Dagblaðið Vísir - DV - 15.11.1986, Blaðsíða 21
LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 1986.
21
ákvarðanir. Hann leggur gífurlega
mikið í skákirnar en er kannski ekki
alltaf í andlegu jafnvægi," sagði Þrá-
inn. Undir þetta tekur Jóhann Þórir:
„Helgi er afskaplega hæfileikaríkur
og ef til vill hefur hann mestu skák-
gáfuna af þeim. Hann hefur hins
vegar átt það til að detta í óstuð og
þá er eins og hann losni ekki við
tapskákirnar úr huga sér. Ef hann
sigrast á þessum veikleika ætti hann
að geta náð 2600 Elo-stigum.“
„Helgi hefur mestu tæknina af
okkar skákmönnum, á því er enginn
vafi. Honum tekst oft að svíða erfið-
ar stöður út á örlitla yfirburði. Þetta
er athyglisvert ef hugsað er út í það
að Helgi hefur teflt minnst af þeim
erlendis,“ sagði Bragi Kristjánsson.
Við skulum láta umsögn Friðriks
Ólafssonar stórmeistara og skrif-
stofustjóra, sem Helgi hefur leyst af
hólmi á fyrsta borði íslensku sveitar-
innar, um Helga vera lokaorð í
þessari umfjöllun um hann: „Helgi
hefur gott auga fyrir stöðuskák og
hann teflir oft mjög góðar skákir. A
góðum degi er hann mjög frambæri-
legur og skemmtilegur skákmaður,
oft á tíðum heillandi þegar hann nær
sér á strik enda er stíll hans mjög
hnitmiðaður. Helgi spilar á fínni
strengi en til dæmis Margeir sem er
aftur á móti harðari af sér.“
„Jóhann hefur geysilega leik-
gleði“
Jóhann Hjartarson geystist upp á
stjörnuhimininn í byrjun árs 1984
þegar hann vann tvö alþjóðleg mót
hér á nokkrum vikum og um leið
náði hann tveim áföngum að stór-
meistaratitli. Áhugamenn um skák
vissu þá varla hvaðan á sig stóð veðr-
ið. Það voru ekki aðeins glæstir
sigrar Jóhanns sem vöktu athygli
heldur einnig léttur, glæsilegur og
áreynslulaus skákstíll hans. Hann
náði síðan síðasta áfanganum að
stórmeistaratitli i fyrra og varð þar
með fjórði stórmeistari okkar. Hann
er nú með 2525 Elo-stig en hefur
mest haft 2530.
„Jóhann hefur geysilega leikgleði
í sér. Ég man eftir því þegar hann
stundaði skákæfingar sem unglingur
í skákheimilinu á Grensásvegi
hversu áhugasamur hann var. Hann
var alltaf með á öllum mótum og lét
sig ekki muna um að mæta á æfingar
þó hann tæki þátt í mótum," sagði
Ólafur H. Ólafsson. „Hann og Mar-
geir eru sterkastir á tauginni.
Jóhann brotnar ekki þó hann tapi
skák og skák. Hann vinnur sig vana-
lega út úr því,“ sagði Þráinn
Guðmundsson. „Jóhann hefur mest-
an sveigjanleika af strákunum. Það
er til dæmis mjög erfitt að búa sig
undir skákir gegn honum því hann
teflir svo margar byrjanir og það er
ótvíræður kostur hjá skákmanni,"
sagði Árni Ármann Árnason skák-
maður og laganemi.
„Jóhann er afskaplega lipur og
nettur skákmaður, hann hefur næmt
auga fyrir því fína í skákinni. Hann
er ekki ósvipaður Helga að því leyti.
Honum gekk mjög vel á tímabili en
hefur ekki vegnað jafnvel síðan en
vitaskuld tekur námið sinn tíma,“
sagði Friðrik Ólafsson.
Jóhann er ungur að árum, 23 ára.
Hann stundar nú nám í lögfræði.
Hann keypti sér íbúð uppi í Breið-
holti fyrir verðlaunafé úr skákmót-
um. Þá þiggur hann laun frá ríkinu
eins og aðrir stórmeistarar okkar.
„Þessi laun gera manni auðvitað
auðveldara að tryggja afkomuna,"
sagði Jóhann, þegar hann var spurð-
ur að þvi hvernig það væri að lifa
sem skákmaður.
„Jóhann er ágætur námsmaður
eins og skákmenn eru yfirleitt. Ég
veit að hann virkar dálítið hrokafull-
ur á suma við fyrstu kynni. Það er
þó aðeins á yfirborðinu. Undir niðri
er þetta ljúfur drengur sem hefur
gaman af lífinu,“ sagði gamall skóla-
félagi hans. „Jóhann virðist eiga
mjög létt með nám og stundum finnst
manni að hann taki lögfræðina eins
og hvert annað „hobbí" þó hún eigi
auðvitað að vera annað. Hann er
alltaf með toppeinkunnir og ég veit
að sumir sem eru að erfiða í þessu
allt árið skilja þetta varla því stund-
um er hann að frumlesa námsefnið
fyrir próf. Hann er ofsalega fljótur
að tileinka sér hlutina og nær þá upp
mikilli einbeitingu. Þá getur hann
verið mjög utan við sig,“ sagði Árni
Ármann.
Listamaðurinn Jón
„Jón er með listamannseðli í sér
enda teflir hann oft eins og listamað-
ur mundi gera. Hann er músíkalskur
mjög en hann spilar á píanó og var
lengi í píanónámi. Hann er fléttu-
maður, rómantískur og teflir oft eins
og gömlu meistararnir gerðu,“ sagði
Þráinn Guðmundsson aðspurður um
skákstíl Jón L.
Jón varð frægur þegar á unga aldri
þegar hann varð heimsmeistari
sveina, 16 ára og yngri, árið 1976.
Þá varð hann meðal annars á undan
núverandi heimsmeistara, Gary
Kasparov. Það má því segja að það
hafi komið mörgum á óvart að hann
skyldi vera síðastur fjórmenninga-
klíkunnar að ná í stórmeistaratitil-
inn en honum náði hann í ár. Jón
braut út af hefðinni meðal skák-
manna og fór ekki í lögfræði. Hann
fór í viðskiptafræði og lauk námi þar
síðasta vetur. Þá gat hann loksins
einbeitt sér að stórmeistaratitlinum
og ekki var að sökum að spyrja.
Hann náði þeim tveim áföngum sem
eftir voru með glæsilegum sigrum á
mótum í Finnlandi og Búlgariu.
„Það er tímaþröngin sem fer verst
með Jón og hún háir honum veru-
lega. Þetta er slæmur ávani en þetta
háði nú reyndar einnig Friðriki Ól-
afssyni á sínum tíma,“ sagði Bragi
Kristjánsson. „Jón hefur persónu-
legri skákstíl en hinir í sveitinni.
Hann er ágengur og teflir hvasst.
Þá teflir hann upp á flækjur og er
mikill sóknarskákmaður,“ sagði
Friðrik Ólafsson.
Jón L. er 26 ára og er nú með 2510
Elo-stig sem er það hæsta sem hann
hefur komist í. Reyndar á hann inni
töluverða hækkun við næstu út-
reikninga í desember. Kann verður
útnefndur stórmeistari á þingi Al-
þjóða skáksambandsins sem fer fram
samhliða ólympíumótinu i Dubai.
Jón L. á eldri bróður, Ásgeir Þór
Árnason lögfræðing, sem einnig hef-
ur látið töluvert kveða að sér í
skákinni. Mörgum finnst þeir bræð-
ur töluvert ólíkir. „Jón er voðalega
mildur persónuleiki. Ásgeir er frakk-
ari, dálítið sérkennilegur um margt
og mikill háðfugl. Þá á Ásgeir til að
láta ýmislegt út úr sér sem Jón myndi
aldrei gera. Jón er hvers manns hug-
ljúfi, ég held að það líki öllum mjög
vel við hann. Fíjöir þeirra bræðra dó
þegar Jón var úngur og hann hefur
mjög náið samband við móður sína,
er reyndar nýfluttur að heiman.
Þetta er dálítið „snobbuð" ætt, Jóns
Loftssonarættin, og Jón kann sig
ákaflega vel,“ sagði kunningi þeirra
bræðra. Það er töluvert samkvæmis-
líf í kringum skákmennina og halda
þeir vel hópinn. Jón þykir ómissandi
þar. Eins og áður segir þá lauk Jón
prófi í viðskiptafræði fyrr á árinu en
hann ætlar að leggja fyrir sig skák-
ina nú í einhvern tíma. „Sjálfsagt
væri maður löngu búinn að fá sér
vinnu ef maður ætti ekki von á stór-
meistaralaununum," sagði Jón en
þau fær hann þegar hann hefur verið
formlega útnefndur.
„Margeir er geysilegur vinnu-
hestur“
„Margeir er geysilegur vinnuhest-
ur og þó hann tapi skák og skák
lætur hann það ekki á sig fá. Hann
teflir ekki mjög fallega en er ótrúlega
þrautseigur," sagði Þráinn, en að
margra dómi teflir Margeir ekki af
sama glæsibrag og félagar hans eiga
til - það er þrautseigjan og góð byrj-
anaþekking sem einkennir skákstíl
hans fyrst og fremst.
Margeir lauk lögfræðiprófi á síð-
asta ári og var til þess tekið að hann
lauk því á tilsettum tima en það hef-
ur löngum viljað brenna við að
skákmenn hafa tafist í námi. „Mar-
geir var góður námsmaður sem sést
,best á því að ferðalög hans vegna
skákmóta töfðu hann ekkert í námi.
Hann nýtti sér mjög vel geysilega
gott minni. Hann var alla tíð ári á
undan í námi og lauk öllum prófum
á tilsettum tíma enda sannkallaður
púlshestur,“ sagði samferðamaður
hans í námi.
„Já, Margeir er mikill afkastamað-
ur. Hann þarf oft að fá frí í vinnu
sinni vegna skákarinnar en þess á
milli er ótrúlegt hverju hann fær af-.
kastað," sagði Bragi Kristjánsson
sem staffar eins og Margeir sem lög-
fræðingur hjá Búnaðarbankanum.
„Ég held að það sé ekki vafamál að
Margeir er einbeittastur skákmanna
okkar og þá er hann ákaflega sterkur
á taugum," bætti Bragi við.
„Margeir er metnaðargjarn og hef-
ur gífurlega sjálfsstjórn. Sem dæmi
um það má nefna að hann var ekki
taktískur skákmaður en hefur þrosk-
að þennan eiginleika með sér. Hann
hefur einfaldleg agað sjálfan sig.
Hann var þegar frá upphafi góður í
stöðubaráttu en hefur unnið mikið á
í taktík," sagði Ólafur H. Ólafsson
viðskiptafræðingur og hélt áfram:
„Ég get sem dæmi um sjálfsaga Mar-
geirs nefnt að einu sinni, þegar ég
var að fara með skákliði út, þá fengu
flestir sér bjór í Keflavík svona eins
og gengur. Margeir var hins vegar
ekki á því. Hann reynir alltaf að
koma vel fyrirkallaður í mót og pass-
ar vel upp á svona hluti.“
„Margeir er harður af sér og er
þekktur fyrir það meðal skákmanna.
Hann tekur oft áhættu og hann vin-
ur oft skemmtilega sigra, bara á
hörkunni. Mér virðist hann hafa
breytt um stíl nú í seinni tíð og virð-
ist það hafa tekist ágætlega hjá
honum. Hann er orðin mun meiri
sóknarskákmaður. Hann gengur þó
stundum of langt í vinningstilraun-
um sínum,“ sagði Friðrik Ólafsson
um skákstíl Margeirs.
„Margeir virkar stundum þurr á
manninn en ég veit þó að hann getur
veri töluverður húmoristi þegar
hann vill það við hafa,“ sagði kunn-
ur skákmaður. Flestir viðmælenda
DV sögðu að Margeir væri mjög
metnaðargjarn og því hefði komið
nokkuð á óvart að hann hefði gefið
Jóni eftir þriðja sætið. Þeir voru
jafnir að stigum og því hefði það
orðið að samkomulagi milli þeirra
að Jón yrði á þriðja borði. Margeir
hefði hins vegar getað farið fram á
að tefla á þriðja borði því hann ætti
örugglega mikla hækkun inni. Þá
væri hann núverandi íslandsmeist-
ari. Flestir töldu þessa ákvörðun
Margeirs sýna glöggt samheldnina í
sveitinni.
Guðmundur hefur staðnað
Guðmundur Sigurjónsson er elstur
í skáksveitinni, rúmlega fertugur að
aldri. Hann náði sér í stórmeistara-
titilinn 1975 á jólamótinu í Hastings
og varð annar Islendinga til að ná
titlinum en hann varð alþjóðlegur
meistari 1970. Að margra dómi hefur
honum hrakað stöðugt síðan sem
skákmanni þó hann hafi lengst af
helgað sig skákinni. Hann er lög-
fræðingur að mennt.
„Guðmundur er mjög góður skák-
maður, það hef ég alltaf sagt. En það
er eins og einhver minnimáttarkennd
hrjái hann og hann hefur ekki næga
trú á sjálfum sér. Þarna þarf einhver
hugarfarsbreyting að koma til. Það
er eins og hann hafi hætt að tefla
þegar hann varð stórmeistari. Hann
ætlaði að taka það á örygginu en það
dugir bara ekki til,“ sagði Jóhann
Þórir. „Það er eins og það hafi farið
allur vindur úr Guðmundi þegar
hann komst á ríkislaunin. Reyndar
skil ég þetta ekki með þessi ríkis-
laun, það er eins og bæði Friðrik og
Guðmundur hafi dottið út úr ská-
kinni við að fá þau. Þá finnst mér
sorglegt með Guðmund hversu ein-
angraður hann er. Hann er afskap-
lega lítið í sambandi við hina í
skáksveitinni. Hins vegar var Guð-
mundur vel lesinn í skákinni á sínum
tíma enda er hann ágætur fræðimað-
ur. Þá er hann afskaplega traustur.
Ef hann lofar einhverju þá stendur
það eins og stafur á bók,“ sagði mað-
ur sem mikið hefur starfað að
skákmálum hérlendis. Og annar
skákmaður bætir við: „Guðmundur
er búin að vera staðnaður í mörg ár.
Það hefur reynst honum erfitt að
halda áhuganum við. Eigi að síður
er hann en sterkur skákmaður."
En hverja telur Guðmundur vera
skýringuna á þessu? „Það er ákaf-
lega erfitt að útskýra svona öldudali,
þetta gerist bara. Ég vona þó að ég
sé að vinna mig úr þessu,“ sagði
Guðmundur sem er nú með 2490 Elo-
stig og hefur hann hækkað sig að
undanförnu. Hann náði mest 2530
stigum
„Guðmundur hefur orðið of frið-
samur með aldrinum og það hefur
leitt til þess að hann hefur staðnað
sem skákmaður. Þá er hann of skap-
laus. Hann var ágætlega sókndjarfur
þegar hann var ungur svo að hann
á þetta til. Hann nýtur virðingar
meðal skákmanna og það segir sitt
að Robert Hubner skyldi velja hann
sem aðstoðarmann sinn í áskorenda-
einvígjunum," sagði Þráinn Guð-
mundsson. Ýmsir vildu benda á að
fráléitt væri að tala um að Guðmund-
ur stæði eitthvað langt að baki
hinum i sveitinni. Hann væri ekki
langt á eftir þeim að stigum og væri
í framför, hann ætti eftir að ná sér á
strik aftur.
Nær Kari stórmeistaratitlin-
um?
Karl Þorsteins er yngstur þeirra
sem nú fara til Dubai en hann er 22
ára. Hann var útnefndur alþjóðlegur
meistari í fyrra, eftir góðan árangur
á móti í Borgarnesi. í dag er hann
með 2460 Elo-stig og hefúr aldrei
verið hærri. Honum hefur þó gengið
erfiðlega að nálgast stórmeistaratit-
ilinn og hefur hann ekki náð neinum
áfanga ennþá. Hvað skyldi Karl
segja um möguleika sína á því að
ná stórmeistaratitli? „Ég er nú í námi
í viðskiptafræði svo að þetta getur
dregist, ætli ég reyni ekki að fara
að fordæmi Jóns L. og reyni að ná
titlinum eftir nám. Annars stefni ég
ekkert frekar að því að gerast at-
vinnumaður í skákinni, það er
ekkert víst að maður nái betri ár-
angri sem slíkur.“
„Karl er léttur og lipur skákmaður
og er að því leyti ef til vill líkur Jó-
hanni. Hann er ungur enn og því er
varla tímabært að ræða um ákveðinn
stíl hjá honum,“ sagði Friðrik Ólafs-
son. I því sambandi er fróðlegt að
geta þess að Karli hefur einmitt
gengið hvað verst gegn Jóhanni.
„Mér gengur alltaf illa gegn Jó-
hanni, hann er minn erkifjandi við
skákborðið. Hins vegar hefur mér
gengið best gegn Helga, hann er sá
eini í sveitinni sem ég hef plússkor
gegn,“ sagði Karl.
„Karl er óskrifað blað í skákinni.
Ég tel þó að hann nái stórmeistara-
titlinum, hann hefur það í sér sem
þarf til þess. Það tekur þó tímann
sinn að ná því jafnvægi sem þarf til
þess. Enn er hann töluvert að baki
Jiinum .í sveitinni en auðvitað verður
að gæta þess hve ungur hann er.“
sagði Þráinn Guðmundsson. „Karl
hefur ekki teflt nóg til að hafa mögu-
leika á titlinum og satt best að segja
finnst mér hann ekki hafa gert nóg
til þess að ná honum. Hann kemur
þó stundum á óvart fyrir hörku og
þolinmæði við taflborðið. Hann
þvælist oft ótrúlega í leiðindatöflum
og svíður oft andstæðinginn þar. Ég
hef trú á því að hann geti náð í stór-
meistaratitilinn en til þess verður
hann að puða mikið," sagði Ólafur
H. Ólafsson.
„Kalli er ákaflega traustur strák-
ur. Hann er góður námsmaður og er
fljótur að tileinka sér hlutina. Ég
veit að hann hefur ekki haft jafn-
mikið fyrir skákinni og hinir i
sveitinni. Hann er meira fyrir hið
ljúfa líf og fer til dæmis mikið á
skemmtistaði. Það getur verið að
hann sé ekki jafnmetnaðarfullur og
hinir varðandi skákina. En þegar
hann byrjar að tefla getur hann orð-
ið mjög metnaðarfullur og þrjóskur.
Þá finnst mér Kalli hafa víðara
áhugasvið en hinir strákarnir, sem
lifa mjög mikið í skákinni. Hann var
í knattspymu með Þrótti í yngri
flokkum og þótti efnilegur. Hann
komst meira að segja í blöðin í Júgó-
slavíu fyrir knattspyrnuiðkun sína,“
sagði Árni Ármann sem var aðstoð-
armaður Karls á Evrópumeistara-
móti unglinga í Groningen í Hollandi
fyrir nokkrum árum. „Þrjóska og
ákveðni Kalla kom vel í ljós þar.
Þegar var að líða að lokum mótsins.
en þá var Kalli í 2.-3. sæti og hafði
góða möguleika á að vinna mótið,
barst sú frétt til Hollands að æskufé-
lagi hans værj látinn heima á Islandi.
Það kom aldrei annað til greina hjá
Kalla en að.' fara strax heim til Is-
lands. Ég veit að sumum fannst hann
kasta góðuín möguleika frá sér en
þó held ég áð flestum hafi þótt mikið
til koma utn staðfestu hans og hvern-
ig hann brást þarna við.“
Karl tefldi á síðasta ólympíumóti
og tapaði þá öllum sínum skákum
enda hafði hann þá ekki mikla
reynslu. „Karl komst aldrei í gang á
síðasta ólympíumóti enda kom hann
inn í liðið á erfiðum augnablikum.
Hann var ávallt með svart og það
gegn sterkum mönnum. Ég hef trú á
því að hann eigi eftir að gera miklu
betri hluti núna,“ sagði dr. Kristján
Guðmundsson. liðsstjóri sveitarinn-
ar, sem var reyndar einnig liðsstjóri
á síðasta ólympíumóti. SMJ
224
a&vw£.L
Fjölbreytt úrval af fallegum gjafavörum.
Við útbúum fallegan jólapakka og sjáum um að
hann komist til viðtakanda á réttum tíma.
^lofossbúöin
VESTURGÖTU 2, SÍMI 13404
Sendum um alian heim.