Morgunblaðið - 27.04.2001, Síða 53

Morgunblaðið - 27.04.2001, Síða 53
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. APRÍL 2001 53 ég þig daglega og við töluðum alltaf saman. Ég var líka svo ánægður að sjá hve vinsæl þú varst meðal fólks þar. Það kunnu allir vel við þig, töluðu um hve falleg og hress þú værir alltaf, og meira að segja komu strákar til mín og spurðu hver þú værir því þeir höfðu aldrei séð þig fyrr. Einn spurði m.a. hvort hann mætti reyna við þig, honum leist svo vel á þig. Veit að þín var saknað þaðan þegar þú hættir og ég var oft spurður hvað væri að frétta af þér og hvernig þú hefðir það. Eftir að þú hættir í fríhöfninni þá spurði ég pabba þinn hvað þú værir að gera og hann sagði mér að þú vær- ir að kenna í barnaskóla úti á landi. Mér brá svolítið en var alveg ótrúlega ánægður að heyra þetta, þú hafðir átt í erfiðleikum nokkru á undan og að kenna 25 grislingum er eitthvað sem margir myndu ekki hafa þol eða þrek í að gera. En það sást greinilega að þú reyndir allt til að láta þér batna og það að hjálpa öðrum þegar maður á í erfiðleikum sjálfur er aðdáunarvert. En ef við hverfum aftur í gamla daga þá er margs að minnast. Man þegar þú varst í sundinu og sópaðir að þér bikurum og verðlaunum. Held líka að þú hafir haft mjög góðan kenn- ara og stuðning i honum pabba þín- um. Svo varstu alltaf dugleg í skól- anum en ef ég hugsa aftur mörg ár aftur í tímann þá man ég alltaf vel eft- ir þessu með námið og sportið. Þegar við Begga eða Kristján lék- um okkur saman og komum heim til ykkar þá fannst mér svo gaman að sjá þig. Man þegar ég kallaði þig alltaf pönkara því stundum klæddir þú þig öðruvísi að mínu mati en varst samt rosalega töff. Gerði þá stundum grín að þér og þú hlóst bara með. Svo er það náttúrulega gítarinn, það þarf ekki að fara mörgum orðum um hann. Þú elskaðir að spila. Eftir þína erfiðu lífsbaráttu og veikindi ertu loks búinn að fá friðinn sem þú þarfnaðist svo mikið og ég veit að Guð og allir hans englar eiga eftir að taka vel á móti þér, annað væri ekki hægt því þú ert svo góð, hlý og falleg sál. Elsku Kristín, ég trúi því að þú sért búin að hitta horfna ástvini sem eiga eftir að passa þig vel og ég vil bara þakka þér fyrir að vera frænka mín og vinur og ég vona að þér líði nú vel. Mun aldrei gleyma þér ástin mín. Megi algóður guð geyma þig. Guðmundur Valsson. Elsku Kristín mín er dáin. Þessi fallega, gáfaða og tilfinningaríka stúlka hefur yfirgefið þennan heim, sem lengi var svo grimmur og vægð- arlaus við hana. Kristínu var margt betur gefið en flestum öðrum. Hún varbráðgáfuð og hæfileikarík og gat allt sem hún tók sér fyrir hendur. Á unglingsárum var hún m.a. í leiklist, var ræðumaður kvöldsins í ræðulið- inu, spilaði á gítar, söng, samdi lög, texta og ljóð og skrifaði innblásnar ritgerðir. Hún hafði mikla útgeislun og gat heillað alla uppúr skónum. En samt efaðist hún sífellt um sjálfa sig. Hún var mjög næm og tilfinningarík og hafði óþrjótandi áhuga á fólki. Hún hafði mikla samúð með öllum sem stóðu höllum fæti, hafði róttækar skoðanir á þjóðfélagsmálum og var næmur og traustur vinur. En hún var líka mjög viðkvæm og auðsæranleg. Að auki hafði hún mikinn lífsþorsta og ævintýralöngun og vildi sjá og reyna allt sem var til í heiminum. Þessi blanda varð til þess að hún varð fórn- arlamb þeirrar grimmdar og ljótleika sem beitt er í undirheimum mannlífs- ins. Við Kristín kynntumst þegar hún var 13 ára og ég 14, þegar Helga móð- ursystir hennar varð mágkona mín. Í mörg ár vorum við bestu vinkonur. Kristín var mörg sumur og vetrar- parta fyrir vestan, bæði heima í Tröð og á Kirkjubóli hjá Höllu fænku sinni. Við unnum saman í fiski á Flateyri, kjöftuðum saman frammá nætur, fór- um saman á böll og spáðum í stráka og tókumst saman á við þessi spenn- andi en viðkvæmu unglingsár. Þegar við vorum staddar á sitt hvoru lands- horninu þá sendum við á milli doðr- anta-löng sendibréf þar sem lýst var í smáatriðum öllu sem á dagana hafði drifið. Sumarið sem við vorum 17 og 18 ára fórum við saman til Vest- mannaeyja að vinna í fiski og upplifa ævintýralegt verbúðalíf. Árið eftir var Kristín komin til Þýskalands sem skiptinemi og ég var orðin ólétt að honum Andra mínum. Doðranta-bréf- in héldu áfram að berast á milli. Haustið þar á eftir keyrðum við sam- an að vestan til Reykjavíkur. Kristín var þá nýkomin til landsins með árs reynslu sem skiptinemi í farteskinu og ég var að fara suður í nám með 9 mánaða gamlan son með mér. Næstu árin fór líf okkar inná ólíkar brautir, en við héldum samt áfram að vera vin- konur, hittumst eða kjöftuðum saman í síma löngum stundum. Alltof seint áttuðu bæði ég og allir ástvinir Krist- ínar sig á því að hún var orðin hættu- lega háð eiturlyfjum. Hún var snill- ingur í að fela ástand sitt; leit alltaf svo vel út og sannfæringakraftur hennar villti fyrir öllum. Við tóku meðferðir, föll og nýjar meðferðir. Loks fyrir um 6 árum tókst henni að losa sig alveg úr viðjum efnanna. En þá hafði of mikið gerst til að auðvelt væri að byggja upp nýtt líf. Hún var fangi þessarar skelfilegu lífsreynslu og mikill sjúklingur bæði líkamlega og tilfinningalega. Hún tók þrátt fyrir það þátt í forvarnastarfi og miðlaði af reynslu sinni til að hjálpa öðrum. Samband mitt og Kristínar hafði að milklu leyti slitnað á verstu neysluár- um hennar. Og einhvern veginn var erfitt að taka upp þráðinn á nýtt. Við hittumst þó af og til og spjölluðum saman. Ég sá þessa fallegu og gáfuðu ungu konu með sorg í augunum. Við fundum að okkur þótti enn svo inni- lega vænt um hvor aðra, en ég fann líka að ég gat ekki verið Kristínu sama vinkonan og áður því mig skorti þessa hræðilegu lífsreynslu sem hafði breytt öllu lífi hennar. Eftir að ég flutti til Bandaríkjanna fyrir nærri 2 árum hef ég nokkrum sinnum reynt að ná sambandi við hana en ekki tek- ist. Nú trega ég að ég hafi ekki reynt það betur. Ég vildi óska að ég fengi eitt tækifæri enn til að faðma hana að mér og segja henni hvað mér þykir vænt um hana. En ég geymi í hug- anum allar skemmtilegu og góðu minningarnar um hana og ég trúi að hún finni frið og hamingju þar sem hún er stödd nú. Elsku Eygló, Gummi, Eydís, Berglind, Kristján, Álfrún Perla og allir aðrir ástvinir Kristínar. Þetta eru erfiðir tímar fyrir ykkur öll. Ég veit að ást ykkar og umhyggja var það sem hélt Kristínu gangandi síð- ustu árin. Hún unni ykkur öllum svo heitt og hún var svo stolt af ykkur öll- um. Megi góður guð hjálpa ykkur að takast á við missinn og sorgina. Ég, Hrólfur og strákarnir sendum ykkur hlýjar hugsanir yfir hafið. Guðný Hildur Magnúsdóttir og fjölskylda, Boston. Elsku hjartans vinkona mín er dá- in. Hún var blóm kærleikans sem óx öðrum til eftirbreytni. Líf hennar var þyrnum stráð síðasta áratuginn og það voru engin ráð hér á landi til að bregðast rétt við. Kristín Gerður var einstök manneskja og maður spyr sig hvers vegna svona hjartahlý og góð manneskja fer á meðan mörg ill- mennin standa eftir óhreyfð. Ég er reyndar viss um að þau eru ekki jafn óhreyfð og lítur út fyrir að vera. Kristín Gerður fletti ofan af illmenn- um og illverkum þeirra. Hún helgaði hin síðari ár þeirri baráttu. Baráttu sem stundum leit út fyrir að vera von- laus en bar þó ávöxt. Stærsta ávöxt- inn bar það þó, hvernig þessi elsku- lega vinkona mín, þetta blóm dásemdarinnar, snart hjörtu sam- ferðamanna sinna. Einlægnin og hlýj- an lét engan ósnortinn sem hitti hana. Stundum notfærðu menn sér hreina og opna sál hennar sem særði hana djúpt. Kristín Gerður var ein af þess- um örfáu sem maður nýtur heiðurs af að fá að kynnast og finnur að þar hef- ur maður fundið hreina og ómengaða manngæsku. Það var ekkert illt til í þessari stúlku sem nú er farin. Hún notfærði sér engan en margir not- færðu sér hana. Hvernig gátu menn farið svona með hana? Ég vil núna ávarpa þig beint, elsku Kristín Gerð- ur mín. Mig langar svo að segja allt það sem ég veit. Mig langar svo að vera alveg hreinskilinn með allt það sem þú sagðir mér og áttir svo erfitt að lifa með en þú veist að ég get það ekki. Það sem mestu máli skiptir er að þú gafst svo miklu, miklu meira en þú nokkurn tímann tókst í þessu lífi. Þú hleyptir ekki hverjum sem er inn í líf þitt en þú sagðir mér þína sögu. Góður vinskapur tókst á milli okkar fyrir þremur árum. Strax og ég hitti þig fyrst skynjaði ég hve mikilli visku þú bjóst yfir. Stundum varstu líkt og sært dýr, lítil og óörugg en síðan braust sköpunargleðin og baráttan fram fyrir góðum málstað og þú gast allt. Í fyrra fannst þú sköpunargleð- inni farveg í ljósmyndanámi. Ég hef kerti logandi við myndirnar sem þú gafst mér í jólagjöf. Ég veit að þú hefðir orðið afburða ljósmyndari og ég er svo óskaplega dapur yfir því að það gerðist ekki. Þú varst svo hæfi- leikarík þótt þú efaðist oftsinnis um það. Alveg eins og þegar þú heillaðir mig á fyrsta fundi okkar, heillaðir þú fólk með ljósmyndahæfileikum þín- um. Þeir lágu ekki bara í tækninni heldur miklu fremur í hæfileikum þínum til að nálgast fólk. Fólki fannst svo fljótt vænt um þig alveg eins og þú tókst líf þess inn í þitt á svip- stundu. Ein þeirra var gamla konan í Þingholtunum sem bjó við sára fá- tækt. Þú sveipaðir hana birtu þinni, sem skilaði sér í gullfallegri mynd inn í stofuna til mín, þar sem kertið logar. Ó, hvað ég sakna þín sárt kæra vin- kona. Ég veit að ef þú sæir mig núna skælandi fyrir framan tölvuna að reyna að hitta á stafina, í gegnum tár- in, mundir þú umvefja mig hlýjum örmum þínum og mjúkum kossi. Þetta líf er svo ótrúlega grimmt. Það getur líka verið svo óréttlát. Það var einmitt óréttlæti heimsins sem fékk mest á þig. Grimmd fólks og skeyt- ingarleysi gagnvart náunganum. Við gátum setið tímunum saman í litla fal- lega húsinu þínu á Óðinsgötu og rætt um þetta. Stundum varstu döpur og hrædd og þá reyndi ég að leiða þér fyrir sjónir hve yndisleg þú værir. Ég reyndi af öllum mætti og með öllum þeim sannfæringarkrafti sem ég bjó yfir að stappa í þig stálinu, fá þig til að trúa á hæfileika þína. Mér fannst þú trúa mér þótt ég sæi efaglampa í aug- um. Þegar ég heimsótti þig í Vík í Mýrdal þar sem þú annaðist kennslu grunnskólabarna var óttinn líka til staðar. Öfugt við það sem þú ætlaðir, hafði hann fylgt þér eftir þjóðvegi eitt og ofan í Mýrdalinn. Samt tókst þér að heilla börnin í skólanum sem sóttu mikið til þín. Þau dáðust að þér og fundu í þér einlæga félagann, vinkon- una sem allt skilur. En þú fannst ekki frið þarna og komst aftur í bæinn. Ég reyndi svo mikið að trúa því, elsku Kristín Gerður mín, að þú værir nú búin að finna þinn frið og ná heilsu. Þegar ég fór yfir ljósmyndaalbúmið þitt í mars, starði ég gáttaður á mynd- irnar og þig til skiptis. Ekki það að ég tryði ekki að þú hefðir tekið þær, heldur bara vegna þess að ég hafði aldrei séð jafn sterka tjáningu í nokkrum ljósmyndum. Myndirnar voru teknar af svo ótrúlega sterkri til- finningu og næmi fyrir viðfangsefn- inu. Mér fannst að þú værir að finna þinn frið þegar bakslagið kom. Engu að síður trúði ég því að þú gætir átt bjarta framtíð og fortíðardraugurinn myndi smám saman hverfa í vorþok- unni. Aldrei alveg en verða svo gegn- sær að hann gæti ekki skaðað þig meir. Mér skjátlaðist. Mér skjátlaðist hrapallega. Óskaplega á ég eftir að sakna þín, Kristín Gerður. Ég vildi bara óska þess að ég hefði skrifað þetta og svo miklu meira til þín, áður en þú fórst. Það er svo erfitt að sitja eftir í myrkrinu og hugsa einn um ranglætið sem við ræddum um, rétt- lætið og vonina. Við áttum eftir að fara til Parísar saman þar sem ég ætl- aði að fylgjast með þér taka flottustu mannlífsmyndir sem teknar hafa ver- ið. Ég lofa þér því að við förum þang- að saman í huganum og við förum út um allt í huganum. Ég lofa því. Með þér er gengin ein besta manneskja sem ég hef kynnst. Þú fékkst aldrei fálkaorður eða riddarakrossa fyrir þína baráttu, en við sem þekktum þig krýnum þig kórónu. Guð blessi minn- ingu þína um alla framtíð, elsku vin- kona mín. Ég votta foreldrum, systk- inum, vinum og ættingjum mína dýpstu samúð. Sigursteinn Másson. Mín fagra. Rétt fyrir síðustu jól komstu til mín í heimsókn. Þú varst alveg uppgefin eftir margar nætur í myrkraherberg- inu, á fullu að framkalla myndir sem þú hafðir tekið í ljósmyndaskólanum. Eitt verkefnið í skólanum var að taka mynd af einhverju sem fyrir þér væri „gatan heima“. Þú dróst myndina upp úr töskunni þinni, svört/hvít mynd af gamalli konu með sítt hvítt hár, ofsalega fal- leg kona. Þú sagðir mér frá henni, hún hét Kristín eins og þú. Þú sagðir mér að þessi kona hefði búið í sömu götu og þú í mörg ár og að þú hefðir séð hana svo oft ganga um göturnar, eina í hvítri kápu. Fyrir þér var hún „gatan heima“. Þú ákvaðst að kíkja til hennar í heimsókn og biðja hana um að fá að taka myndir af henni. Þegar þú hringdir dyrabjöllunni þurftir þú að beita afli því enginn hafði hringt þessari bjöllu svo lengi að hún var ryðguð föst. Íbúðin hennar var mjög fábrotin, snyrtileg og lítil. Margir háir staflar af gulnuðum dagblöðum báru þó merki þess að hún ætti engan að í þessum heimi. Enginn kom og henti fyrir hana gömlu gulnuðu dagblöðunum eða sat og spjallaði við hana Kristínu gömlu. Hún var ein. Hennar ánægja í lífinu var að ganga um göturnar og lesa ævisögur, helst ævisögur hjúkrunarkvenna því það hafði verið hennar draumur alla tíð að verða hjúkrunarkona. En það sem stakk þig mest í hjartað var rúm- ið hennar. Hagkaupspoki fyrir kodda- ver og sængurverið var klemmt sam- an á endunum með þvottaklemmum. Eftir þetta tókstu hana hálfpartinn að þér, heimsóttir hana öðru hvoru og sast hjá henni og hlustaðir á hana rekja ævi sína. Rétt fyrir jólin tókstu Ingu með þér til hennar og þið fleygð- uð gulnuðu dagblöðunum og keyptuð svo handa henni jólagjöf. Sængurverasett. Ég varla trúði þessu en eins og með svo margt annað í þessu lífi opnaðir þú augu mín fyrir einhverju sem fólk þegir í hel því það vill ekki að neitt spilli sinni fögru sýn á lífið. Svona varstu, elsku hjartans yndið mitt. Svo falleg yst sem innst. Já, Kristín þú varst engill sem villt- ist af leið sinni til himna en ert nú komin heim. Nú færðu loks svefninn sem þú þráðir svo lengi. Bíum, bíum bambaló, bambaló og dillidillidó. Vini mínum vagga ég í ró, en úti bíður andlit á glugga. Bíum, bíum ... Þegar veður geisa grimm, Grúfir yfir hríðin dimm, Kveiki ég á kertum fimm, Burt flæmi skammdegisskugga. Bíum, bíum ... Hjá mér bæði hlíf og skjól hafa skaltu ef illskufól flærðar með um foldarból læðast og launráð brugga. (Jónas Árnason.) Eygló, Gummi, Eydís og Álfrún Perla, Berglind og Kristján, ég faðma ykkur fast í hjartanu. Kveðja, Harpa. Elsku engillinn okkar, nú ertu farin frá okkur. Við vitum að þér líður bet- ur þar sem þú ert nú. Þú ert hjá honum Hannesi þínum. Loksins hefurðu fengið friðinn sem þú þráðir svo lengi. Þú varst alltaf svo yndisleg, hreinskilin og fegurðin skein af þér. Þú hafðir ávallt eitthvað fallegt við okkur að segja og meintir það svo innilega. Hrósin frá þér hvöttu okkur og hlýjuðu. Þú varst til staðar þegar við þurftum á þér að halda og vildir allt fyrir okkur gera. Það var alltaf gaman að koma til þín. Því verður aldrei lýst í orðum hvað í þér bjó, en þeir sem voru svo lánsamir að kynnast þér vita hvílíkt gull af manni þú varst. Við erum heppin að hafa fengið að kynnast þér og njóta þess tíma sem við áttum saman. Þú leyfðir okkur að eiga hlut að þínu stóra hjarta. Elsku Eygló, Gummi, Eydís, Berglind og Kristján, við samhryggj- umst ykkur og biðjum Drottin að blessa ykkur og leiða í gegnum þessa miklu sorg. Kristín, þú lékst stórt hlutverk í lífi okkar allra. Þú hefur áunnið þér stað í hjarta okkar að eilífu og þín verður sárt saknað. Hulda Guðrún, Ísar Logi og Kristján Þór. Okkar ástkæra vinkona og nafna, Kristín Gerður. Við kveðjum þig nú í síðasta sinn og þökkum fyrir að hafa fengið að þekkja þig. Hin íbjúga veröld, sem hverfist í sjálfa sig gaf mér sólskin eins dags og húm einnar nætur. Þú, sem ég elska, hví yfirgefur þú mig? Í skugganum mikla, sem grúfir við guðsins fætur, er grafin sú spurning, sem aldrei mun finna sitt svar. Hvar, hvar? (Steinn Steinarr.) Við vottum fjölskyldu og aðstand- endum okkar dýpstu samúð. Kristín Gerður Óladóttir, Óli Haukur Valtýsson, Sigrún Rakel Tryggvadóttir. Milljón hugsanir hafa þotið um hugann síðustu daga. Ég man ennþá eins og það hefði gerst í gær þegar við fluttum á Faxabrautina og við Friðrik fórum að leika okkur með stóra kassabílinn á bílaplaninu. Þú og Dídí fylgdust með okkur en flotti kassabíll- inn, sem pabbi smíðaði, heillaði og þið komuð að spjalla við okkur. Þú varst þannig fyrsta manneskjan sem ég kynntist þegar við fluttum. Við lékum okkur mikið saman á þessum árum en bestu vinir urðum við ekki fyrr en á unglingsárunum. Við höfðum báðar verið í heimavistarskóla veturinn áð- ur og komum dálítið ráðvilltar til baka. Þessi vetur markaði djúp spor í örlög þín því þarna byrjuðum við að fikta við ýmislegt eins og svo margir unglingar gera. Árið eftir fór ég í fjöl- braut og samband okkar minnkaði en þú sagðir mér síðar að þá hefðu erf- iðleikar þínir byrjað. Nokkrum árum síðar, þegar við höfðum báðar tekið okkur frí frá námi og vorum byrjaðar aftur í skóla, tókum við vinskapinn upp aftur. Þá sagðir þú mér ýmislegt og ég gerði mér grein fyrir því að þú værir í vanda stödd. Það var samt ekki hægt að sjá það á þér á þessum tíma. Þú varst svo klár og metnaðar- full og allt virtist leika í höndunum á þér. Við útskrifuðumst stúdentar saman en eftir það hallaði hratt und- an fæti hjá þér. Ég gleymi því svo aldrei þegar mamma dó og þú hringd- ir í mig grátandi og talaðir um sam- band ykkar sem hafði verið alveg ein- stakt þegar þú varst unglingur. Þú sleist símtalinu með þeim orðum að þú ætlaðir að taka til í þínu lífi og það gerðir þú svo sannarlega. Ég var svo stolt af þér og samgladdist þér svo innilega yfir hversu vel þér gekk. Vandamálið var kannski frekar það að það gekk aldrei eins vel og þú vild- ir. Við höfðum lítið samband síðustu tvö ár en ég vona að þér líði betur þar sem þú ert núna. Það á sjaldan eins vel við og í þínu tilviki að segja; hvíl í friði. Minning þín mun lifa hjá okkur sem kynntumst þér. Kristín Snæland. Skuggi lífsins líður hjá svört tár – sorgin kremur hjartað saklaust barn svífur á hvítu skýi við brjóst móðurinnar sakleysið og svarta sorgin – fuglasöngurinn og geislar sólarinnar bræða skuggana. (Sakleysið og svarta sorgin, Björg G. Gísladóttir.) Minning þín mun gefa okkur kraft í áframhaldandi starfi okkar. Bergrún Sigurðardóttir.  Fleiri minningargreinar um Kristínu Gerði Guðmunds- dóttur bíða birtingar og munu birt- ast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.