Morgunblaðið - 16.09.2001, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16. SEPTEMBER 2001 33
áhrifaríkt stríð. Nazistaflokkur Adolfs Hitlers er
gott dæmi.
Nú standa Bandaríkin og bandamenn þeirra
hins vegar í fyrsta sinn frammi fyrir því að þurfa
að svara stríðsyfirlýsingu frá aðilum, sem eru
ekki ríki og við vitum jafnvel ekki með vissu
hverjir eru, en hafa engu að síður greitt hinum
vestræna heimi þungt högg. Þetta eru söguleg
tímamót, sem markast meðal annars af ákvörðun
Atlantshafsbandalagsins um að líta á árásina á
Bandaríkin sem árás á öll NATO-ríkin. Þar með
hefur öryggishugtak NATO ótvírætt breytzt, en
það er einfaldlega í takt við þróun tækni og
heimsmála. Þeir, sem einblína áfram á hefðbund-
inn hernað, eru blátt áfram á eftir tímanum.
Hryðjuverkastarfsemi, ósamhverfur hernaður
eða hvað sem við viljum kalla það, verður ein af
þeim hættum, sem NATO þarf nú að búast til
varnar gegn. Við verðum að taka þá hættu jafn-
alvarlega og ógnir þær, sem við stóðum frammi
fyrir í kalda stríðinu.
Að sumu leyti eru áhrif árásarinnar á New
York og Washington e.t.v. sambærileg við afleið-
ingar árásarinnar á Pearl Harbour, að því leyti
að hún gerði mögulegar afleiðingar þessa stríðs-
rekstrar óvinaafla áþreifanlegar í augum okkar.
Á sínum tíma þráuðust Bandaríkin við að láta
draga sig inn í stríð, sem þó fór ekki á milli mála
að beindist bæði gegn þjóðarhagsmunum og lífs-
gildum Bandaríkjamanna. Það var ekki fyrr en
Japanir létu til skarar skríða og réðust á banda-
rískt yfirráðasvæði, að samstaða náðist innan-
lands í Bandaríkjunum um að taka þátt í stríðinu
– ógnin varð raunveruleg og áþreifanleg. Með
sama hætti hefur „ósamhverft stríð“ hryðju-
verkamanna og ríkja, sem styðja þá eða veita
þeim skjól, staðið um langa hríð en skotmörk
þeirra hafa aðallega verið utan landsvæðis Vest-
urveldanna, t.d. sendiráð Bandaríkjanna og ann-
arra vestrænna ríkja. Nú hafa hryðjuverka-
mennirnir ráðizt að vestrænum almenningi,
miðstöð alþjóðlegs viðskiptalífs og einu helzta
tákni vestræns hernaðarmáttar og þá er alvara
málsins ljós. Það verður að svara árásinni og leit-
ast við að uppræta þessa ógn. En hin nýja ógn er
gerólík þeirri, sem Bandamenn sigruðust á í síð-
ari heimsstyrjöld með hefðbundnum vopnabún-
aði og hún er líkast til alveg ónæm fyrir fæling-
armætti kjarnorkuvopna. Sá hernaður, sem
gripið verður til gegn hryðjuverkamönnunum,
getur því þurft að verða með óhefðbundnum og
áður óþekktum hætti og Vesturlönd geta ekki
verið viss um skjótan sigur.
Hvers konar
viðbrögð?
Talsvert hefur verið
rætt og ritað á undan-
förnum dögum um
það hver séu rétt við-
brögð við árásinni. Flestir eru sammála um að
beita verði hefðbundnum herafla í takmörkuðum
mæli, til að reyna að greiða hryðjuverkamönn-
unum högg, sem lami starfsemi þeirra a.m.k. í
bili eða fæli þá burt úr höfuðstöðvum sínum og
æfingabúðum um stundarsakir. En miklu meira
þarf að koma til. Wesley Clark, hershöfðingi og
fyrrverandi yfirmaður herafla NATO í Evrópu,
skrifar grein í Washington Post í gær, föstudag,
og segir að vopn Bandaríkjanna og bandamanna
þeirra í þessu nýja stríði eigi að vera upplýs-
ingar, löggæzla og aðeins í einstökum tilfellum
hervald. Markmið aðgerðanna eigi hvorki að
vera að hefna né svara í sömu mynt, þótt líklegt
sé að hvort tveggja muni gerast. Heldur eigi að
eyðileggja með kerfisbundnum hætti hið flókna
kerfi alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi. Mark-
miðið eigi ekki að vera að ráðast á mannvirki,
heldur að fella þá sem hafi staðið á bak við,
skipulagt, stutt og framkvæmt hryðjuverk.
Clark leggur áherzlu á að farið verði að lögum
og sótzt eftir samstarfi við vinveitt ríki víða um
heim. Sums staðar geti lögregla náð árangri,
annars staðar þurfi að beita leyniþjónustu. Sér-
stakar hersveitir megi kalla til og beita þeim í
ríkjum, sem hafni samstarfi eða séu einfaldlega
ófær um að hafa stjórn á eigin landsvæði. Í und-
antekningartilfellum eigi að ráðast á hefðbundin
hernaðarskotmörk til að vinna á hryðjuverka-
mönnunum.
Hershöfðinginn skefur hins vegar ekki utan af
því þegar hann fjallar um ríkisstjórnir, sem
styðji hryðjuverkamennina. Þar segir hann að
kunni að vera nauðsynlegt að grípa til áhrifa-
ríkari aðgerða, bæði með loftárásum og land-
hernaði, til að ná fram „uppgjöf fjandsamlegra
ríkisstjórna eða að þær hætti stuðningi sínum
við hryðjuverkamenn“. Clark segir að ekki
skyldi vanmeta „yfirþyrmandi áhrif reiðra og
staðfastra Bandaríkja og bandamanna þeirra í
þá átt að fá ríki, sem áður voru fjandsamleg, til
að breyta stefnu sinni að fyrra bragði“.
Það virðist nokkuð ljóst að sú barátta, sem
framundan er, mun taka tíma. Þeir, sem vonast
eftir skjótri hefnd, verða líklega fyrir vonbrigð-
um. Flest bendir til að Bush Bandaríkjaforseti
og stjórn hans hyggist fara rólega í sakirnar og
skipuleggja herferðina gegn hryðjuverkamönn-
unum vel, þótt forsetinn ætli sér augljóslega sig-
ur að lokum.
Það verður hins vegar ekki lögð of mikil
áherzla á að aðgerðir Vesturlanda mega ekki
bera keim af „átökum siðmenninga“ svo vitnað
sé til titils frægrar greinar eftir stjórnmálafræð-
inginn Samuel Huntington. Líklegt er að að-
gerðir Vesturlanda muni beinast að ýmsum ríkj-
um múslima og araba, en það þarf að leggja
mikla vinnu í að gera almenningi í þessum ríkj-
um ljóst að baráttan beinist gegn hryðjuverka-
mönnum, ekki gegn þjóðum eða trúarbrögðum.
Ekki þarf síður að leggja áherzlu á það við al-
menning á Vesturlöndum að það er ekki tiltekin
menning eða trúarbrögð, sem getur af sér
hryðjuverkastarfsemi. Það verður líka umfram
allt að forðast að stofna lífi óbreyttra borgara í
hættu – þess vegna leggja menn á borð við Wes-
ley Clark áherzlu á að halda beitingu hervalds í
lágmarki. Ef árásir Vesturveldanna yllu stór-
felldu mannfalli og tjóni á mannvirkjum í ríkjum
araba, myndi það eingöngu stuðla að því að úr
rústunum skriðu bitrir menn, sem væru efni í
nýja skæruliða.
Vesturlönd og bandamenn þeirra þurfa ekki
eingöngu að grípa til aðgerða á erlendri grund,
heldur einnig heima fyrir til að uppræta starf-
semi hryðjuverkamanna. Með einhverjum ráð-
um þarf t.d. að efla eftirlit á flugvöllum og þróa
nýjar leiðir til að fylgjast með samskiptum öfga-
hópa og torvelda þeim að skipuleggja sig. Hætt-
an er sú, að í eftirlitinu felist að þrengt verði að
persónuvernd og athafnafrelsi. Stjórnvöld á
Vesturlöndum verða að vega og meta vandlega
hversu langt megi ganga án þess að við byrjum
að grafa undan frelsi og virðingu einstaklingsins.
Ef niðurstaðan yrði sú að vestræn þjóðfélög
yrðu í minna mæli frjáls, hefðu hryðjuverka-
mennirnir náð einu af markmiðum sínum. Við
megum ekki láta það gerast.
Endurmat varn-
ar- og örygg-
isstefnu
Rétt eins og önnur
vestræn ríki þarf Ís-
land að endurmeta
varnar- og öryggis-
stefnu sína með hlið-
sjón af því hversu ná-
læg ógnin af hryðjuverkum er skyndilega orðin.
Ísland studdi eins og rétt var samþykkt NATO um
að veita Bandaríkjunum stuðning í baráttunni
gegn hryðjuverkamönnunum. Eins og vikið var að
í forystugrein hér í blaðinu sl. fimmtudag getur
slíkur stuðningur af hálfu Íslands fyrst og fremst
falizt í því að við leyfum afnot af Keflavíkurflug-
velli. Við getum líka þurft að vera viðbúin því að
auka verulega löggæzlu í flugstöð Leifs Eiríks-
sonar til að fylgjast með ferðum grunsamlegra
manna og tryggja að fyllsta öryggis sé gætt í far-
þegaflugi til og frá landinu.
Við megum heldur ekki horfa framhjá þeirri
hættu, að íslenzkt landsvæði eða íslenzkar flug-
vélar verði skotmörk hryðjuverkamanna. Í viðtali
við Davíð Oddsson forsætisráðherra í blaðauka
Morgunblaðsins, sem út kom í maí síðastliðnum í
tilefni af hálfrar aldar afmæli varnarsamnings Ís-
lands og Bandaríkjanna, sagði ráðherrann m.a. að
„hryðjuverkamenn í þrem flugvélum eða svo“
gætu tekið landið ef hér væri ekkert varnarlið.
Sumum þóttu þessi ummæli ráðherrans langsótt,
en hér í Reykjavíkurbréfi hinn 5. maí sagði í tilefni
af þeim: „Ógnin af alþjóðlegri hryðjuverkastarf-
semi fer vaxandi. Það væri hrikalegt áfall fyrir ör-
yggi vestrænna ríkja í heild ef hryðjuverkamenn
næðu einhverjum mikilvægum stöðum eða stjórn-
arstofnunum í aðildarríki NATO á sitt vald, jafn-
vel þótt þeir yrðu yfirbugaðir eftir einhverjar
klukkustundir.“
Við höfum nú séð áþreifanlega hversu langt
hryðjuverkamenn eru reiðubúnir að ganga. Hatur
þeirra, sem skipulögðu ódæðisverkin í Bandaríkj-
unum, beinist ekki aðeins að því landi, heldur vest-
rænum ríkjum í heild. Við getum ekki útilokað að
þeir láti til skarar skríða á Íslandi. Það er því
nauðsynlegt að taka þá hættu með í reikninginn
þegar þörf fyrir varnarviðbúnað á Keflavíkurflug-
velli er metin.
Í viðtali Morgunblaðsins í gær, föstudag, við
John J. Waickwicz, flotaforingja og yfirmann
varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, kemur fram að
lið hans sé vel í stakk búið til að fást við hryðju-
verkamenn, m.a. vegna þess að í Norður-víkings-
æfingunum undanfarin ár hafi verið æfð viðbrögð
við árás hryðjuverkamanna. Það er ljóst að kæmi
til slíkrar árásar hér á landi ættum við vísan
stuðning bandalagsþjóða okkar í NATO, rétt eins
og Bandaríkjamenn eiga nú stuðning okkar vísan.
Málflutningur þeirra, sem gagnrýnt hafa þessar
æfingar sem gagnslaust hernaðarbrölt, verður nú
enn frekar hjáróma en fyrr. Því miður heyrist enn
á Íslandi dauft bergmál þeirra radda, sem á tímum
kalda stríðsins drógu gildi samstöðu okkar með
öðrum vestrænum þjóðum í efa. Þær hafa jafn-
rangt fyrir sér nú og þá.
Jafnframt því sem við hljótum að efla samstarf-
ið við bandalagsríki okkar í varnar- og öryggis-
málum, þurfum við að huga að því að styrkja eigin
viðbúnað á sviði varna við hryðjuverkum. Þar
verður ekki sízt horft til farþegaflugsins, sem er
lífæð samgangna til og frá landinu.
Við búum í breyttum heimi, höfum upplifað
sögulega viku. Vonandi berum við gæfu til að taka
skynsamlega á nýjum aðstæðum, í góðu samstarfi
við bandamenn okkar beggja megin Atlantshafs-
ins.
Morgunblaðið/RaxVið Mývatn
„Eftir þriðjudaginn
í þessari viku er allt
breytt. Öryggis-
tilfinningin er horf-
in. Öfgamenn í
sjálfsvígsham gerðu
vel heppnaða árás á
hjarta Norður-
Atlantshafssvæð-
isins, tvær helztu
borgir Bandaríkj-
anna, öflugasta her-
veldis heims, án þess
að nokkrum vörnum
yrði við komið. Kyn-
slóðin, sem er að
vaxa úr grasi og
man lítt eða ekki
eftir öryggisleysi
kalda stríðsins,
stendur nú skyndi-
lega frammi fyrir
því að hún er hvergi
óhult fyrir þeim
ógnaröflum, sem
stóðu að baki árás-
inni.“
Laugardagur 15. september