Réttur - 01.04.1986, Side 41
að skipa stúlkunum burt af Elliheimilinu“,
segir í fundargerð. Pegar formaður hafði
skýrt frá þessu stóð upp Steinunn Þórarins-
dóttir og „taldi að mál þetta hefði ekki end-
að svona ef Sókn væri í Alþýðusamband-
inu. Skýrði hún síðan nokkuð frá þeim
skyldum og hlunnindum, sem fylgdu
því að vera innan Alþýðusambandsins.“
Tóku margar konur til máls og studdu
sjónarmið Steinunnar. Hún flutti síðan
tillögu um inngöngu Sóknar í ASÍ og var
hún samþykkt með 25 atkvæðum gegn
einu.
Deilurnar innan verkalýðshreyfingar-
innar milli Alþýðuflokksins og kommún-
ista komu á næstu árum öðru hvoru upp
á félagsfundum. Þannig samþykkir félag-
ið t.d. áskorun á fyrrnefnda flokka að
sameinast og skömmu fyrir stríð hvetur
félagið til þess að ASÍ sé gert að hreinu
fagsambandi sem og var samþykkt á þingi
ASÍ árið 1940 og kom til framkvæmda
tveim árum síðar.
Haustið 1935 sendir félagið í fyrsta sinn
fulltrúa í fulltrúaráð verkalýðsfélaganna
í Reykjavík og vorið 1936 kýs félagið í
fyrsta sinn fulltrúa í 1. maí-nefnd.
Þess má geta um leið að Sókn átti aðild
að ýmsum fleiri samtökum og nefndum.
Þannig var yfirleitt kosinn á aðalfundi
fulltrúi einn eða fleiri á þing Landssam-
bands kvenna og í mæðrastyrksnefnd.
„Eftirstöðvar frá þrælahaldi“
Eins og áður var getið, var það ætlun
stofnenda félagsins að það næði einnig til
vistráðinna stúlkna og ynni að því að
bæta kjör þeirra, sem ekki var vanþörf á.
En það reyndist erfitt að ná skipulags-
tengslum við stúlkurnar í vistum. Þessi
þáttur í sögu félagsins varpar hins vegar
mjög skýru ljósi á, hve íslenskt þjóðfélag
var að taka miklum stakkaskiptum. Af-
skipti félagsins af málefnum vistráðinna
stúlkna veitir okkur sem nú lifum innsýn
í þjóðlífsmynd sem nú er horfin.
Sú var tíð í upphafi 19. aldar að 25%
þjóðarinnar var vistráðin vinnuhjú á býl-
um bænda. Svo var alla síðustu öld, en
þó höfðu Vesturheimsferðirnar og vax-
andi þéttbýlismyndun á seinni hluta
aldarinnar losað mjög um hið svokallaða
vistaband, en samkvæmt því var vinnu-
fólk með lagaboði skuldbundið til að
vistráða sig frá 14. maí (vinnuhjúaskil-
degi) til árs í senn. Undir lok 19. aldar
slakar löggjafinn á þessum ákvæðum,
enda var verkafólk farið að sniðganga
ákvæðið um vistarband. Þegar kemur
fram á 20. öld fer þeim fækkandi er starfa
á einkaheimilum, enda hafði verksvið
heimilanna minnkað, fjölskyldustærðin
var minni en áður og heimilisiðnaður að
leggjast af. En eitt hélst þó áfram fyrstu
fjóra áratugi 20. aldarinnar, en það var að
hafa vinnukonur. Á manntali 1920 eru
yfir 5000 konur skráðar sem vistráðnar á
einkaheimilum. Samhliða þessari þróun
að umsvif heimilanna minnka, fjölgar
þeim félagslegu stofnunum er taka til sín
verkefni sem fjölskyldan sá um áður m.a.
umönnun aldraðra, hjúkrun sjúkra, gæslu
barna o.s.frv. Starfsstúlknafélagið Sókn
er stofnað á þeim tímamótum er fjöldi
stúlkna er vinna á slíkum stofnunum: þ.e.
sjúkrahúsum, hælum, elliheimilum og
barnaheimilum (síðar í auknum mæli) er
orðinn það mikill að þörf er á stéttasam-
tökum í starfsgreininni, en jafnframt
fyrirfinnst þá (árið 1934) enn vistráðið
fólk nær eingöngu stúlkur og þeim er að
félagsstofnuninni standa finnst sjálfsagt
að þær konur er sinna báðum þessum
105