Fréttablaðið - 18.08.2004, Blaðsíða 16
Allir fasistar
Jónas Kristjánsson er þekktur fyrir að
kveða fast að orði. Sumum þykir hann
hafa orðið illyrtari, önugri og skömmótt-
ari með hverju árinu. Hafa menn til
dæmis hnotið um það að í DV er hann
farinn að kalla íslenska stjórnmálamenn
fasista og honum verður tíðrætt um að
hinir og þessir séu „krumpaðir“, hvað
sem það nú merkir. En svolítil rannsókn
sem þessi dálkur lét framkvæma leiddi í
ljós að Jónas hefur ekkert
breyst, stóryrðin og skrýt-
nu orðin eru „gamlar
tuggur“ úr fyrri skrifum.
Þetta má sannreyna
með því að fara inn á vef-
síðu hans á netinu,
jonas.is, en þar hef-
ur hann safn-
að öllum
skrifum sínum undanfarin þrjátíu ár í
gagnabanka. Ef leitarvélin er beðin að
finna orðið „fasismi“ kemur til dæmis í
ljós að fyrir hálfum öðrum áratug birti
Jónas leiðara í DV undir fyrirsögninni
„Þjóðarsátt fasista“ og sagði þar að við-
horf Íslendinga til þjóðmála minntu „að
ýmsu leyti á viðhorf fasistanna gömlu á
Ítalíu“. Í júlí 1992 áréttaði hann þetta í DV
undir fyrirsögninni „Við erum fasistar“.
Sárni einhverjum stjórnmálamanni að
Jónas kalli hann fasista ætti sá að hafa í
huga að hann er í góðum félagsskap, því
öll þjóðin hefur fengið sömu einkunn!
Ekki reið
Dagný Jónsdóttir, hin unga þingkona
Framsóknarflokksins, hefur legið undir
ámæli fyrir að láta lítt til sín taka í stórorr-
ustum stjórnmálanna. En hún rekur af
sér slyðruorðið í nýjum pistli á vef flokks-
ins, xb.is Segir hún að sér sé misboðið
vegna þess að í fréttum fjölmiðla hafi
verið „látið í það skína að allar framsókn-
arkonur í landinu séu reiðar formanni og
forystu flokksins vegna ráðherrakapalsins
og þeirra breytinga sem væntanlegar eru
á ríkisstjórninni nú í haust“. Dagný segir
að þetta gildi ekki um sig: „Við skulum al-
veg hafa það á hreinu að þó svo að ein-
hver hópur framsóknarkvenna lýsi sig
reiðan þá eru EKKI allar konur reiðar. Ég
var t.d. ekkert reið í dag út í einn né
neinn, en er reið núna út
í þennan hóp sem al-
hæfir fyrir hönd allra
kvenna í flokknum og
leyfir sér þannig að
skapa sér áróðurs-
stöðu.“
Í hverfinu mínu í Berlín eru lítil
skilti fest við ljósastaura. Á þau
eru letraðar stuttar lagagreinar
og opinberar tilkynningar; allt er
þetta dagsett og frá árunum 1933
til 1942. Á þeim árum var þetta
hverfi efnaðra og menntaðra gyð-
inga sem voru áberandi í menn-
ingarlífi og atvinnulífi borgarinn-
ar. Stutt frá húsinu mínu er lítill,
látlaus minningarsteinn í grænum
garði og á honum stendur að í
horfnu húsi á þessari lóð hafi Al-
bert Einstein búið í fimmtán ár,
frá 1918 til 1933. Skiltunum á
ljósastaurunum er raðað af handa-
hófi en lesi maður þau í tímaröð
má sjá hvernig sífellt þrengdi að
gyðingum í hverfinu eftir að þjóð-
ernishyggjan hafði orðið ofaná í
þýskum stjórnmálum. Fyrst var
þeim bannað að vinna við blaða-
mennsku, lækningar, dómarastörf
og fleira. Svo var þeim bannað að
kaupa blöð og eiga útvarpstæki og
ritvélar. Næst var börnum þeirra
bannað með lögum að leika sér við
börn af arískum uppruna og bann-
að að vera saman í hópum. Svo
varð brjálæðið og hatrið allsráð-
andi. Gyðingum er bannað að
syngja í kórum, segir eitt skiltið,
að eiga gæludýr, segir annað; gyð-
ingar mega ekki versla í búðum,
nota strætisvagna og eiga raftæki
segja enn önnur skilti. Frá miðjum
vetri er að finna tilskipan um að
gyðingar skuli afhenda loðfeldi
sínar og ullarflíkur. Að lokum, í al-
gleymi stríðs og sturlunar, var
fólk dregið út úr húsum sínum,
þar á meðal, að því mér er sagt, úr
öllum húsum í minni götu, og sent
í dauðann í Auschwitz, Treblinka
eða Buchenwald. Ég hélt að þessi
skilti myndu venjast en nú hef ég
búið hér í eitt ár og veit að þau
venjast ekki.
Sextíu árum eftir hrun þriðja
ríkisins er tæplega hægt að horfa
á sjónvarp í Þýskalandi í heila
kvöldstund án þess að verða var
við áminningar um óhugnað kyn-
þáttahyggju nasista eða stríðsins
sem þeir hófu. Þjóðverjar hafa
gert upp sögu sína með öðrum
hætti en nokkur önnur þjóð. Fyrir
nokkrum árum var ég á gangi í
München og lenti þar alveg óvart
inná fjölmennum útifundi. Síend-
urtekið slagorð ræðumannsins
var þetta: Aldrei aftur sterkt
Þýskaland. Svona fundur hefði
hvergi í heiminum getað átt sér
stað nema í Þýskalandi. Þjóðverj-
ar eiga líka dekkri sögu en aðrir,
segja margir, og víst er nokkuð til
í því. En hafa nýlenduveldin horf-
st í augu við fjöldamorð, þjóðar-
morð, þrælkun og annan óhugnað
sem kostaði tugi milljóna manna
lífið og litaði líf stórs hluta mann-
kyns allt fram til þess tíma að nas-
istar frömdu sína glæpi? Var ekki
rótin að þessum glæpum sú sama?
Sú fátæklega og frumstæða hugs-
un að ein þjóð sé merkilegri en
önnur og að verðmæti lífsins ráð-
ist af hörundslit þess sem það á?
Sjáum við ekki þessa hugsun í
stríðum samtímans?
Í dag fór ég að hugsa um þýð-
ingu þessara skilta fyrir þá ungu
sem muna svo stutt að heims-
styrjöldin og helförin virðast grá
forneskja. Tæplega þriggja ára
gömul dóttir mín veitti því athygli
í fyrsta sinn á ævinni að fólk er
ekki allt eins á litinn. Hún á vini
úr ýmsum heimshornum og bjó
sjálf í Asíu fyrstu tvö ár ævinnar
en hún hefur aldrei tekið eftir því
að fólk er ekki eins á litinn. Það
var heitt í veðri og ungur maður
ættaður frá Afríku gekk fáklædd-
ur í sólinni. Dóttir mín sagði að
maðurinn væri allur svartur og
þetta væri mjög flott. Hún hélt
líklega að þetta væri sumartískan
í ár.
Meginröksemd Hitlers var sú
að Þjóðverjar væru sterk þjóð og
hrein þjóð og að ríki þeirra ætti
að endurspegla þessa staðreynd.
Heimskulegri hugsun er varla
hægt að ímynda sér en hún var
vinsæl. Hitler komst til valda með
lýðræðislegum hætti. Þetta var
ekki brjálæði eins manns, heldur
stemming heillar þjóðar. Það er
alls staðar stutt í svona stemm-
ingu. Menn tala ekki lengur um
hreinræktaðar þjóðir, það er of
heimskulegt til að fara vel á, og
menn ræða ekki um að drepa aðr-
ar þjóðir. En það er alls staðar
stutt í þá tilfinningu að viðkom-
andi þjóð sé merkilegri en aðrar
og að líf manna af einni þjóð sé
verðmætara en líf manna sem eru
öðru vísi á litinn. Það er þess
vegna sem skiltin í hverfinu mínu
eru eins óhugnanleg og þegar ég
sá þau fyrst. ■
Ekki er ósennilegt að nafn Reykjavíkurlistans verði í framtíðinni frem-
ur tengt hugmyndinni um menningarnótt í höfuðborginni en sérstökum
afrekum meirihluta borgarstjórnar í skipulagsmálum, fjármálastjórn
eða félagsþjónustu. Frá því að efnt var til þessarar dagskrár í fyrsta sinn
árið 1996 hefur hún unnið hug og hjörtu borgarbúa sem þyrpst hafa þús-
undum saman í miðborgina til að njóta þeirra viðburða sem á boðstólum
eru og þess sérstaka andrúmslofts sem tekist hefur að skapa á hátíðinni.
Dagskrá menningarnætur – eða menningardags eins og nær væri að
kalla hana – virðist ætla að verða óvenju fjölbreytt um næstu helgi.
Skemmtilegt er að sjá hugmyndaauðgina sem birtist í Tilfinningatorgi,
Skáldaati, Þjónahlaupi og Draugasögugöngu svo nefndir séu örfáir ný-
stárlegir dagskrárliðir með forvitnilegum nöfnum en annars skipta at-
riðin sem velja má um hundruðum. Við blasir að allir sem leggja hönd
á plóginn gera það sönnum metnaði og áhuga sem kemur að innan og á
rætur í löngunartilfinningu en ekki tómri skyldrækni.
Hundrað þúsund manns komu í miðbæ Reykjavíkur á menning-
arnótt í fyrra. Vænta má annars eins fjölda um næstu helgi. Eru þó
ekki liðnir nema um tíu dagar síðan fjörutíu þúsund manns tóku þátt í
annarri velheppnaðri veislu í miðborginni, hátíð samkynhneigðra. At-
hyglisvert er að mun meiri og almennari þátttaka hefur verið í viðburð-
um menningarnætur undanfarin ár en þjóðhátíð sautjánda júní. Marg-
ir þykjast líka merkja að stemningin á þessum tveimur hátíðum sé ger-
ólík. Í raun sé nær að tala um menningarnótt sem hina eiginlegu þjóð-
hátíð stórs hluta landsmanna sem búsettur er á Suðvesturlandi. Ekki
dylst neinum sem gengur um miðborgina að fólk er almennt afslapp-
aðra, glaðara og eftirvæntingarfyllra en á þjóðhátíðinni sem ekki virð-
ist ætla að losna við yfirbragð formfestu og viðhafnarleika. Þjóðhátíð-
in er í stífpressuðum sparibúningi og virðist ætlast til þess að almenn-
ingur sé það líka öndvert við menningarnóttina sem er í þægilegum
hversdagsfötum og sér ekkert athugavert við að gestirnir klæði sig og
hagi sér eins og þeim fellur best.
Einhverjir kunna að vera hugsi yfir þeirri þróun að menningarnótt
og aðrar samkomur af sama tagi skyggi á þjóðhátíðina sautjánda júní.
Telja kannski að það skapi hættu fyrir sjálfstæði okkar og samheldni.
Raddir hafa heyrst um að efla þurfi samkomuhald á fullveldisdaginn 1.
desember sem eitt sinn var vinsæll hátíðisdagur. En þetta er á mis-
skilningi byggt. Þjóðrækni og samheldni verður ekki viðhaldið með
opinberu tyllidagahaldi eða fyrirmannasamkomum heldur liggja rætur
hvors tveggja í sannri tilfinningu fólksins í landinu. Ef það er rétt að
sautjándi júní sé smám saman að hopa undan Menningarnótt er það
eðlileg þróun sem stafar af veruleika nýs tíma. Sjálfstæðisbaráttunni
er löngu lokið og hugmyndaheimur hennar er aðeins til í sögubókum
fyrir allan þorra Íslendinga. Nýjar kynslóðir hafa ný umhugsunar- og
úrlausnarefni og nýjar hugsjónir. Fremur er ástæða til að fagna því að
landsmenn skuli hafa skapað sér nýjan vettvang þar sem þeir geta
blandað geði hver við annan á óþvingaðan hátt, sýnt samheldni og
glaðst yfir því að búa í því einstaka samfélagi sem Ísland er enn í
byrjun 21. aldar.
18. ágúst 2004 MIÐVIKUDAGUR
SJÓNARMIÐ
GUÐMUNDUR MAGNÚSSON
Menningarnótt í Reykjavík hefur heppnast
einstaklega vel.
Hin raunverulega
þjóðhátíð fjöldans
ORÐRÉTT
Ekki bara íþróttaálfurinn
Menn þurfa ekki að vera íþrótta-
álfurinn til að frá þeim streymi
kærleikurinn.
Edda Björgvinsdóttir leikkona um Jó-
hannes Pál páfa sem hún segir að eigi
ekki að hætta fyrr en Guð taki hann
til sín.
DV 17. ágúst.
Helstu mál Samfylkingarinnar?
Hundar, brennivín og beint lýð-
ræði.
Fyrirsögn kjallaragreinar Björgvins
G. Sigurðssonar alþingismanns.
DV 17. ágúst.
Æ, æ, og kominn alla þessa leið
Hittir ekki Schwarzenegger.
Halldór Blöndal fór til Kaliforn-
íu til að hitta ríkisstjórann
fræga en sá reyndist ekki mega
vera að því að heilsa upp á for-
seta Alþingis.
Morgunblaðið 17. ágúst.
Loksins frambjóðandi af viti
Barbie í forsetaframboð.
Fyrirsögn fréttar í Morgunblaðinu.
Morgunblaðið 17. ágúst.
FRÁ DEGI TIL DAGS
Þjóðrækni og samheldni verður ekki viðhaldið
með opinberu tyllidagahaldi eða fyrirmannasam-
komum heldur liggja rætur hvors tveggja í sannri tilfinn-
ingu fólksins í landinu. Ef það er rétt að sautjándi júní sé
smám saman að hopa undan Menningarnótt er það eðlileg
þróun sem stafar af veruleika nýs tíma. Sjálfstæðisbarátt-
unni er löngu lokið og hugmyndaheimur hennar er aðeins
til í sögubókum fyrir allan þorra Íslendinga. Nýjar kynslóðir
hafa ný umhugsunar- og úrlausnarefni og nýjar hugsjónir.
,,
ÚTGÁFUFÉLAG: Frétt ehf. RITSTJÓRI: Gunnar Smári Egilsson FRÉTTASTJÓRI: Sigurjón M. Egilsson RITSTJÓRNARFULLTRÚAR: Steinunn Stefánsdóttir og Jón Kaldal
AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN, AUGLÝSINGAR OG DREIFING: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006
NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is SETNING OG UMBROT: Frétt ehf. PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja ehf. Fréttablað-
inu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fyrirtæki geta fengið blaðið gegn
greiðslu sendingarkostnaðar, 1.100 krónur á mánuði. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
Í DAG
KYNÞÁTTAHYGGJA
JÓN ORMUR
HALLDÓRSSON
Sextíu árum eftir
hrun Þriðja ríkisins
er tæplega hægt að horfa á
sjónvarp í Þýskalandi í heila
kvöldstund án þess að
verða var við áminningar
um óhugnað kynþáttahyggju
nasista eða stríðsins sem
þeir hófu.
,,
Frumstæð hugsun
gm@frettabladid.is
FJÖLDAMORÐ Í PALESTÍNU
Sú fátæklega og frumstæða hugsun að ein þjóð sé merkilegri en önnur og að verðmæti lífs-
ins ráðist af hörundslit þess sem það á? Sjáum við ekki þessa hugsun í stríðum samtímans?