Morgunblaðið - 11.03.2004, Page 60
60 FIMMTUDAGUR 11. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Lukku Láki – Dalton bræðurnir taka lestina
© DARGAUD
VARÚÐ!
GRJÓT-
HRUN
Beini
© Le Lombard
BRÉF
TIL BLAÐSINS
Kringlunni 1 103 Reykjavík Sími 569 1100
Símbréf 569 1329 Netfang bref@mbl.is
Allt efni sem birtist í Morgunblaðinu og Lesbók er varðveitt í upplýsinga-
safni þess. Morgunblaðið áskilur sér rétt t i l að ráðstafa efninu þaðan, hvort
sem er með endurbirtingu eða á annan hátt. Þeir sem afhenda blaðinu efni
ti l birtingar teljast samþykkja þetta, ef ekki fylgir fyrirvari hér að lútandi.
Í PISTLINUM „Eru þeir að fá
hann“, sem birtist í Morgunblaðinu
sunnudaginn 15. febrúar síðastliðinn,
kom fram að Stangaveiðifélag
Reykjavíkur hefði tekið neðsta svæði
Grenlækjar og vatnamót hans við
Skaftá á leigu til næstu 9 ára. Í þetta
sinn eins og oft áður í þessum óund-
irritaða pistli fer greinarhöfundur
frjálslega með staðreyndir en þar
segir m.a. „Hafa farið margs konar
sögur af svæði þessu síðustu árin, en
skráningu afla hefur verið ábóta-
vant.“ Sem einn af leigutökum svæð-
isins til margra ára eða allt til loka
veiðitíma árið 2002 get ég ekki látið
hjá líða að gera stutta athugasemd við
skrif þessi enda að mér og mínum
vegið að ósekju.
Hvað vakir fyrir greinarhöfundi
þegar hann heldur því fram að margs
konar sögur hafi farið af svæði þessu
er mér hulin ráðgáta. Hann er tæp-
lega að skírskota til þess stutta tíma
sem sæmileg veiðivon er á svæðinu
eða þeirra erfiðleika og jafnvel hættu
sem ókunnugum, akandi og gangandi,
stafar af þeim síbreytilegu sandbleyt-
um sem þar er að finna. Þá á hann
trúlega ekki við þá daga sem ófært er
á svæðið vegna vatnavaxta eða sand-
foks né þau árlegu tímabil sem hlaup í
Skaftá hamla veiði á svæðinu. Til-
gangurinn með þessari órökstuddu
framsetningu er væntanlega sá einn
að vekja athygli á svæðinu vegna
væntanlegrar sölu veiðileyfa.
Fullyrðingu greinarhöfundar um
að skráningu afla fram til þessa hafi
verið ábótavant vísa ég alfarið til föð-
urhúsanna það tímabil sem ég kom að
leigukaupum þessa svæðis. Leyfi ég
mér að fullyrða að óvíða hafi jafnmikil
virðing verið borin fyrir lífríkinu og
þeim reglum sem giltu á svæðinu. All-
ir fiskar voru skráðir í veiðibók, teg-
undagreindir, lengdar- og þyngdar-
mældir, kyngreindir og í mörgum
tilfellum tekin hreisturs- og maga-
sýni. Veiðibók var afhent Veiðimála-
stofnun hvert haust ásamt lífssýnum
og jafnvel heilum fiskum til rann-
sókna.
Aflatölur af þessu svæði eru og
hafa alltaf verið aðgengilegar hjá
Veiðimálastofnun fyrir hvern þann
sem telur sig málið varða. Það hefði
verið fagmannlegra af greinarhöfundi
að kynna sér og birta staðreyndir í
stað þess að fara með fleipur.
Sú staðreynd að þeir aðilar sem
tóku svæðið á leigu síðastliðið vor til 5
ára gáfust upp áður en veiðitíma
fyrsta árs lauk talar sínu máli. Vera
kann að sannleikurinn sé ekki sölu-
vara.
Með viðeigandi virðingu fyrir pistl-
inum „Eru þeir að fá hann“.
HELGI BJÖRNSSON,
Fiskakvísl 2,
110 Reykjavík.
Athugasemdir
við veiðipistil
Frá Helga Björnssyni:
HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ
segir í fréttatilkynningu 17. febr. að
neysla þunglyndislyfja haldi áfram að
aukast (reyndar meira en nokkru
sinni fyrr) og dagskammtarnir nálgist
að svara til þess að um það bil tíundi
hluti þjóðarinnar taki þessi lyf. Notk-
unin hefur næstum því fimmfaldast
síðan 1993 en heildarkostnaðurinn
sexfaldast á sama tíma. Hann var í
fyrra rúmlega 1300 milljónir króna.
Hér mun aðallega vera um að ræða
hin nýju SSRI-geðdeyfðarlyf sem
komu fyrst á markað árið 1989. Þau
eru hrein viðbót við eldri þunglynd-
islyf. Þekktur erlendur sérfræðingur
í þunglyndi sagði í viðtali við Morg-
unblaðið (17.2.) að 2–3% fólks eigi að
jafnaði við þunglyndi að stríða. Hér á
landi virðast 10% þjóðarinnar nú taka
þunglyndislyf. Er þunglyndi þá svona
miklu algengara hér en annars stað-
ar? Það liggur í augum uppi að þung-
lyndislyfja á ekki að neyta nema um
þunglyndi sé að ræða.
En er hugsanlegt að aðrar skýring-
ar finnist á þessari miklu inntöku á
lyfjunum en þær að raunverulegt
þunglyndi sé svona mikið? Ýmislegt
bendir reyndar til að svo kunni að
vera. Árni Tómas Ragnarson heim-
ilislæknir skrifaði grein í Morgun-
blaðið 9. febr. og hélt uppi ákafri vörn
fyrir þessum lyfjum. Í greininni kem-
ur fram góður skilningur á þeirri van-
líðan sem margir eiga við að stríða.
En líka ýmsar hæpnar bollalegging-
ar. Um það fólk sem þurfi á þunglynd-
islyfjum að halda skrifar Árni til
dæmis: „Oft hefur það þurft að þola
ýmiss konar mótlæti; sorg, sjúkdóma,
hjónaskilnaði, fjármálakreppu,
starfsmissi o.s. frv. Aðrir eru einfald-
lega svo ofurviðkvæmir í eðli sínu að
lífið sjálft verður þeim erfitt.“ Allt
sem Árni telur upp nema „sjúkdóm-
ar“ og kannski „ofurviðkvæmnin“ er
eðlilegir fylgifiskar mannlegrar til-
veru en ekki sjúkdómar. Svona áföll
lagast oftast af sjálfu sér. Það þarf
enga lækna til að skilja það. Vilhjálm-
ur Árnason heimspekingur, sem
fengið hefur viðurkenningu fyrir skrif
sín um siðfræði heilbrigðisstétta,
skrifar t.d. í greininni „Um heilbrigði“
í Lesbók Morgunblaðsins 26. október
1996: „Það er í verkahring heilbrigð-
isstétta að vinna gegn þeim þáttum
sem skaða heilsu manna, en ekki berj-
ast við þau margvíslegu fyrirbrigði
sem kunna að valda fólki óþægindum
eða vanlíðan. Sorg fylgir til dæmis oft
djúpstæð vanlíðan, en hún er fjarri
því að vera sjúkleg; öðru nær: það er
heilbrigðismerki að finna til við ást-
vinamissi og fráleitt væri að heil-
brigðisstéttir gripu inn í slíkt ferli í
því skyni að stilla kvalirnar.“
Það væri sannarlega fróðlegt að
fram kæmu sjónarmið annarra lækna
en Árna Tómasar um þessa rúmu
skýrgreiningu hans á því við hverju
beri að ávísa þunglyndislyfjum. Málið
snýst kannski einmitt um þetta atriði.
Ef til vill er skýringin á hinni miklu
aukningu á notkun þunglyndislyfja að
hluta til sú að þau séu gefin í tilvikum
þar sem þau eiga hreinlega ekki við í
ljósi heilbrigðrar skynsemi. En
kannski vilja menn sem minnst um
þetta ræða.
SIGURÐUR ÞÓR
GUÐJÓNSSON,
Skúlagötu 68,
Reykjavík.
Þunglyndislegir þankar
Frá Sigurði Þór Guðjónssyni: