Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1975, Qupperneq 142
146
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Þessi sýning var gerð á vegum menntamálaráðuneytisins, en Jó-
hannes Jóhannesson listmálari sá um að afla sýningarmuna og
hanna sýninguna. Að mestu voru munirnir úr Þjóðminjasafninu,
enda var lögð áhersla á að sýna íslenska listiðn fyrr og nú, og því
voru fengnir að láni einnig hlutir frá öðrum aðilum, keramik og
ullarvörur.
Elsa E. Guðjónsson sótti fund norrænna safnmanna (Skandinavisk
museumsforbund) sem haldinn var í Helsingfors, Finnlandi, dagana
11.—15. ágúst. Þá sótti hún og fund norrænna textíl- og búninga-
fræðinga, Nordisk textil- och draktsym'posiuvi, sem haldið var að
Forsbacka nálægt Gávle í Svíþjóð dagana 19.—21. ágúst. Hafði
textíldeildin við Nordiska museet í Stokkhólmi, undir stjórn dr. Önnu-
Maju Nylén, boðið til fundarins sem var hinn fyrsti er norrænir sér-
fræðingar í þessum greinum hafa haft með sér. Á fundinum, sem
þótti takast vel, voru stofnuð samtökin Nordiska arbetsgruppen för
drakt- og textilforskare. Er ætlunin að þau vinni að auknum kynn-
um og samstarfi milli norrænna fræðimanna á þessu sviði og enn
fremur að því að kynna fræðistörf þeirra utan Norðurlanda.
Gamlar byggingar.
Eitt hús var tekið á fornleifaskrá, gamalt sauðahús hjá Þykkva-
bæjarklaustri í Veri sem merkilegt er fyrir þá sök að á því er mel-
þak, og mun það eina húsið sem til er hérlendis með melþaki. Húsið
var að sönnu illa farið og var þakið tekið af því svo að það hryndi
ekki ofan í tóttina og melur var einnig skorinn til að nota undir nýtt
þak sem ekki tókst að koma á fyrir haustið. Var húsið tekið á forn-
leifaskrá með bréfi menntamálaráðuneytisins dags. 4. febr.
Viðhald gömlu bæjanna var svipað og áður, engar stórviðgerðir
framkvæmdar en víða unnið að smærri lagfæringum sem gera þarf
árlega.
Ekki tókst að gera Víðimýrarkirkju verulega til góða, en skorið
var torf til viðgerðarinnar og það þurrkað og ætti því ekki að standa
á efninu er að viðgerð kemur.
Sjávarborgarkirkja var flutt á grunninn nýja úti á Borginni um
haustið, en ekki tókst að fá neinu verulegu þokað með viðgerð sjálfs
hússins.
Gísli Gestsson dvaldist í Skaftafelli nokkra daga um sumarið og
haustið ásamt smiðum og hleðslumönnum og var hlaðin upp tóftin
að Selsbænum og einnig var stofuhúsinu komið undir þak, en inn-