Morgunblaðið - 13.09.2005, Page 19
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. SEPTEMBER 2005 19
MINNSTAÐUR
Borgarfjörður eystri | Magnús Þor-
steinsson í Höfn í Borgarfirði eystra
er sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps
og hefur verið lengi. Á heldur hvöss-
um og blautum haustdegi rak blaða-
mann inn á skrifstofu Magnúsar í
Bakkagerðisþorpinu og var boðið í te
sér til hlýinda og heilsubótar.
Magnús segir nú búa á milli 140 og
150 manns í hreppnum og hafi svo
verið síðustu árin. „Stöðugleiki er
nokkur, en innflæði fólks ekkert, því
miður“ segir hann. „Íbúatalan hefur
staðið nokkuð í stað síðan 1997, þá
varð mikill brottflutningur, eða um
14%. Þetta var nú yfirleitt fólk í fastri
vinnu sem flutti þá og ekki atvinnu-
leysi um að kenna, ekki beinlínis.
Náttúrulega er engin uppgripavinna
hér og óneitanlega einhæft atvinnu-
lífið. Helst er að tala um fiskveiðar,
fiskvinnslu og sauðfjárbúskapinn í
sveitinni. Það má segja að hann sé
býsna stöðugur. Allt fé í hreppnum
var skorið niður vegna riðu 1987-8 og
þeir sem tóku aftur fé hafa haldið
sínu. Það er hér um tugur alvöru-
sauðfjárbúa utan þeirra sem halda fé
rétt til heimilisins. Hér er enda ágæt-
isbeitiland suður um Víkur, í Borg-
arfirði og Njarðvík, tún eru mikil í
sveitinni og allt heyjað. Nú er eitt-
hvað á fjórða þúsund vetrarfóðraðs
fjár í hreppnum.“
Kvótinn í eigu heimafólks
Magnús segir fiskveiðar og fisk-
vinnslu á Borgarfirði hafa nokkra
sérstöðu miðað við aðra staði í land-
inu. „Í fyrsta lagi er það nú með kvót-
ann að hann er alltof lítill eins og víð-
ast hvar, ekki nema um 700 tonn.
Þessi litli kvóti hefur engu að síður
haldist á staðnum í gegnum tíðina.
Aðeins hefur farið í burtu þegar seld
hefur verið ein og ein trilla með smá-
vegis kvóta, en þá hafa menn keypt í
staðinn. Í öðru lagi er kvótinn veiddur
nánast allur af heimabátunum og
ekki leigður í burtu, það heyrir til
undantekninga. Í þriðja lagi er aflinn
að meiri hluta unninn á staðnum,
hann fer ekki á fiskmarkaði nema
meðafli, ýsa og steinbítur sem er ekki
aðstaða til að vinna. Það er salt-
fiskverkun hjá Karli Sveinssyni hér í
þorpinu og þorskurinn fer þar í gegn.
Eitthvað smávegis herðir Karl nú
samt af ýsu og steinbít. Í fjórða lagi
hefur aflinn til skamms tíma verið
unninn af heimamönnum og ekki
fluttir inn útlendingar til að vinna
aflann eins og sums staðar hefur
þurft að gera. Það er reyndar aðeins
byrjað núna. Í fimmta lagi má segja
frá því að aflinn er allur veiddur á
vistvæn veiðarfæri sem kölluð eru,
línu og handfæri. Ég tel þetta vera
sérstakt og ákveðna festu í kringum
bæði sjávarútveginn og sauð-
fjárbúskapinn hér sem tíðkast ekki
alls staðar. Menn veiða út af firðinum
og suður með og ákaflega góðar að-
stæður á Borgarfirði fyrir útgerð á
einmitt þeirri bátastærð sem notuð er
hér, svona á bilinu 5-15 tonn, en tólf
bátum er haldið úti. Hér er svo stutt
róið og fiskimiðin liggja út frá firð-
inum og suður fyrir Gletting. Hér
koma hins vegar úrtök á vetrum
þannig að menn komast ekki á sjó
vikum saman. Það er norðaustan- og
norðanáttin sem er erfið því við erum
hér fyrir opnu hafi.
Hresst upp á umhverfið
Sem dæmi um framkvæmdir hjá
Borgarfjarðarhreppi um þessar
mundir má nefna að nýlokið er að
hressa upp á skilaréttina á Brands-
bölunum, þar sem þurfti að end-
urnýja gerði fyrir haustið. Þá stendur
til setja upp ljósastaura við heimreið-
ir að sveitabæjum og er búið að semja
við verktaka þar að lútandi. Hrepp-
urinn kostar staurana og bændur
borga á þá rafmagnið. Þá á að ljúka
við gerð rotþróa í hreppnum, en það
verkefni hefur staðið frá 1976 og er
lögbundið skylduhlutverk. Og svo
berst talið að girðingum.
„Minnstu ekki á girðingar ógrát-
andi, þær eru vandræðamál að öllu
leyti,“ segir Magnús og dæsir. „Hér
hefur ekkert verið girt af viti. Það var
lokað fyrir fjarðarbotninn fyrir
nokkrum árum til að friða veginn út
að höfninni, það er mikil umferð á
þeim vegi. Það gengur bölvanlega að
halda girðingu við í Fjarðaránni, hún
flæmist yfir eyrarnar og brýtur þetta
niður sitt á hvað og núna er hún
tveimur kvíslum og hálfgert vand-
ræðamál að girða þar. Síðan var nú
orðin samstaða með landeigendum að
óska eftir að Vegagerðin girti ofan við
veginn frá þorpinu út að Njarðvík-
urskriðum því það er gríðarlegt álag
á þann veg af sauðfé, það heldur til
hundruðum saman á veginum og í
vegköntum allt sumarið. Það er afar
mikil slysahætta af þessu. Vegagerð-
in hafnaði snarlega erindi um þetta
sem sent var með stuðningi hrepps-
nefndar svo þetta er því miður ekki á
döfinni.“
Ráðast á í tólf metra lengingu á
ytri bryggjunni í bátahöfninni um leið
og efni berst. Sú fríða höfn hefur hlot-
ið bláfánann tvö ár í röð, sem þykir til
marks um góða umgengni og öryggi.
Lengingunni á að vera lokið næsta
vor. Magnús sýnir myndarlegt fram-
tíðarskipulag að hafskipahöfn á sama
stað, en segir hana ekki á dagskrá við
óbreyttar aðstæður.
Mál að aðgerðaleysinu linni
„Það helsta sem verulega skortir á
hjá okkur og kemur manni í illt skap
þegar maður hugsar um það, er slak-
legt vegasamband við Borgarfjörð.
Ég er að senda enn eitt erindið varð-
andi þetta til hins opinbera. Vegurinn
til Borgarfjarðar er óumdeilanlega
tengivegur í grunneti, en það hefur
verið staðið þannig að fjárveitingum
til þessara vega að það er til hreinnar
skammar. Síðast var unnið í Borg-
arfjarðarvegi árið 2000 og þá í veg-
inum yfir Vatnsskarð, sem var sam-
göngubót og svo sannarlega komin
röðin að því. Klæðning var lögð á
Eyjarnar undan Vatnsskarðinu Hér-
aðsmegin 2003, en það var m.a. gert
með lánsloforði frá Borgarfjarð-
arhreppi. Á vegaáætlun er fram-
kvæmdafé skorið niður hvað eftir
annað og framkvæmdum á Borg-
arfjarðarvegi frestað út í það óend-
anlega. Við teljum að laga verði að-
komuna að Njarðvíkurskriðum að
norðan og lagfæra það helsta í skrið-
unum. Mildi er að ekki hefur orðið
slys þarna. Það er ekki fullur burður í
malarköflum Borgarfjarðarvegar og
það er nú bara orðin krafa um að hafa
bundið slitlag á slíkum vegi. Á honum
er töluverð umferð og ekki bara
Borgfirðingar og Úthéraðsmenn sem
eru þar á ferð. Ég veit ekki um neitt
annað byggðarlag þar sem íbúar
þurfa að aka tugi kílómetra eftir
burðarlitlum malarvegi til að komast
í samband við aðalvegakerfið í land-
inu. Við viljum ógjarnan sæta því.
Þetta eru einu samgöngurnar við
Borgarfjarðarhrepp; við höfum ekki
hafskipahöfn né áætlunarflug. Veg-
urinn er því eina tenging okkar við Ís-
land og nú er mál að linni aðgerða-
leysinu.“
Borgfirðingar láta ekki deigan síga fremur en venjulega og hafa í ýmsu að snúast
Vondur er vegurinn til Íslands
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Þorskinum landað Brátt hefjast framkvæmdir við bátahöfnina.
Gæftir Magnús Þorsteinsson sveitar-
stjóri í Borgarfirði eystra segir festu
bæði í sjósókn og sauðfjárhaldi.
AUSTURLAND
LANDIÐ
Blönduós | Grágæsirnar sem ávallt
setja svip sinn á Blönduósbæ í
byrjun apríl fram í lok september
eiga margar hverjar heilmikla
sögu. Þessar ágætu gæsir sem
bæði hafa kætt og grætt Blöndu-
ósinga í gegn um tíðina eru merk-
isberar árstíðanna.
Gæsin SLU sem merkt var í sár-
um fyrir utan lögreglustöðina á
Blönduósi sumarið 2000 sést hér
þjálfa erfingja sína fyrir flugið
mikla til Skotlands. Í stuttu máli
þá yfirgaf SLU sumarstöðvar sínar
á Blönduósi einhvern tíma í októ-
ber merkingarárið og dvaldi á
Inverness-svæðinu í Skotlandi yfir
hörðustu vetrarmánuðina. Enginn
varð var við þessa gæs hér heima
sumarið 2001 en eftir það sumar
dvaldi hún í nágrenni bæjar á
Inverness-svæðinu sem heitir Elgin
og að öllum líkindum hefur hún
eytt jólunum á Loch Ness-vatninu
því til hennar sást við ósa vatnsins
hinn 16. desember 2001 hvar hið
margumrædda skrímsli Nessie
dvelur. SLU sem ein þekkir leynd-
ardóma Loch Ness er á leið suður
um haf með maka og börn og
hvort hún fari í dag eða á morgun
er óvíst og margur maðurinn með
haglabyssuna situr fyrir þessari
ágætu fjölskyldu en þetta er gæs
með að minnsta kosti fimm ára
reynslu og ætti samkvæmt því að
skila sér og sínum á vetrar áfanga-
stað.
Hafi hún þekkingu á skoskum
veiðivenjum þá eru allar líkur á
því að þessi ágæta grágæs skili sér
að vori og skili enn fleiri ein-
staklingum út í lífið sem þrá það
heitast að koma til Blönduóss og
fjölga sér, skíta allt út, pirra og
gleðja og fylla líf okkar sem svæð-
ið byggja von um að aftur komi
vor með gæs í haga.
SLU undirbýr Skotlandsferð
Morgunblaðið/Jón Sigurðsson