Norðurljósið - 01.01.1967, Side 94
94
NORÐURLJÓSIÐ
Þar fórum við úr reiðfötum. Var ég búinn svo vel, sem föng
voru á. Vinnukonan, Helga Gísladóttir, lánaði mér stígvélaskó.
Var hún, auk foreldra minna og systur, með í förinni.
Biðin varð löng áður en messa 'hófst. Gengum við áður, ferm-
ingarbömin, til stofu á Staðarbakka, og þar átti presturinn stund
með okkur áður en gengið var í kirkju. Ekki held ég, að okkur
hafi nokkuð verið raðað eftir ætt eða mannvirðingum feðra
okkar svo sem áður var tízka. Ég svaraði þeim spurningum, sem
prestur spurði mig, þar sem hann stóð fyrir altarinu, og hafði
yfir trúarjátninguna, ásamt honum og hinum börnunum.
Svo var þessu lokið. Ég var kominn ásamt þessum félögum
mínum í kristinna manna tölu. Nú var ég genginn í röð fullorðna
fólksins. Allt þetta verkaði þannig á mig, að yfir mig lagðist
þungi, sem hvíldi fast á herðum mér. Hann lá á mér það, sem
eftir var dagsins. Ég vaknaði með hann næsta morgun. Hann
hvarf svo smátt og smátt.
Ekki man ég eftir sérstökum fermingargjöfum. En hvort það
var þá eða þar á eftir, gáfu foreldrar mínir mér gjafir tvær um
það leyti. Faðir minn gaf mér úr, sem hann hafði átt, síðan
Bjarni drukknaði í tjörninni hjá Nípukoti. Fékk hann það eftir
hann. Sagði hann mér, að ekki hefði hann efni á að gefa mér
annað en þetta. Mun hann þá sem eflaust oftar hafa fundið til
fátæktar sinnar. Löngu síðar gaf hann mér úr í annað sinn, og
klukku fengum við hjónin frá honum í brúðkaupsgjöf. Þá var
fjárhagurinn rýmri orðinn en forðum.
Móðir mín gaf mér bók, sem heitir ,.Bók æskunnar.“ Segir af
henni í öðrum þætti.
17. Lappi.
Hér verður að geta ferfætts vinar míns og félaga um nokk-
urra ára skeið.
Þegar ég var um fermingaraldur, líklega heldur síðar, þótti
mér nauðsyn, að eignast hund. Skrýtinn tók að eldast, fénu fjölg-
aði heldur, svo að hagkvæmar var, að hafa tvo fjárhunda.
Ég fékk hvolp frá Fremri-Fitjum. Hann var alsvartur, nema
lappir hVítar. Hlaut hann því nafnið Lappi.
Lappi var smávaxinn og snöggjhærður alla tíð. Friðsamur var
hann og óáleitinn við aðra rakka. Ef þeir réðust að honum, sem
stundum bar til, lagðist hann á bakið og hreyfði hvorki kjaft né