Morgunblaðið - 23.03.2004, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 ÞRIÐJUDAGUR 23. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
INNAN við 40% framteljenda ósk-
uðu eftir því á síðasta ári að kaupa
slysatryggingu á heimilum með því
að samþykkja 400 króna greiðslu
iðgjalds á skattframtali.
Tryggingastofnun ríkisins vill
vekja athygli á því að framteljend-
ur geta keypt sér slíka slysatrygg-
ingu á heimilum með því að krossa
við reit á fyrstu síðu framtalsins
sem merktur er „slysatrygging við
heimilisstörf“. Slysatryggingin fel-
ur í sér að viðkomandi einstakling-
ur er slysatryggður í tólf mánuði
frá móttöku skattframtals. Ekki er
unnt að tryggja sig eftir að skatt-
framtali hefur verið skilað.
Slysatryggingin nær til heimilis-
starfa sem unnin eru á heimili hins
tryggða, í bílskúr og garði við
heimilið og einnig í sumarbústað
þar sem einstaklingurinn dvelur.
Til heimilisstarfa teljast hefðbund-
in heimilisstörf, svo sem matseld
og þrif, umönnun sjúkra, aldraðra
og barna, almenn viðhaldsverkefni,
svo sem málning og minni háttar
viðgerðir, og garðyrkjustörf. Störf-
in mega ekki vera liður í atvinnu-
starfsemi.
Samkvæmt reglugerð heilbrigð-
isráðherra frá árinu 1996 eru und-
anskilin slysatryggingu við heim-
ilisstörf meðal annars slys við
meiri háttar viðhaldsframkvæmdir,
til dæmis múrbrot, uppsetningu
innréttinga og lagningu gólfefna,
slys við ýmsar daglegar athafnir
sem ekki teljast við hefðbundinna
heimilisstarfa, svo sem að klæða
sig og borða, og slys sem hinn
tryggði verður fyrir á ferðalögum, í
tjaldi, hjólhýsi og á hóteli svo dæmi
séu tekin.
Slysabætur almannatrygging-
anna eru slysadagpeningar,
greiðsla sjúkrakostnaðar eftir
ákveðnum reglum, örorkubætur ef
slysið leiðir til örorku og dánar-
bætur ef slysið veldur dauða innan
tveggja ára.
Minnihluti kaupir slysa-
tryggingar á heimilum
á skattframtali sínu
„OKKUR hefur tekist á síðustu 2–3
árum að bæta lánshæfismat rík-
issjóðs. Það þurfti að hafa heilmikið
fyrir því og þess vegna mega menn
ekki umgangast þessa hluti af
neinni léttúð,“ sagði Geir H.
Haarde fjármálaráðherra, en Seðla-
bankinn telur ástæðu fyrir við-
skiptabankana að gæta varúðar í
lántökum erlendis, m.a. með tilliti
til lánshæfiseinkunnar landsins.
Í Peningamálum Seðlabankans er
vakin athygli á því að matsfyrirtæki
og alþjóðlegar efnahagsstofnanir
hafi ítrekað beint sjónum sínum að
erlendum skuldum Íslands, ekki
síst miklum skammtímaskuldum.
Hið opinbera og Seðlabankinn hafi
bætt stöðu sína en staða annarra
versnað. Mikilvægt sé að bankarnir
nýti þau tækifæri sem gefast á
næstu misserum til að styrkja stöðu
sína enn frekar með því að gæta
hófs í útlánum og jafnvægis í fjár-
mögnun. Í ritinu er sagt frá um-
sögnum matsfyrirtækjanna um ís-
lenska fjármálakerfið. Í umsögn
Standard & Poor’s í desember kem-
ur fram að verulega verri erlend
skuldastaða gæti leitt til að láns-
hæfiseinkunn yrði endurskoðuð til
lækkunar.
Gagnlegar ábendingar
„Ég tel að það sé gagnlegt að
þetta komi fram. Þó að það sé
kannski engin stórfelld hætta á
ferðum eins og sakir standa er
nauðsynlegt að allir fari varlega og
gái að sér. Það er engin ástæða til
að ætla annað en að bankarnir viti
hvað þeir eru að gera í sambandi
við öll þessi lán. Bankarnir eins og
allir aðrir, þar á meðal almenningur
í landinu, þurfa að hafa vaðið fyrir
neðan sig.
Það hefur lengi verið unnið að
því hörðum höndum á vegum rík-
isstjórnarinnar
og Seðlabankans
að bæta lánshæf-
ismat ríkisins. Í
skjóli þess hafa
aðilar eins og
bankarnir og
aðrir lántakend-
ur á Íslandi jafn-
framt getað bætt
sín kjör því að
ríkið setur eins
konar gólf í þetta fyrir aðra. Það er
mjög mikilvægt að standa vörð um
þetta mat og það verða allir að
leggjast á eitt við að passa upp á
það. Það höfum við, sem berum
ábyrgð á fjármálum hins opinbera,
verið að gera með skipulögðum
hætti og sama á við um Seðlabank-
ann. Það kemur líka fram í þessu
að menn eru ekki að hafa neinar
áhyggur af ríkisfjármálum og pen-
ingamálum. Það er meira spurning
um hvort menn séu að fara offari í
lánamálum,“ sagði Geir.
Fjármálaráðherra sagðist ekki
líta á þessi skrif Seðlabankans sem
viðvörun heldur bæri frekar að líta
á þau sem ábendingu til allra aðila
að gæta sín. Geir sagðist ekki vilja
fella neinn dóm um hvort bankarnir
hefðu farið offari í lánveitingum.
Hann sagðist ganga út frá því að að
baki þessum lánveitingum lægju at-
huganir bankanna á endurgreiðslu-
möguleikum þeirra sem væru að
taka lánin.
Geir sagði að ýmislegt hefði verið
gert til að menn væru undirbúnir
undir breyttar aðstæður. Þannig
hefði gjaldeyrisvarasjóður Seðla-
bankans verið efldur á síðustu 2–3
árum.
Fjármálaráðherra um ábendingar Seðlabankans um erlend lán bankanna
Nauðsynlegt að bankarnir og
aðrir hafi vaðið fyrir neðan sig
Geir H. Haarde
LÖGREGLAN á Selfossi bíð-
ur niðurstöðu krufningar á líki
drengsins sem lést af völdum
voðaskots úr skammbyssu á
Selfossi hinn 15. mars sl.
Rannsókn málsins er langt
komin hjá lögreglu en auk
krufningsskýrslu er beðið nið-
urstöðu tæknirannsóknar lög-
reglumanna.
Eigandi byssunnar hefur
verið að heiman að undan-
förnu en hann hefur réttar-
stöðu grunaðs manns og verð-
ur yfirheyrður um leið og
hann gefur sig fram við lög-
reglu, að sögn Ólafs Helga
Kjartanssonar, sýslumanns á
Selfossi. Viðkomandi veit af
boðun í yfirheyrslu og er hann
væntanlegur heim í dag eða á
morgun, miðvikudag.
Rannsókn
á voða-
skoti langt
komin
MIKIÐ verk er framundan við grisjun í
Heiðmörk, og er reiknað með því að alls
þurfi að fella 2.000 til 2.500 tré á alls 30 til
40 hekturum á næstunni til að trén njóti sín
og fái nægilega næringu og birtu.
„Þetta þarf allt að vera í jafnvægi, þannig
þrífst þetta best,“ segir Ólafur Ólafsson,
skógarvörður Skógræktarfélags Reykjavík-
ur, þar sem hann þrammaði um skóginn
með blaðamann og ljósmyndara í eftirdragi.
Hann segir að skógurinn sé víða allt of þétt-
ur og þurfi að taka allt að því annað hvert
tré til að þau sem eftir eru fái að njóta sín.
Þegar búið er að grisja á ljósið greiðari
leið niður á skógarbotninn, sem lifnar þá
við, en nú er vandamál að halda í jarðveginn
sem rennur burt í miklum vatnsveðrum.
Ólafur segir að helst hefði þurft að grisja
skóginn fyrir um áratug, en því fylgir mikill
kostnaður og auðveldara sé að telja menn á
að leggja fé í að planta trjám en fella þau.
Trén eru 40 til 50 ára gömul, og þau hæstu
um 18 metrar á hæð. Nú er svo komið að að-
eins efsti hluti trjánna er með grænu barri,
enda hefur ekki komist sólarljós á lægri
greinarnar lengi.
Yfirleitt eru þrír menn í því að grisja, allt
mikil hraustmenni, segir Ólafur. Vanur
maður fellir 50 til 100 tré á dag, því færri
sem skógurinn er þéttari þar sem þá er erf-
iðara að draga stofnana í stafla. Þegar
grisjað er velja menn alltaf ljótustu trén
fyrst, og skilja þau bestu eftir.
Antanas Sipavicius hefur unnið við skóg-
rækt hér á landi síðan í júlí á síðasta ári, en
hann hefur mikla reynslu af öllu sem við
kemur skógum frá heimalandi sínu, Lithá-
en. Hann er rúmlega fertugur, og hefur
unnið við skógrækt í rúman áratug, en áður
nam hann skógarverkfræði í Litháen. Sip-
avicius segir skógana hér fallega og vaxa
vel, en segir að stundum mætti blanda að-
eins meira trjátegundum til að fá meiri fjöl-
breytni. Til dæmis megi blanda birki og
furu saman til að fá skemmtilegan og fjöl-
breyttan skóg.
Mest af því timbri sem fellur til við grisj-
unina er kurlað niður og notað í göngustíga,
blómabeð og annað tilfallandi, segir Ólafur.
Um fimmtungur trjástofnanna eru þó nægi-
lega góður til að saga niður, og verður það
timbur sem fæst út úr því notað til að smíða
borð, bekki og ruslatunnur sem sett verða
upp á útivistarsvæðinu.
Skógurinn
þarf að
haldast í
jafnvægi
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Antanas Sipavicius, frá Litháen, kann tökin á því að grisja skóga og hefur unnið hérlendis frá síðasta sumri.