Réttur - 01.04.1982, Qupperneq 19
Morgunljóð
eftir Jakobínu Sigurðardóttur
Ég hrópa mitt Ijóð út í húmið. Dagurinn nálgast.
Heyrirðu óminn af svefnrofum vaknandi lýða?
Löng finnst mér andvakan orðin. í kolsvörtu myrkri
ól ég þó vonina um dagroðans Ijómandi fögnuð.
Vaknaðu félagi og vinur því dagurinn kemur!
Við skulum leiðast til móts við hann, greiða honum brautir.
Hönd mína áttu. Hristu þér drungann af augum.
Hár mitt er slungið til bogastrengs, örvarnar hvesstar.
Þú veizt hver ég er. Ég er konan sem unni þér áður
en andann þú dróst og nœrði á líkama sínum
fyrirheit lífsins í frjóu, gjöfulu skauti,
fœddi þig hugrökk með kvöl og vafði þig reifum.
Ég er systir þín litla með æskunnar glóbjarta yndi,
unnusta þín, með jarðlífsins fegurstu drauma
um hamingju, ást og samfylgd í sorgum og gleði.
Og sjá: Ég er dóttir þín, von þín um eilífa lífið.
Heyr rödd mína, faðir minn, sjafni minn, bróðir og sonur.
Sjáðu hve árblikið logar á snjóhvítum tindum.
Hví reisir þú hús þeim herra, sem slökkti þann loga,,
sem hreysi þitt átti að verma og rœndi þig brauði?
Sem merkti þig ánauð ómálga son minn í vöggu,
og ávöxtum strits þíns í fánýtan glysvarning breytti
og vonunum okkar í örvœnting, draumnum í þjáning,
ástinni í hatur, fögnuði lífsins í gremju.
83