Morgunblaðið - 21.08.2005, Side 16

Morgunblaðið - 21.08.2005, Side 16
16 SUNNUDAGUR 21. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ Þegar ég sá hann fyrst í bíó-mynd fannst mér hannekki beint fyndinn, meiraskrítinn. Hann var helduraldrei beinlínis að segja brandara, heldur virtist sérhæfa sig í að gera alla í kringum sig gráhærða með hæðnisglósum, grafalvarlegur en þó með nett glott á vör. Ætla þetta hafi ekki verið Stripes, mynd sem ég síðar átti eftir að „fatta“. Þegar ég fattaði hann Bill Murray. Trúlega ein- hvern jafnfyndnasta kvikmynda- leikara síðustu þrjátíu ára. Og ólíkt flestum kollegum hans hefur honum tekist að halda „kúlinu“, virðingunni og halda lífinu. Besti vinur hans og lærimeistari í grínlistinni, Jim Be- lushi, hvarf af braut þegar þeir fé- lagar voru í ruglinu, Dan Aykroyd fór að leika í ruslmyndum sem lítið áttu skylt við grín og Chevy Chase tapaði gjörsamlega áttum á sínu eilífðar egóflippi. Á meðan óx Murray ásmeg- in, tók að halda sig til hlés, hætti að mæta í sukkpartíin, lét hvorki glepj- ast af frægð né fjárfúlgum og valdi hlutverkin vandlega. Sem leitt hefur til þess að nú á síðari árum hefur hann orðið einhver eftirsóttasti leikari í Hollywood, einhver sem allir hugs- andi og skapandi ungir leikstjórar þrá að vinna með – nægir þar að nefna Wes Anderson og Sofiu Coppola. Buster Keaton okkar daga Það fór því vel á að þeir skyldu ná svona vel saman; Murray og helsti forsprakki bandarískrar jaðarmynda, Jim Jarmusch. Fyrst unnu þeir sam- an í Coffee and Cigarettes og svo nú í Broken Flowers, mynd sem frum- sýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu og hlotið hefur einróma lof gagnrýnenda. Myndin er enda afbragðs góð, ekki hvað síst vegna frammistöðu Murrays, sem fær þar kjörið tækifæri til að sýna hvað hann gerir best allra í klæð- skerasniðnu hlutverki hins hægláta og brjóstumkennanlega einfara, sem Buster Keaton okkar daga – sams- konar hlutverk og í Lost in Trans- lation, sem hann átti auðvitað að fá Óskarsverðlaun fyrir. Í Broken Flowers leikur hann Don Johnston – nei, ekki berfætta Miami Vice-töffarann, heldur miðaldra kvennabósa, piparsvein sem búinn er að mála sig út í horn, nær ekki að sjarmera hitt kynið eins vel og hér í denn og er óneitanlega farinn að finna fyrir einhverju tómarúmi í lífi sínu. Þetta veit nágranni hans og félagi, hinn eþíópískættaði Winston, sem er snilldarvel leikinn af Jeffrey Wright. Þannig að þegar Don Johnston sýnir honum nafnlaust bréf sem hann hefur fengið frá einni af fjölmörgum fyrr- verandi ástkonum þar sem honum er tjáð að hann eigi uppkomin son veðr- ast Winston upp og vill ólmur hjálpa honum að hafa upp á konunni, og syn- inum. Don lætur treglega til leiðast og leggur upp í ferðalag til að heim- sækja þær konur sem til greina koma, í þeirri veiku von að finna son sinn – og um leið sjálfan sig og fyllingu í lífið. Óútreiknanlegur Mér leið svolítið eins og þegar ég sá hann fyrst í bíó, er ég hitti Murray í Cannes fyrr á árinu; vissi ekki alveg hvar ég hefði hann. Hvenær hann væri að grínast eða ekki. Hvort hon- um væri yfirhöfuð alvara með því sem hann sagði. Hann var svalur, ekki var um annað að villast. Og kurteis. Að- sópsmikill og lét bíða eftir sér. Að manni sýndist vegna þess að hann tal- aði út í eitt. Við alla. Var forvitinn. Blandaði geði við bíóstjóra jafnt sem boðflennur, blaðamenn sem blaðafull- trúa. En var samt eitthvað fjarlægur. Eins og hann hefði þurft að brjóta odd af oflæti sínu til þess yfirhöfuð að hafa fengist til að mæta á staðinn, láta raska ró sinni og dýrmætu einkalífi með þessum hætti. En hann virtist ætla að gera gott úr þessu. En svo getur bara vel verið að maður hafi gjörsamlega misreiknað manninn, að hann hafi hreina unun af því að ræða við blaðamenn. Svo óútreiknanlegur er hann! „Rúllið þið?“ spyr Murray blaða- mannahjörðina sem umkringir hann. Hann á við sígarettur. Situr og dund- ar sér einbeittur, eins og lítill drengur að líma saman flugvélamódel, við að rúlla sér rettu. Segist vera með eitt- hvert handónýtt tóbak sem misvitur Breti hafi prangað upp á hann. „Það var myglað. Á lífi.“ Fyrst hann var í þessum gír var ekki úr vegi að stilla saman strengi og vinda sér í spurninguna sem lá bein- ast við, hvernig hann kynni að meta Don Johnson. „Hann er reyndar býsna svalur náungi. Viðkunnanlegur mjög og er hreint ekki meðvitaður um töffara- ímynd sína. Svo er hann fyndinn og þægilegur í umgengni. Við hittumst fyrst við gerð á mynd um Hunter S. Thompson fyrir þrjátíu árum. Hef reyndar ekki séð hann mikið síðustu árin.“ Í „miðaldurskreppu“ Bill Murray er svolítið gamaldags leikari hvað það varðar að hann leikur með líkamanum, rétt eins og gömlu meistarar þöglu myndanna. Þetta við- urkennir hann, segir líkamann mik- ilvægari fyrir sér heldur en málið, auðveldara sé fyrir hann að miðla til- finningum með líkamstjáningu. „Ég reyni að leiða hugsanir mínar hjá mér þegar ég er að leika. Það sem líkaminn gerir, það sem hann snertir, það er tjáningin. Eins og þessari mynd, þegar lítið er sagt, mæðir meira á líkamstjáningunni, svipbrigð- um.“ Segja má að Don Johnston bless- aður sé í tilvistarkreppu í Broken Flo- wers, einhvers konar „miðaldurs- kreppu“. Er það eitthvað sem Murray þekkir sjálfur? „Það er vinsælt að tala um miðald- urskreppu, en ég veit ekki, ég er eig- inlega búinn að vera í kreppu allt mitt líf, síðan ég var átta ára. Hvort sem er út af erjum við nunnurnar í barna- skóla eða hvaðeina annað. Ég hef bara átt í kreppum. En ég held að þessi miðaldurskreppa gangi svolítið út á það að þegar fólk hefur náð sinni endastöð á framabrautinni, búið að af- reka það sem það vildi, vaknar það upp við þann vonda draum að fjöl- skyldan, samskipti við fólk og einka- lífið almennt hefur setið á hakanum og er langt frá því að vera í eins góð- um farvegi og ferillinn. Þessar al- gengu aðstæður sem fólk lendir í eru trúlega það sem gerir þessa miðald- urskreppu svo algengt hugtak.“ Fíflin hringja mest Það orð fer af Bill Murray að hann sé hálfgerður utangarðsmaður í Hollywood og geri bókstaflega í því að vera utan kallfæris, svari ekki síma – ef hann þá yfirhöfuð á það ofnotaða samskiptatæki – og hunsi skilaboð. Rétt eins og hann vilji bókstaflega ekki láta ná í sig, ekki einu sinni fræg- ustu kvikmyndaleikstjóra, en sagan segir að nokkrir af þeim stærstu hafi hreinlega gefist upp á því að eltast við hann. „Það getur vel verið að þetta sé rétt. Það hafa örugglega einhverjir frægir gefist upp á að reyna að hafa upp á mér. En það getur líka verið að þeir séu bara of frægir fyrir mig. Mér finnst að mörgu leyti betra að það sé erfitt að ná í mig. Vegna þess að hlut- föllin breytast ekkert í lífinu, maður kynnist bara fleirum, ekki betra fólki, bara fleirum. Það verða alltaf jafn- margir úr hundrað manna hópi sem maður lítur á sem vini sína, jafnmarg- ir sem aldrei verða meira en kunn- ingjar og jafnmargir sem manni finnst óþolandi. Þetta hlutfall breytist ekkert þótt maður kynnist fleirum. Ef maður er þekktur þá kynnist maður ótrúlega mörgu fólki; nokkrum sem maður kann vel við, mjög mörgum sem koma og fara og ennþá fleiri fífl- um, ég meina algjörum fíflum, kvik- indum. Þeir sem maður kann vel við eiga til að hringja, eða ekki, en það eru fíflin sem hringja mest, og halda bara áfram, jafnvel þótt maður svari ekki. Það þarf að passa sig á þessu fólki. Það er alls staðar og fleiri telja sig þekkja mann en gera í raun og veru,“ segir Murray og glottir út í annað. Bólsenan með Stone olli vonbrigðum Konurnar í lífi Dons Johnstons eru margar, og glæsilegar; Sharon Stone, Jessica Lange, Julie Delpy, Tilda Swinton og Frances Conroy svo fá- einar séu nefndar. Murray viður- kennir að honum þótti ekki leiðinlegt að leika á móti þessum föngulegu konum. En segist, merkilegt nokk, hafa orðið fyrir vonbrigðum eftir að hafa leikið í bólsenu með Sharon Stone! „Já, ég varð eiginlega fyrir von- brigðum. Ég hafði búist við því að það yrði svolítið grófara, ekki svona ljúft,“ segir Murray með sínum ein- staka hæðnistóni. „Ég bjóst ekki við að svona margir myndu fylgjast með okkur. En það var eins stressandi og ég hafði búist við. Hún var alls stað- ar, hendurnar, andlitið. Ég meina, hún er búin að vera í svo mörgum myndum þar sem bólfélagar hennar enda dauðir, þannig að þið hljótið að skilja að mér stóð ekki á sama og er venjulega á varðbergi gagnvart svona týpum. Ekki henni, heldur svona týpum.“ Murray virðist vera orðinn hálf- gerður hirðleikari fyrir Jarmusch og Wes Anderson en hann hefur leikið í þremur myndum Andersons; Rush- more, The Royal Tenenbaums og The Life Aquatic with Steve Zissou. Þegar Murray er beðinn um að bera þessa leikstjóra saman fer hann í fyrstu yfir í aðra sálma og gleymir sér í röfli um það hversu erfitt það hafi verið að leika í Steve Zissou-myndinni, ótrú- lega kalt sé á Ítalíu á veturna, þar sem myndin var tekin, og að mönnum hafi tekist að finna eina lélega kokkinn í landinu til að elda ofan í mannskap- inn. „… en hver var spurningin? Þetta svarar henni ekki. Já, Wes og Jim. Wes heldur sig eiginlega bara til hlés. Lætur mann alveg um þetta. Er ekk- ert að gefa manni alltof mikil fyrir- mæli um hvað hann vill á meðan Jim er á kafi í öllu, fer yfir allt með manni og leyfir manni að fylgjast með hvern- ig kvikmyndagerðin gengur. Það er innilegri stemmning á settinu hans á meðan það er allt að gerast á settinu hjá Wes og hann að garfa í einhverj- um tökuvélum. Pæla í hvernig hann getur látið sem mest gerast í hverjum ramma. Öllum smáatriðunum. „Þetta lauf? Hver stjórnar þessu laufi?“ Svona smáatriðum sem við hin pælum eiginlega ekkert í. Það gerist ekki eins mikið hjá Jim, allt mun yfirvegaðra og afslappaðra, hljóðlegra. Bæði í settinu og í ramm- anum. Hann leggur meira upp úr textanum, leikframmistöðunni, að túlkunin á sögunni sé rétt.“ En hvað kann Murray sjálfur betur við? „Mér er sama. Kann vel við báða. Ég kann vel við starfið mitt. Að þurfa að vera sveigjanlegur og á tánum. Mér er sama þótt ég verði að end- urtaka sömu töku aftur og aftur. Það sem ég þoli ekki er að þurfa að æfa með tökumönnunum hreyfingarnar á tökuvélunum. Hvaða rugl er það? Ekki fæ ég að æfa mig tuttugu sinn- um áður takan hefst, hvers vegna þeir? Það er algjör tímasóun. Tökum bara upp og sjáum hvað gerist. Mér er sama þótt þeir geri mistök. Þeir eru svo hræddir við að gera mistök þessir tökumenn. En ekki ætla ég að æsa mig yfir því. Þetta verður bara að vera eðlilegt en ef við þurfum að æfa út í eitt verður það óeðlilegt.“ Billi barnslegi Bill Murray hefur í þrjá áratugi verið meðal þekktustu leikara í heimi. Skaust upp á stjörnuhimin sem geggjaður grínleikari sem gerði þó álíka marga gráhærða af pirringi og hann kætti en nú nýtur hann meiri virðingar en flestir og er eftirsóttur af klárustu jaðarleikstjórum Bandaríkjanna. Í samtali við Skarphéðin Guðmundsson um nýjustu mynd hans Broken Flowers sagðist hann vera góður faðir, nettur kvennabósi og ekkert sérlega barnalegur. Bill Murray ásamt Mark Webber, meðleikara sínum í myndinni Broken Flowers, sem fjallar um miðaldra kvennabósann Don Johnston. ’Það er vinsælt að tala um miðaldurs-kreppu, en ég veit ekki, ég er eiginlega búinn að vera í kreppu allt mitt líf, síðan ég var átta ára. Hvort sem er út af erjum við nunnurnar í barnaskóla eða hvaðeina annað.‘

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.