Morgunblaðið - 18.01.2004, Blaðsíða 60
FRÉTTIR
60 SUNNUDAGUR 18. JANÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
R
annsóknarnefnd flugslysa stóð á
dögunum fyrir námskeiði fyrir
þá sem fyrstir koma á vettvang
ef flugslys verður og sóttu það
um 25 manns. Voru það fulltrúar
frá lögreglu, almannavörnum, björg-
unarsveitum, flugrekendum og Flug-
málastjórn en markmið námskeiðsins var að
fara yfir viðbrögð og ábyrgðarsviðs þessara
aðila. Kennarar voru frá bandarísku stofn-
uninni Southern California Safety Institute
sem hefur sérhæft sig í námskeiðahaldi og
ráðgjöf vegna viðbragða við slysum og áföll-
um.
Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri
RNF, og Þorkell Ágústsson aðstoðarrann-
sóknarstjóri segja að í fyrra hafi verið haldið
námskeið fyrir flugrekendur sem hafi snúist
um skyldur þeirra og réttindi þegar flugslys
eru annars vegar. Í framhaldi af því hafi verið
ákveðið að hafa hliðstætt námskeið fyrir þá
sem koma fyrstir á vettvang til að þeir geti
betur gert sér grein fyrir hverju hugsanlega
er að mæta og í framhaldinu bætt við-
bragðsáætlanir sínar. Telja þeir að með þess-
um tveimur námskeiðum hafi skerpst sýn við-
komandi aðila á nauðsyn réttra viðbragða og
hver og einn hafi einnig fengið betri yfirsýn
yfir hlutverk samstarfsaðila.
Huga þarf sérstaklega
að fjölskyldunum
Einn þáttur námskeiðsins var að huga að
því hvernig sinna þarf fjölskyldum þeirra sem
lent hafa í flugslysi, hvort sem farþegar
kunna að hafa farist, slasast alvarlega eða
sloppið án meiðsla og fjallaði Sharon Morp-
hew um það efni. Auk þess að kenna á nám-
skeiðinu hélt hún fund með fulltrúum land-
læknis, Rauða krossins, þjóðkirkjunnar,
Landspítala – háskólasjúkrahúss og almanna-
varna, þ.e. þeim aðilum sem einkum koma til
með að sjá um aðstandendur farþega eftir
flugslys.
„Á fundinum hjá landlæknisembættinu gerði
ég grein fyrir þeirri stærðargráðu og því um-
fangi sem fylgir því að sinna fjölskyldum
þeirra sem lent hafa í flugslysi,“ sagði Sharon
Morphew í samtali við Morgunblaðið og kveðst
hún þá einkum hafa stórslys í huga, þegar
kannski vél með 200 til 300 farþegum ferst og
farþegar ýmist farast eða slasast alvarlega.
„Þegar flugslys verður þarf einhver að sjá um
hóp fólks sem leitar fregna af ástvinum og
þarf stuðning og umhyggju. Við verðum að út-
vega þessum hópi góðar aðstæður að búa við
meðan málið skýrist, gefa honum reglulega
upplýsingar frá flugfélaginu og rannsókn-
arnefnd um hvað hafi gerst og ekki síst að
hjálpa þeim við að fylgjast með líðan þeirra
sem hafa slasast eða huga að jarðneskum leif-
um þeirra sem hafa farist. Þarna geta margir
aðilar komið við sögu og fjölskyldan þarf að-
stoð við að átta sig á hvað gerst hefur, til
hvaða ráðstafana þarf hugsanlega að grípa og
síðan þurfa allir umhyggju og stuðning við
slík áföll.“
Í mörgum löndum Evrópu, Bandaríkjunum
og víðar hafa yfirvöld þegar komið upp
ákveðnu kerfi til að sjá til þess að fjölskyldum
sé vel sinnt. Slíkar viðbragðsáætlanir segir
hún frekar nýlega komnar til. Yfirleitt sé það
skipulagt þannig að einn verkefnastjóri stýri
aðgerðum og að auk aðstoðarmanna þurfi að
gera ráð fyrir talsvert stórum hópi sjálf-
boðaliða. Hún segir það langt frá því einfalt
að sinna stuðningi sem þessum. „Í stórri far-
þegaflugvél í dag eru mörg hundruð manns,
fólk úr ýmsum áttum, af ýmsu þjóðerni og
með ólíkan menningarbakgrunn og af mis-
munandi trúarbrögðum. Við þurfum til dæmis
að gera ráð fyrir mjög ólíkum viðbrögðum
vegna andláts því sum trúarbrögð gera ráð
fyrir að sá látni sé jarðsettur þar sem hann dó
en ekki í heimalandinu, hver og ein trúar-
brögð gera ráð fyrir ákveðnum frágangi á líki
og þar fram eftir götunum.“
Áfallahjálp getur staðið lengi
Sharon kvaðst hafa bent sérstaklega á
hversu umfangsmiklar allar þessar aðgerðir
geta verið, t.d. þegar litið er á aðstæður á
suðvesturhorni landsins þar sem Keflavík-
urflugvöllur er næsti völlur þeirra hundraða
flugvéla sem fara um íslenska flugstjórn-
arsvæðið á degi hverjum. Að sjá um aðstand-
endur 200 til 300 farþega, skipta þeim niður á
hótel eftir því hvort ástvinir þeirra hafa farist
eða slasast, og best sé að hvor hópur sé út af
fyrir sig. Síðan þarf enn einn stað fyrir áhöfn-
ina og aðra sem tengjast viðkomandi flug-
félagi, aðstöðu fyrir fjölmiðla sem munu
flykkjast á staðinn og enn annan fyrir þá sem
aðstoða fjölskyldurnar og þar fram eftir göt-
unum. Segir hún mikinn tíma fara í áfalla-
hjálp og þótt hér geti margir veitt slíka hjálp
segi það lítið þegar stórslys sé annars vegar.
Þá segir hún að um leið og hugað sé að
látnum og slösuðum bíði fjölskyldurnar eftir
upplýsingum um hvað gerst hafi og best sé að
koma á ákveðinni samvinnu við flugfélagið og
rannsóknarnefnd um upplýsingar. Fyrstu
dagana væri best að rannsóknarnefnd upp-
lýsti beint um gang mála á hverjum degi en
eftir fyrstu vikuna gæti stuðningshópur fjöl-
skyldnanna tekið við. „Reynsla okkar er sú að
fjölskyldur fagna mjög svona ákveðnum
vinnubrögðum. Með þessu móti er tryggt eins
og kostur er að öllum sé hjálpað og að allir
séu upplýstir.“ Þá lagði Sharon áherslu á að
þetta ferli gæti staðið lengi. Rannsókn flug-
slyss tæki yfirleitt marga mánuði og jafnvel
nokkur ár og væri mikilvægt að fylgjast með
fjölskyldum áfram og oft þyrfti líka að huga
að hvort einhverjir gætu þurft á lögfræðiað-
stoð að halda.
Fóru yfir viðbrögð
og ábyrgðarsvið
vegna flugslysa
Fyrsta verkefni þeirra sem koma fyrstir á vettvang flug-
slyss er að bjarga fólki en í framhaldinu þarf að huga að
mörgum þáttum. Rannsóknarnefnd flugslysa stóð fyrir
námskeiði um þessi mál í síðustu viku og kannaði
Jóhannes Tómasson nokkur atriði sem þar komu fram.
Morgunblaðið/Eggert
Frá vinstri: Þormóður Þormóðsson, Sharon Morphew og Þorkell Ágústsson.
joto@mbl.is
Morgunblaðið/Hilmar Bragi
Boeing 777-þota nauðlenti á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu vegna bilunar í hreyfli. Mikilli
aðgerðaráætlun er hrint af stað ef alvarlegri atburðir verða.
„VIÐ erum í raun með þessu nám-
skeiði að undirbúa okkur fyrir próf
og þurfum að vera eins vel und-
irbúin og eiga eins góða við-
bragðsáætlun og búa yfir eins góðri
þjálfun og frekast er unnt,“ segir Jó-
hann R. Benediktsson, sýslumaður á
Keflavíkurflugvelli, í samtali við
Morgunblaðið þegar hann er spurð-
ur út í námskeiðið. Ásamt Jóhanni
sitja það fjórir samstarfsmenn hans
og hann segir það hafa verið mjög
gagnlegt og kveðst geta mælt með
því fyrir starfsbræður sína. Hann
segir RNF eiga þakkir skildar fyrir
að hafa gengist fyrir námskeiðinu.
„Þrátt fyrir það að víða um land
hafi myndarlega verið staðið að
verki við margs konar stórslysaæf-
ingar þá tel ég að við höfum haft
mikið gagn að þessu og hér hefur
bæði verið farið í hlutina munnlega
og verklega.“ Jóhann segir að miðað
við hversu oft neyðarlendingar
stórra erlendra flugvéla hafi verið á
Keflavíkurflugvelli síðustu árin hafi
verið hugað vandlega að öllum þátt-
um er varða nauðsynlegan viðbúnað
og að brýnt sé líka að gera ráð fyrir
því að þær gætu farist í lendingu á
vellinum eða í nágrenni hans.
„Við verðum að vera viðbúin því
að framkvæmda þessar áætlanir
okkar og þá þarf að huga að æði
mörgum þáttum,“ segir Jóhann og
bendir á að nógu umfangsmikið sé
að taka skyndilega á móti yfir 400
farþegum í vél sem lenda verður
vegna bilunar eða sprengjuhótunar,
rýma vélina, koma farþegum í flug-
stöð og á hótel. „Síðan verðum við
að horfast í augu við að það kunna
að gerast enn alvarlegri atburðir, að
vél farist hér með mörg hundruð
manns sem látast eða slasast við
verstu aðstæður í myrkri og byl. Við
megum ekki forðast þá hugsun að
þurfa hugsanlega að glíma við slík-
an voða, það er munaður sem við
getum einfaldlega
ekki leyft okkur.“
Jóhann segir að ör-
yggismál hafi ger-
breyst á síðustu árum,
allar reglur hafi verið
hertar og auknar og
gert ráð fyrir því að
margt geti farið úr-
skeiðis í flugi og það
geti allt eins komið til
kasta Íslendinga að
sinna slíkri vá og því
hafi menn raunar
kynnst í nokkrum
mæli. „Við þurfum
ekki annað en að líta
til þess hversu oft
samhæfingarstöð Al-
mannavarna hefur verið virkjuð síð-
ustu misserin og hversu oft það hef-
ur verið vegna hættuástands á
Keflavíkurflugvelli,“ segir Jóhann
og segir að á námskeiðinu hafi verið
minnt rækilega á þann óþægilega
raunveruleika sem stórslys í flugi
er. „Þarna miðluðu menn þekkingu
sinni og sýndu myndir af vettvangi
þar sem vél hafði brotlent, hvernig
slasaðir voru flokkaðir, hvernig
sinna þurfti aðstandendum og
hversu mikið alþjóðlegt fjölmiðlafár
fer af stað við slys í alþjóðaflugi og
þetta sýndi okkur vel hversu margir
gætu þurft að koma hingað til lands
ef slík gerist hjá okkur.“ Jóhann
segir að við nokkrar neyðarlend-
ingar síðustu misseri hafi áætlanir
um viðbúnað á Keflavíkurflugvelli
staðist nokkuð vel, þar hafi skapast
dýrmæt reynsla og menn séð eitt og
annað sem farið hafi úrskeiðis og
verði bætt úr. Segir hann stíf funda-
höld hafa verið að undanförnu til að
fara yfir þessar áætlanir.
Gagnlegar umræður
við samstarfsaðila
„Mér finnst námskeiðið ekki síst
hafa verið gagnlegt vegna þess að
hér voru fulltrúar frá ýmsum aðilum
og okkur gafst kostur á að fjalla um
ýmis atriði í umræðum á milli fyr-
irlestranna,“ segir Víðir Reynisson,
verkefnafulltrúi hjá almannavarna-
deild ríkislögreglustjórans.
Víðir segir deildina koma við sögu
á tvenns konar hátt í tengslum við
viðbúnað vegna slysa eða hættu-
ástands. „Annars vegar þarf að
huga að undirbúningi og samhæf-
ingu varðandi neyðaráætlanir í sam-
starfi við hina ýmsu aðila sem koma
við sögu þegar neyðarástand er
uppi,“ segir Víðir. „Hins vegar er
það verkefni samhæfingarstöðvar
okkar að leysa ýmis verkefni í
tengslum við neyðarástand. Lög-
reglustjóri á viðkomandi svæði sér
um stjórn á aðgerðum og notar lið
sitt, slökkvilið, heilbrigðiskerfi og
aðra sem eru á svæði hans en auk
þess getur verið nauðsynlegt að út-
vega ýmsan búnað eða veita aðra
aðstoð sem hann hefur ekki á hrað-
bergi á sínu svæði.“
Á námskeiðinu hefur verið farið
yfir það sem mikilvægt er að hafa í
huga við gerð viðbragðsáætlana og
ekki síst hafi verið farið yfir rann-
sóknarþátt. Þegar búið sé að bjarga
fólki frá vettvangi sé vinna við rann-
sóknina sjálfa rétt að hefjast. Það
taki kannski ekki nema þrjá til fjóra
tíma að bjarga fólki en rannsókn á
vettvangi geti staðið vikum saman.
Þá segir Víðir einnig hafa verið bent
á hversu margt fólk geti komið á
vettvang ef t.d. erlend flugvél myndi
farast við Ísland og gera verði ráð
fyrir úrræðum til að sinna þeim
hópi. „Þetta getur orðið talsvert
stór hópur því það er talað um sem
viðmiðun að fjórir aðstandendur
geti komið fyrir hvern farþega og
síðan útvegar flugfélagið sem í hlut
á fólk til aðstoðar ættingjum þannig
að ef 300 manna flugvél á í hlut geta
þetta orðið 1.200 ættingjar og tugir
eða hundruð starfsmanna flugfélags
og annarra aðstoðar aðila til við-
bótar.“
Eins og undirbúningur fyrir próf
Jóhann R.
Benediktsson
Víðir
Reynisson