Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1978, Page 59
og fór að losa um beltið. En þegar losnaði um buxnahaldið
kom músin upp að því, en auðvitað innan undir skyrtunni. Ég
var handfljótur og gat króað hana af á hægri mjöðm. Þá kom
Ingólfur skólabróðir minn mér til hjálpar, dró skyrtuna upp
úr buxnahaldinu, smeygði hendinni niður fyrir haldið og náði
músinni í lófa sinn. Blessaður veri hann, en Ármann hreyfði
sig ekki nei, ónei. Ég leit heiftaraugum til Ármanns, en hann
tók víst ekkert eftir því. Svo leit ég á stelpurnar sem stóðu
þarna með flissandi andlit og mér flaug í hug að hrifsa músina
af Ingólfi og smeygja upp undir stelpuna sem verst lét, en á
svona góðviðrisdögum gengu þær í pilsum við heyskapinn. En
ég hef ævinlega heigull verið, hikaði við og tækifærið leið hjá.
Eg bjóst líka við að þetta kynni að verða talin ókurteisi og ef
til vill mundi líða yfir stelpuna af hræðslu. Ég settist svo niður
til að jafna mig eftir allt taugaálagið, en stelpurnar röltu aftur
til vinnu sinnar, pískruðu saman, litu um öxl og hlógu eins og
heimskingjar. Ég drattaðist svo fljótlega á fætur og fór að
hjálpa Ármanni við tilraunirnar, en talaði með minna móti
það, sem eftir var dagsins.
61