Morgunblaðið - 27.04.2001, Page 28

Morgunblaðið - 27.04.2001, Page 28
ERLENT 28 FÖSTUDAGUR 27. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ ÚKRAÍNSKA þingið samþykkti í gær með miklum mun vantraust á forsætisráðherra Úkraínu, um- bótasinnann Víktor Júshtsjenko, og á alla ríkisstjórnina. Tóku kommúnistar og auðjöfrarnir í landinu höndum saman um van- traustið en efnahagsumbætur Júshtsjenkos hafa komið illa við hagsmuni þeirra síðarnefndu. Segja má, að nú ríki mesta kreppa í úkraínskum stjórnmálum frá því landið fékk sjálfstæði fyrir 10 ár- um. Staðan í úkraínskum stjórnmál- um er nú sú, að Júshtsjenko er orðinn að óopinberum leiðtoga stjórnarandstöðunnar og helsti andstæðingur Leoníds Kútsjma forseta. Júshtsjenko er orðlagður fyrir heiðarleika en Kútsjma er orðaður við margvíslega spillingu og þar á meðal við morð á blaða- manni. „Ég er á förum úr þessu emb- ætti en ég mun halda baráttunni áfram,“ sagði Júshtsjenko á fundi í gær með um 15.000 manns, sem komu til að lýsa yfir stuðningi við hann. „Lýðræðið í þessu landi hef- ur orðið fyrir alvarlegu áfalli. Hin ráðandi öfl eru því miður ófær um að þrífast í samfélagi, sem lýtur lögum og reglum.“ Kommúnistar, stærsti flokkur- inn á þingi, sökuðu Júshtsjenko um að vinna gegn þjóðarhagsmun- um með því að setja ræktarland í hendur einstaklinga og með öðrum efnahagsumbótum, sem nutu stuðnings Alþjóðagjaldeyrissjóðs- ins. Stjórnmálaskýrendur telja hins vegar, að nýríki aðallinn í Úk- raínu, stuðningsmenn Kútsjma forseta, hafi staðið að baki van- traustinu í því skyni að binda enda á lagalegar og efnahagslegar um- bætur, sem voru farnar að skaða hagsmuni þeirra verulega. Forystumaður úkraínsku stjórn- arandstöðunnar nú er Júlía Tímos- henko, fyrrverandi aðstoðarfor- sætisráðherra, en henni var vikið úr embætti eftir að hafa verið sök- uð um spillingu. Eins og málum er háttað í landinu veit þó enginn hvort þær sakir eru sannar eða lognar en ljóst er, að Júshtsjenko er miklu betur til þess fallinn að berjast gegn Kútsjma og hirðinni hans en Tímoshenko. Hann er eins og fyrr segir talinn stálheiðarleg- ur, sem er heldur sjaldgæft fyr- irbrigði í úkraínskum stjórnmál- um, en auk alls annars er Kútsjma almennt grunaður um að hafa skipað fyrir um morðið á blaða- manninum Georgí Gongadze. Vegna þess má segja, að hann sé hálflamaður sem forseti jafnt heima fyrir sem erlendis en hann hefur notið þess, að stjórnarand- stöðuna hefur skort nógu trúverð- ugan leiðtoga. Hann kann að vera kominn með Júshtsjenko. Vestrænir sérfræðingar segja, að vegna umbóta Júshtsjenkos hafi loksins verið farið að rofa til í efnahagsmálunum en nú sé Úkr- aína á leið með að verða að nokk- urs konar einskis-manns-landi áframhaldandi óvissu og sundur- lyndis. Á Vesturlöndum voru bundnar miklar vonir við Júshtsjenko og þar er hans sárt saknað en á hinn bóginn geta vest- rænar ríkisstjórnir ekki lýst yfir beinum stuðningi við hann án þess að vera sakaðar um íhlutun í úkr- aínsk innanríkismál. Vestrænir kaupsýslumenn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF, hafa þó ekki farið í neina launkofa með stuðning sinn við Júshtsjenko og nú þegar búið er að bola honum burt er ólíklegt, að Úkraína fái meiri lán hjá sjóðnum. Ástandið í landinu er auk þess að hrekja burt flesta erlenda fjárfesta í landinu. Í fang Rússum Á Vesturlöndum er óttast, að ein af afleiðingum brottreksturs Júshtsjenkos verði að færa Úkraínu enn betur í fang Rússum eins og kommúnistar í landinu vilja. Úkraínumenn standa ekki aðeins nærri Rússum land- fræðilega og tilfinningalega, held- ur verða þeir æ háðari þeim fjárhagslega með hverju árinu sem líður. Óvissa í Úkraínu eftir brottrekstur umbótasinnans Víktors Júshtsjenkos Kommúnistar og auðjöfrarnir tóku höndum saman Víktor Júshtsjenko Kíev. AFP, Reuter. SVARTFELLINGAR erustolt þjóð og búnir að fá nógaf því að vera hluti annarrar þjóðar og þurfa þar af leiðandi að sætta sig við skertan hlut í sam- býlinu við stóra bróðurinn Serbíu. Svartfjallaland var um langt skeið sjálfstætt ríki með konung og kirkju og þrátt fyrir náið sambýli og skyldleika við Serba þykir helmingi þjóðarinnar tími til kom- inn að binda formlegan enda á gömlu Júgóslavíu. Hverjar svo sem afleiðingarnar verða. Nafnið Svartfjallaland vísar til fjallsins Lovcen og raunar lands- lagsins alls, en það er fjalllent og ægifagurt. Landið er einkum þekkt undir hinu ítalska heiti sínu, Montenegro, en það var um aldabil hluti Rómaveldis. Það er hvorki stórt né fjölmennt, er með strjál- byggðustu svæðum Balkanskaga. Íbúarnir eru rétt rúmlega 600.000 en landið er um 14.000 ferkíló- metrar að stærð, með landamæri að Bosníu, Króatíu, Serbíu, Ko- sovo og Albaníu. Svartfjallaland var í fyrstu byggt þjóðum sem komu frá Eystrasaltssvæðinu en Slavar sett- ust þar að á 8. öld. Þá geta Svart- fellingar einnig rekið ættir sínar til Illyríumanna, forfeðra Albana og jafnvel Rómverja. Svartfellingar eru náskyldir Serbum, sem fullyrða gjarnan að um eina og sömu þjóðina sé að ræða, en slíkt fellur þeim fyrr- nefndu lítt í geð. Þeir eru hávaxnir og dökkir yfirlitum og á Balkan- skaga hefur stundum verið haft á orði að þeir séu skapheitari en aðrar þjóðir skagans. Hvort það er satt skal ósagt látið en á meðal þekktra Svartfellinga má nefna Slobodan Milosevic, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, sem er af svart- fellsku foreldri, og Radovan Kar- adzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu- Serba. Stærstu minnihlutahóparnir eru Albanar í suðurhlutanum og músl- imar í norðri, sem liggur að Sandz- ak-héraði. Bágborinn efnahagur Svartfellingar tala serbnesku en vaxandi tilhneiging er þar í landi til þess að leggja áherslu á svart- fellskar mállýskur og að tekið verði upp opinbert tungumál; svartfellska, sem er að grunni til serbó-króatíska, að viðbættum þremur stöfum í ritmálinu. Rökin fyrir þessu eru þau að eftir að Júgóslavía leystist upp hafa öll nýju lýðveldin gefið tungumálinu eigið nafn nema Svartfjallaland, þótt þrjú þeirra séu í raun sama tungumálið (serbneska, bosníska og króatíska) og hin náskyld (slóv- enska og makedónska). Efnahagur Svartfjallalands er bágborinn en landið hefur liðið mjög fyrir efnahagsþvinganir vest- urveldanna gegn Júgóslavíu. Þá hefur hrun ferðamannaþjónust- unnar vegna stríðsátaka á Balk- anskaga komið illa niður á Svart- fjallalandi en strandlengja landsins var áður eftirsótt af ferðamönnum, bæði innlendum og erlendum. Svartfjallaland hefur um langt skeið verið ein helsta miðstöð smygls á Balkanskaga en hægt er um vik að sigla smyglvarningi, einkum sígarettum, í skjóli nætur til Ítalíu. Ítrekaðar tilraunir yf- irvalda til að draga úr smygli og skipulagðri glæpastarfsemi hafa borið takmarkaðan árangur, rétt eins og í öðrum löndum fyrrver- andi Júgóslavíu. Stjórnvöldum hef- ur hins vegar tekist að skattleggja hluta smyglsins en smyglarar eru rukkaðir um flutningsskatt, fyrir að fá að fara í gegnum landið. Er talið að allt að þriðjungur þess fjár sem rennur í ríkiskassann sé greiðslur frá smyglurum. Stóðust áhlaup Tyrkja Svartfjallaland er eina landið á Balkanskaga sem Tyrkir náðu ekki á sitt vald og leyna Svartfellingar ekki stolti sínu vegna þessa. Land- ið var hins vegar hluti rómverska keisaradæmisins, á svæði sem nefndist Illýría. Slavar settust að í Svartfjallalandi á 8. öld og á 13. öld var landið innlimað í serbneska konungdæmið. Það hlaut sjálf- stæði að nýju eftir ósigur Serba fyrir Tyrkjum í bardaganum í Kosovo Polje árið 1389 en sá at- burður er einn sá mikilvægasti í sögu Serbíu og hefur haft gríð- arleg áhrif á afstöðu Serba til Kos- ovo. Árið 1516 tóku prinsar rétttrún- aðarkirkjunnar völdin. Ítrekuð stríðsátök voru við Tyrki, sem réðu mestöllum Balkanskaga, og Albana, nágrannann í suðri, og ár- ið 1711 gengu Svartfellingar í bandalag með Rússum til að styrkja stöðu sína á ófriðartímum. Staða þeirra styrktist enn árið 1878 er sjálfstæði landsins var við- urkennt og landsvæði þess stækk- að. Í Balkanstríðunum 1912–13 börðust Svartfellingar og Serbar saman gegn Tyrkjum og skaut Nikolaj I, sem komist hafði til valda í Svartfjallalandi árið 1861, fyrsta skotinu. Svartfellingar fengu enn meira landsvæði í sinn hlut og börðust við hlið Serba í heimsstyrjöldinni fyrri. Er herir Austurríska-ungverska keisara- dæmisins voru kallaðir frá Svart- fjallalandi síðla árs 1918 komu ser- bneskir hermenn og stigamenn í þeirra stað. Nýtt þing hinna nýju serbnesku herra var sett í höfuðborginni Podgorica og var þess fyrsta verk að svipta Nikolaj krúnunni og inn- lima Svartfjallaland í Serbíu. Varð landið hluti konungsveldis Serba, Króata og Slóvena, sem stofnað var árið 1929 og nefndist Júgó- slavía. Í heimsstyrjöldinni síðari, í apríl 1941, hernámu Ítalir hluta Svart- fjallalands en mánuðurinn var ekki á enda áður en uppreisn var gerð. Næstu þrjú árin voru nær stans- lausir bardagar í Svartfjallalandi en undir lok ársins 1944 höfðu kommúnistar, undir stjórn Josefs Broz Titos og með aðstoð Breta, náð stærstum hluta landsins. Svartfellskir kommúnistar voru enda einn harðasti kjarninn í herj- um Titos. Eftir að heimsstyrjöldinni lauk varð Svartfjallaland eitt sex lýð- velda hinnar nýju Júgóslavíu Titos og var nafni höfuðborgar Svart- fjallalands, Podgorica, breytt í Titograd. Þegar ríkið leystist upp árið 1991 var Svartfjallaland hins vegar eina lýðveldið sem kaus að fylgja Serbum í hinni smækkuðu Júgóslavíu. Samstarfinu slitið Í upphafi sýndu Svartfellingar Serbum og þá einkum leiðtoga þeirra, Slobodan Milosevic, fullan stuðning. Árið 1997 klofnaði Lýð- veldisflokkur sósíalista hins vegar og Milo Djukanovic, núverandi for- seti landsins, komst til valda og hóf að þrýsta á um lýðræðislegar og efnahagslegar umbætur. Hvorki gekk né rak og Djukanovic dró úr samskiptunum við Serbíu enda telja Svartfellingar sig hafa borið skarðan hlut frá borði í sam- býlinu við miklu stærra land, en Serbar eru um 8 milljónir. Hvert skrefið á fætur öðru hefur verið stigið í sjálfstæðisátt og frá 1998 hefur landið í raun átt sára- lítið sameiginlegt með Serbum, nema hvað þjóðirnar eru enn í sama sambandsríki að nafninu til. Svartfellingar felldu júgóslavneska dínarinn úr gildi árið 1999 og tóku þýsk mörk upp í staðinn; meiri- hluti landsmanna, fylgismenn stjórnvalda, hunsaði kosningarnar til júgóslavneska þingsins og for- setaembættisins sl. haust og svo mætti lengi telja. Stjórnvöld í Svartfjallalandi viðurkenna ekki yfirráð júgóslavneskra yfirvalda í landinu, segja þau aðeins gilda í Serbíu. Vesturlönd studdu allar aðgerðir Svartfellinga dyggilega en hafa hins vegar snúið við blaðinu eftir að Milosevic missti völdin og lýð- ræðisöfl komu í hans stað. Óttast Vesturlönd nú að slíti Svartfell- ingar öll tengsl við Serba kunni slíkt að skapa óróa í Serbíu, jafn- vel átök til að koma í veg fyrir sambandsslit. Þá óttast Vesturlönd að vonum áhrifin sem slíkt myndi hafa á Kosovo, sem er hluti Júgó- slavíu. Verði sambandsríkið leyst upp verður að taka afstöðu til stöðu héraðsins og kröfu íbúanna um sjálfstæði. Óvíst er þó hvort Svartfellingar taka tillit til þessara raka. Endurheimt fornrar frægðar Svartfjallaland var lengi vel sjálfstætt ríki og hið eina á Balkanskaga sem Tyrkir náðu ekki á sitt vald. Þótt Svartfellingar séu ekki fjölmennir eru þeir stolt þjóð sem hefur fengið nóg af sambýlinu við Serba, skrifar Urður Gunnarsdóttir. AP Svartfellskur geitahirðir rekur hjörð sína nálægt bænum Virpazar í suðurhluta landsins síðastliðinn sunnudag.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.