Morgunblaðið - 04.02.2004, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 04.02.2004, Blaðsíða 30
MINNINGAR 30 MIÐVIKUDAGUR 4. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ H vers vegna er fólk ennþá að falla í stafi þegar það hlustar á tónlist Mozarts eða horfir á málverkið Mónu Lísu? Með öðrum orðum, í hverju eru áhrif mikillar listar á mann fólgin? Og er yfirleitt hægt að svara þeirri spurningu? Ef það er hægt, hvar á þá að leita svarsins? Á að rannsaka listaverkið sjálft? Er þetta spurning um hvernig tónlist Mozarts er samin; um birtuna í verkum da Vincis? Eða á að rannsaka listamennina sjálfa? Uppeldið sem Mozart hlaut; handlagni da Vincis? Eða er svarið fólgið í okkur sjálfum, skynjun okkar á þessum lista- verkum? Þarna eru þá til þrjár leiðir sem hægt er að fara til að leita svara við spurningunni sem spurt var í upphafi. Eru þessar leiðir allar færar, eða er það einhver ein þeirra sem gefur hið eina rétta svar? Það er heimspekileg spurning sem verður ekki reynt að svara hér, heldur skal hugað að nýj- ustu aðferðunum sem nú eru notaðar við að svara upphaflegu spurningunni um það hvað gerir mikla list áhrifaríka. Þessi nýja aðferð, sem kalla mætti á ís- lensku taugafagurfræði (heitir á ensku neuroesthetics), byggist á þriðja möguleikanum sem að of- an er nefndur, það er að segja, að svarið sé fólgið í okkur sjálf- um, skynjun okkar á listaverk- unum. Nýlega greindi The Wash- ington Post frá þriðju al- þjóðaráðstefnu taugafagurfræð- inga sem haldin var í Listasafni Berkeley í Kaliforníu í síðasta mánuði. Við Háskólann í Kali- forníu í Berkeley er til heil taugafagurfræðideild, og fyrir nokkrum árum var sett á fót Rannsóknarstofnun í taugafag- urfræði fyrir tilstuðlan Semir Zeki, taugalíffræðings við Uni- versity College í London. Frumforsenda taugafag- urfræðinnar, eins og The Wash- ington Post hefur hana eftir nokkrum frummælenda á ráð- stefnunni, er sú, að í hvert sinn sem við skynjum eitthvað sem veldur okkur tiltekinni líðan sé það vegna þess að það sem við skynjum hefur áhrif á ákveðna staði í heilanum í okkur. Viðbrögð okkar við listaverk- um – bókum, málverkum, tónlist og fleiru – má því rannsaka með segulsneiðmyndum af heilanum. Í frétt The Washington Post segir að nýlegar rannsóknir Zeki bendi til að þegar fólki eru sýnd málverk sem því þyki falleg hefj- ist mikil virkni á tilteknum stöð- um í heilanum í því. Aftur á móti bregðist heilinn öðru vísi við ljótleika; þá fari af stað stöðvar sem einnig verða virkar þegar maður reiðist. Það breytir svo skynjun fólks á list þegar það verður fyrir heilaskemmdum, samkvæmt rannsóknarnið- urstöðum sem lagðar voru fram á ráðstefnunni í Berkeley. Þessi vísindi eru ennþá í burð- arliðnum, og tengjast víðtækari rannsóknum á tilfinningum. En óneitanlega er þetta spennandi hlið á fagurfræðinni og gæti gert þá mjög svo loftkenndu fræði- grein dálítið áþreifanlegri. Þannig mætti ímynda sér að með þessum hætti sé mögulegt að afhjúpa snobbara. Heilasneið- myndatækið myndi þá virka svo- lítið eins og lygamælir og leiða í ljós hvort sá einstaklingur sem myndaður er verður raunveru- lega fyrir áhrifum af einhverjum hlut sem sagður er vera lista- verk, eða er bara að þykjast. Það er svo aftur enn önnur spurning, einnig fagurfræðileg, hvort svona „tilfinninga- viðbrögð“ við listaverkum séu hin einu „réttu“. Ekki er til dæmis ólíklegt að listaverk setji málstöðvar heilans af stað í sumu fólki, það er að segja, veki hjá því mikla þörf til að tala. Að minnsta kosti virðist manni sem margir bregðist við listaverkum með því að tala um þau. Ef til vill mætti kalla þetta „vitsmuna- viðbrögð“. Og eru það ekki alveg fullgild viðbrögð við listaverk- um? (En þetta er nú eiginlega heimspekileg spurning – sem eins og áður sagði á ekki að fara út í hér). Það flækir svo enn málið, að allar líkur eru á að heilar manna séu mismunandi vegna erfða. Það er að segja, skapgerð, at- ferli og ýmislegt fleira þess- háttar á sér líkamlegar rætur í uppbyggingu heilans, en ræðst ekki fyrst og fremst af ytri að- stæðum og uppeldi. (Rannsóknir á eineggja tvíburum sem eru að- skildir við fæðingu virðast stað- festa þetta.) Má þá ekki ætla að fegurð- arskyn eigi sér ekki einungis lík- amlegar rætur heldur sé enn- fremur mismunandi eftir því hvernig genagerð manns er? Ef til vill eru þeir þá til sem eru gersneyddir öllu skynbragði á listir vegna þess að þeir hafa einfaldlega ekki erft tilskilin gen frá forfeðrum sínum. Þar af leiðandi vaknar sú spurning hvort það sé ekki í mörgum tilvikum misráðið – og beinlínis vonlaust – að ætla að kenna fólki að meta list. Þeir eru til sem finna engan mun á sér hvort sem þeir eru að horfa á Mónu Lísu eða kort af leiðakerfi SVR. Sumt fólk einfaldlega hef- ur ekki mikla „sjóngreind“. (Geta má sér þess til að slíkur „skortur“ sé algengur hjá þeim sem aftur á móti eru með „texta- greind“ í vel rúmu meðallagi – þetta væri verðugt viðfangsefni í sálfræðirannsókn.) Þannig er taugafagurfræði um margt forvitnileg og virðist geta nýst til að svara ýmsum spurn- ingum, þótt einnig virðist mega ráða af fréttum að enn eigi eftir að negla niður ófáar skilgrein- ingar sem þurfa að vera á hreinu til að niðurstöður taugafag- urfræðilegra rannsókna geti tal- ist eiginleg svör. Þá virðist einn- ig að ekki eigi síður eftir að setja þessari fræðigrein mörk – komast að því hvað hún getur gert og hvað ekki. En ef til vill er þessi nýja grein um fram allt staðfesting á þeim gömlu sannindum að feg- urðin búi í auga áhorfandans – nema hvað nú myndi maður segja að hún búi í heila hans. Fegurðin í heilanum Nýlegar rannsóknir benda til að þegar fólki eru sýnd málverk sem því þykja falleg hefjist mikil virkni á tilteknum stöðum í heilanum í því. VIÐHORF Eftir Kristján G. Arngrímsson kga@mbl.is ✝ Markús Sveins-son fæddist í Reykjavík hinn 22. mars 1943. Hann lést af slysförum við heimili sitt hinn 28. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Guð- mundsson, forstjóri Vélsmiðjunnar Héð- ins, f. 27. ágúst 1912, d. 1988, og Kristín Helga Markúsdóttir, húsfreyja, f. 19. júní 1918, d. 1971. Systk- ini Markúsar eru Sverrir, f. 1939, Birna, f. 1941, d. 1942, Kristín, f. 1945, Snjólaug, f. 1949, og Guðmundur Sveinn, f. 1954. Markús kvæntist Helgu Mattínu Björnsdóttur hinn 8. september 1962. Foreldrar hennar voru dr. Björn Leví Björnsson, hagfræð- ingur, f. 1903, d. 1956, og Guð- björg Guðmundsdóttir, húsfreyja, f. 1908, d. 1970. Markús og Helga Mattína skildu 1983. Börn þeirra eru: 1) Björn Guðmundur, f. 4.1. 1963. Börn hans og Sigríðar Kristínar Hrafnkelsdóttur fyrrv. sambýliskonu eru Björn Leví, f. 21.11. 1994, og Hrafnkell, f. 21.1. 1996. 2) Sveinn, f. 9.8. 1967. Barn hans og Arnbjargar Finn- bogadóttur, fyrrv. sambýliskonu, er Helga Mattína, f. 1.12. 1998. 3) Kristín Helga, f. 14.8. 1970, maki Stefán Bragi Þorsteinsson. Börn þeirra eru: Markús Leví, f. 5.8. 1996, og Sunna Liv, f. 27.5. 1998. Markús varð stúd- ent frá Verzlunar- skóla Íslands 1964. Hann fór í framhaldsnám til Sví- þjóðar og útskrifaðist sem tækni- fræðingur frá Tækniháskólanum í Gautaborg 1967. Markús starfaði fyrst hjá félagi íslenskra iðnrek- enda. Eftir það starfaði hann í fjölskyldufyrirtækinu, Vélsmiðj- unni Héðni. Markús sat í bæjar- stjórn Garðabæjar eitt kjörtíma- bil. Hann var félagi í Lionsklúbbi Garðabæjar. Markús var einn af stofnfélögum Útivistar og starfaði ötullega að uppbyggingu útivist- arsvæða með félaginu. Útför Markúsar fer fram frá Garðakirkju í Garðabæ í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30. Elsku pabbi minn. Mig langar bara til að minnast þín með nokkrum orð- um. Það er skrítið hvað maður er lítið undir svona áfall búinn sem við öll höfum orðið fyrir við fráfall þitt. Það hrannast upp fallegar minningar um okkur feðginin saman og þá oftar en ekki úti í náttúrunni með Útivist. Þú varst einstakur pabbi og ég mun hafa að leiðarljósi í mínu lífi allt það sem þú hefur kennt mér. Við höfum gengið í gengum góða og erfiða tíma saman og það mun styrkja mig í minni sorg núna. Ég mun, þegar frá líður, sam- gleðjast þér þar sem nú ertu laus úr viðjum erfiðs sjúkdóms sem hefur markað þitt líf. Það er þungur kross að bera þegar heilsan takmarkar get- una til þess að njóta lífsins og fjöl- skyldunnar. Ég mun alltaf þakka fyr- ir það að hafa átt þig sem pabba og engan annan. Þú gafst mér allt sem góður pabbi gefur, gott og heilt upp- eldi, góða æsku og dyggan stuðning í gegnum mitt nám og svo mitt fjöl- skyldulíf. Það var alveg einstakt sam- band á milli þín og Stebba míns. Það voru fáir sem sluppu í gegnum nál- arauga þíns sérstaka og oft beitta húmors en Stebbi naut þess að vera þinn eini tengdasonur og mikill vinur. Ég mun senda þér fallegar hugsanir og birtu og ég veit að þú ert og verður hjá okkur. Takk fyrir mig, elsku pabbi minn. Ég elska þig. Þín dóttir Kristín Helga. Hann var hetjan sem barðist hvað harðast með trésverðum og knallettu- byssum í æsilegum bardögum stáka- gengjanna á Melunum. Hann var grallarinn sem skaut gúmmíplöntuna hennar mömmu í tætlur með teygju- byssu. Hann var gaurinn sem sprengdi háværustu rörasprengjurn- ar í Vesturbænum um áramót. Hann var gæðablóðið sem bauð öskukörl- unum í kaffi og kleinur í eldhúsinu hjá mömmu. Hann var gæinn sem skaut- aði af mestum hraða á Melavellinum og húkkaði stelpurnar með treflinum sínum. Hann var stríðnispúkinn sem elskaði að koma litlu systur til að grenja og fyrstur til að biðja hana fyr- irgefningar. Hann var ofurhuginn sem gekk eftir húsmæninum heima á Hagamel svo húsmæðurnar í ná- grenninu fengu hland fyrir hjartað. Hann var Vesturbæjartöffarinn og hjartaknúsarinn. Hann var hjartkær bróðir minn. Markús ólst upp í foreldrahúsum á Hagamelnum við ástríki og gott at- læti í stórri og samheldinni fjölskyldu. Hann gekk í Melaskólann og Gaggó Vest. og lauk stúdentsprófi frá Verzl- unarskóla Íslands 1964. Hélt til náms í véltæknifræði við Tækniháskólann í Gautaborg og útskrifaðist þaðan 1967. Hann gekk að eiga skólasystur sína og æskuást, Helgu Mattínu Björnsdóttur. Þau voru glæsilegt par, hann hávaxinn og spengilegur, kvikur í hreyfingum, svarthærður, skarpleit- ur og svipfríður, hún kát og falleg með þykkt kastaníubrúnt hár og græn augu. Þau eignuðust þrjú glæsi- leg börn, Björn Guðmund, Svein og Kristínu Helgu. Leiðir þeirra Helgu Mattínu skildu. Sambýliskona hans til margra ára var Anna Sigfúsdóttir. Leiðir þeirra skildu. Síðar bjó hann um nokkurra ára skeið með Sigurveigu Jónsdóttur. Einnig þeirra leiðir skildu. Bróðir minn eignaðist hús foreldra okkar að Sveinseyri í Mosfellssveit og átti heima þar síðustu árin. Þar átti hann margar góðar stundir, þar voru minningarnar, þar vildi hann helst vera og þar fékk hann að deyja. Markús bróðir var einstaklega lífs- glaður og athafnasamur drengur. Hann var gæddur góðum gáfum og hæfileikar hans lágu víða. Hann var góðmenni sem ekkert aumt mátti sjá, tryggur vinur vina sinna, gjafmildur og mikill hjartaknúsari. Á yfirborðinu gat hann verið töffari, en undir niðri sló ört og viðkvæmt hjarta. Hann var náttúrubarn sem naut sín best í óbyggðum landsins og hafði ferðast um það vítt og breitt, oftast á tveimur jafnfljótum ásamt félögum í Útivist, sporléttur og hinn mesti garpur til göngu. Um land sitt var hann hafsjór af fróðleik og var gott að leita í smiðju til hans þegar nöfn á steina- eða plöntutegundum skorti. Hann var mikill dýravinur. Lengi átti hann Hektor, gullinn Retrieverhund sem fylgdi honum eins og skugginn. Ég gæti trúað að fræðimennska hefði legið vel fyrir bróður mínum, hann var grúskari af Guðs náð. Og safnari. Hugurinn dvaldi gjarnan við gamla tíma, hann bar virðingu fyrir hlutum úr fortíðinni. Þeim fylgdi ylur og in- dælar minningar, þeim mátti ekki kasta. Húsbúnaður úr foreldrahúsum fylgdi honum alla ævi, leirtau, mat- aráhöld, myndir og ýmsir skrýtnir og skemmtilegir smáhlutir. Gjarnan var stutt í gáskann. Orð- færi hans var skrúðmikið og skemmtilegt og af munni hans komu oft kostulegir orðaleikir. Illvígur sjúkdómur lék minn kæra bróður grátt. Aðra stundina var heimurinn hans og hugmyndaauðgin átti sér engin mörk. Þá voru jafnan mörg járn í eldinum. Hina stundina dvaldi hann í dimmum dal. Eftir því sem árin liðu fækkaði hinum björtu dögum en þeim myrku fjölgaði. Hann átti góða að sem allir vildu leggja honum lið, en hans var ávallt að veita, sjaldnar að þiggja. Bróðir minn átti víða vini sem hugsuðu til hans með hlýhug. Fjöl- margir þekktu hann, vissu um veik- indi hans og spurðu eftir honum. Á góðum dögum átti hann það til að hóa saman gömlum félögum úr Útivist eða bekkjarfélögum úr Meló eða fjöl- skyldu og vinum. Þá lék hann á als oddi og naut þess að veita vel. Hann hélt til síðasta dags símasambandi við fjölmarga, bæði vini og vinkonur. All- ir óskuðu honum ævinlega alls hins besta og hann vildi öllum vel. Hann elskaði börnin sín og fjöl- skyldur þeirra heitt og var bundinn þeim sterkum tilfinningaböndum, þótt honum veittist ekki alltaf létt að láta tilfinningar sínar í ljós. Það var miður að hann skyldi ekki geta notið meiri samvista við þau hin síðari ár. Mér er minnisstætt þegar hann leiddi Kristínu Helgu, dóttur sína inn kirkjugólfið í Garðakirkju fyrir fáein- um árum og ávarpaði þau Stefán Braga í veislunni á eftir. Þá var bróðir minn flottur! Nú um þrettándann mætti hann til fjölskylduveislu. Hann var fallegur og glaður í bragði og naut samvistanna greinilega vel. Hann var enn léttur í spori og kvartaði aldrei enda þótt í ljós kæmi eftir andlát hans að hjarta hans var orðið veilt. Ég kveð kæran bróður með ást og þökk. Megi friður vera með sálu hans. Ég bið góðan Guð að varðveita börnin hans og fjölskyldur þeirra. Minningin um ástkæran bróð- ur mun lifa. Kristín Sveinsdóttir. Árið var 1958 – anddyrið í gamla Versló á Grundarstígnum fullt af ung- mennum. Allt iðaði af lífi. Ánægja, gleði og tilhlökkun skein út ungum andlitum. Þarna voru samankomnir fyrsta árs nemarnir. Stundin var mögnuð. Stór draumur hafði upp- fyllst, nefnilega að vera orðinn „Vers- lingur“! Það voru eitthvað á milli 70 og 80 krakkar sem þarna stigu fyrstu skrefin í litla skemmtilega skólasam- félaginu í Þingholtunum. Einn þeirra var Markús Sveinsson sem hér er kvaddur. Hann var strax sá sem skar sig úr – áberandi. Dökkur á brún og brá, vel og smekklega klæddur , beinn og glaðbeittur geystist hann um skólagangana. Hugur hans frjór. Hann sá menn og atvik í sérstöku ljósi – með sínum eigin augum. Athuga- semdir hans gátu verið bæði brosleg- ar og beittar í senn. Markús var góð- um gáfum gæddur en hann hafði sinn sérstaka stíl í náminu sem öðru. Ekki alltaf auðveldur nemandi kennurum sínum en örugglega ógleymanlegur með frumlegum og oft furðulegum spurningum. Hann heillaði mig. Fal- legur, vel upp alinn og með öll sín uppátæki. Það var engin lognmolla kringum Markús. Fljótlega tókumst við hönd í hönd og saman gengum við kornung út í lífið. En við gengum ekki götuna ein. Foreldrar Markúsar, Helga og Sveinn, voru yndisleg hljón og samvalin. Á heimili þeirra á Haga- mel, í sumarhúsinu að Sveinseyri var mikið líf . Húsbóndinn athafnamaður og eldhugi. Húsmóðirin hlý – vitur og stoðin stóra. Gleðin og krafturinn voru þar við völd. Systkinahópurinn og frændgarðurinn stór og náinn. Það var gaman að vera til. Við gengum í hjónaband og Björn Guðmundur frumburðurinn okkar, kom í heiminn meðan við vorum enn í lærdómsdeild. Eftir stúdentinn héldum við, litla fjöl- skyldan, til náms í Svíþjóð, umvafin og ötullega studd af okkar góðu fjöl- skyldum. Annað barnið okkar, Sveinn, bættist í hópinn skömmu áður en pabbinn ungi lauk námi sínu sem tæknifræðingur. Þetta voru spenn- andi tímar. Okkar beið nú heimilis- stofnum í rauðu múrsteinahúsi við Hraunholtslækinn í Garðabæ. Þar fæddist yngsta barnið og einkadótt- irin Kristín Helga. Sólskinið í kring- um okkur var bæði sterkt og bjart. Árin liðu hratt við störf og leik. Tím- arnir breyttust. Við sem ung trúðum á sameiginlega ævigöngu, völdum hvort sína leið sem hjón en aldrei sem kærir vinir og foreldrar barnanna okkar. Fyrir það þakka ég lífinu og þakka ég Markúsi, af alhug í dag. Markús Sveinsson, ungi fallegi maðurinn sem birtist mér á skóla- göngunum í Versló fyrir 45 árum, er lagður af stað í ferðina miklu. Hann hefur fundið ljósið sem of lengi vant- aði í tilveru hans. Veri Markús, minn hjartans vinur, Guði falinn í eilífðar- landinu, með djúpri þökk fyrir allt og allt. Helga Mattína Björnsdóttir. MARKÚS SVEINSSON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.