
GRAFSKRIFT JÁRNSMIÐSINS
Fáar fornminjar eru áhrifameiri en g-amlir legsteinar. Stundum koma þeir
óvænt upp úr kirkjugörðum og tala máli löngu liðinna og gleymdra manna.
Þeir minna á hverfulleik allra hluta, einnig á margbreytilegan smekk og hugs-
unarhátt í rás aldanna, en fyrst og síðast á sameiginleg örlög allra manna að
lokum, vissu og óvissu dauðans.
í því ágæta riti Nationalmuseets arbejdsmark 1975 er sagt frá legsteini sem
nýlega kom upp úr kirkjugrunni í Frorup á Fjóni og talinn er vera frá þeim
tíma þegar Snorri Sturluson var veginn og þjóðveldi féll í rúst hér á íslandi.
Á brúnum umhverfis steininn er þetta letur: HIC IACET MATHEUS PEPLING
FABER CUIUS ANIMA REQUIESCAT IN PACE, þ. e. „Hér liggur Mads
Pebling smiður. Hvíli sál hans í friði.“ Þetta er klárt og kvitt og sterkt í einfald-
leika. En á fleti steinsins er það sem enn mælskara er og áhrifameira, stórkarla-
leg upphleypt mynd af smíðatólum, sleggja, steðji og töng, og auk þess skeifa,
eða með öðrum orðum smíðatól járnsmiðsins, heiðursteikn hans í lífi og dauða,
og eitt sýnishorn þeirra nauðsynja sem hann sá sveitungum sínum fyrir.
Til eru fleiri virðulegir legsteinar járnsmiða í Danmörku og víðar. Þeir
sýna með öðru að þorpssmiðurinn var mikil persóna í sínu samfélagi. Stundum
tekur hann sjálfur til orða á legsteinamáli, alvöruþrungnu en þó endrum og
sinnum með korni af dapurlegri gamansemi. Svo er f. d. í rímuðu ensku graf-
letri, sem þýða mætti á íslensku á þessa leið:
Sleggjan mín gamla hengir haus,
hnípir belgurinn iðjulaus,
heyrir ei framar haukleg töng
hamars og steðja gjallan söng;
eydd eru kol og efni spillt,
eldurinn slökktur, skeið mitt fyllt.
Ekki sakar að geta þess að lag Páls Isólfssonar úr Gullna hliðinu, Herrann
sé eina huggpjn mín, fer mæta vel við þetta rím.
Ekkert sambærilegt er að finna á íslenskum legsteinum eða minningartöflum.
Gömul minningarmörk eru þó býsna mörg til hér á landi, líklega þó ekkert eldra
en frá 14. öld. Til er í Þjóðminjasafni skrá þar sem allt slíkt er talið, bæði leg-
steinar og grafskriftir, og er það flest í kirkjum og kirkjugörðum, en sumt í
söfnum. Margt fróðlegt og skemmtilegt mun koma fram úr fyrnsku þegar allur
þessi efniviður verður grandgæfilega skoðaður.
K. E.