Morgunblaðið - 31.08.2003, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 31. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
É
G er lagahöfundur og vil vinna
samkvæmt því. Markaðssetn-
ingin á mér var röng, ímyndin
var farin að skyggja á innihald-
ið. Ég vildi vera sjálfri mér trú,
en allt í einu var ég farin að sjá
myndir af mér í flegnum bolum
framan á blöðum. Þá sá ég að
ég var á rangri braut. Ég sé reyndar ekki eftir
neinu, enda tók ég auðvitað fullan þátt í þessu,
en mér fannst þessi ímyndarsmíð vera farin að
ráða of miklu,“ segir Védís Hervör Árnadóttir,
lagahöfundur og söngkona.
Védís Hervör gaf út hljómplötu með eigin
lögum og texta árið 2001. Hún hafði þá tekið
þátt í uppfærslum í Verzlunarskóla Íslands,
meðal annars í sýningunni Wake me up before
you go go og sungið lag í kvikmyndinni Íslenski
draumurinn. Hún var aðeins 19 ára þegar
hljómplatan, In The Caste, kom út og segir
sjálf að hlutirnir hafi gerst of hratt og tekið
ranga stefnu að hennar mati. „Ég ákvað að
taka allsherjar frí frá íslenska tónlistarmark-
aðnum þegar ég útskrifaðist frá Verzlunar-
skólanum vorið 2002. Ég vildi gefa mér nægan
tíma til að átta mig á hvernig ég vildi haga
framhaldinu,“ segir hún.
Hún var samningsbundin Skífunni. „Þar
starfar margt gott fólk, en ég fann að ég varð
að taka ákvarðanir um framhaldið sjálf til að
tryggja að það yrði eins og ég vildi. Samning-
urinn kvað á um að ef Steinar Berg léti þar af
störfum væri ég laus allra mála. Þegar hann
hætti ákvað ég því að virkja þetta ákvæði. Skíf-
an var á þessum tíma að vinna að útrás, ætlaði
til dæmis að koma mér, Svölu Björgvins og
Landi og sonum á framfæri erlendis. Mér
fannst ég ekki eiga heima þarna og vildi ein-
beita mér að eigin þroska.“
Frjáls og líður vel
Eftir stúdentsprófið fór Védís Hervör í út-
skriftarferð til Spánar með skólafélögunum.
Hún sneri ekki heim aftur, heldur fór til systur
sinnar í London og hefur verið þar meira eða
minna síðan.
Í London fór Védís að „taka til í sjálfri sér“
eins og hún orðar það. „Ég hef alltaf viljað
starfa við tónlist, en það er hægt að gera á svo
margan hátt. Í London leitaði ég til nokkurra
útgefenda og kom mér sjálf á framfæri. Ég
leyfði þeim að heyra plötuna mína, en núna er
ég reyndar að vinna allt öðruvísi tónlist.
Reyndar rak ég mig strax á það í London að
þar vilja menn líka horfa dálítið á ímyndina.
Þar voru menn ánægðir að sjá að ég væri ljós-
hærð, bláeyg og hávaxin og vildu gera sem
mest úr því. Mér gekk erfiðlega að fá þá til að
horfa framhjá því. Ég kæri mig ekkert um að
gera út á útlitið, vil heldur að karakterinn skíni
í gegn.“
Védís er samningslaus í London, „frjáls og
líður vel“ að eigin sögn. „Ég fékk hins vegar er-
lenda fjárfesta á bak við mig, sem eru tilbúnir
til að leggja fé í upptökur. Ég hef aðallega
starfað með tveimur Bretum, upptökustjórum
sem kalla sig Rainmaker. Þeir halda utan um
vinnslu laganna með mér og við köllum til
hljóðfæraleikara ef þarf.“
Sjálf spilar Védís á píanó og gítar, auk þess
að syngja. „In The Caste var eins konar popp-
plata, en ég veit ekki hvernig ég á að lýsa tón-
listinni minni núna. Hún er alla vega ekki eins
poppuð. Ég reyni að hafa hana einfalda og
heiðarlega og rembist ekkert við að elta ein-
hverja stefnu. Þetta eru lögin mín, einhvers
konar Védísarblús. Ég sem lögin sjálf, ýmist á
píanó eða gítar, og bæti litlu við þau í hljóðveri,
selló hér og bassi þar, en með einfaldleikann í
fyrirrúmi.“
Kvöldsvæf söngkona
Hérna heima er Védís líka að vinna að tón-
listinni, samhliða starfi á elliheimilinu Grund.
„Ég hef verið heima síðan í maí og er að gæla
við að vera hérna á næstunni, að minnsta kosti
með annan fótinn. Ég finn að ég verð sífellt
meiri Íslendingur, eftir því sem ég er lengur
úti. Hérna er lífið miklu eðlilegra. Tónlistar-
heimurinn úti er ekki hreinn og beinn og ég er
mjög ósátt við ýmislegt og vil ekki taka þátt í
því. Ég kæri mig ekki um eiturlyf eða það óhóf
sem fylgir tónlistarheiminum úti. Í London
þarf að mæta í partý til að hitta menn sem
þekkja menn. Ég uppgötvaði úti að þessi vegur
er vandrataður, en hef fulla trú á því að hægt
sé að finna réttu leiðina, það er sneiða fram hjá
því, sem manni líkar ekki, en samt ná árangri.
Ég vil láta tónlistina tala, en ekki eyða öllum
þessum tíma í að láta sjá mig hér eða þar. Það á
ekki við mitt lundarfar, fyrir nú utan að ég er
algjör kúrikerling og tek auðveldlega róleg-
heitin fram yfir djammið á góðu kvöldi!“
Védís segir að þótt hún syngi núna lögin sín
sjálf gæti allt eins komið til greina að hún ynni
sem lagahöfundur fyrir aðra flytjendur. Og þó.
„Ég á óskaplega erfitt með að sleppa hendinni
af lögunum mínum. Þau eru svo persónuleg og
mér finnst auðvitað að ég ein geti komið þeim
til skila. En þetta gæti kannski breyst.“
Hún hefur aldrei starfað í hljómsveit, þótt
hún reikni með að setja saman sveit til að
kynna næstu plötu þegar þar að kemur. En
hún er ekki sniðin að sveitaböllunum. „Ekki
það að ég hafi neitt á móti ballhljómsveitum,
enda ófá skiptin sem ég hef skemmt mér á slík-
um böllum. Birgitta Haukdal og Írafár hafa til
dæmis unnið gríðarlega mikið og eiga alla sína
velgengni skilið. Hið sama hentar hins vegar
ekki öllum, sem betur fer. Svo er ég svo kvöld-
svæf að ég gæti aldrei spilað á balli fram á
rauðanótt. Það er hætt við að það yrði heldur
lítið stuð. Og það er heldur ekkert spaug að
þurfa að syngja í reykjarkófi langt fram eftir
nóttu. Ég hef bæði kynnst því sjálf og mamma,
sem er talmeinafræðingur, hefur nú heldur
betur leitt mig í allan sannleika um það. Þar
fyrir utan er þetta ekki sú tónlistarstefna sem
ég fylgi.“
Enginn heilaþvottur
Þrátt fyrir að hafa ætlað að taka allsherjar
frí frá íslenskum tónlistarheimi hefur Védís
stigið á svið hér af og til, auk þess að syngja
með nokkrum öðrum söngkonum á jólaplötu
fyrir síðustu jól. Hún söng líka á VivaVerzló,
tónlistarhátíð þar sem fyrrverandi nemendur
Verzlunarskólans létu ljós sitt skína. „Ég reyni
að velja þessi verkefni vandlega, því ég vil ekki
vera alltaf alls staðar. Á tímabili voru myndir
af mér á strætóskýlum og lá við að plötunni
minni væri dreift með pylsupökkum. Þá sá ég
að nóg var komið, ég vil ekki að fólk hlusti á
tónlistina mína af því að henni er troðið upp á
það. Það hefur aldrei verið markmið mitt að
heilaþvo fólk!“
Hún ætlar ekki að gefa plötuna sína út á
næstunni. „Ég veit ekkert hvenær hún kemur
út. Ég er í miðjum samningaviðræðum og er
ekkert að flýta mér. Ég nenni alla vega ekki að
fara í einhverja blautbolakeppni í þágu mark-
aðssetningar. Ég er orðin ótrúlega þreytt á því
hvað rassa- og brjóstasýningar eru farnar að
skyggja á tónlistina. Að hluta tók ég þátt í
þessu sjálf, enda fannst mér ekkert að því að
vilja vera hugguleg þegar ég auglýsti plötuna
mína, en það skiptir bara svo miklu máli að
halda í taumana sjálfur og láta ekki stjórnast af
umhverfinu í svona efnum.“
Þótt Védís hafi aldrei starfað í hljómsveit er
hún á leið í tónleikaferð með Barða Jóhanns-
syni og hljómsveit hans, Bang Gang. „Barði er
að fara um Evrópu í nóvember og febrúar og
það verður gaman að breyta til og ferðast með
honum. Hann verður með fullskipaða hljóm-
sveit og núna er hann farinn að syngja mikið
sjálfur. Mér hefur alltaf gengið vel að vinna
með Barða og ég kann sérstaklega vel að meta
hvað hann hefur ópoppstjörnuleg viðhorf. Ég
er alveg á því að það sé best að segja sem
minnst og láta verkin tala.“
Gefandi starf á Grund
Í ágúst hóf Védís störf á elliheimilinu Grund,
en þar starfaði hún líka síðasta sumar. „Ég hef
oftast þurft að vinna eitthvað með tónlistinni.
Þótt hún gefi mér mikið þá styður Lánasjóður
íslenskra námsmanna ekki svona sjálfsnám!
Mér finnst mjög gott að starfa á Grund. Það á
alla vega miklu betur við mig en að vinna í
verslun. Það hentar auðvitað sumum en fyrir
mig sem tónlistarmann er erfitt að finna inn-
blástur í þannig vinnu. Það eru forréttindi að
vinna störf þar sem hægt er að leggja eitthvað
af mörkum til að hjálpa öðrum. Ég verð að gera
eitthvað gefandi, annars get ég alveg eins
sleppt því. Eftir að ég vann á Grund síðasta
sumar vissi ég að þar vildi ég vinna aftur. Mér
finnst gott að koma heim eftir erfiðan vinnudag
og vita að svitinn og tárin voru þess virði og að
ég hef lagt eitthvað af mörkum sem skiptir
máli. Svo er starfsfólkið þarna líka alveg frá-
bært og við hlæjum mikið saman.“
Védís tekur stundum lagið fyrir heimilisfólk-
ið á Grund. „Ég á líklega eftir að stíga á svið
einhverja morgunstundina, þegar fólkið syng-
ur saman. Tónlistin hefur svo góð áhrif á fólk.
Margir heimilismenn á Grund, sem þjást af
elliglöpum, hlusta á tónlist allan daginn og
syngja með. Þá er greinilegt að þeir eru með á
nótunum.“
Gamalt og gott
Uppáhaldstónlist Védísar er gamall djass og
blús. „Það gefur mér mikla orku og gleði að
hlusta á fólk eins og Louis Armstrong, Billie
Holiday og Ellu Fitzgerald, svo dæmi séu tek-
in. Ég hlusta líka á klassíska tónlist, gamalt hip
hop og eitthvað af því sem er að gerast í dag og
er til dæmis mjög ánægð með sum íslensk
bönd, eins og Bang Gang, Sigur Rós, Maus,
Trabant og Leaves. Og áfram get ég talið. Ég
vil ekki vera með neitt yfirlæti en mér finnst
lítið varið í megnið af þeirri tónlist sem boðið er
upp á í dag. Það fer sérstaklega í taugarnar á
mér að geta ekki notið lags vegna myndbands
sem höfðar eingöngu til kynlífs. Það pirrar mig
ótrúlega og mér líður betur að halla mér að
eldri tónlist.“
Í sumar fór Védís á tónlistarhátíðina í Hró-
arskeldu. „Þar sá ég meðal annars Dave Gah-
an, forsprakka Depeche Mode. Svo var Sigur
Rós alveg brilljant. Reyndar eru margar ís-
lenskar hljómsveitir að gera það gott, þótt þær
fái ekki neina spilun í útvarpsstöðvunum hér
heima nema þá helst á Rás 2.“
Hún segist ekki hafa skilgreint hvaða tónlist
henti henni best í söng. „Mér finnst ég geta
sungið flest, en það þurfa ekkert allir að vera
sammála því. Ég hef sungið mjög fjölbreytt lög
í gegnum tíðina og haft gaman af því. Ég kom
fyrst fram á sjónarsviðið þegar ég söng lög eft-
ir Wham!, Michael Jackson og fleiri poppara í
Verzlunarskólanum. En áður söng ég alltaf í
kór.“
Kórinn var Grensáskirkjukór, undir stjórn
Margrétar Pálmadóttur. „Það má eiginlega
segja að Margrét hafi alið mig upp sem söng-
konu. Hún er frábær stjórnandi, lifir sig inn í
tónlistina af ákafa, alltaf brosandi og hrífur
fólk með sér. Allt það góða sem ég geri sem
söngkona kemur óbeint frá henni. Hún er al-
veg frábær og ég get ekki þakkað henni nóg.“
Raunhæfari draumar
Védís er nokkuð sátt við sjálfa sig þessa dag-
ana. „Mér finnst ég hafa þroskast verulega frá
því að ég gaf út plötuna mína og útskrifaðist frá
Verzló. Draumarnir um þennan bransa og að
slá í gegn eru miklu raunhæfari. Núna vinn ég
að tónlistinni tónlistarinnar vegna.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ég vil láta tónlistina tala
Védís Hervör Árnadóttir tók
sér frí frá íslenskum tónlist-
arheimi þegar henni fannst
sem ímyndin væri farin að
skyggja á tónlistina. Hún sagði
Ragnhildi Sverrisdóttur frá
Védísarblús, starfinu á elli-
heimilinu Grund og raunhæf-
um framtíðardraumum um
tónlistina.
rsv@mbl.is
„Ég er orðin ótrúlega þreytt á því hvað rassa- og brjóstasýningar eru farnar að skyggja á tónlistina,“ segir Védís Hervör Árnadóttir og telur mikilvægt
fyrir tónlistarfólk að halda í taumana sjálft og láta ekki stjórnast af umhverfinu í svona efnum.