Morgunblaðið - 31.08.2003, Síða 18

Morgunblaðið - 31.08.2003, Síða 18
18 SUNNUDAGUR 31. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ Á SKRIFSTOFU í safnaðar- heimili Dómirkjunnar segja myndirnar á veggj- unum sína sögu. Séra Hjálmar Jónsson dóm- kirkjuprestur byrjar á að sýna blaðamanni mynd af sér með brúðhjónum. „Þau eru ekkert tengd mér, en voru svo elskuleg að senda mér myndina,“ segir séra Hjálmar. Önnur mynd er máluð af minnisvarðanum um Bólu-Hjálmar í Blönduhlíð. Á einum veggnum er líka pípuhattur séra Péturs Ingj- aldssonar prófasts á Skagaströnd. „Við vor- um miklir vinir og fjölskylda séra Péturs færði mér hattinn eftir að hann var fallinn frá,“ segir Hjálmar. Hoppandi prestur baðar út öllum öngum á teikningu og yfirskriftin er: „Það er ekki nóg að segja; maður verður líka að gera halelúja.“ Minjagripir úr ferðum til Afríku, Asíu og Ástralíu prýða veggi og glugga og loks má geta myndar af Sauðárkrókskirkju. „Dóm- kirkjumyndina tók ég heim, því ég er svo nærri kirkjunni hér,“ segir Hjálmar og sýpur á kaffinu. Skagfirðingar eru kunnir fyrir söngelsku og öflugt félagsstarf; var það nokkuð sem þú gast miðlað Dómkirkjusöfnuðinum? „Nei, kórinn er svo góður í Dómkirkjunni að hann gefur ekkert eftir Kirkjukór Sauð- árkróks og sjálfur syng ég ekkert sérstaklega vel. Ég flaut á því fyrir norðan að gera vísur,“ segir Hjálmar og hlær. „Fólk tengist vin- áttuböndum í kirkjustarfinu og söfnuðurinn verður eins og fjölskylda. Fólki á að þykja vænt um hvert annað. Íslendingar eiga að leyfa sér þann munað að vera eins og fjöl- skylda.“ Hvernig gengur kirkjustarfið? „Í það heila tekið er ég ánægður með það og nú leggjum við áherslu á unga fólkið. Ný- lega var stofnaður barnakór Dómkirkjunnar og auk þess leggjum við meira upp úr æsku- lýðsstarfi, höfum aukið fræðslu á leikskólum og fylgjum eftir því sem við lofum við skírnina ásamt foreldrum og fjölskyldum, að fræða blessað barnið um þá trú sem það er skírt til. Hlutverk kirkjunnar er mjög mik- ilvægt við að styðja heimili og skóla í þessari viðleitni. Fermingarfræðslan er hluti af því ferli. Við séra Jakob erum t.d. nýbúnir með vikulangt fræðslunámskeið með fermingar- börnum næsta vors. Okkur hefur lánast að hafa býsna líflegt barna- og unglingastarf við kirkjuna og höfum fengið gott fólk með okk- ur.“ En hafa unglingar jafnmikinn áhuga og áð- ur á að fermast? „Af því fermingarnámskeiðið er nýbúið get ég sagt að unglingarnir eru vel gerðir og áhugasamir. Stundum er talað um skeyting- arleysi hjá ungu kynslóðinni, en ég fullyrði að það er alls ekki erfiðara að ná til unglinga í dag en hefur verið. Þau eru opin og eiga auð- velt með að tjá sig.“ Á þjóðkirkjan undir högg að sækja í sam- keppni við afþreyingariðnaðinn? „Það held ég ekki. Það er ekki tómstunda- gaman eða afþreyting að sækja kirkju eða rækja trú sína heldur lífsstíll, sem fólk temur sér og ræktar með sér. 90% Íslendinga eru í þjóðkirkjunni og 5% þeirra sem eftir eru í kristnum trúfélögum. Ísland er því kristnasta þjóð heimsins á skýrslum. Ef trúrækni og kirkjusókn er borin saman má þó sjá að ekki er fylgni milli trúaráhuga og kirkjugöngu. En það hvetur okkur líka áfram og sýnir að við getum staðið okkur betur. Við prestar og annað starfsfólk kirkjunnar eigum að gera hana að opnum og sjálfsögðum vettvangi fólksins, enda var kirkjan fyrr á árum og öld- um félagslegur vettvangur líka og samkomu- staður. Kirkjusókn er hinsvegar miklu meiri en sumir vilja vera láta. Þó að tiltölulega fáir séu vikulegir gestir í kirkju þá er kirkjan og blessun hennar nærri á svo mörgum stundum í lífi einstaklinga og fjölskyldna á Íslandi. Í meðalviku koma 1.500 til 2.000 manns í Dóm- kirkjuna. Það eru því allt að 100 þúsund manns á ári. Fólk sem kemur í hjónavígslur, skírnir, jarðarfarir, messur, kórastarf og unglingastarf. Við erum með hádegisbæn alla miðviku- daga í kirkjunni og í framhaldi af því komum við saman á kirkjuloftinu. Bænastundin er sótt reglulega af um 30 til 60 manns og þar hefur myndast gott samfélag.“ Saknarðu ekkert átakanna á þinginu? „Ég hef alltaf kunnað afar vel við mig sem prestur og gerði mér snemma grein fyrir því að ég væri fyrst og fremst prestur. Ég tók ekki þá ákvörðun að fara í stjórnmálin vegna þess að mér leiddist, en ég hafði verið sókn- arprestur á Sauðárkróki og prófastur Skag- firðinga á annan áratug. Það var leitað til mín og mér fannst ég ekki geta skorast undan því og síðan réðu prófkjör og kosningar því hvar ég lenti. Þetta gekk vel, ég fékk brautargengi og mér þykir vænt um þann trúnað sem mér var sýndur. Mér féll vel á þingi, þótt ég vildi fremur halda áfram prestsskap. Satt að segja finnst mér ég sjá margt í skýrara ljósi en áður. Ég tók þátt í stjórn- málum á annan áratug með virkum hætti og finnst eðlilegt að prestar eins og aðrir myndi sér skoðanir. Það hlýtur að vitna um ábyrga afstöðu í lýðræðislegu samfélagi að mynda sér skoðun og leggja sitt af mörkum. Ég varð auðvitað var við að sumu fólki þætti þessi ákvörðun vond. Að stjórnmál væru ljót og völdin spilltu fólki. En þingmenn eru umfram allt að þjóna fólki, ekki síður en prestar. Þeim mun meiri er þjónustan sem ábyrgðin er meiri. Þannig er þetta á flestum sviðum sam- félagsins og ekki síður í viðskiptum. Mér finnst vont þegar ýtt er undir þá hugsun að allir sem einhvers eru megandi séu vondir menn. Auðvitað hafði fólk stundum samband og vildi ná fram sínum hagsmunum framhjá kerfinu, en þjóðfélagið er orðið opnara og tíð fyrirgreiðslustjórnmála einfaldlega liðin. Ég vann ekki bara fyrir mína kjósendur, enda hafði ég vanist því úr prestsstarfinu að fara ekki í manngreinarálit.“ Er eitthvað líkt með samfélögunum vestan og austan Templarasunds? „Ekkert er pólitískt rétt sem er siðferði- lega rangt. Bæði á Alþingi og í kirkjunni er verið að vinna góðum málum fylgi og skapa ytri skilyrði til að þjóðfélagið og mannlífið blómstri. Að stuðla að hamingju og sátt við Guð og menn. Ég held svo mikið upp á sálm eftir Matthías Johannessen, þar sem er þetta erindi: Og enn hann segir: Sjá, ég kem í skýjum, og sendir þá, er lúta ásýnd hans, og boða líkn og lífið í hans nafni og leiða saman vegu Guðs og manns. Þetta er prestsstarfið í hnotskurn. Að flytja þann boðskap sem hefur sannað sig svo vel gegnum tíðina, láta boðskap Krists og kristinnar trúar berast og heyrast inn í að- stæður í samtímanum. Stuðla að því að börn og unglingar alist upp í kærleika kristinnar trúar. Að fólk sem á í erfiðleikum vegna brostinna vona eða áfalla sjái í gegnum þær raunir ljósið framundan. Við séum ekki ein á báti heldur sé okkur hjálpað að halda í von- ina. Trúin og nærvera Krists við hvern og einn getur gefið þann styrk sem þarf.“ Skilur þá Templarasund ekki milli lyga og sannleiks, glötunar og náðar? „Aldeilis ekki, þetta eru tvö svið lífsins. Þjóðin á eiginlega bæði þessi hús. Þau standa fyrir veraldlegt svið og trúarlegt. Bæði húsin eru falleg og gegnum þessi tvö hús er hægt að rekja þjóðarsöguna, ákvarðanir og örlög, um langan tíma.“ Hver er munurinn á þér sem ungum eða miðaldra manni að hefja prestsskap? „Ég byrjaði prestsskap í Húnavatnssýslu og var eins og hver annar óreyndur ungling- ur. Ég vissi ekki mikið um kirkjustarfið, en mætti strax fólki sem var með það á hreinu. Kirkjan gegnir fastmótuðu hlutverki í lífi fólks, sem vill að hún sé sýnileg og staðföst, og ég sá svo sem fljótlega það er þetta fólk en ekki eitthvert valdakerfi sem er kirkjan.“ Hvernig var að byrja að predika yfir þessu fólki – ungur maðurinn? „Predikun er ekki að segja fólki til eða hvernig það eigi að haga sér. Það veit það fullvel í okkar samfélagi. Ef það breytir rangt er það ekki vegna þess að það veit ekki betur og því er ekki ástæða til siðapredikunar. Við eigum að boða fagnaðarerindið með gleði, en ekki mæla með ólund. Messugjörðin á að draga fram fegurðina og færa fólki sálarfrið, sem ég vona að sem flestir njóti í sínu lífi.“ Nú höfum við rætt um Templarasundið; er kannski orðið tímabært að breikka þá gjá enn frekar? „Það hefur þegar orðið aðskilnaður milli ríkis og kirkju. Kirkjan fékk meira sjálfstæði árið 1997. Þá voru felld niður mörg laga- ákvæði og lögbundið að kirkjan skipi sjálf sínum málum með starfsreglum sem settar eru á kirkjuþingi. Aðeins formleg tengsl sem standa eftir. Þjóðkirkjan nýtur sjálfstæðis og stjórnvöld skipta sér ekkert af málefnum hennar. Á þeim grundvelli er líka mikil vinna í gangi núna í stefnumótun þjóðkirkjunnar, þar sem farið er yfir alla þætti starfseminnar og mótuð framtíðarsýn. Reiknað er með að stefnumótuninni verði lokið á komandi vetri. Ég held að flestir þekki eitthvað til starfa kirkjunnar og að hún njóti almennrar vel- vildar. Þar, eins og annars staðar, þurfa menn þó sífellt að bæta sín vinnubrögð, ekki síst með tilliti til fjölþættara þjóðfélags. Þjóð- kirkjan eykur fjölbreytni starfs síns sífellt en er trú erindi sínu eigi að síður.“ Nýtur kirkjan forréttinda ef miðað er við aðra trúarhópa? „Nei, en það er alltaf auðvelt að benda á að sá litli eigi erfitt uppdráttar. Það er ekki þjóðkirkjunni að kenna. Hún er umburðar- lynd. Í starfseminni eru þau viðhorf í heiðri höfð að taka tillit til annarra sjónarmiða og virða trú og skoðanir hvers og eins.“ En segir ekki í boðorðinu: Þú skalt ekki aðra guði hafa? „Og þú átt að taka það til þín persónulega. Að hafa fullkomið traust á þeim Guði sem þú hefur fest trú á. Boðorðin tíu eru umferð- arreglur lífsins. Ekki má gleyma því að sam- félagið verður sífellt flóknara og auðvitað verða umferðarreglurnar flóknari líka. Kirkj- an verður að laga sig að samtímanum, enda þótt í kristindómnum sé sá sprengikraftur sem brýtur af sér viðjar vanahugsunar. Mér finnst það ganga nokkuð vel, þótt auðvitað megi alltaf betur gera. Starfsemi kirkjunnar er fjölþætt og verður aldrei undanskilin gagnrýni, enda er hún til marks um áhuga á starfi lifandi kirkjunnar. Flestir hafa skoð- anir á því hvernig prestar eiga að vera og fá störf eru jafn fastmótuð í huga almennings,“ segir Hjálmar, brosir í kampinn og bætir við: „Er ég kominn í embættismannagírinn?“ Stundum skipta prestar sér af þjóðfélags- málunum. „Kirkjan á að sinna sínu hlutverki vel, en á afmörkuðu sviði. Hún á t.d. ekki að stjórna þjóðfélaginu. Þess vegna er mikilvægt í pred- ikunum að gæta meðalhófs í að blanda sér í málefni líðandi stundar. Við gefum engum línuna, heldur leitumst við að skyggna þjóðfé- lagið; hvernig það er samansett og hvað megi betur fara. Hver nennir að yrkja um eitthvað sem engum kemur við? orti Davíð Stefáns- son.“ Hefurðu einhvern tíma til að yrkja? „Það fer mikill tími í að semja ræður, s.s. fyrir hjónavígslur, útfarir og að sjálfsögðu predikanir. Ég ræð ekki við mikið meira, en sem þó einn og einn sálm og eina og eina kersknisvísu, einstaka flím, og reyni að fara vel með það. Ég átti t.d. leið hjá strætóskýli í vikunni og sá þá Cheerios-auglýsingu með vini mínum séra Pálma Matthíassyni, sem kveikti vísu: Allir stríðir andlitsvöðvar, engum Pálmi Matt er líkur. Puntar upp á stoppistöðvar Strætisvagna Reykjavíkur.“ Sækirðu þá innblástur til forföður þíns Bólu-Hjálmars? „Ekki kenna honum um vísur mínar og kvæði. En ég er uppalinn við að vera afkom- andi hans og bera virðingu fyrir kveðskap, sem varð til þess að ég leiddist til að lesa mikið af ljóðum. Ég les margt úr nútímanum og finnst gott að setjast niður með ljóðabók og lesa, t.d. ef ég er að semja ræður. Það er gott að loka sig ekki inni á fyrirfram mörk- uðum brautum heldur láta hugann reika. Í eftirmælum t.d. er mikilvægt að byggja á innsæi og um leið að sýna þannig trúnað og virðingu því vinasamfélagi sem sækir útför- ina. Það eru skyldur sem presturinn hefur og mikilvægt er að hann sinni þeim af trú- mennsku. Síst af öllu vildi ég bregðast því trausti.“ Flaut á því að gera vísur Liðin eru tvö ár síðan séra Hjálmar Jónsson hætti á Al- þingi og tók við sem dóm- kirkjuprestur. Pétur Blöndal talaði við hann um lífið austan Templarasunds. Morgunblaðið/Sverrir Séra Hjálmar segir Dómkirkjuna og Alþingi beggja vegna Templarasunds vera tvö svið lífsins. pebl@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.