Morgunblaðið - 10.01.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 LAUGARDAGUR 10. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Viðbrögð við greinargerð Hannesar
Hólmsteins Gissurarsonar
Morgunblaðið leitaði viðbragða hjá aðilum sem getið var um í greinargerð dr. Hannesar Hólmsteins Gissur-
arsonar þar sem hann svarar gagnrýni sem hann hefur fengið á bók sína, Halldór, og birt var í blaðinu í gær.
„HANN hefur orðið uppvís að rit-
stuldi og það er ekki nóg að skrifa
greinargerð eftir slíkt framferði,“
segir Guðný Hall-
dórsdóttir, dóttir
Halldórs Lax-
ness, um grein-
argerð dr. Hann-
esar Hólmsteins
Gissurarsonar,
þar sem hann vís-
ar á bug ásök-
unum um ritstuld
eða óheiðarleg
vinnubrögð í bók sinni Halldór.
„Við bíðum eftir því að maðurinn
biðjist afsökunar,“ segir Guðný. „Ef
hann gerir það ekki verðum við að
fara að athuga okkar gang. Þetta er
ekki líðandi. Það eru höfundarrétt-
arlög í landinu og ég skil ekki af-
hverju hann á ekki að virða þau eins
og aðrir.“ Í þessu sambandi nefnir
hún að ekki gangi að taka sjálfstæða
sköpun eftir rithöfund og snúa henni
að eigin vild og gefa út aðra bók.
Guðný segir að hún hafi ekki lesið
bókina og ætli ekki að gera það, en
hún hafi gluggað í hana og grein-
argerðin sé bara yfirklór. „Það er
alltaf að koma meira og meira í ljós
það sem hann er að taka upp eftir
öðru fólki og gera að sínum texta. Til
dæmis úr bók Ólafs Ragnarssonar
og annarri sem heitir Nærmynd af
Nóbelskáldi.
Hann hefur varla skrifað orð í
þessa bók, manngreyið.“ Að sögn
Guðnýjar eru margar rangfærslur í
bók Hannesar og rangt farið með.
„Ég veit ekki hvaða fengur er í því
að eiga svona bók, sem er gerð á bak
við alla og farnar ókurteisar leiðir að
öllu,“ segir hún.
Guðný segist ekki geta sagt álit
sitt á greinargerðinni. „Maðurinn
stelur og fer svo í burtu en hann
hlýtur að hafa vitað að þetta myndi
koma upp,“ segir hún og gefur lítið
fyrir að Hannes hafi verið sam-
bandslaus við Ísland í útlöndum.
„Árið 2004 eru öll börn í sambandi út
um allan heim en þá þykist hann
ekki getað svarað neinu. Svo kemur
hann heim, hóar á blaðamannafund
og dreifir einhverri greinargerð, en
það hefur ekkert breyst.“
Vill ekki tjá sig
Í greinargerðinni segir Hannes
m.a. að ritdómur Páls Baldvins
Baldvinssonar á Stöð 2 hafi verið
mjög illa unninn og villur hans beri
vitni um hroðvirknisleg vinnubrögð,
en Páll Baldvin segir að hann vilji
ekki tjá sig um ummæli Hannesar að
svo stöddu. Ekki náðist í Helgu
Kress, prófessor í bókmenntafræði
við Háskóla Íslands.
„GREINARGERÐIN svarar því
sjálf að því er mig varðar,“ segir
Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur,
um ummæli dr.
Hannesar H.
Gissurarsonar
varðandi vinnu-
brögð sín í grein-
argerðinni, sem
Hannes lagði
fram í fyrradag.
„Hann er ásak-
aður fyrir að nota
texta annarra manna án þess að
vitna til þeirra en ég geri það nátt-
úrulega ekki enda ásakar hann mig
ekki fyrir það.“
Hannes segir meðal annars í
greinargerð sinni að Guðjón, eins og
margir aðrir, sviðsetji ýmislegt í
ævisögum Jónasar Jónssonar frá
Hriflu og Einars Benediktssonar.
Hann nefnir nokkur dæmi úr fyrsta
bindi ævisögu Einars, þar sem
gæsalappir séu ekki notaðar, þó
textinn sé tekinn frá öðrum og um-
skrifaður enda sé vísað til heimilda.
Guðjón segir að þegar svona verk
séu unnin og höfundur rekist á
klausur sem hann vilji nota séu til
þess þrjár aðferðir. Í fyrsta lagi að
hafa orðrétt eftir innan gæsalappa
„og það geri ég í langflestum til-
fellum,“ segir hann. „Einstaka sinn-
um endursegi ég efnið og vísa þá til
heimildarinnar. Þriðja aðferðin er að
vísa til hennar í textanum sjálfum,
eins og þessi og þessi segir í bók
sinni. Það er frekar undantekning
hjá mér að ég endursegi svona, þó
þessi dæmi Hannesar séu til vitnis
um annað, og ég er frekar undrandi
á því að hann skuli vera að draga
mig inn í þessar umræður, en mér
finnst það vera tilraun til að dreifa
athyglinni. Hann gefur í skyn að ég
noti nákvæmlega sömu aðferðir og
hann. Ég ætla ekki að dæma hans
bók enda hef ég ekki lesið hana með
þennan samanburð í huga en ég tel
mig ekki vera sekan um það sem
hann er ásakaður um, að gera ann-
arra manna texta að sínum án þess
að vitna til þeirra. Ég nota aldrei
heimildir án þess að vitna til þeirra.“
Í GREINARGERÐ sinni segir
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
ritdóm sem Gauti Kristmannssson
flutti í Víðsjá 22.
desember hafa
verið „ill-
skeyttan“. Þessu
hafnar Gauti og
segist einmitt
hafa lagt sig
fram um að vera
málefnalegur og
láta alla pólitík
lönd og leið. Hann bendir á að
Hannes segi það eitt efnislega um
dóminn að hann hafi verið „ill-
skeyttur“ en tilfæri engin dæmi
því til stuðnings. Það sé skrýtið
þar sem Hannes hafi boðað að
hann myndi svara gagnrýn-
isatriðum lið fyrir lið.
„Ég reyndi að hafa hann eins
málefnalegan og ég gat vegna þess
að ég vissi að þetta væri mjög al-
varlegt mál. Ég held að menn sjái
það ef menn lesa dóminn að hann
er málefnalegur. Ég reyndi að
kúpla allri pólitík út úr honum og
fara í efnið,“ segir Gauti.
Gerði alvarlega
fyrirvara
Í ritdómi Gauta sagði m.a.: „Það
er klárlega rétt að hér hefur verið
safnað saman miklum fróðleik um
fyrstu þrjátíu árin í ævi Halldórs
og er auðvitað fengur að því.
Spurningin er hins vegar hvernig
þessum fróðleik er safnað saman
og hvernig gengið er frá honum í
fræðiriti. Það er kannski rétt að
rifja upp nokkrar grundvallar-
reglur í þessu samhengi: 1) Þegar
menn nota texta annars manns
skal það auðkennt; oftast nota
menn þá gæsalappir eða draga
textann inn og nota smærra letur.
2) Þegar menn nota texta annars
manns skal einnig vísað til þess
um hvaða verk er að ræða, hvenær
það kom út og á hvaða blaðsíðu
hinn tilvitnaði texti er. 3) Þessi að-
ferð þarf að vera kerfisbundin eða
samræmd þannig að eins sé farið
að með allar tilvitnanir. 4) Þegar
menn nota texta annars manns
skal nota hann óbreyttan. Þetta
eru reglur sem ég hélt að ekki
þyrfti að ræða þegar fjallað er um
fræðirit eftir háskólaprófessor, en
skömmu eftir að ég hóf lesturinn
komu á mig alvarlegar vöflur.
Bæði fannst mér stíllinn dálítið
ójafn og ýmislegt kom mér kunn-
uglega fyrir sjónir.“ Síðan tilfærir
Gauti í dóminum dæmi um hvernig
Hannes taki upp texta nánast orð-
réttan úr minningarbókum Lax-
ness og segir „Ég hlýt því að gera
alvarlega fyrirvara um heim-
ildanotkun og heimildaskilning
Hannesar....“ Gauti segist einnig
hafa rætt eftirmála bókar Hann-
esar sem Hannes hafi ítrekað sagt
á miðvikudaginn að enginn hefði
athugað. „Ég fór inn á alla þessi
hluti sem Hannes nefndi.“
Í greinargerðinni segir Hannes
það einnig hljóta að vera einsdæmi
að dómur Gauta hafi sérstaklega
verið boðaður í fréttum hljóð-
varpsins næstu klukkutíma á und-
an. „Sjónvarpsmenn komu líka í
hljóðklefa og kvikmynduðu Gauta
að flytja dóminn. Síðan var sér-
stök frétt í Sjónvarpinu um kvöld-
ið um, að Gauti hefði í dómi sínum
gagnrýnt mig harðlega. En er einn
harður dómur um bók stórfrétt
fyrir sjónvarp?“ segir Hannes.
Gauti segir það auðvitað ekki
vera sitt að svara fyrir fréttastjórn
á Ríkisútvarpinu.
„Ég lét stjórnanda þáttarins
vita að þetta væri alvarlegur og
harður dómur. Málið var þess eðlis
að ég taldi rétt að hann vissi það.
En hann fékk hins vegar ekki að
heyra dóminn fyrr en hann var
fluttur. Og væntanlega hefur hann
talað við fréttamenn, ég giska á
það,“ segir Gauti.
Reyndi að
hafa dóminn
málefnalegan
Gauti Kristmannsson
Greinargerðin
yfirklór
Guðný Halldórsdóttir
„Nota aldrei
heimildir án
þess að vitna
til þeirra“
Guðjón Friðriksson
SAMKVÆMT könnun meðal
framhaldsskólakennara telja
þeir að mánaðarlaun fyrir
fullt starf við kennslu þurfi
að hækka um allt að 35% og
byrjunarlaun um allt að 45%.
Telja kennararnir einnig að
laun stjórnenda í framhalds-
skólum og náms- og starfs-
ráðgjafa þurfi að hækka
verulega. Frá þessu er greint
á vef Kennarasambands Ís-
lands.
Félag framhaldsskóla-
kennara efndi nýlega til
könnunar á afstöðu fé-
lagsmanna til ýmissa þátta
kjaramála, skólamála og fé-
lagsmála. Í könnuninni telja
nærri 70% svarenda að með-
almánaðarlaun fyrir fullt
starf við kennslu í framhalds-
skóla eigi ekki að vera lægri
en 291 þúsund krónur. Al-
gengasta svarið er að launin
eigi að vera á bilinu 291–310
þúsund kr. á mánuði.
Kjarasamningur
framlengdur
Þrír af hverjum fjórum
kennurum í könnuninni telja
að byrjunarlaun framhalds-
skólakennara, yngri en 30
ára, með BA- eða BS-próf og
kennsluréttindi eigi að vera
211–270 þúsund kr. á mánuði.
Nefna flestir 231–250 þús. kr.
sem hæfileg byrjunarlaun.
Eins og fram kom í Morg-
unblaðinu skömmu fyrir jól
var kjarasamningur fram-
haldsskólakennara fram-
lengdur til loka nóvember á
þessu ári, en hann átti að
renna út í vor. Í stað 1,5%
hækkunar launa um áramót,
í fyrri samningi, hækkuðu
launin þá um 3%, samkvæmt
samkomulagi sem undirritað
var við fjármálaráðherra. Nú
í upphafi árs fer af stað vinna
til undirbúnings nýjum
kjarasamningi.
Könnun meðal framhaldsskólakennara
Mánaðarlaun þurfi að
hækka um allt að 35%
Morgunblaðið/Sverrir
FÉLAG grunnskólakenn-
ara hefur óskað eftir því við
ríkissáttasemjara að hann
stjórni kjaraviðræðum við
launanefnd sveitarfélaga
þegar þær hefjast á næstu
mánuðum. Kjararáð Kenn-
arasambands Íslands (KÍ)
kom saman til fundar í gær
þar sem sameiginleg kröfu-
gerð var m.a. til umræðu.
Fundað verður um viðræðu-
áætlun hjá sáttasemjara í næstu viku en áætl-
unin þarf að vera tilbúin í síðasta lagi 20. jan-
úar.
Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, segir að ekki
hafi skapast kjaradeila í þeim skilningi að henni
hafi verið vísað til sáttasemjara. Grunnskóla-
kennarar vilji að viðræður fari frá upphafi fram
undir stjórn sáttasemjara og í hans húsakynn-
um.
„Reynsla okkar frá síðasta tímabili er sú að
ákveðinn trúnaðarbrestur varð milli aðila. Okk-
ur finnst að menn hafi oft verið aðra túlkun á
hlutunum við framkvæmd samnings heldur en
uppi var þegar samningar voru gerðir. Við höf-
um lent í verulegum kostnaði vegna lögfræði-
starfa til að ná fram þeim rétti sem við teljum
okkur hafa samið um. Við ætlum ekki að
brenna okkur á sama soðinu aftur,“ segir Eirík-
ur.
Sameiginlegar kröfur kennara frá leikskóla-
stigi og upp í framhaldsskólastig snúa einkum
að lífeyris- og orlofsmálum, sjúkrasjóði og end-
urmenntun. Sem dæmi um sameiginlega kröfu
bendir Eiríkur á að framhaldsskólakennarar,
einir félagsmanna KÍ, hafi
verið með samning um við-
bótarframlag vinnuveitenda
vegna séreignarsparnaðar.
Aðrir kennarar muni fara
fram á hið sama í viðræðum
sínum við sveitarfélögin. Ei-
ríkur segir að launa- og
vinnutímakröfur verði síðan
mótaðar af hverju aðildar-
félagi fyrir sig.
Kemur á óvart
Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samn-
inganefndar launanefndar sveitarfélaga gagn-
vart grunnskólakennurum, segir að beiðni
kennara til ríkissáttasemjara komi sér eilítið á
óvart, en sé þetta vilji þeirra geti samninga-
nefndin alveg unað við það. Birgir Björn kann-
ast ekki við trúnaðarbrest gagnvart kennurum
í samninganefnd sveitarfélaganna.
„Við gerð síðustu samninga vorum við að
gera miklar breytingar frá eldri samningum.
Af því tilefni var sett á laggirnar sérstök verk-
efnisstjórn sem fékk það hlutverk að fylgja
samningnum eftir. Verkefnisstjórnin starfaði í
allnokkra mánuði, tók við öllum spurningum
sem komu og greiddi úr þeim. Þetta var að
mínu mati einstætt og merki þess að við vorum
í góðu samstarfi. Við kvörtum ekki yfir sam-
starfinu við grunnskólakennara en vilji þeir
láta sáttasemjara stjórna viðræðunum verða
þeir að fá að gera það. Ég tel að við höfum unnið
af heiðarleika og sanngirni og kannast ekki við
að á nokkrum tímapunkti höfum við haft eitt-
hvað annað fyrir okkur,“ segir Birgir Björn.
Kennarar vilja að sáttasemjari stjórni viðræðum
Eiríkur
Jónsson
„Ætlum ekki að brenna
okkur á sama soðinu aftur“
Birgir Björn
Sigurjónsson