Morgunblaðið - 16.01.2001, Blaðsíða 35
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 16. JANÚAR 2001 35
Bæjarlind 6, sími 554 6300
www.mira.is
ÚTSALAN
Í FULLUM
GANGI
Opið virka daga kl. 10-18, laugardaga kl. 10-16,
sunnudaga kl. 13-16
SÖGUFÉLAG Ísfirðinga hefur
gefið út ársrit sitt síðan árið 1956
og er fertugasti árgangur fyrir
skömmu kominn á prent. Það er
því með elstu ritum af þessu tagi.
Alla tíð hefur mér fundist þetta
ársrit hið ágætasta og er nýjasti
árgangurinn síst eftirbátur hinna.
Þessi árgangur er að því leyti sér-
stæður í því hversu vel hann tengir
saman nútíð og fortíð. Hið ytra til-
efni er kristnitökuafmælið á liðnu
ári. En í stað þess að fylla ritið af
glamurkenndum ræðum fyrir-
manna og myndum af öllu tilstand-
inu (sem þó þurfa vissulega að vera
til) er ritið helgað „þverskurði,
dæmi um fjölbreytni trúarlífs og
kristnihalds í fjórðungnum í ald-
anna rás“. Ritstjórarnir segja síðan
í Aðfararorðum að lesendur hljóti
að dæma um hvernig til hafi tekist.
Sem einn lesandi get ég þegar í
upphafi lýst yfir því að ég er harla
ánægður með árangurinn.
Fyrir utan falleg minningarorð
Jóns Þ. Þórs um stjórnarmann
Sögufélagsins, Eyjólf Jónsson, sem
lést fyrr á árinu, flytur ársritið sjö
ritgerðir, allar að mínu viti merkar.
Fyrsta ritgerðin og sú langlengsta
(65 bls.) er Saga Mýrakirkju í
Dýrafirði. Raunar er hún talsvert
meira en kirkjusaga, því að greint
er frá ábúendum, eignarhaldi og
prestum, eftir því sem heimildir
hrökkva til. Er þar farið eins langt
aftur og hægt er. Vera má að sum-
um sem léttmetis óska þyki rit-
gerðin í þyngra lagi, hinum finnst
hún merk, vönduð og áhugaverð.
Pétur H. Ármannsson ritar Hug-
leiðingu um kirkjur. Þar er greint
frá allmörgum kirkjum þar vestra
og birtar fallegar myndir. Áherslan
hvílir á „frumkvöðli kirkjuhúsa
með nútímasniði hér á landi“,
Rögnvaldi Á. Ólafssyni. En hann
byggði þrjár fagrar timburkirkjur
á Vestfjörðum, sem allar voru vígð-
ar árið 1908. Einnig koma við sögu
Guðjón Samúelsson og fleiri. Þessi
ritgerð, þó að stutt sé, er einkar
áhugaverð og auðlesin.
Þriðja ritgerðin er eftir Þóru
Kristjánsdóttur og nefnist Enn um
séra Hjalta Þorsteinsson í Vatns-
firði. Nafn ritgerðarinnar höfðar til
þess að árið 1978 birtist í þessu
sama ársriti merk ritgerð dr.
Kristjáns Eldjárns um verk séra
Hjalta í Vatnsfjarðarkirkju. Þóra
tekur upp þráðinn á ný og bætir
við frásögn af þeim verkum, sem
fundist hafa eftir að dr. Kristján
skrifaði sína grein og ætla má að
séu eftir sr. Hjalta. Er það predik-
unarstóll í Hraunskirkju í Keldudal
í Dýrafirði og altaristafla úr Garp-
dalskirkju.
Eftir að höfundur hefur greint
stuttlega frá æviferli sr. Hjalta er
fjallað um þessi tvö verk og raunar
nokkur fleiri. Góð viðbót er þetta
við sögu kirkjulistar.
Dr. Gunnar Kristjánsson skrifar
prýðisvel um altaristöflur Brynj-
ólfs Þórðarsonar í vestfirskum
kirkjum. Brynjólfur þessi dó ungur
að árum (f. 1896, d. 1938) og hafði
aðeins áratug til starfa hérlendis.
Eftir hann eru níu altaristöflur,
þar af fjórar á Vestfjörðum.
Þá á Björn Teitsson stutta rit-
gerð um verndardýrlinga kirkna á
Vestfjörðum á miðöldum. Á kaþ-
ólskum tíma munu hafa verið 39 al-
kirkjur á Vestfjörðum. Í heimildum
er greint frá hvaða dýrlingum 37
þessara kirkna voru helgaðar.
Allt er þetta vendilega rakið og
borið saman við tíðni á landinu
öllu.
Mikil og góð ritgerð er eftir séra
Gunnar Björnsson Um tónlist og
kirkjusöng á Vestfjörðum. Er þar
farið langt aftur í tímann, en þegar
nær dregur nútíðinni greint frá
hljóðfærum, organistum og öðrum
framámönnum í kirkjutónlist þar
vestra.
Síðustu ritgerðina skrifar Pétur
Bjarnason. Hún segir frá séra Jóni
Kr. Ísfeld, er lengi var prestur á
Bíldudal og var hinn merkasti mað-
ur, er margt gott lét af sér leiða.
Í bókarlok er félagatal og aftast
allmargar auglýsingasíður. Þetta
rit er hið myndarlegasta að öllum
frágangi og bersýnilega vel rit-
stýrt.
Vestfirskt kristnihald
BÆKUR
H é r a ð s r i t
Ritstj.: Jón Þ. Þór og Veturliði
Óskarsson Sögufélag Ísfirðinga,
Ísafirði, 2000, 228 bls.
ÁRSRIT SÖGUFÉLAGS
ÍSFIRÐINGA 2000,
40. ÁRG.
Sigurjón Björnsson
VERA Sörensen opnaði nýlega
listasmiðju í Garðabæ, Goðatúni 1,
sem ber heitið Listasmiðja Veru.
Í fréttatilkynningu segir að Vera
sé fyrsti fullgildi kennarinn í mál-
unartækni Bob Ross á Íslandi.
Hún heldur námskeið í málun
með aðferðum hans og verður nem-
endum kennt að mála landslags- og
sjávarmyndir með olíulitum.
Heimasíða Listasmiðju Veru er
http://www.artvera.com.
Vera Sörensen
Listasmiðja
í Garðabæ
Í BANDARÍSKA spennutryllin-
um „Bless the Child“ leikur Kim
Basinger áhyggjusama fóstur-
mömmu sem tapar barninu sínu í
hendur mannræningjum er stunda
djöflaátrúnað. Lítið þýðir fyrir hana
að leita til lögreglunnar svo hún
verður að eiga við óþjóðalýðinn
mikið til upp á eigin spýtur.
Maður kemst fljótlega að því að
barnið, sem er stúlka, er talsvert
sérstakt, fætt á jólanótt og búið
ýmsum hæfileikum og það læðist að
manni sá grunur að hér sé loks
Messías endurborinn. Rufus Sewell,
sem fer fyrir djöfladýrkendum, er
ekki í neinum vafa og ætlar sér að
myrða barnið að kvöldi páskadags
en mestur tími hans fram að því fer
í að fá stelpuna til þess að ganga í
raðir sinnar andkristilegu hreyfing-
ar.
Gallinn við spennutrylli þennan
er sá að hann er alls ekki spennandi
og sagan eins og hún er sett fram
undir stjórn Chuck Russells, er
ótrúverðug og furðulega illa grund-
uð sé tekið tillit til þess að framleið-
andi myndarinnar er Mace Neufeld,
sem þátt tók í gerð einnar bestu
hrollvekju síðari tíma, The Omen.
Þar á ofan er myndin illa leikin.
Basinger, sem gerði svo fína hluti í
aukahlutverki í LA Confidential,
hefur lítil tök á aðalhlutverkinu
enda býður það kannski ekki upp á
mikil tilþrif. Enn aumlegri er
Jimmy Smiths í hlutverki lögreglu-
manns sem dettur inn í myndina
hér og hvar með hræðilegar löggu-
klisjur á vörum; hann hefur í raun
ekkert að gera í myndinni annað en
að taka sig vel út. Rufus Sewell tek-
ur B-hlutverk sitt einstaklega alvar-
lega sem útsendari Satans hér á
jörð og leikur af þreföldum krafti á
við hina.
„Bless the Child“ hefur þannig
flesta þætti vondrar B-myndar. Það
eru í henni atriði er tengjast stúlk-
unni dularfullu, sem sýna hvað
hægt hefði verið að gera úr efni-
viðnum en þau nægja ekki til þess
að fela gallana.
Blessað barnalán
KVIKMYNDIR
S t j ö r n u b í ó
Leikstjóri: Chuck Russell. Handrit
byggt á samnefndri skáldsögu
Cathy Cash Spelman. Framleið-
andi: Mace Neufeld. Aðalhlutverk:
Kim Basinger, Jimmy Smits, Rufus
Sewell, Ian Holm, Angela Bettis og
Christina Ricci.
„BLESS THE CHILD“ 1 ⁄2
Arnaldur Indriðason