Morgunblaðið - 24.08.2003, Síða 14
14 SUNNUDAGUR 24. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Þ
AÐ HEFUR margoft komið fram að einn helsti drif-
kraftur Bjarkar Guðmundsdóttur sem tónlistarmanns
hefur verið að vera sífellt að gera eitthvað nýtt. Það má
því gera ráð fyrir að henni hafi þótt síðasta ár sér-
kennilegt, enda hefur hún eytt djúgum tíma í að hlusta á
gamla tónlist, gamlar upptökur með sjálfri sér, til að
velja í safnboxið sem fékk nafnið Family Tree og kom út
fyrir tæpu ári. Ekki var þó bara að hún var að velja á
safnskífu heldur hefur hún líka hlustað á óteljandi tón-
leika til að velja efni í annað safnbox, að þessu sinni
fimm diska saman í pakka; á fjórum eru tónleikaupptökur frá heimsreisunum sem
hún hefur farið til að kynna plöturnar fjórar sem hún hefur gefið út, Debut, Post,
Homogenic og Vespertine, og DVD-diskur að auki með tónleikaupptökum.
Tíu ár eru síðan Debut, fyrsta sólóskífa Bjarkar, kom út og upp frá því má segja
að hún hafi verið meira og minna á ferðinni, hefur leikið á óteljandi tónleikum víða
um heim. Hún hefur látið þau orð falla að sér sé eiginlegt að æða áfram af eðlis-
ávísuninni, en nú hafi henni þótt tími til kominn að staldra við, líta yfir farin veg og
sjá hverju hún hafi komið í verk. Liður í því var áðurnefndur Family Tree-pakki
og líka tónleikakassinn sem hér er gerður að umtalsefni en hún lét þau orð falla í
viðtali við Morgunblaðið á meðan á þessari vinnu stóð að lögin þroskist og þróist í
meðförum hennar á tónleikum og það sé oft ekki fyrr en hún sé búin að vera spila
lög af plötu í langan tíma sem þau verða eins og hún var að reyna að ná fram, nái
að þroskast.
Ásmundur Jónsson hjá Smekkleysu lagði Björk lið við að velja lögin á plöturnar
fjórar, hlustaði á marga klukkutíma af upptökum og gerði tillögur um lög sem þau
síðan fóru yfir saman. Hann ræddi einnig við Björk um tónleikaferil hennar og er
það spjall birt í bæklingi með tónleikaboxinu. Einnig verður sérútgáfa af boxinu
með bók með spjalli Ásmundar og Bjarkar og ýmsum greinum að auki.
Fræið verndað
Í spjallinu við Ásmund segir Björk að þegar hún undirbúi flutning lags
á tónleikum sé það eitt haft að leiðarljósi að vernda upprunanlegu hug-
myndina, fræið. „Hljóðfæraskipanin þarf ekki að vera nákvæmlega hin
sama eða útsetningarnar enda þarf oft að gerbreyta útsetningunum til
þess að hægt sé að spila tónlistina á tónleikum.“ Til þess að ná því fram
segist hún meðal annars jafnan velja skapandi tónlistarmenn til að leika
undir á tónleikum sínum, enda skipti miklu að allir séu jafnir á sviðinu;
hún sé ekki að leita að fólki sem gerir nákvæmlega það sem hún segir því
og ekkert annað. „Ég hef yfirleitt reynt að velja fólk sem þarf náttúrulega
að spila tónlistina mína en það getur bætt sínu við, einhverju frá sjálfu
sér,“ segir hún í spjallinu við Ásmund. „Því býðst að taka þátt í ástandi
sem vonandi dregur það besta fram, þannig að það geti verið jafnsterkt
mér á sviði þótt þetta sé mín tónlist.“ Hún bætir svo við að alla jafna hafi
þetta gengið mjög vel, en að tónleikahald í kjölfarið á útgáfu Debut hafi
verið hálfgerð redding, ekki hafi staðið til að spila lögin á tónleikum.
Hljómsveitin var því búin til á síðustu stundu og „allir spiluðu bara það
sem var á plötunni“ eins og hún orðar það.
Debut
Tónleikaupptökurnar með lögum af Debut eru nánast allar af tón-
leikum Bjarkar fyrir MTV-tónlistarsjónvarpsstöðina sem hljóðritaðir
voru 1994, en platan kom út 1993. Björk segir svo frá að þegar hún var að
taka plötuna upp spáði hún ekkert í það hvort hægt yrði að spila lögin á
tónleikum; „Það var svo mikið frelsi fólgið í því að ég gat notað hvaða
hljóðfæri sem hugurinn girntist. Þurfti ekki að hugsa um að hægt væri að
fara með það hljóðfæri í tónleikaferð.“ Svo þegar þurfti að flytja tónlist-
ina á tónleikum vegna þess hve plötunni var vel tekið varð að gera mála-
miðlanir: sleppa saxófónum, víbrafónum og alls konar hljóðfærum sem
ekki var hægt að taka með í heimsreisu. „Þegar mér var síðan boðið að
gera MTV-unplugged gat ég sleppt fram af mér beislinu, eins og krakki í
dótabúð; það þurfti ekki að ferðast með hljóðfærin og hljóðfæraleikarana,
þetta voru bara einir tónleikar og MTV kom með peninga inn í verkefnið
þannig að hægt var að fljúga inn öllu fólkinu, sem spilaði á á plötunni eins
og Corky Hale og Oliver Lake. Eftir að hafa spilað lögin á tónleikum um
allan heiminn hafði ég kynnst þeim betur, hvað gerði sig og hvað ekki. Ég
gat skipt því út sem virkaði ekki. Við æfðum í tvo daga, að mig minnir, og
sváfum ekki neitt. Þegar við spiluðum síðan á tónleikunum vorum við ör-
þreytt. Kláruðum okkur í gegnum atburðinn og sváfum svo í 18 tíma á
eftir. Þetta var ótrúlega skemmtilegt.“
Post
Reynslan af Debut-tónleikaferðinni varð til þess að samhliða upptökum
á sjálfri plötunni var Björk farin að spá í hvernig best væri að flytja tón-
listina á tónleikum. Mikil vinna fór því í að í undirbúa tónleikahaldið og þá
aðallega að taktar væru réttir og að gæta þess að þeir væru lifandi og sí-
breytilegir, en það var meðal annars gert með því að láta tónlistarmenn
spila taktana með aðstoð tölvu, en ekki spila þá af bandi, og líka lögðu
menn upp með það að nota aldrei alveg sömu taktröð í sumum laganna.
Það tók mánuð að undirbúa tónleikaferðina, enda þurfti ekki bara að
hugsa fyrir töktunum, heldur líka tónlistinni upp á nýtt og þannig var
strengjapörtum til að mynda snúið yfir, í strengjaköflum var líka skipt út
fyrir harmonikkuleik, enda harmonikkan búin þeim tregahljómi sem
Björk segist hafa verið að leita að. Allt varð þetta svo til þess að Post-
ferðin varð eiginleg tónleikaferð en ekki bara röð stakra tónleika eins
og ferðin vegna Debut.
Homogenic
Homogenic var ákveðinn vendipunktur fyrir Björk, enda fyrsta plat-
an sem hún stjórnaði upptökum á sjálf. Hljómsveitin sem hún setti
saman til að leika tónlistina á tónleikum var líka merkileg, strengja-
oktett studdur af rafeindahljóðfærum og tölvum. Björk segir að tón-
leikaferðin til að kynna Post hafi verið ljós og læti, mikill og frábær
sirkus. Þegar kynna átti Homogenic langaði hana aftur á móti til að
fara aðra leið, einfaldari og tærari. Hún segist einnig hafa reynt að
segja þetta með nafni plötunnar, en komst síðan að því að orðið
Homogenic væri ekki til.
Lögin á plötunni voru unnin að miklu leyti í tónleikaferðinni fyrir
Post, en síðan var lokið við plötuna á Spáni. Lögin héldu svo áfram að
þróast á tónleikaferðinni í samræmi við það sem Björk hefur sagt að sé
yfirlýst markmið með vali á hljóðfæraleikurum, að þeir fái tækifæri til
að gefa af sjálfum sér en séu ekki bara í vinnunni. Hún segir að það hafi
vafist fyrir strengjaleikurunum því þeir eru því vanir að spila eftir nót-
um, en þegar komið var til Spánar í tónleikaferðinni bað hún strengja-
leikarana um að túlka eða endurskoða hver eitt lag; úthlutaði átta lög-
um til tónlistarmannanna í samræmi við þau kynni sem hún hafði haft
af þeim. Það skilaði sér í ýmsum áherslubreytingum, meðal annars var
Jógu skipt upp í átta raddir, var fjórar fyrir, og Come To Me varð róm-
antískara við að fá spunnin forleik svo dæmi séu tekin.
Vespertine
Vinna við Vespertine var frábrugðin hinum plötunum að því leyti að
þegar haldið var upp í tónleikaferð var Zeena Parkins, sem fór með alla
ferðina, til að mynda búin að vinna með Björk í um ár, fyrst að und-
irbúningi á upptökum, síðan að upptökum og svo loks æfingum og út-
setningum fyrir tónleikaferðina. Þeir Matmos-félagar komu að verkinu
þegar upptökum var að ljúka en lögðu sitt af mörkum á þeim mánuðum
sem í hönd fóru á meðan verið var að móta tónleikaútsetningarnar, en
það var meðal annars gert með því að spila á litlum stöðum.
Þó að Vespertine sé að mörgu leyti órafmagnaðri en fyrri plötur
Bjarkar, með strengi, kvennakór og spiladósir, er mun meiri raf-
eindakeimur af lögunum þegar grannt er skoðað. Björk segir að
Homogenic hafi verið svo úthverf plata að við blasti að hverfa inn á við,
hún hafi reynt að fanga tilfinninguna að vera einn heima í tvo eða þrjá
daga og tala ekki við neinn, að vera einn með sjálfum sér, jafnvel innra
með sér. „Maður fer á sérstakan stað og vill einhvern veginn verja
þennan stað … Það er kannski einhver þrjóska í mér að á þessum stað
finnurðu hamingju, alsælu og himnaríki.“ Hún segir að það hafi líka
gert þá upplifun að flytja lögin á sviði mjög sérkennilega: „Það var
mjög undarlegt að fara í hljómleikaferð um heiminn og flytja lag á sviði,
sem maður hafði ætlað að syngja bara einn í baði.“
Tónleikarnir í Vespertine-ferðinni voru allir í óperuhúsum og af-
bragðs tónleikahöllum, en ekki í klúbbum eða íþróttahöllum. Björk seg-
ir að málið sé ekki að sig hafi langað að flytja klassíska tónlist „heldur
að mynda einhvers konar flæði milli þessara tveggja heima sem alltaf
eru einangraðir – tónlist sérvitringa og tónlist almennings.“
TÓNLEIKAUPPTÖKURNAR
af Debut-lögunum eru allar
nema ein teknar úr sjónvarps-
tónleikum sem haldnir voru
fyrir MTV-tónlistarsjónvarps-
stöðina 1994. Tónleikarnir
voru í svonefndri Unplugged
þáttaröð sem vísaði til þess að
tónlistarmenn fluttu óraf-
magnaðar útgáfur laga, ýmist
laga sem áður höfðu komið út,
eða óútgefinna, eða laga eftir
aðra. Þessar upptökur komu
út í takmörkuðu upplagi.
Staka lagið var svo tekið upp í
sjónvarpsþætti Jools Holland
1995. Á þessum tíma var Björk
ekki farin að taka tónleika
sína skipulega upp líkt og síð-
ar varð.
Debut
Björk Guðmundsdóttir sendi á dögunum frá sér
fimm diska safnkassa með tónleikaupptökum frá tíu
ára sólóferli sínum. Árni Matthíasson kynnti sér
hvaða vinna lá að baki hverri tónleikaferð.
arnim@mbl.is