Morgunblaðið - 24.02.2001, Page 27
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. FEBRÚAR 2001 27
RENATE Künast, nýr landbúnaðar-
ráðherra Þýskalands, boðaði mikla
stefnubreytingu í þýskum landbúnaði
í sinni fyrstu þingræðu sem hún hélt
eftir að hún tók við embættinu á dög-
unum. Künast, sem tilheyrir flokki
græningja og fer einnig með málefni
neytenda og matvæla, vill breyta
þýskum landbúnaði þannig að aukin
áhersla verði lögð á lífrænan landbún-
að og dregið úr „verksmiðjuaðferð-
um“ við framleiðslu landbúnaðaraf-
urða. Künast sagði kúariðuvandann í
raun tákna endalok gamaldags fram-
leiðsluaðferða í landbúnaði.
Künast tók við embætti landbún-
aðarráðherra í Þýskalandi í janúar
eftir að bæði landbúnaðarráðherra og
heilbrigðisráðherra Þýskalands höfðu
sagt af sér vegna kúariðufársins.
Künast benti á að kúariðufárið
hefði í raun bundið enda á hugsunar-
lausa neyslu og sagði að nýr mæli-
kvarði í landbúnaði yrði gæði fram-
leiðslu frekar en magn. Ráðherrann
tilkynnti að hún myndi beita sér fyrir
meiri sveigjanleika í stefnu ESB í
styrkjum til landbúnaðarins. Hún
benti á að árlega fær þýskur landbún-
aður um 27 milljarða þýskra marka í
styrki, andvirði yfir 1.000 milljarða
ísl. kr., þar af tæpan helming úr sjóð-
um ESB. Neytendum væri hins vegar
nóg boðið nú og vildu að peningum
yrði varið í að breyta framleiðsluað-
ferðum landbúnaðarins. Í núverandi
kerfi fá bændur beina styrki sem
miða við fjölda gripa eða stærð lands.
Að því er fram kemur í þýska dag-
blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeit-
ung mun stefnan fela í sér ýmsar
breytingar í kvikfjárrækt og meira
eftirlit með framleiðslu. Hætt verði að
nota sýklalyf við eldi kvikfénaðar
löngu áður en árið 2005 rennur upp en
það er viðmiðunarár ESB. Künast
boðaði einnig verulega aukningu líf-
ræns búskapar, úr 2,5% í 20%. Einnig
er áætlað að hefja notkun gæða-
stimpla, annars vegar fyrir lífrænar
afurðir og hins vegar fyrir landbún-
aðarafurðir sem uppfylla lágmarks
gæðastaðla.
Breytingarnar sem Künast boðar
stangast verulega á við stefnu ESB í
landbúnaðarmálum og næsta víst að
sum aðildarlanda munu ekki taka
þeim fagnandi. Að mati Michaels
Manns, blaðamanns Financial Times,
vekur stefnubreytingin vonir þeirra
sem hafa barist fyrir breytingum í
landbúnaðarstefnu ESB sem kostar
bandalagið nú um 40 milljarða evra
árlega, andvirði yfir 3.000 milljarða
ísl. kr.
Framkvæmdastjórn ESB vinnur
nú að endurskoðun á hluta af land-
búnaðarstefnunni og hefur Franz
Fischler sem fer með landbúnaðar-
mál í framkvæmdastjórninni sagt að
hann muni nota tækifærið til að
þrýsta á umbætur en hann hefur m.a.
gagnrýnt hversu miklum fjármunum
er varið í að styrkja bændur en litlum
í byggðaþróun.
Talsmaður Fischler, Gregor
Kreuzhuber, sagði tillögur Künast
vera mjög áhugaverðar og í takt við
áherslur Fischlers. Framkvæmda-
stjórn ESB hefur og bent á að nauð-
synlegt sé að breyta styrkjakerfi
landbúnaðarins vegna fyrirhugaðrar
stækkunar þess.
Breytingar koma örugglega til með
að mæta harðri andstöðu aðildar-
landa, þ.á m. Frakklands. Næsta víst
þykir hins vegar að þeim sem um-
bylta vilja núverandi kerfi muni vaxa
fiskur um hrygg en meðal þeirra sem
vilja breyta kerfinu eru Bretar, Svíar
og Danir.
Landbúnaðarráðherra Þýskalands boðar breytingar
Reuters
Græninginn Renate Künast, nýr landbúnaðarráðherra
Þýskalands, í ræðustól í þýska þinginu.
Áhersla á gæði
fremur en magn
Berlín. AP.