Morgunblaðið - 11.01.2005, Síða 24
24 ÞRIÐJUDAGUR 11. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Í
skúlptúrana á sýningunni verða notaðar
15 milljónir króna í 5.000 kr. seðlum, 10
milljónir í 2.000 kr. seðlum, 50 milljónir í
1.000 kr. seðlum og 25 milljónir í 500 kr.
seðlum. Rétt er að taka fram að hér er um
að ræða ekta peningaseðla, að stórum hluta ný-
prentaða frá Seðlabanka Íslands. Enda liggur
slíkt fjármagn ekki á lausu í beinhörðum pen-
ingum.
Sýningin varð til í samstarfi listamannsins
Ashkan Sahihi og Hannesar Sigurðssonar safn-
stjóra og lýsir sá síðarnefndi henni sem eins konar
innsetningu og konkretlist í afar nútímalegum
skilningi, eða hreinlega sem „frábærri nytjalist
sem allir skilja, því flestir gætu líklega fundið góð
not fyrir kr. 100.000.000, sérstaklega ef þeir pen-
ingar væru ekki til skiptanna.“
15–20 milljóna króna verk
Skúlptúrarnir verða til sölu og kosta jafnvirði
þeirra peninga sem notaðir eru í hvern og einn,
„að viðbættri 24,5% listrænni álagningu, sem okk-
ur finnst vera mjög eðlileg og hæfileg,“ segir
Hannes. Dýrasta verkið á sýningunni kostar lík-
lega 15–20 milljónir króna, segir Hannes, fyrir ut-
an „listrænu álagninguna“ en hann bætir því við
að margra ára raðgreiðslur verði í boði á hag-
stæðum kjörum sé lánstraustið í lagi. Og verkin
verði „sannkölluð stofuprýði fyrir alla sem betur
mega sín!“
Þegar Hannes er spurður hvort hann trúi því
sjálfur að eitthvert verkanna seljist, segir hann:
„Mér þætti það bera vott um gífurlega framsýni
fólks ef það keypti þessi verk.“ Segir peningaseðla
nánast orðna úrelt fyrirbæri vegna rafrænna við-
skipta „þannig að nú fer hver að verða síðastur að
sjá svona mikla peninga á einum stað og það sem
hreina list“.
En hvers vegna að búa til listaverk úr pen-
ingum; hvað eru þeir að meina með þessari sýn-
ingu?
„Það er hægt að nálgast þetta á margan hátt,“
segir Hannes. „Þetta er konseptlist en þó ekki; við
notum peningabúntin eins og leikskólakrakkar
kubba. Gerum skúlptúra úr þeim; kannski burst-
abæ, Babýlonsturn eða eitthvað annað. Við erum
með ýmsar hugmyndir en fáum ekki peningana af-
henta fyrr en á miðvikudaginn þannig að erfitt er
að segja nákvæmlega til um það hvernig allir
skúlptúrarnir verða.“
Hann bendir á að peningar séu bara litaðir bréf-
sneplar, fallega hannaðir. „Listaverk, sem geta
umbreyst í hvaða veraldlegan draum sem er. Þeir
sem eru ekki þeim mun argari yfir því að ná ekki
endum saman um mánaðamót geta, þegar þeir sjá
allt þetta reiðufé, látið sig dreyma um alla þá sum-
arbústaði og jeppa sem hægt er. Sýningin er lýs-
andi fyrir ástandið í þjóðfélagi okkar þar sem
varla er lengur hægt að anda án þess að taka upp
veskið; peningaótti hefur leyst guðsótta af hólmi.“
Í fyrsta sinn í heiminum
Ashkan Sahihi átti hugmyndina. Hann er fæddur
1963 í Íran, uppalinn í Þýskalandi og búsettur í
New York og hefur lengi „leitast við að birta fólki
pólitískar ranghliðar tilverunnar sem hann fangar
með linsunni og tínir saman íhugular en ágengar
myndraðir sem eru lausar við fordóma og inn-
antóm sniðugheit“, segir Hannes.
Sahihi var á ferð um Ísland síðastliðið vor og
kom við í Listasafninu á Akureyri, m.a. til þess að
ljósmynda Hannes Sigurðsson vegna viðtals fyrir
þýska tímaritið Spiegel. „Hann sagðist starfa sem
listrænn ljósmyndari en tæki líka að sér verkefni
eins og þetta fyrir Spiegel. Sahihi sagði mér frá
því að hann hefði lengi reynt að fá lánaða milljón
dollara í peningaseðlum til þess að búa til listaverk
en það hefði ekki tekist.“
Hannesi keypti konseptið á staðnum, fór fljótt
að vinna í því að gera drauminn að veruleika og út-
færa hugmyndina. „Ákveðið var að sýna myndröð-
ina eiturlyf eftir Sahihi með peningaskúlptúr-
unum, ellefu stórar portrettmyndir af fólki á
mismunandi vímuefnum, m.a. LSD, krakki, kók-
aíni, alsælu og svo framvegis. Við viljum benda á
að kannski er þetta eins konar innra stríð ein-
staklingsins og áhugi margra á peningum er viss
tegund af vímu. Yfir þessu öllu svífur svo söngur
tíbeskra muna í sérstakri útfærslu Hilmars Arnar
Hilmarssonar tónskálds.
Hannes segir auðvitað hafa verið mikið mál að
fá þessa peninga; „þetta er ekki bara eins og ég
hafi fengið smá yfirdrátt á tékkareikningnum!“
En hvað verður svo um peningana ef svo ólík-
lega (!) fer að listaverkin seljast ekki?
„Þá fara þeir bara í umferð,“ segir Hannes stutt
og laggott.
En hvaðan koma peningarnir?
„Það eina sem ég get sagt um það er að Vá-
tryggingafélagið Vörður hér á Akureyri er að-
alstyrktaraðili okkar vegna sýningarinnar og
tryggir fjármagnið á sýningartímanum. Securitas
styrkir okkur líka með gríðarlegri vöktun og ör-
yggisráðstöfunum.“
Svo bætir Hannes kankvís við: „Í listaheiminum
verða menn að taka áhættu eins og í viðskipta-
heiminum. Ef listræn markmið sýningarinnar
nást ekki getum við alltént reynt að skýla okkur á
bak við þann mátt og megin sem land og lýður
bukkar sig fyrir: money talks, bullshit walks!“
Hannes bendir á að nærri láti að það taki venju-
legan Íslending frá vöggu til grafar að vinna sér
inn þessa upphæð á núverandi gengi krónunnar. Í
vestursal listasafnsins hefurþví – af einskærri
samúð með þeim sem minna mega sín bæði nær og
fjær eins og safnstjórinn orðar það – ellefu hund-
gömlum sjúkrarúmum í eigu Fjórðungssjúkra-
hússins á Akureyri verið komið fyrir til að gestir
geti hvílt lúin bein og varpað öndinni léttar.
Safnstjórinn leggur áherslu á að Listasafnið á
Akureyri verður gríðarlega vel vaktað meðan á
sýningunni stendur. „Hér hafa aldrei verið gerðar
aðrar eins öryggisráðstafanir.“ Nýtt öryggiskerfi
hefur verið sett upp í safninu, beintengt við stjórn-
stöð Securitas, sólarhringsvakt verður á staðnum,
starfsfólk hefur fengið árásarhnappa og lögreglan
og Securitas hafa samræmt sérstaka aðgerðaáætl-
un til að bregðast við „ef einhverjir reynast of
sólgnir í listina“, eins og Hannes segir.
Von á fjölda blaðamanna
Sýningin hefur verið kynnt um allan heim, í sam-
starfi við Ferðamálaráð og sendiráð Íslands og
Hannes segir ýmsa erlenda blaðamenn og gagn-
rýnendur hafa sýnt áhuga á því að koma á sýn-
inguna. Nú þegar á hann von á fólki frá Vogue,
Financial Times, Style and Spex, TAZ, Züd
Deutche Zeitung, Berliner Zeitung, SZ í Tel Aviv.
Auk þess munu mörg önnur erlend stórtímarit
fjalla um sýninguna, að sögn Hannesar.
Vert er að geta þess að bandarískt fyrirtæki, E-
fluxMedia, hefur tekið að sér að kynna sýninguna
með því að senda fréttatilkynningu í tölvupósti til
safna, gagnrýnenda og listamanna um allar jarðir
– alls 33.174 bréf.
Myndlist | Starfsfólk Listasafnsins á Akureyri fær árásarhnappa og lögreglan
og Securitas samræma sérstaka aðgerðaáætlun vegna innsetningar í safninu
Skúlptúrar úr eitt hundrað
milljónum króna í reiðufé
Skúlptúrar úr íslenskum pen-
ingaseðlum – alls 100 milljónir
króna – verða á sýningu Lista-
safnsins á Akureyri sem hefst
næsta laugardag. Skapti Hall-
grímsson forvitnaðist um sýn-
inguna hjá Hannesi Sigurðs-
syni safnstjóra.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Ashkan Sahihi og Hannes Sigurðsson í gær við eina ljósmynda Sahihis sem einnig verða til sýnis; þær
eru af fólki undir áhrifum ýmissa vímuefna. „Peningar eru ákveðið vímuefni líka,“ segir Hannes.
skapti@mbl.is
VÍKINGUR Heiðar Ólafsson
píanóleikari hélt debút-
tónleikana sína í Salnum í
Kópavogi á sunnudagskvöldið.
Á efnisskránni voru krefjandi
verk eftir Bach, Schumann,
Bartók og Schubert og var
auðheyrt
nánast strax
í upphafi að
Víkingur er
afburðapían-
isti. Hann
hefur prýði-
lega fingra-
tækni og er
gríðarlega
öruggur;
nánast engar
feilnótur voru
merkjanlegar og var greini-
legt að taugaóstyrkur háði
honum ekki mikið.
Það sem helst einkenndi
túlkun Víkings var vandlega
ígrunduð hendingamótun og
blæbrigði. Fimmtán ung-
verskir bændadansar eftir
Bartók voru sérlega vel flutt-
ir; allskonar stemningar voru
snilldarlega útfærðar af pí-
anóleikaranum. Þrátt fyrir að
tónlistin væri stöðugum
breytingum háð var fram-
vindan fyllilega eðlileg og
rauði þráðurinn slitnaði aldr-
ei.
Krómatísk fantasía og fúga
eftir Bach var líka ágætlega
flutt; stígandin var áhrifamik-
il og hápunktur verksins var
magnaður. En Kreisleriana
eftir Schumann, sem sam-
anstendur af átta fantasíum,
var ekki eins gott. Margt var
að vísu ákaflega vandað; t.d.
var fyrsta fantasían hrífandi
ljóðræn og sönglínur hægu
þáttanna voru fallega spil-
aðar, en ýmislegt annað var
ekki eins sannfærandi. Bass-
anótur þriðju fantasíunnar
voru fullháværar á kostnað
skýrleika efri nótnanna,
fimmta fantasían var ein-
kennilega hvöss og áttunda
fantasían var pínlega hörku-
leg þegar hæst lét. Auk þess
var túlkunin hér og þar held-
ur tilgerðarleg; persónulega
hefði ég kosið meira látleysi;
það var eins og Víkingur væri
of mikið að hugsa um hvernig
áhrif hann ætlaði að skapa
með túlkun sinni í stað þess
að láta tónlistina bara flæða
eðlilega.
Wandererfantasía Schu-
berts, sem var síðasta atriði
dagskrárinnar, var betri; ljóð-
rænu hlutar verksins voru að
vísu dálítið ýktir og ped-
alnotkun var á köflum ívið
mikil, en hljómurinn í píanó-
inu var afslappaðri og kraft-
mestu hlutarnir voru glæsi-
legir.
Í það heila voru þetta at-
hyglisverðir tónleikar; þrátt
fyrir þá gagnrýni sem hér
hefur verið sett fram var auð-
heyrt að Víkingur er ein-
staklega hæfileikaríkur.
Tæknilega séð er hann nú
þegar einn af fremstu hljóð-
færaleikurum þjóðarinnar –
og fyrir svo ungan mann er
það ekki lítið. Megi hann
halda áfram að vaxa sem
listamaður.
Afburða-
píanó-
leikari
TÓNLIST
Salurinn í Kópavogi
Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleik-
ari flutti verk eftir Bach, Schu-
mann, Bartók og Schubert. Sunnu-
dagur 9. janúar.
Píanótónleikar
Víkingur Heiðar
Ólafsson
Jónas Sen